Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Hér skyldu menn fara sér hægt í yfirlýsingagleði.

Hér er um að ræða grunnþjónustu við borgaranna og ef menn geta ekki tekið ákvarðanir um hvernig sá rekstur skal vera nema búa til fyrirtæki í formi hlutafélags, kynni þá ekki svo að vera að hið opinbera hafi sofið á verðinum með að færa ábyrgð einstakra þátta í formi útboða til fagaðila í stað þess að standa með miðstýringarkerfi sem virkar illa , vegna ofurumsvifa og misviturlegra handapataúrlausna frá einum tíma til annars.

Til þess þarf ekki hlutafélag.

kv.gmaria.

 


mbl.is Landspítalinn opinbert hlutafélag?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hefst nú skoðanakannanapólítik Samfylkingar.

Sé til stjórnmálaflokkur skoðanakannanna þá er það Samfylkingin sem virðist róa mjög á þau mið til stefnumótunnar hvers konar frá fæðingu flokksins í raun.

Skoðanakannanir gefa vísbendingu og vísbending er vísbending annað ekki.

Það atriði að róa með skoðanakannanir fram sem einhver sannindi um vilja þjóðarinnar til dæmis hvað varðar Evrópusambandsaðild meðan á sama tíma er rætt um að enginn viti hvaða skilyrði við myndum þurfa að uppfylla, né heldur hve mikið fullveldisframsal á yfirráðum yfir eigin auðlindum kunni að vera að ræða, þá er slík pólítik óábyrg að mínu viti.

Með sama móti mætti segja að þau stjórnvöld sem nú sitja við valdatauma væru þar allsendis ekki með réttu samkvæmt skoðanakönnunum vegna þess að 80 % landsmanna eru á móti núverandi fiskveiðistjórnunarskipulagi sem stjórnvöld sitja enn undir óbreyttu.

kv.gmaria.


Ferðalag í Rangárþing.

Fór á laugardaginn austur í sveitina mína milli sanda, Eyjafjallasveit, þar sem menn hafa tekið til við að plægja akra, sem hluta af vorverkum. Veiðibjallan kemur fagnandi eins og venjulega, þegar maðurinn hefur auðveldað aðgengi með þessu móti að fæðuöflun. Set hér inn mynd sem tekin var við slíkt tækifæri.RIMG0003.JPG_0001

Það er nú hins vegar alltaf ósköp gaman þegar náttúran hefur klæðst sínum græna búningi og einhverja mynd er að finna í safninu þar skrúðinn er grænn.

RIMG0021.JPG

Þetta er heldur sumarlegra , en fjallið framan við Eyjafjallajökulinn heitir Lambafell og þar inn í dalnum er Seljavallalaug.

RIMG0001.JPG

Miðnætursólin varpar dulúðlegum blæ bak við jökulinn.

Árstíðirnar hafa allar sinn sjarma í sömu staðháttum.

Sonur minn kom með mér þar sem hann hitti frænku sína sem alltaf var með honum í sveitinni þegar þau voru pínulítil, og svo var allra yngsta kynslóðin upptekin við að upplifa allt sem hægt var að upplifa í frelsinu.

kv.gmaria.

 


Um daginn og veginn.

Var í afar ánægjulegri rauðmagaveislu í Grindavík i kvöld, hjá Bæjarmálafélagi Frjálslynda flokksins, á staðnum. Íslenskt sjávarfang er einstakt, og snilldarleg matreiðsla á sjávarafurðum okkar er auðlind.

Hafi Grindvíkingar þakkir fyrir sína framtakssemi.

Vorveður í lofti og brátt taka tjaldur, hrossagaukur og stelkur til við sinfóníuaríu sína sem er svo undur nærandi í kyrrð eins og i kvöld.

Sams konar friðsæld er einnig að finna í mínum huga við flögrandi mávager yfir skipi að sigla í höfn, eins og sjá mátti í Grindavík i kvöld.

Guðjón Arnar, Grétar, Jón, Magnús Þór og Sigurjón, Kristinn H, og Kolla.. og við öll hin áttum ánægjulega stund í Grindavík í rauðmagaveislunni.

kv.gmaria.

 

 


Frjálslyndi flokkurinn og baráttan gegn þjóðhagslega óhagkvæmu kvótakerfi sjávarútvegs.

Baráttunni fyrir breyttu skipulagi fiskveiðistjórnunar er langt í frá lokið, því enn sitja við völd menn sem vilja viðhafa óbreytt skipulag. Frjálslyndi flokkurinn hefur nú í tæpan áratug átt fulltrúa á Alþingi Íslendinga, sem ötullega hafa lagt sitt af mörkum til þess að benda á nauðsynlegar breytingar til bóta .

Ef Alþingi hefði eygt sýn á það atriði að hægt væri að leiða í lög að heimila einum trillusjómanni með tvær handfærarúllur aðgengi að Íslandsmiðum til veiða sem ekki ógnar fiskistofnum eðli máls samkvæmt, likt og Frjálslyndi flokkurinn hefur flutt frumvarp um frá upphafi, þá stæðum við ekki frammi fyrir mannréttindabrotum á þegnum landsins í sjávarútvegi, aðalatvinnugrein þjóðarinnar frá örófi alda.

Þannig er nú það.

Íslendingar eru seinþreyttir til vandræða en andstaðan við núverandi kvótakerfi er skiljanleg í ljósi þeirra offarsaðgerða stjórnvalda sem kerfisskipulagið innihélt frá upphafi og með síðari breytingum um framsal milli aðila sem eru mestu stjórnmálamistök sem gerð hafa verið á Íslandi í formi þjóðhagslegrar verðmætasóunar.

Taka þarf saman í sögulegu samhengi stofnun hlutabréfamarkaðar og innkomu sjávarútvegsfyrirtækja þangað um tíma þáttöku lífeyrissjóðanna og brotthvarf þeirra þaðan síðar. Það er ágætt verkefni fyrir rannsóknarblaðamenn í faginu.

Vísindarannsóknir á miðunum , tenging rannsókna við fjármagn hvers konar í fjárveitingum þingsins og athafnasemi þar að lútandi er einnig verðugt verkefni að skoða svo ekki sé minnst á viðhorf manna og vitund þess efnis að skoða mál frá grunni með þjóðarhag í farteskinu.

Deilur manna um keisarans skegg innan Frjálslynda flokksins frá upphafi blikna og eru hjóm eitt í þessu sambandi, svo mikið er víst, hver sem á í hlut á hvaða tíma.

kv.gmaria.

 

 

 

 


Samgöngumál Vestmanneyinga.

Munu kostnaðaráætlanir við gerð hafnar í Bakkafjöru sem samgöngutækis til handa Vestmanneyingum standast, eða kann þar að vera annað Grímseyjarferjuævintýri á ferð ?

Mun þessi höfn nýtast Vestmanneyingum sem samgöngumannvirki, eða verða endalausar tafir á ferjusiglingum vegna veðra og aðstæðna ?

Hér er fyrst og fremst um að ræða framkvæmd sem sett er á fót til þess að þjóna samgöngum til Vestmannaeyja og íbúa eyjannna í upphafi því skyldi ekki gleyma.

Frumvarp til laga, liggur nú fyrir af hálfu samgönguráðherra þess efnis að ríkið muni verða eigandi að höfn þessari, en ekki heimamenn á svæðinu, sem aftur þýðir yfirstjórn fjarri aðstæðum að öllum líkindum.

Fyrst og síðast eru það hagsmunir íbúa í Eyjum um bættar samgöngur sem málið snýst um, til langframa með mati á því hinu sama, hvað varðar kostnað hins opinbera af slíkum framkvæmdum sem þjóna skulu íbúum, og nýtingu þeirra um framtíð.

Hagsmunir skattgreiðanda í landinu eru þeir að hér sé um raunhæfa samgöngubót að ræða.

Mál þetta ætti þvi eðlilega að ganga yfir allar þverpólítiskar línur varðandi mati á framkvæmd mála.

kv.gmaria.

 

 


Svifryksmengun og moldrok.

Þessi vetur hefur verið með þeim betri á höfuðborgarsvæðinu varðandi svifryksmengun einfaldlega vegna þess að lengri tímabil snjóalaga hafa verið en undanfarin ár.

Verstu aðstæðurnar eru þegar mjög kalt veður og logn fara saman þá liggur mökkur yfir borgum og bæjum.

Mér er til efs að dagurinn í dag hafi mælt ryk yfir mörkum vegna þess að það er skárra að hafa rokið heldur en að hafa það ekki þangað til nagladótið fer að hverfa á brott.

Rigning og snjór eru hins vegar hátíð fyrir okkur sem eigum við asthmavesenið að stríða, að mínu mati,  meðan nagladekkjatímabilið er við lýði.

Íslendingar eru aftarlega á merinni varðandi það atriði að sporna við fæti varðandi þung ökutæki innanbæjar á nagladekkjum sem þýðir það að stagbæta þarf gatnakerfið reglulega með tilheyrandi kostnaði svo ekki sé minnst á heilsufarslega þáttinn.

kv.gmaria.

 

 


mbl.is Svifryk yfir mörkum í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flókið skattkerfi, hverra hagur ?

Ég sakna þess nokkuð að heyra meira af hugmyndum um flatan tekjuskatt sem gangi jafnt yfir fyrirtæki sem einstaklinga. Raunin er sú að notkun stjórnmálamanna á sköttum sem stýritæki hefur verið afar léleg hér á landi þar sem alls konar tímabundin gjaldtaka hefur endað sem viðvarandi gjald um áraraðir og nægir þar að nefna álögur á eldsneyti sem nota átti í vegagerð en hefur endað í misvel forgangsröðuðum verkefnum gegnum tíð og tíma.

Aukining þjónustugjalda í heilbrigðiskerfið undanfarin áratug er sérkapítuli út af fyrir sig þar sem meginhluti vergra þjóðarútgjalda rennur til starfsseminnar og skattprósenta í tekjuskatti hefur lítið breyst en gjöld hækkað að mun við notkun á hinum ýmsu sviðum frá grunnþjónustu til sérfræðiþjónustu.

Þjónustugjöld eru eitt form skattöku og síhækkandi gjaldtaka jafngildir hækkandi sköttum á landsmenn sem nota þurfa þjónustu þessa.

Skattkerfið og gjaldtöku hins opinbera hvers konar þarf því að taka saman sem heildarmynd.

kv.gmaria.

 

 

 


Var virkilega ekki hægt að sjá fyrir offjárfestingu í steinsteypuævintýrinu á höfuðborgarsvæðinu ?

Þarf einhverjum að koma á óvart hrun á húsnæðismarkaði miðað við þann hamagang og læti sem uppi hafa verið hér einkum á höfuðborgarsvæðinu ?

Oftrú Íslendinga á fjárfestingu í steinsteyptum húsum hlýtur að hafa eitthvað með það að gera að það er ekki langt síðan þjóðin hoppaði út úr torfkofum.

Fjármögnun þessa var og er í höndum einkabanka sem hoppuðu inn á húsnæðismarkaðinn fyrir ekki svo löngu síðan.

kv.gmaria.


Börnin erfa landið.

Það er afar ánægjlegt að sjá hvatningu til handa ungmennum og mætti gera meira af slíku sannarlega. Ég vil óska þessu unga fólki til hamingju með verðlaunin.

Hvatning og hrós eru mikilvægir þættir sem mun meira þarf að horfa á en verið hefur að mínu áliti, því við hneigjumst oft um of til þess að einblina á hið neikvæða og fjalla um það nær eingöngu.

Við eflum sjálfsmynd einstaklinganna með þvi að sjá hið góða og draga það fram hvar sem mögulegt er.

kv.gmaria.


mbl.is 13 ungmenni fengu Hvatningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband