Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Hafnarfjarðarpólítikin og málið um álið.

Fór á fjörugan fund í kvöld í Flensborg sem nemendafélagið og ungliðahreyfingar flokkanna í bænum stefndu til um deiliskipulagskosninguna á laugardaginn. Flutt voru stutt framsöguerindi frá Hag Hafnarfjarðar, Sól í Straumi, og upplýsingafulltrúa Álversins, og einnig var einn frambjóðandi SF Guðmundur Steingríms með erindi. Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar sátu fyrir svörum og Guðfríður Lilja frá Vg sem og Ármann Ólafsson Sjálfstæðismaður úr Kópavogi. Loft var lævi blandið að vissu leyti, og það sjónarmið kom meðal annars fram að fundur þessi væri notaður til þess að pota fram pólítiskum sjónarmiðum flokka fyrir þingkosningar. Það skyldi þó aldrei vera !!! Ný og gömul saga.Það var hins vegar all greinilegt ef merkja má af þverpólítiskri einkarannsókn þeirrar er hér ritar að já og nei afstaða manna til deiliskipulagsins fer ekki í flokksgreinarálit.

kv.gmaria.


Frjálslyndi flokkurinn og frelsi einstaklingsins.

Þegar svo er komið að sjósókn við Ísland, og frelsi og atvinnutækifæri einstaklinga til lífsbjargar af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, hafa verið færð frá einstaklingum í hendur örfárra fyrirtækja undir formerkjum hagkvæmni, þá er illa komið fyrir einni þjóð. Lögleiðing braskumsýslu með aflaheimildir eru og verða stærstu stjórnmálalegu mistök Íslandssögunnar. Það gleymdist nefnilega alveg að skattleggja umsýslu þessa á stað og stund, og skortur á gjaldttöku þýddi vægast sagt verðmætasóun, á áður ráðstöfuðum fjármunum af almannafé, til heilsugæslu, skóla, samgangna, og  samfélagsþjónustu í hinum dreifðu byggðum landsins. Þeim fjármunum var því í raun hent á haugana, fjármunum sem allir skattgreiðendur höfðu lagt til í áraraðir, skattgreiðendur á öllu landinu. Eðli máls samkvæmt þurfti að byggja þjónustu þessa aftur þar og þangað sem fólkið flutti úr atvinnuleysi eftir sölu atvinnutækifæra á brott á einni nóttu, en á Suðvesturhorninu hefur  ekki hafst undan að endurbyggja skóla , heilsugæslu ,  samgöngumannvirki, og íbúðarhúsnæði með tilheyrandi ofþenslu og þáttöku skattgreiðenda í því hinu sama, aftur fyrir sama landsmann vegna hins þjóðhagslega óhagkvæma skipulags sem leitt var í lög á Alþingi af núverandi ríkisstjórnarflokkum. Þegar ein kynslóð þarf að tvígreiða skatta í uppbyggingu gunnþjónustuþátta, vegna hagstjórnarlegra mistaka í heildarsýn á samfélag, er afleiðingin offar í skattöku sem verið hefur sú þróun sem menn þekkja vel. Slík mistök þarf að horfast í augu við og viðurkenna því fyrr því betra.

kv.gmaria.


Hvar er verkalýðshreyfingin ?

Aldrei þessu vant heyrist ekki múkk frá forkólfum verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Venjulega hefur mal og mærðarhjal á vinstri vængnum einkennt yfirlýsingagleði fyrir þingkosningar en nú heyrist ekki neitt. Láglaunafólk í landinu er ekki yfir sig ánægt yfir sínum kjörum og þeir hungurlúsasamningar sem verkafólk hefur látið yfir sig ganga á annan áratug við viðtekinni venju síaukins vinnuálags samninga eftir samninga er komið að endamörkum velsæmis. Við launþegar greiðum til félaga þessara til þess að ganga erinda okkar ásamt iðgjaldagreiðslum í lífeyrissjóði sem stjórnir félaganna skipa fulltrúa í. Það er oftar en ekki hrópað hátt um lækkun skatta sem vissulega eru allt of háir en það gleymist hins vegar að ræða um þann þátt að umsamdir launataxtar séu ef til vill allt of lágir og í litlu samræmi við raunveruleika þann sem framfærsla einstaklings í voru samfélagi skal taka mið af. Grunnviðmið bóta almannatrygginga aldraðra og öryrkja hafa lengst af fylgt launatöxtum og þróun þeirra þvi áhrifavaldur á kjör þeirra sem í engu geta þó umbreytt stöðu sinni. Ábyrgð samningsaðila á vinnumarkaði er því mikil.

kv.gmaria.


Hefur L.Í.Ú. bara engar áhyggjur af helmingi minni þorskstofni ?

Það er alveg hreint stórmerkilegt að hagsmunasamtök núverandi útgerðarmanna hér á landi skuli ekki sjálfir ræða þá stöðu sem varðar helmingi minni þorsk af Íslandsmiðum en við upptöku núverandi kvótakerfis sjávarútvegs. Í fyrsta kafla laganna um stjórn fiskveiða kemur nefnilega fram að tilgangur laganna er að tryggja vöxt og viðgang þorskstofnsins. Útgerðarmenn eru handhafar veiðiheimilda við úthlutun frá fiskveiðiári til fiskveiðiárs og hljóta að hafa áhyggjur af því ef verðmesti fiskistofninn minnkar frá ári til árs. ER ábyrgðinni kanski vísað á stjórnvöld og ráðgjafa Hafrannsóknastofnunar ? Nýjustu rannsóknir benda til þess að það séu margir þorskstofnar á Íslandsmiðum, ekki einn stofn, hvað hefur LÍÚ um það mál að segja ?

kv.gmaria.


Frjálslyndi flokkurinn þorir að ræða málefni innflytjenda.

Innflytjendum hefur fjölgað sem aldrei fyrr í íslensku samfélagi, en ekki er hægt að segja að stjórnvöld hér á landi hafi verið viðbúin þeirri fjölgun sem opnun landamæra hefur haft í för með sér. Gömlu flokkarnir keppast við þann málflutning að við skulum bara bjóða alla velkomna en er það raunin að svo sé ? Allsendis ekki sökum þess að þau hin sömu stjórnvöld stofnuðu innflytjendaráð til málamynda þar sem ekki var gert ráð fyrir krónu á fjárlögum til starfa þar á bæ. Það breyttist allt í einu þegar Frjálslyndi flokkurinn hóf að ræða málefni innflytjenda í haust sem leið, en þá fann ríkisstjórnin  allt í einu peninga til þess að setja í íslenskukennslu. Afskaplega faglegt eða hitt þó heldur til handa innflytjendum og virðingin gagnvart þeim hinum sömu er hver ? Það er ekki nóg að bjóða alla velkomna ef meiningin er sú að þú þurfir ekki að kosta neinu til varðandi það atriði að fræða og upplýsa viðkomandi um þau atriði sem eitt þjóðfélag viðhefur til handa þegnum í formi réttinda og skyldna. Forsenda þess að nýbúar geti aðlagast samfélaginu er skilningur og möguleiki til tjáningar og samskipta við fólk sem fyrir er í landinu og ef stjórnvöld standa sig ekki í stykkinu við það að kosta til fjármunum til þess, þá verður eðlilega til einangrun fólks er hér hefur sest að til atvinnuþáttöku. Flóknara er það ekki.

kv.gmaria.


Frjálslyndi flokkurinn berst fyrir byggð á Íslandi öllu.

Það er til lítils að tala um svo og svo mikla aukningu í ferðamannaiðnaði ef atvinnusköpun og tækifæri einstaklinga til aðkomu og nýliðunar í atvinnugreinum eins og sjávarútvegi er ekki lengur til staðar og landið auðn og tóm, yfirgefið í átt að borgríki á Reykjanesskaganum. Það er fjarri því að það séu hagsmunir skattgreiðanda almennt að landsbyggð leggist af sökum þess að skattar aukast að sama skapi við tvíbyggingu þjónustumannvirkja og íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæði þar sem sveitarfélög sligast undan kostnaði þar að lútandi og uppbygging helst ekki í hendur við aukningu íbúa eins og raun hefur borið vitni undanfarin ár i samgöngum innanbæjar. Atvinnufrelsi og aðkoma einstaklingsframtaks á eðlilegum forsendum markaðslögmála að sjávarútvegi og landbúnaði er atriði sem skipulag þessara atvinnuvega þarf að aðlaga sig að með breyttum og bættum aðferðum á báðum stöðum. Nýta þarf uppbyggð mannvirki og fjárfestingar sem skattgreiðendur hafa tekið þátt í því að greiða gegnum árin um allt land í stað þess að henda þeim á bálið sem verðlausum í krafti fjárumsýslu millum útgerðarmanna með óveiddan fisk úr sjó að hentugleikum milli landshluta.

kv.gmaria.

 


Lokum álverum og hættum að framleiða rafmagn, lifum á bókvitinu, ekki komumst við á sjó.

Það er kanski ráð að fara að kynna sér grútarlampana og notkun þeirra eða hvað ? Maður þarf náttúrulega að lesa sér til um slíkt í bókum. Vinstri Grænir boða nefnilega "stóriðjustopp" sem væntanlega hefur all afdrifaríkar afleiðingar í för með sér ef raforkufyrirtækin fara á hausinn allt í einu og hluti iðnaðar leggst af. Sjósókn er ekki möguleg til lífsbjargar því enginn venjulegur maður hefur efni á komast að í útgerð sem ekki er handhafi kvóta nú þegar. Ósköp svipað ástand er uppi í landbúnaði nýlíðun nær ómöguleg. Ef til vill hefur VG einhver töfratækifæri í erminni sem enn hafa ekki komið fram í umræðunni ef til vill, en það er ágætt að skoða mögulegar afleiðingar stefnumótunar sem nær einhliða er sett fram á þann veg í formi " stóriðjustopps " .  

kv.gmaria. 


Vanefndir ríkisstjórnarinnar við fólkið í landinu.

Stjórnarsáttmálinn innihélt eftirfarandi ákvæði: " Að takmarka framsal aflaheimilda innan fiskveiðiársins og auka byggðakvóta " og einnig ákvæðið " Að setja ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar í stjórnarskrá ".  Efndir þeirra loforða sem þarna standa eru lítt sýnilegar og sjónleikjaspilið á síðustu dögum þings algjört í þessu efni. Tilvist þessara ákvæða er hins vegar umhugsunarverð og tengist án efa því atriði að Frjálslyndi flokkurinn ræddi kvótakerfi sjávarútvegsins sem forgangsmál þjóðfélagsins til umbreytinga. Núverandi valdhafar hafa  því fallið á prófinu sökum eigin aðgerðaleysis gagnvart fólkinu í landinu þar sem hið óhagkvæma kerfi  leikur byggðir Íslands grátt.

Mál er að linni.

kv.gmaria.


Framstæði Sjálfssóknarflokkurinn er hver ?

Kynni svo að vera að þetta nafn gæti verið samheiti fyrir núverandi ríkisstjórnarflokka ? Ég tel svo vera því hvorki Framsóknarflokkurinn né Sjálfstæðisflokkurinn hefur áorkað svo sem einu skrefi fram á við, varðandi það atriði að breyta um áherslur í kvótakerfi sjávarútvegs sem einungis þjónar örfáum núverandi handhöfum aflaheimilda á Íslandsmiðum, en illa eða ekki þjóðarhagsmunum í heild, með tilliti til byggðastefnu, árangurs aðferðafræðinnar, nýliðunar í atvinnugrein þessa, offjárfestinga og skuldasöfnunar með ósýnileg skammtímamarkmið að leiðarljósi. Skammtímamarkmið þar sem skortur á endurskoðun aðferða hamlar verulega framþróun hvers konar. Hvorugur flokkurinn vill kannast við að útgerðarmenn tali um aflaheimildir sem sýna eign og málamyndatilstandið við ákvæði í stjórnaskrá því algjör sýndamennska eins og ég ræddi hérna einhvern tímann áður. Hvorugur flokkurinn vill hins vegar enn sem komið er viðurkenna mistök þau sem lögleiðing framsals og leigu aflaheimilda hefur orsakað hér á landi í ótal birtingamyndum, og því báðir staðnaðir í eigin hugmyndafræði " meintrar hagkvæmni ".

kv.gmaria.


Veisla ríkisstjórnarflokkanna.

Fjármálaráðherrann núverandi ræddi á lokadögum þingstarfa um það atrið að menn kæmu ekki auga á hina miklu veislu sem að skilja mátti núverandi ríkisstjórn átti að hafa staðið fyrir. Það er ekki furðulegt að menn hafi ekki komið auga á hana, einfaldlega vegna þess að þeim sem hvað minnst úr býtum bera, var einfaldlega ekki boðið með á dansleikinn hvað þá í veisluna. Skattkerfið sem rikisstjórnarflokkarnir báðir tveir hafa staðið fyrir sér til þess. Almannatryggingakerfi sem orðið er svo flókið að enginn skilur má síst við því að tekjutengingar komi þar einnig við til viðbótar til þess að auka enn á flækjuna sem endanlega kann að kosta meira tilstand við útreikninga á grundvelli reglugerða út og suður, sitt á hvað, en það atriði að afnema þessar tengingar alfarið. Skattkerfi sem einhvern tímann átti að stuðla að jöfnuði , veður yfir eins og jarðýta hvað varðar það atriði að halda mönnum í fátæktarfjötrum og letja fremur en hvetja til vinnuþáttöku. Í því sambandi má minna á það að skattleysismörk hafa allt kjörtímabilið staðið í stað og verið mun nær skilgreiningu um fátæktarmörk en raunverulegum framfærslukostnaði vinnandi fólks í landinu. Hvaða veislu var fjármálaráðherrann að tala um ?

kv.gmaria.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband