Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
Auglýsingaskrum framtíðarsáttmála þjónar hverjum tilgangi ?
Föstudagur, 23. mars 2007
Einhver tilfinning segir mér það að auglýsingaskrum það sem púkkar upp hér á blogginu sé einkennilega merkilega nálægt nýframkomnu framboði Ómars sem dásamað hefur og bloggað um þau samtök sem þar eiga hlut að máli. Átti þetta kanski að vera svona brake fyrir Ómar ? Manni kemur svo sem fátt á óvart í tilraunum manna nú til dags í auglýsingamennskukapphlaupinu hvers konar svo ekki sé minnst á öfgagöngu í því sambandi.
kv.gmaria.
Megi kærleikur umvefja fólk í sorg.
Föstudagur, 23. mars 2007
Óhjákvæmilega er hugur manns upptekinn af umhugsun um fjölskyldur í þessu landi er syrgja ótímabært brotthvarf ættingja úr þessum heimi, snögglega af slysförum. Ég bið góðan Guð að vernda styrkja og styðja alla þá er þjást af því þunga höggi sem slíkar aðstæður eru. Sorgin er löng ganga í skógi tilfinninganna þar sem minningar eru fjársjóður okkar minningar um hið góða sem viðkomandi gaf okkur á lifsleiðinni. Sálmaskáldið Sr. Matthías Jochumson orti margar perlur sem sannarlega geta veitt huggun og eiga uppsprettu í trú hans sem einnig er mín. Ein ljóðlínan segir " Ég trúi þótt mig nísti tár og tregi og tárin blindi augna minna ljós " og trúin sem hver á líknar , leiðir og gefur von um birtu lífs á ný eftir él um hríð.
kv.gmaria.
Og sjávarútvegsráðherrann afneitar fátæktinni úr Fílabeinsturninum !
Föstudagur, 23. mars 2007
Einu sinni enn reyna Sjálfstæðismenn að klóra í bakkann hvað varðar þá hina miklu gjá sem myndast hefur hér á landi milli ríkidæmis annars vegar og fátæktar hins vegar og þykjast ekki eygja fyrirbærið. Nú bloggar sjávarútvegsráðherran um " jöfnuð " ... . Áður hafði fjármálaráðherrann látið hafa eftir sér úr þingstól fleyg ummæli þess efnis " að menn sæu ekki veisluna " . Það er ofur auðvelt að finna jöfnuð meðaltals hæstu og lægstu launa, því örfáir ofurlaunamenn hækka meðaltalið, burtséð frá því hvað margir lifa um við og undir fátæktarmörkum á Íslandi dagsins í dag en könnun sérstök þar að lútandi sem Harpa Njálsdóttir vann reiknaði það út að um 10 % landsmanna byggju við fátækt og það er of mikið.
kv.gmaria.
Frjálslyndi flokkurinn vill framtíðarlausnir í samgöngumálum.
Föstudagur, 23. mars 2007
Jarðgöng, þverun fjarða, og stytting vegalengda milli þéttbýlissvæða, og markvissar aðgerðir til þess að fækka slysagildrum á þjóðvegi 1. eru atriði sem við Frjálslyndir viljum að sett verði í öndvegi ásamt því að gera land sjó og loftflutningum jafn hátt undir höfði í skattalegu tilliti. Hverjum hefði annars til hugar komið að sú þróun yrði til hér á landi að verið væri að aka landið þvert og endilangt með fisk í gámum á malbiki þjóðveganna ? Ein öfugmælavísan af mörgum sem rekja má til hins misviturlega skipulags fiskveiðistjórnunarkerfisins.
kv.gmaria.
Um -um -umhverfismál...
Fimmtudagur, 22. mars 2007
Nú verður fróðlegt að fylgjast með umhverfismálapólítikinni þegar vinstri og hægri grænir fara að bítast á og vega salt um sjónarmið öll. Hver verður áherzlumunurinn þarna á milli ? Eitt virðast þeir sammála um þ.e. " stöðva alla stóriðju á Íslandi " ??? Einhvern veginn finnst manni vanta eitthvað af bremsubúnaði í þessa pólítik, báðum megin til vinstri og hægri.
kv.gmaria.
Frelsi til atvinnu, einstaklingsfrelsið, hornsteinn mannréttinda.
Miðvikudagur, 21. mars 2007
Allar þær kvaðir og öll þau höft sem enn einkenna núverandi skipulag mála hér á landi í formi skatta, og skilyrða einstaklinga til atvinnusköpunar í voru landi eru að mínu viti aðferðir sem nú teljast úreltar sökum þess að slíkt telst til aðferða Ráðstjórnarríkja kommúnismans sem fallið hafa um sjálft sig og við erum ekki alveg komin til með að samþykkja sem hluta af nútima þjóðfélagsskipan. Stærri og stærri einingar í formi fabrikkuframleiðslu undir formerkjum hagkvæmni t.d. í sjávarútvegi og landbúnaði ásamt einokunarmarkaðsrisum ýmis konar á öðrum sviðum sem leika sér með fjármagnið og skattalagaumhverfið á ferðalagi milli landa, er ekki eitthvað alþjóðlegt fyrirbæri sem við eigum að samþykkja sem eðlilegt si svona. Við eigum að vera þess umkomin að smíða reglur og lög þess efnis að þjóðin njóti starfssemi fyrirtækja er starfa hér á landi, og til þess þarf skattalagaumhverfið að gæta jafnræðis millum fyrirtækja annars vegar og einstaklinga hins vegar sem ekki er til staðar í dag. Svo virðist sem öfgafrjálshyggjumenn hafi gengið út yfir linuna og séu nú ágætir boðberar kommúnisma á kostnað þess frelsis sem hver einstaklingur skyldi hafa til þess að hafa atvinnu til lands og sjávar í landi sínu.
kv.gmaria.
Samgöngumál á Suðvesturhorninu.
Miðvikudagur, 21. mars 2007
Getur það verið eðlilegt að ferðatími úr Hveragerði í vinnu í Reykjavík sé styttri en ferðatími íbúa í Hafnarfirði, Garðabæ eða Álftanesi að morgni dags ? Það er löngu ljóst að samgöngumannvirki voru ekki undir það búin að annað hvort fjölgun íbúa ellegar fjölgun bíla á mann yrði svo mikil sem raun ber vitni ? Hvað klikkaði í samvinnu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu ? Höfðu þau ekki yfirsýn yfir íbúafjölgun eða var skortur á samhæfingu aðgerða og samstarfi við ríkið ástæðan ? Hvað hafa íbúar Mosfellsbæjar mátt þola að sumri til, nema samfellda röð bíla gegnum bæjarfélagið þjóðvegi 1. Var fólksfjölgun ef til vill of hröð, þannig að ekki hefðist undan eða klikkaði forgangsröðunardæmið ? Hefur ríkið stuðlað að því með einu eða öðru móti að efla almenningssamgöngur á þessu svæði ? Þegar stórt er spurt verður jafnan fátt um svör en samgöngur á einu atvinnusvæði í innan við 50 kílómeta radíus, eiga ekki að geta þurft að taka heila klukkustund, þann tíma hefur gleymst að meta til peninga.
kv.gmaria.
Framtíð Íslands er breytt fiskveiðistjórnunarkerfi.
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Það er ekkert EF það verður að breyta aðferðum við fiskveiðistjórn hér við land. Óráðsíufjárfestingafylleríi þar sem landsbyggðin hefur verið lögð undir í púkkinu þarf að ljúka hið fyrsta og frelsi til atvinnu fært aftur til fólksins í landinu. Hafrannsóknarall og seiðatalning sem forsenda grundvallar heildarkvóta úr stofnum eru langt frá því að vera óumdeilanlegar, og ef til vill álíka því að telja tré úr flugvél með tilliti til nauðsynlegrar gróðursetningar í kjölfarið. Uppbygging þorksstofnsins verðmesta fiskistofnsins hefur mistekist og menn hafa litla hugmynd enn um hvert ástand lifríkis sjávar í raun er sökum þess að rannsóknir hefur ekki tekist að kosta sem skyldi. Brottkast afla náðist þó að mynda sem aftur varð til þess að leyft var að koma með fisk úr sjó að landi sem annars hefði verið hent. Verðmætasóun og skammtímagróðrarsjónarmið eru innbyggð í þetta kerfi sem aftur hefur leitt til þess að fyrirtækin eru enn þann dag í dag skuldsett þrátt fyrir kerfi þetta. Landsmenn munu því í komandi kosningum fá tækifæri til þess að kjósa okkur Frjálslynda sem sannarlega munum breyta hér um aðferðafræði.
kv.gmaria.
Framtíð Íslands er velferð þegnanna, óháð aldri.
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Aldraðir, börn og öryrkjar hafa einhvern veginn lent utandyra í " veislunni " sem fjármálaráðherrann ræddi um nú rétt fyrir þinglok, enda það sammerkt með þessu hópum að þeir hafa ekki sérstakt samningsumboð sér til handa og verða að treysta á ráðstafanir þær sem kjörnir fulltrúar ákveða um aðstæður þar að lútandi. Þykjustuleikurinn þess efnis að " búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld " er nú í dag öfugmæli ein í allt of miklu magni, svo miklu að okkur núverandi kynslóð á miðjum aldri má telja til skammar. Hið sama má segja um afskaplega marga þætti er lúta að börnum, hvort sem um er að ræða grunnmenntun eða þann tíma sem foreldrum er mögulegt að inna af hendi með börnum sínum á skeiði frumbernsku. Þótt fjöldinn allur af rannsóknum sýni það og sanni að tilfinningalegt atlæti foreldra sé forvörn númer eitt lífsleiðina alla fyrir lítið barn, hvað varðar uppbyggingu sjálfsmyndar, þá gefa hvorki ráðstafanir skattalega rými til dvalar fólks með börnum sínum nema að afar takmörkuðu leyti. Vinnuvikan hefur ekki styst heldur þvert á móti lengst og hjá láglaunafólki ná endar ekki saman sem aftur gefur augaleið að slíkt bitnar á börnum þar sem hið óréttláta skattkerfi kemur enn og aftur við sögu. Öryrkjar sem einhverra hluta vegna hafa tapað heilsugetu til vinnuþáttöku hafa mátt búa við skerðingar á skerðingar ofan þar sem bætur hafa ekki haldist í hendur við þróun verðlags í einu landi. Ábyrgðarleysi fjármálaráðherra landsins sem situr uppi í Fílabeinsturninum í ráðuneytinu þess efnis að tala um " veislu " þegar hluti fólks á við erfiðar aðstæður að etja, til að komast gegn um daga, vikur og mánuði, er mikið.
kv.gmaria.
Verðtrygging skatta ?
Mánudagur, 19. mars 2007
Ef íslenska krónan er verðtryggð hvað veldur því þá að skattleysismörk skyldu yfir höfuð á einhverjum tímapunkti fryst og látin standa í stað ? Bætur almannatrygginga, barnabætur, ellilífeyrir og örorkubætur, hví í ósköpunum hækkuðu bætur þessar ekki í samræmi við " hina miklu veislu " sem fjármálaráðherrann talaði um í þinglok. Hið opinbera gat kanski bara staðið í stað og alveg sleppt því að samræma sínar upphæðir skatta og bóta í samræmi við verðlagsþróun í landinu sem tók mið af hverju öðru en verðtryggingu upphæða í íslenskum krónum ? Það hafa vissulega verið haldnar veislur en mest megnis af fjársýslumönnum sem ekki vita aura sinna tal, þar sem almenningur í landinu getur keypt blöð og tímarit ef hann hefur efni á til þess að lesa um þær veislur. Verðtrygging þjónar engum tilgangi lengur og síst af öllu í þágu almennings á Íslandi.
kv.gmaria.