Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Hin samfélagslega ábyrgð okkar.

Við berum öll ábyrgð á voru samfélagi sem einstaklingar að því marki sem við látum okkur varða okkar nánasta umhverfi sem og samfélag það og umgjörð þá sem við lifum í. Það stoðar lítt að koma eftir dúk og disk og kvarta og kveina ef við tökum ekki þátt í að  reyna að móta það samfélag sem við viljum sjá til framtíðar, hvers eðlis sem er og hafa okkar áhrif til þess að móta það að okkar hugmyndum um framtíðina og lifið í landinu hér á norðurhjara veraldar. Við höfum umfram marga aðra íbúa veraldar þau hlunnindi að geta ung lært að lesa og skrifa og það tvennt veitir tjáningarfrelsinu brautargengi svo fremi við viljum það viðhafa.

kv.gmaria.


Vondur er Bakkus en verri er Fíklus.

Hin viðurstyggilega veröld fíkniefnaneyslu er eitthvað sem ég óska engum að kynnast, en sú er þetta ritar hefur mátt takast á við það að berjast við að koma einstaklingi út úr slíku í nokkur ár en það umhverfi sem til staðar hvað varðar fjölda manns við slíka iðju er ótrúlegt. Ósamstæð kerfi hins opinbera hvað varðar úrræði og biðlistar á ofhlöðnum stofnunum er það sem þarf einnig að berjast við. Helst þarf allt að fara til andskotans og umhverfið undirlagt áður en dyr opnast hér og þar til ýmissa bráðnauðsynlegra úrræða það þekki ég og lögreglan líka en lögreglan hjálpaði mér að koma viðkomandi inn á heilbrigðisstofnun til meðferðar við lok síðasta árs,  sem virkilega þurfti þá, hafandi mátt vista viðkomandi fársjúkan í fangaklefa, aftur og aftur um tíma. Hræðslan og óttinn við fíkniefnasalana er dominerandi í voru samfélagi því miður og þöggunin alger.  Þeir hinir sömu virkja hina skuldsettu þ.e neytendurna til þess að sinna þörfum markaðsins þegar hentar að ég best fæ séð og því er ánægjulegt að vita að lögregla sé með sérstakt átak til þess að sporna við slíku fyrir skemmtanahelgi þá sem framundan er. Afleiðingar ofnotkunar áfengis eru ömurlegar en afleiðingar fíkniefnaneyslu enn ömurlegri á alla lund og hinn þjóðhagslegi kostnaður af völdum þessa er mikill of mikill, til þess að hægt sé að þegja málin í hel.

kv.gmaria.


Er háhýsasamkeppni í gangi milli Hafnarfjarðar og Kópavogs ?

Byggingartilstandið virðist hafa náð nýjum hæðum og glerkumbaldinn á Smáratorgi rís hratt og nú hefur heyrst af hugmyndum um að hækka byggingar í miðbæ Hafnarfjarðar, líkt og Norðubakkakumbaldinn sé nú ekki nóg. Við Hafnfirðingar þurfum ekki að eyðileggja miðbæinn með slíku að mínu viti nóg er nú af skipulagsmistökum þegar farið er yfir í miðbæ höfuðborgarinnar. Við skulum leyfa sólinni að skína þar sem lágreist hús eru fyrir hendi og það er öruggt að bæjarstjórnir verða ekki endurkosnar út á hæð bygginga í sínum sveitarfélögum.

kv.gmaria.


Aukið ofbeldi ungmenna og samfélagsgerðin.

" Lengi býr að fyrstu gerð " segir máltækið og ef við höfum ekki tíma til að ala börnin upp þá gerum við það ekki seinna. Þar er ég ekki að tala um foreldra eina heldur samfélagið allt sem kemur að málum barna. Mér prívat og persónulega hefur ekki hugnast sú stefna að byggja " risaleikskóla og risagrunnskóla " ég vildi hafa séð færri og smærri einingar sem umgjörð um það starf sem þar fer fram innan dyra. Of mörg börn og of fá stöðugildi  innan veggja stofnanna hjá jafnt faglærðum sem ófaglærðum hefur verið viðkvæði í mörg herrans ár á fjölmennari svæðum landsins að mínu viti. Ég skora á fólk að íhuga hve gífurleg stærð eitt skólasamfélag er þar sem ef til vill um fimm hundruð börn  frá sex til fimmtán ára, eru samankomin í einum grunnskóla. Það þarf nægilega marga að störfum við aðgæslu svo margra barna á þessum aldri. Hið sama á við á leikskólum þar sem börnin eru að læra að mynda traust við hinn fullorðna á mótunarskeiði frumbernsku. Hvergi er mikilvægara að viðhalda stöðugleika í starfsmannahaldi en þar sem börn eru að mynda tengsl við hinn fullorðna en þar hins vegar hefur sú þróun lengst af verið sú að starfsmannavelta og umskipti eru allt of mikil vegna launa fyrst og fremst, þar sem uppeldi er ekki metið til markaðslauna og sparnaður í mannahaldi ætíð það eina sem menn sjá undir formerkjum ´meints sparnaðar.  Þessi mál þarf að skoða og gaumgæfa.

kv.gmaria.


Auglýst eftir "atvinnumótmælendum " í Fréttablaði dagsins, grín ??

Sá enginn þessa auglýsingu í Fréttablaðinu í dag þar sem óskað er eftir atvinnumótmælendum, í atvinna í boði ?

kv.gmaria.


HVAÐ er grunnþjónusta ?

Ég tel að við stöndum á tímamótum Íslendingar varðandi það atriði að ákveða hvað við teljum til grunnþjónustu og hvað ekki. Ef við berum saman mennta og heilbrigðiskerfi þá er þar um að ræða mismunandi áherslur fjárveitingavaldsins í því efni og hluti landsmanna á fjölmennustu svæðum býr við niðurgreitt aðgengi að sérfræðiþjónustu lækna, meðan aðrir landsmenn fá ekki mismun greiddan við aðgengi í þjónustuna en taka þátt í að veita hana í formi skatta þar að lútandi. Framhaldskólastigið innheimtir skólagjöld þannig að niðurgreiðsluformið nær ekki sama kapítula og í heilbrigðisáherslunum varðandi útdeilingu fjármuna til mennta jafnt sem heilbrigðis. Er ekki kominn tími til að fara að skoða hvað við teljum grunnþjónustu og hvað ekki ?

kv.gmaria.


Auðvitað skila skattalækkanir sér til einstaklinga og fyrirtækja.

Kemst því miður ekki á ráðstefnuna á morgun um skattalækkanir en sá viðtal í Kastljósi við einn framsögumanna á ráðstefnu þessari sem er í Þjóðminjasafninu en ekki  "Þjóðmenningasafninu " eins og datt út úr þáttastjórnanda í kvöld. Því minni skattaálögur á fyrirtæki því meiri möguleikar til þess að greiða laun sem nægja til framfærslu og því minni skattar á einstaklinga því meiri hvati til þess að vinna og eftirtekja af launum skilar sér til baka í formi aukinnar neyslu. Verslunarráðið hefur viðrar hugmyndir sínar um 15% flatan skatt og það atriði er sjálfsagt að skoða sem annað í þessu sambandi.

kv.gmaria.


Hin heilögu eftirlitskerfi hins opinbera, í fiskveiðum og heilbrigðismálum, sem ekki má anda á og illa þola gagnrýni.

Það er alveg hreint ótrúlegt til þess að vita hve illa hæf þjónusta er enn fyrir hendi hvað varðar eftirlitshlutverk hins opinbera hvort sem varðar fiskveiðikerfi ellegar heilbrigðiskerfi. Það er nefnilega hvoru tveggja sjálfsagt og eðlilegt að bæði þessi kerfi lúti nauðsynlegri gagnrýni notenda sem skattgreiðenda og eftirlitskerfi hins opinbera eiga að vera þess umkomin að svara gagnrýni málefnalega í stað þess að verja eigin aðferðfræði sem til staðar er sem hinn eina sannleika um aldur og ævi. Þótt eitthvað system hafi verið svona og svona, svo lengi , þá er enginn kominn til með að segja um það hið sama system kunni ekki að mega bæta og sökum þess þurfa þau kerfi sem kostuð eru af skattgreiðendum að vera opin fyrir gagnrýni og svara henni faglega.

kv.gmaria.


Ástand bifreiða í umferðinni og bifreiðaskoðun.

Því miður er ég ansi hrædd um að nokkur pottur sé brotinn í því efni að bifreiðar í umferð séu í lagi miðað við mína reynslu af skoðun bifreiða í þessu tilviki sitt hvorri bifreið.  Fyrri bifreiðin sem ég fór með í skoðun fyrir nokkrum árum hafði hagað sér þannig að þegar ég hægði á mér við ljós, dansaði afturendi bílisins sitt á hvað . Ég fékk eigi að síður fulla skoðun og ekkert fannst athugavert varðandi þetta tiltekna atriði. Ég fór í ferðalag á bílnum út á land í þessu ástandi og síðan aftur út á land en þá til bróður míns, sem sá hvað var að, sem var það að annað afturdekkið var ónýtt og belgur út úr því. Nú í vor fór ég með aðra bifreið í skoðun og þá hafði eitthvað skark hrjáð þá bifreið einkum við ferð yfir hraðahindranir og holur í vegum en ekkert fannst við skoðun sem benti á hvað þar ætti uppruna sinn. Það var ekki fyrr en ég fór aftur til bróður míns sem alltaf lendir í því að hjálpa upp á mína bíla að hann fann hvað var að. Annar afturdempari var brotinn og það fannst ekki í skoðuninni. Ég fékk þann ágalla lagfærðan en ekki vegna hinnar löggildu skoðunar í þessu efni.

kv.gmaria.


mbl.is Bremsur gáfu sig á óskoðuðum bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Megi góður Guð styrkja og styðja fólkið hans Einars Odds.

Ég votta aðstandendum Einar Odds Kristjánssonar mína dýpstu samúð, og sendi þeim kærleiksríkar hugsanir sem og frændum og vinum frá Flateyri. Það er ætíð erfitt að ganga kveðjugöngu þegar fólk hverfur brott úr þessum heimi fyrir aldur fram eins og gerðist með Einar Odd. Hann var maður sem þorði að stíga ölduna án þess að hugsa út í það , af hvaða átt vindurinn blési, fyrir það átti hann virðingu mína og margra annarra samferðamanna á stjórnmálasviðinu. Það átti jafnt við skoðanir sem hinn mannlega þátt því þegar hamfarir dundu yfir Flateyri þá reyndi hann ekki að leyna harmi sínum heldur grét með sínu fólki þær miklu hörmungar sem hrjáðu og voru miklar fyrir eitt samfélag. Megi minning um góðan dreng lifa.

Guðrún María Óskarsdóttir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband