Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Komandi kynslóðir kunna núverandi ráðamönnum vart þakkir er fram líða stundir.

Sú kynslóð sem nú er að hefja nám í framhaldsskólum landsins hefur upplifað þann kapítula í sögu þjóðar að ganga í uppeldinu gegnum markaðshyggjuþokumóðuna sem legið hefur yfir samfélaginu  þar sem markaðsþjóðfélag frelsis hefur ekki litið dagsins ljós heldur hefur sama gamla einokunarsmjörstykkinu verið skipti nokkuð jafnt millum þeirra sem á auði hafa haldið ellegar auðgast og að sjálfsögðu halda þeir hinir sömu áfram á einokunarbrautinni undir formerkjum hinnar meintu samkeppni sem engin er. Þegar stofnun hlutabréfamarkaðar í einu landi er þess eðlis sökum lélegra skilyrða í upphafi bókhaldslega að líkja má við það að nautum sé sleppt lausum úr girðingu þá stanga nautin einfaldlega allt niður sem fyrir verður í krafti fjármagnsins fyrst og fremst og stjórnmálamenn missa völd og áhrif og enda á hnjánum á bænateppinu fyrir framan fjármagnseigendurna. Hvert nýútskrifað grunnskólabarn sem hefur göngu í framhaldsskóla veit að lífsgæðakapphlaupið hefur snúist í öndverðu sína og alþjóðavæðingin byggir meira og minna á ódýru vinnuafli , nógu ódýru  alveg sama hvar það er meðan selja má drasl og græða á því.

Það er sem betur fer stutt í það að þetta unga fólk geri sig gildandi á sviði stjórnmála til að koma augunum fyrir ráðamenn sem enn vaða í villu og svíma í landi á norðurhjara veraldar þar sem fólk mun í framtíð verja lífsafkomu sína með hliðsjón af stjórnvaldsaðgerðurm sitjandi valdhafa sem ekki þora að anda á peningaöflin til eða frá af hræðslu þess efnis að tapa vinsældum.

kv.gmaria.


Hve lengi ætla íslenskir neytendur að láta bjóða sér óviðunandi þjónustu ?

Það ER óviðunandi þjónusta af hálfu þeirra sem ástunda verslun og viðskipti að fólk sem ekki getur talað og tjáð sig við viðskiptavini sé við störf sem útheimta slíkt. Sama máli gildir um alla þjónustu fyrir fólk í landinu og alveg sama hvort verið er að versla rándýra matvöru ellegar hafa viðskipti við þjónustustofnanir almennings sem eru á vegum hins opinbera. HINGAÐ OG EKKI LENGRA takk fyrir, gjörið svo vel að senda fólk á námskeið til að læra málið,  sem þið ætlið að veita störf í ykkar þjónustu við almenning í landinu.

kv.gmaria.

 


Hvers konar hugmyndir ráðamanna um valdaafsal íslensku þjóðarinnar á eigin ákvarðanatöku, er skref afturábak.

Sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar kom ekki á silfurfati því skyldum við ekki gleyma og það er eitt að hafa öðlast og eiga sjálfstæði og annað að selja það smám saman frá sér aftur fyrir nokkrar krónur hér og þar hinum og þessum til handa í endalausri göngu stjórnmálamanna til þjónustu við hagsmunaöfl þeirra er segjast eiga svo og svo mikla peninga hér og þar. Það er einnig eitt að viðhafa skipulag innan lands sem virkar illa eða ekki því við sjálfir getum jú enn tekið ákvarðanir um að breyta því hinu sama skipulagi en öðru máli gegndi án efa ef slíkar ákvarðanir væru komnar okkur til handa frá öðrum þjóðum .  Frelsi hvers einstaklings felst í sjálfstæði ákvarðanatöku um sitt nánasta umhverfi en enn höfum við vald um að velja okkur flokka við stjórnvölinn til eigin innbyrðis skipulags, sem eru og hljóta að vera verkefni þeirra sem valda eiga stjórnartaumum í landinu. Hvorki flokkar né heldur einstaklingar innan þeirra munu teljast ábyrgir meðan þeir hinir sömu kalla eftir stjórnvaldi erlendis frá til handa okkar þjóð.

kv.gmaria.


Hverju þarf að fórna fyrir 70 milljarðana, viðskiptaráðherra ?

Hér er dæmi um áróður viðskiptaráðherrans varðandi upptöku evru, sagt og skrifað.

kv.gmaria.


mbl.is Beinn ávinningur 70 milljarðar á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunadans Samfylkingarmanna kring um Evrópusambandið.

Var að lesa frásögn á bloggi  Guðmundar bloggvinar míns, af viðtali við utanríkisráðherra í kvöld í fréttum þar sem greinilegt daður við Evrópusambandsaðild er á ferð líkt og fyrri daginn en sams konar áróður hefur viðskiptaráðherra flokksins rekið undanfarið. Svo vill til að Samfylkingin hefur ekki látið sig varða fiskveiðistjórn við Ísland svo heitið geti frá stofnun flokksins og sjaldnast verið hægt að týna upp nokkurs konar skoðun flokksins á skipulagi mála á því sviði að öðru leyti en því að formaðurinn gekk nýtekinn við á fund LÍÚ með sáttaplagg um hið handónýta kerfi. Aðild að ESB þýðir það að Íslendingar afsala sér yfirráðarétti yfir fiskimiðunum að miklum hluta til en Samfylkingin hefur ekki rætt það nokkurn skapaðan hlut þótt slíkt valdaafsal þjóðar yfir auðlindum sé í sjálfu sér afar stórt mál. Allt tal um aðildarumsókn að Evrópusambandinu er hjóm eitt meðan menn hafa ekki skoðun á fiskveiðistjórn innanlands og vilja fela öðrum þjóðum ákvarðanavald í því efni án skoðunar á málinu í heild.

kv.gmaria.

 


Hugsanlega þarf að skoða áætlanagerðina í þessu sambandi.

Við skoðun á áætlunum fjármálaráðuneytis sem birst hafa fram í tímann  nú í nokkur ár, til dæmis um heilbrigðismálageirann verður að segjast eins og er að heildarútgjöld millum ára hafa varla verið uppfærð í samræmi við fólksfjölgun í landið hvað þá kostnaðaraukningu. Því skyldi engan undra að verkefni hvers konar á vegum hins opinbera standist ekki þegar upp er staðið. Hins vegar er það og hefur verið viðtekin venja að allt er lýtur að opinberum rekstri þurfi ekki að vera á núllinu. Ennfremur í þessu sambandi má geta þess hve skökku skýtur við að sitjandi ríkisstjórn gumi sig af tekjuafgangi meðan stofnanir hins opinbera kvarti yfir sárri fjárþörf til að uppfylla grunnþjónustuþætti. Þar er lítið sem ekkert samræmi á milli.

kv.gmaria.


mbl.is Flest verkefni fram úr áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur og karlar í pólítík, ólík aðferðafræði ?

Hef verið  og er með ákveðið rannsóknarefni í bakhöndinni, prívat og persónulega, af minni litlu þáttöku í pólítík sem og skoðun á framgöngu kvenna á stjórnmálasviðinu, þáttöku þeirra í stjórnun og setu við kjötkatlana gegnum árin sem og þjóðmálaþáttöku. Það eru margar konur sem standa jafnfætis karlmönnum á stjórnmálasviðinu sem hafa tileinkað sér sömu gömlu aðferðafræðina og tíðkast hefur lengi. Þær eru hins vegar allt of fáar sem ryðja brautina fyrir nýja aðferðafræði því miður sem ég tel að varði ekki hvað síst það atriði að konur láti sig varða mál öll, ekki bara sum eins venja hefur verið til þar sem konur eru meira og minna þáttakendur í nefndum og ráðum um uppeldis, mennta, heilbrigðis og öldrunarmál, ásamt félagsmálasviðinu í heild í stað þess að víkka sjóndeildarhringinn og vera virkir þáttakendur í umræðu um atvinnuvegina, efnahagsmálin, réttarfar skattkerfi og stjórnsýslu til dæmis. Konur eiga nefnilega ekki að setjast bak við eldavélina í stjórnmálum þótt ágætt sé að vera þar heima fyrir.

kv.gmaria.


Ráðherran hefur beðist afsökunar, hvað með aðstoðarmanninn ?

Afsökunarbeiðni úr samgönguráðuneytinu ?

Bæði samgönguráðherra og aðstoðarmaður hans hafa farið offari í ummælum um menn og málefni, þar sem ráðherrann dró einn mann fram til ábyrgðar í ummælum í klúðri um ferjukaup og aðstoðarmaðurinn bætti um betur og úthúðaði stjórnarandstöðuþingmanni sem gagnrýndi ummæli ráðherra og málið í heild. Helstu forsvarsmenn þjóðarinnar eiga ekki að ganga um með slíku fordæmi að mínu mati og óverjanlegt ef menn kunna ekki að skrifa afsökunarbeiðni í kjölfarið því ella eiga þeir hinir sömu lítið erindi í stjórnmálum, hvað þá við stjórnvölinn.

kv.gmaria.



Áróður trúlausra gegn þeim sem trúa, er það ekki lágmarkskurteisi með öðrum orðum siðmennt, að virðing ríki ?

Alls konar aukinn áróður félags sem heitir Siðmennt hefur verið hafður uppi undanfarin misseri þar sem oftar en ekki er spjótum beint að kristinni trú til dæmis og reynt að gera lítið úr því sem þar er á ferð. Fyrir mína parta virði ég það fullkomlega hvað menn kjósa að trúa á ellegar það atriði að menn séu trúleysingjar en að trúleysingjar þurfi að rífa niður trú manna tel ég illa eða ekki þjóna tilgangi sínum hvað varðar trúleysi og í raun fáránlegt fyrirbæri. Snýst málið um peninga varðandi athafnir manna eða hvað ? Spyr sá sem ekki veit.

kv.gmaria.


Einn frídagur í vikunni, amen.

Maður er farin að halelúja sunnudagana núna þegar vinna á laugardögum bætist við vinnuvikuna. Ég er enn að mála hjá mér eitt stykki íbúð nokkurn veginn og ég SKAL klára það fljótlega með nokkrum kílóum af þrjósku. Raunin er nefnilega sú að maður rífur sig sjálfan upp úr vangaveltum vandamálaspekúlasjónar hvers konar með því að fegra í kring um sig og fá í staðinn vellíðan.

kv.gmaria. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband