Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Málefni ofar persónum manna í flokkum.

Fyrir mína parta hefi ég fengið mig fullsadda af deilum og erjum milli manna um eiginhagsmuni í íslenskri pólítík á kostnað málefna fyrst og fremst. Hinn ömurlegi egóismi gjörsamlega tröllríður húsum innan allra flokka meira og minna. Það á nefnilega ekki að skipta máli hver ber fram þá hugsjón og þau markmið sem hver hefur sett sér heldur það atriði hvernig viðkomandi gengur að koma þeim á framfæri og vinna þeim brautargengi. Heilu flokkarnir afsala sér hugsjónum sínum  og stjórna og stýra í krafti skammtima peningahyggju, til þess að styggja ekki sem flesta eins og sjá má af verkum núverandi ríkisstjórnarflokka, þar sem markaðsdans einkavæðingar hefur verið á kostnað hluta þjóðfélagshópa í okkar samfélagi. Það þarf hins vegar ekki að halda um stjórnartaumana til þess að deilur og erjur um forystumenn séu meira og minna það sem litar stórnmalaumræðu. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn Samfylkingin logaði af umræðu um innkomu fyrrum borgarstjóra sem allt að því Messíasar en flokkurinn hefur síðan nær stöðugt tapað fylgi eftir að viðkomandi hafði hoppað upp á hrossið. Allt í deilum og erjum í Frjálslynda flokknum um embætti ekki í fyrsta skipti ónei. Vinstri Grænir virða sinn formann ár eftir ár hins vegar án mikilla deilna að lýðum sé ljóst. Deilur og erjur um keisarans skegg eiga ekki erindi út fyrir flokka sem gefa sig út fyrir að ganga erinda almennings á þjóðþingi Íslendinga, það er og verður mín skoðun.

kv.gmaria.


Og enn taka við nýjar birtingarmyndir.

Frjálslyndi flokkurinn Grenimel 9, stendur í símaskránni ??? Mér best vitanlega hefur hann og er til húsa í Aðalstræti en hvað veit maður nú orðið sem flokksmaður í flokki þar sem meint illindi eru að hluta til uppi á dekki. Auglýsingar Margrétar urðu til þess að ég lýsti afstöðu minni um stuðning við núverandi forystumenn í flokknum í gærkveldi en auglýsingaskrum sem slíkt um varaformannskjör í flokki þekki ég ekki áður og man ekki til þess að síðast þegar einnig var kosið um varaformann í þessum flokki þá á milli Gunnars og Magnúsar hafi orsakað auglýsingar af þeirra hálfu sérstaklega enda innanflokksmál en ekki prófkjör meðal almennings. Hvað Margréti Sverrisdóttur gengur til er mér hulin ráðgáta nú um stundir en sannarlega spyr maður sig hvaða möguleika hver óbreyttur flokksmaður hafi til þáttöku í kapphlaupi auglýsingamennsku um sig sjálfan ef viðkomandi hygðist bjóða sig fram til embætta í flokknum. Sé þetta eða kunni að eiga að vera andsvar við yfirlýsingu formanns flokksins um stuðning við núverandi varaformann þá skal það upplýst hér að síðast er varaformannskjör í flokknum átti sér stað þá gaf formaður sams konar yfirlýsingu sem Margréti sem framkvæmdastjóra var eðli máls samkvæmt kunnugt.

kv.gmaria.


Frjálslyndi flokkurinn.

Stjórnmálin taka á sig margar myndir svo mikið er víst og einn góðan veðurdag gæti ég trúað að maður kynni að gefa út æviminningar líkt og Stelpan á Stokkseyri. Endalaust argaþras og illdeilur um keisarans skegg lita stjórnmál um of að mínu áliti og skortur á hæfileikum þess efnis að hefja hugsjónir og málefni ofar persónum manna þar með talið kvenna , ( því konur eru menn) er stórkostlegur á stundum. Ásakanir Margrétar Sverrisdóttur í garð síns eigin flokks sem hún hefur starfað fyrir sem framkvæmdastjóri og kjörinn ritari , þess efnis að varaformaður núverandi sem og formaður að skilja má gangi erinda andúðar gegn innflytjendum er hrópleg þversögn þar sem þörfin fyrir að ræða þessi mál er fyrir hendi í voru þjóðfélagi í ríkum mæli , ekki sizt innflytjendum til hagsbóta sem og þjóðfélaginu í heild. Atganga Margrétar gegn fólki sem kom til flokksins úr fyrrum Nýju afli sem flokki er og hefur verið afskaplega ómálefnaleg í alla staði og ómakleg í raun og því miður gætir þar andúðar sem ekki á sér forsendur á vitrænum grunni, því miður. Ég hef borið sæmilega virðingu fyrir Margréti Sverrisdóttur til þessa en mig skiptir engu máli hvort kona eða karlmaður ræðst ómálefnalega að félögum sínum ,hið ómálefnalega mun ég ekki verja í þessu sambandi því fer fjarri. Hver reyndur stjórnmálamaður stefnir flokki sínum ekki fyrir björg rétt fyrir kosningar með flokkadráttum um formannskjör , korteri áður, þvílík og önnur eins della fyrirfinnst varla í íslenzkri pólítík. Hafandi átt þess kost að kynnast Guðjóni, Magnúsi og Sigurjóni enn betur síðasta kjörtímabil eftir að flokkurinn hafði misst okkar þingmann yfir í annan flokk þá lýsi ég því hér með yfir að ég styð núverandi forystu flokksins til þess að ganga gegn um næstu kosningar óbreytta.

kv.gmaria.

 


Og hefst nú málamyndapólítikin fyrir kosningar á Alþingi.

Njósnir og leyndarmál er greinilega eitthvað sem Samfylkingunni er hugleikið til umræðu á  þessu þingi og hvert tækifæri notað til þess að búa til úlfalda úr mýflugu í því efni að virðist á kostnað umræðu um ýmislegt annað og þarfara. Mér leiðist þessi málamyndapólítik nú sem endranær og betur væri að hægt væri að ræða mál í gegn og fliýta störfum svo önnur mál komist að í þingstörfum heldur en að þæfa umræðu alla og drepa á dreif í tíma og ótíma. Fyrrverandi formaður SF gleymdi sér alveg í ræðustól í þessu efni enda algjör sérfræðingur í leikrænum töktum í þessu efni og merkilegt að sá hinn sami skuli ekki hafa lagt leiklistina fyrir sig , finnst mér stundum. Betur væri að menn tækju til við að skoða innbyrðis stjórnunarvanda á ríkisspítulum sem gerir það að verkum að ákveðin sérsvið eru að virðist hundsuð sem slík hvað varðar faglegt sjálfsforræði . Gömul og ný saga innan heilbrigðiskerfisins en eigi að síður atriði sem sannarlega þarfnast aðgerða og athugunar strax svo fremi árangursstjórnun sé markmið þessa kerfis í heild. Þingmenn hvoru tveggja þurfa og verða að láta sig varða slík mál eins og önnur mál en forystugrein Mbl 15 janúar fjallar vel um þessi mál.

kv.gmaria.


Fylgisaukning Frjálslyndra er engin tilviljun.

Það þarf engum að koma á óvart að Frjálslyndi flokkurinn hafi mælst hærri í skoðanakönnunum undanfarið. Þingmenn flokksins hafa nefnilega næstum einir á Alþingi Íslendinga haft uppi skoðanir á breytingum á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi til umbóta fyrir land og þjóð. Því til viðbótar hafa þeir rætt mál sem brenna á þjóðinni svo sem málefni innflytjenda sem allir aðrir stjórnmálaflokkar hafa skirrst við að ræða hingað til sem er í raun fjarstæðukennt ef litið er til nágranna okkar á Norðurlöndum sem hafa rætt þessi mál opið lengi. Auðvitað hentaði öllum hinum flokkunum sem ekki þorðu að ræða málefni innflytjenda að skella rasistastimplinum á flokkinn sem afgreiðslu fyrir eigin þegjandahátt þar sem hræðsla við fylgistap er að ég tel helsta orsökin, líkt og venjulega þegar of erfið umræða kallar. Ósköp svipað hefi ég áður upplifað á vettvangi stjórnmálanna þá sem þáttakandi í réttindabaráttu sjúklinga sem töldu sig hafa lent í læknamistökum en orðið læknamistök eitt og sér var ekki eitthvað sem alþingismenn þess tíma voru alveg tilbúnir til þess að ræða þá, fyrir tíu árum eða svo, síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar í því efni. Hver kjörinn alþingismaður á að vera tilbúinn til þess að ræða málefni samfélagsins hvers eðlis sem þau eru og það hafa þingmenn okkar Frjálslyndra gert og munu gera.

kv.gmaria.

 


Og Samfylkingin vill selja sjálfstæði þjóðarinnar til Brussel.

Stjórnmálaflokkur sem varla hefur sett fram eina einustu skoðun á þjóðmálum undanfarið sem heitið getur kemur allt í einu fram og heimtar evru sem gjaldmiðil og formaðurinn lýsir þeirri skoðun sinni að sjáflsögðu fylgi þvi aðild að Evrópusambandinu í hennar huga, það hafi alltaf verið ljóst. Þrátt fyrir það að hér á landi hafi ekki eitt stykki þjóðaratkvæðagreiðsla um vilja þjóðarinnar til inngöngu í slíkt bandalag. Þá vitum við það á hverju þessi flokkur byggir sína hugmyndafræði þ.e . hún virðist sótt erlendis og það til Brussel. Samfylkingin er sem sagt tilbúin til þess að afsala Íslendingum sjálfsákvarðanarétti yfir eigin fiskimiðum með þessarri hinni sömu skoðun sinni það er ljóst.

Án þess þó að hafa sett fram annað en sáttaplagg  um núverandi kvótakerfi á fundi með LÍÚ á sínum tíma , ekkert annað.

kv.gmaria.


Hvað segir okkur það sem átt hefur sér stað hjá heyrnarlausum ?

Það eru hörmulegar frásagnir sem okkur birtast í fjölmiðlum þessa dagana í kjölfar niðurstöðu könnunar sem Félag heyrnarlausra lét gera um kynferðisofbeldi sem viðkomandi höfðu að virðist hvoru tveggja verið þolendur og gerendur í samfélagi sem var einangrað frá umheiminum sökum fötlunar í formi heyrnarskerðingar og skorti á tjáningu við fólk án fötlunar sem þessarar.

Ég tel að hafi eitthvað vakið upp spurningar um stöðu þess fatlaða þá hljóti nákvæmlega þetta að vera þess valdandi að menn velti hlutunum fyrir sér og það í víðu samhengi.

Það atriði að hvorki hópar fatlaðra með slíka tegund fötlunar kunni nokkurn tímann að þurfa að einangrast úr mannlegu samfélagi , megi nokkurn tímann eiga sér stað í mannlegu samfélagi né heldur aðrir er eiga við fötlun að stríða.

Það atriði að tjá sig um mál sem slík eftir áratugi líkt og fólk sem er heyrnarlaust hefur gert undanfarið er hetjudáð.

kv.gmaria.

 


Útvegsmenn í Eyjum kosta rannsóknir á jarðgöngum.

Vonandi er þetta fyrsta skrefið að því að útvegsmenn láti sig varða rannsóknarverkefni almennt því það skal alveg viðurkennt að rannsóknir á hafsbotni sjávar eru allsendis ekki nægilegar og von mín sú að þetta framtak Eyjamanna verði til þess að útgerðin almennt sé tilbúin til þess að leggja fé í þágu enn betri rannsókna í sjávarútvegi eins og samgöngum. Í því sambandi má nefna að á þessu kjörtimabili lá rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar bundið við bryggju um tíma vegna skorts á fjármagni mér best vitanlega, sem ekki er nógu vel að verki staðið fyrir þjóð sem kallar sig fiskveiðiþjóð.

kv.gmaria.


Markaðsdansleikur Samfylkingarinnar.

Samfylkingin er nú mætt á markaðsdansleikinn þar sem ganga erinda fyrirtækja hvað varðar evruupptöku virðist sá fjaðurskúfur sem settur hefur verið efst í hattinn. Með ólíkindum er hve þessum stjórnmálaflokki virðist ætíð takast að vera sambandslaus við fólkið í landinu, því flest annað en upptaka evru á erindi við almenning í landinu nú um stundir. Væri ekki ágætt af ábyrgum stjórnmálamönnum að fara að aðgæta hvers vegna gjá hefur skapast milli láglaunamannsins annars vegar og ofurlaunamannsins hins vegar og hvort hugsanlega geti það verið að verkalýðshreyfing þessa lands hafi sofið á verðinum , værum blundi, á sama tíma og sitjandi stjórnvöld sitja eins og púkinn á fjósbitanum með skatta á hverju strái til handa litla Jóni sem aldrei má verða of ríkur , tekjutengingarnar sjá til þess að skerða allt sem mögulegt er að skerða.

Tekjutengingar sem hluti þeirra er gengu í Samfylkinguna " föttuðu upp á " og hefur heldur betur snúist í öndverðu sína með andvaraleysi þróunar framkvæmdar þeirrar en framkvæmdin hefur lítt eða ekki verði gagnrýnd sem slík af þeim flokki ef til vill til þess að verja höfundaréttinn, þrátt fyrir delluna og öngþveiti sem nákvæmlega framkvæmdin hefur orsakað.

Evrudansinn mun ekki færa Samfylkingu verðlaun í hattinn.

kv.gmaria.


Skattkerfið hamlar öryrkjum atvinnuþáttöku.

Fólk sem einhverra hluta vegna tapar vinnugetu, s.s vegna slysa eða sjúkdóma er gert ókleift að vinna vegna þess að bætur eru skertar, við vinnuþáttöku af heimskulegu skattkerfi sem enginn hinna 63 þingmanna hefur enn getað fengið neinu áorkað um að breyta, síðustu tvö kjörtímabil. Hvað veldur ? Það virðist þurfa stöðuga fréttaumfjöllun í mánuð eða mánuði,  til þess að menn dröslist til þess að gera eitthvað í slíku óréttlætismáli sem þetta mál er. Yfirtryggingalæknir Tryggingastofnunar benti á það fyrir nokkrum dögum að þótt menn færu ekki í heildarenduskoðun á hinu gloppótta almannatryggingakerfi þá mætti breyta hluta þess og það er ekki flókið að laga skattaumhverfi en til þess þarf vilja og athafnir og framkvæmd. Menn eiga ekki að þurfa að missa bætur fyrir hluta tapaðrar vinnugetu með vinnuþáttöku að möguleikum og það á auðvitað að borga sig að vinna það gefur augaleið. Á sama tíma vantar fólk á vinnumarkað og hin þjóðfélagslega sóun þess að fá ekki fólk sem getur unnið hlutavinnu er gífurleg hvort sem um er að ræða öryrkja eða aldraða sem enn hafa vinnugetu. Hið hróplega óréttlæti í þessum efnum kallar á aðgerðir og það eins og skot.

kv.gmaria.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband