Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Miðsumarsblogg.

Fékk tvö símtöl í dag frá USA að sögn viðmælenda, sem kynntu sig í nafni Microsoft, varðandi það atriði að þeir sögðust ætla að bjarga tölvu minni frá eyðileggingu.

Ég var ekki ginnkeypt fyrir þeirri hinni sömu aðstoð og  spurði um símanúmer viðkomandi í fyrra símtalinu sem ekki hafði birst mér við hringingu og samtalið endaði á því að hringjandi sagði við mig " go to hell ".............

Tveimur tímum síðar hringdi annar með sömu kynningu og hinn fyrri og reyndi mikið til þess að fá mig til þess að opna tölvu mína en ég spurði viðkomandi um heimilisfang skrifstofu þeirrar sem viðkomandi var að hringja frá og fékk einhverjar upplýsingar þar að lútandi og tjáði þeim hinum sama að ég myndi hafa samband við fyrirtækið í mínu landi, varðandi vandamál einhvers konar og viðkomandi lagði á að lokum.

Ég hringdi í Nýherja og lét þá vita af þessum símtölum en mér fannst nóg að fá tvö símtöl sama daginn.

Það er alltaf eitthvað, ekki öll vitleysan eins heldur aðeins mismunandi.

Blessað sumarið er hins vegar í hámarki akkúrat núna og þessi tími alltaf sérstakur í mínum huga.

Maður fagnar hverjum góðviðrisdegi og gerir sitt besta til þess að halda sig utan dyra eins mikið og mögulegt er.

Jafnframt fagna ég því að mega hjóla sem ég ekki mátti áður en passa mig að gera ekki of mikið, því oftast rek ég mig á með það að reyna of mikið og verða verri.

Það er samt gífurlegt frelsi fólgið í því að komast um á reiðhjóli hér á Selfossi sem er sannarlega gósenland reiðhjólamannsins.

Ég fer í mína sjúkraþjálfun tvisvar í viku sem heldur mér gangandi í orðsins fyllstu merkingu en þess á milli er ég að prjóna mér til dundurs, það skiptir máli að hafa eitthvað að gera. 

 

RIMG0002.JPGRIMG0003.JPG

 

 

 

 

 


Um daginn og veginn.

Komst austur undir Eyjafjöll í dag og rétt eins og fyrri daginn, er það andleg næring að koma í sína heimasveit að sumri til, með allt í blóma.

Blessaður jökullinn er óskaplega friðsæll og venjulegur eftir allan þann hamagang sem þó átti sér stað hjá honum fyrir ekki svo löngu.

 

RIMG0013.JPG

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eyjafjallajökull.

 

Sauðfé, kýr og hestar á túnum og landið allt í fagurgrænni skikkju.

Suðvestan gjóla af hafi en indælisveður.

Ég lít á það sem hlunnindi að hafa fengið að alast upp í íslenskri sveit með náttúruna allt í kring og frelsi til athafna uppvaxtarárin.

 

kv.Guðrún María. 

 


Ekki má ræða neitt er tengist innflytjendamálum á Íslandi, nema Samfylkingarmenn grípi rasistastimpilinn.

Það hefur verið mikið að gera hjá Samfylkingarmönnum að virðist varðandi það atriði að hamast með "rasistastimpilinn " hér og þar, vegna umræðu um úthlutun lóðar fyrir mosku í Reykjavík, fyrir síðustu kosningar.

Raunin er sú að sá flokkur hefur nokkuð lengi viðhaft þá venju að stimpla flesta rasista sem dirfast að ræða málefni innflytjenda til landsins,  sama hvers eðlis sú hin sama umræða er, það þekkir sú er þetta ritar.

Sú þöggun sem þar er á ferð varðandi þau hin sömu mál, hefur sannarlega ekki verið neinum til góða sem flyst hingað til lands, heldur þvert á móti orðið til þess að skortur á upplýsingum sem og nauðsynlegri ákvarðanatöku um aðbúnað fólks til dæmis á vinnumarkaði, hefur ekki verið sem skyldi.

Ég hef eins og flestir Íslendingar kynnst fólki af erlendu bergi brotnu er flyst hingað til lands, góðu fólki sem auðgar samfélagið, en veit á stundum lítið um sín réttindi sem og samfélagið sem hér er.

Með öðrum orðum við stöndum okkur ekki nógu vel sem samfélag að RÆÐA UM MÁLEFNI INNFLYTJENDA. 

Því miður er það svo að meðan þessi umræða er í skotgröfum þeim  Samfylkingarmenn hafa einkum og sér í lagi komið henni í með því að stimpla alla umræðu sem " rasisma " þá þróast lítið fram á veg og umræða um málefni innflytjenda verður að pólítisku bitbeini, heimskulegrar þöggunar í voru þjóðfélagi árið 2014. 

 

kv.Guðrún María.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband