Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013
Utankjörfundarkosning er í Laugardalshöllinni, fram að kjördegi.
Miðvikudagur, 24. apríl 2013
Á höfuðborgarsvæðinu geta allir þeir sem ekki eru heima á kjördag kosið í Laugardalshöllinni, þar sem opið er frá kl. 10 um morgun til kl. 22. um kvöldið, fram að kjördegi.
Það er sannarlega mikilvægt að greiða atkvæði sitt og ástæða til þess minna á möguleika til þess hins sama, en þar sem millifrídagur, Sumardagurinn fyrsti fer í hönd fyrir kjördag, kann að vera að einhverjir taki sér frí og leggi land undir fót af heimaslóðum.
Kosning í Laugardalshöllinni er þægilegur og góður kostur, fyrir þá sem ekki eru heima á kjördag.
kv.Guðrún María.
Tæplega 20.000 hafa kosið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagspistill.
Sunnudagur, 21. apríl 2013
Það var hálfgerður vetur hér í Rangárþingi í dag, með dimmum éljum og snjókomu á köflum, sem festi þó ekki sem snjó á jörð þar sem sólargeislar læddust inn á milli og bræddu af jörðinni.
Tjaldurinn blessaður heldur áfram að minna mann á það að vorið er á næsta leyti með söng allt um kring.
Íslenska vorið er yndislegt og þegar sauðfé kemst úr húsi með lömb á leik á túni, þá er vorið komið í huga bóndadótturinnar svo ekki sé minnst á það er kúm er hleypt úr fjósi.
Ég trúi því og hef reyndar alltaf trúað því að sveitir landsins eigi eftir að blómstra að nýju og ræktað land á Íslandi verði í frekara mæli notað og nýtt til matvælaframleiðslu, með fjölgun starfa við landbúnað, og dreifingu byggðar um land allt, til hagsbóta fyrir land og þjóð.
Fyrir mig hefur það verið ánægja að eiga búsetu um tíma að nýju í fallegri sveit í Rangárþingi, með nánd við náttúru landsins.
Nándin við náttúruna er holl fyrir sál og líkama.
kv.Guðrún María.
Góð tilfinning að greiða atkvæði sitt um stjórn þessa lands.
Föstudagur, 19. apríl 2013
Fór í dag að kjósa utankjörfundar og setti á mig hálsfesti aldrei þessu vant þessa dagana sem tákn um mikilvægi þess hins sama fyrir mig sem einstakling.
Ástæða þess að ég kýs utankjörfundar er sú að ég stend í flutningum á annan stað og ætla ekki að láta það mæta afgangi að greiða atkvæði um stjórn landsins.
Skoðanakannanir að undanförnu vekja hjá mér von um það að styrk ríkisstjórn muni koma til sögu að loknum þessum þingkosningum og það er landsmönnum til hagsbóta, hafandi mátt horfa upp á innbyrðis átök og erjur millum sitjandi rikisstjórnarflokka undanfarið kjörtímabil.
Þótt illindi og erjur hafi verið allt að því íþrótt hjá þjóð vorri gegn um tíðina ekki hvað síst á stjórnmálasviðinu þá skyldum við aldrei áætla sem svo að það hið sama þurfi endilega að ríkja áfram.
Sandkassapólítik á ekki erindi til framtíðar, heldur samvinna um hagsmuni eins þjóðfélags til lengri og skemmri tíma litið.
kv.Guðrún María.
Um daginn og veginn.
Mánudagur, 15. apríl 2013
Er í því að leita að þaki yfir höfuðið þessa dagana og pakka niður frá einum verustað á annan hver svo sem sá hinn sami kann að verða.
Ekkert er leiðinlegra en öryggisleysi í þeim efnum, en gera verður víst fleira í lífinu en gott þykir.
Vorið er á leiðinni og vonin eykst alla jafna með birtu og yl vorsins í flestu sem við er að fást, hvort sem það er þetta verkefni eða einhver önnur.
Vona að ég geti farið að stunda mína göngutúra aftur fljótlega sem og að finna nýja sjúkraþjálfun á nýjum stað til þess að passa upp á það sem eftir er af heilsutetrinu.
Ég mun hins vegar örugglega sakna sveitarinar sem ég bý í núna við hliðina á Jöklinum mínum, hinum mikilhæflega, og náttúrunni allt um kring, en allt hefur sinn stað og tíma og þökkin fyrir að fá að njóta þess hins sama um tíma, lifir.
kv.Guðrún María.
Vilhjálmur vill ekki að Framsóknarflokkurinn stígi á bremsu öfgafrjálshyggju síðari ára.
Sunnudagur, 14. apríl 2013
Raunin er sú Framsóknarflokkurinn hefur oftar en ekki stigið á bremsu öfgafrjálshyggju sem miðjuflokkur hvort sem mönnum líkar betur eða ver.
Sökum þess er það hvoru tveggja gott og hollt að sá hinn sami flokkur taki forystu til framfara, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur eðli máls samkvæmt ekki einkaleyfi á því hinu sama.
Vilhjálmur er hins vegar einn fárra nýlíða í framboði í Sjálfstæðisflokknum fyrir þessar kosningar og lætur gamminn geysa að venju ef svo ber undir og nú virðist hann hafa tekið upp á því að flokka syndir í stjórnmálum....
Kosningabarátta tekur alla jafna á sig margar myndir sem frambjóðendur mála vissulega hver fyrir sig og Vilhjálmur er búin að mála syndamynd, það kemur svo í ljós hvort fleiri hyggjast mála sams konar myndir.
kv.Guðrún María.
Syndir framsóknarmanna eru stórar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Svo fær maður reikninga áfram þótt maður sé hættur viðskiptum við fyrirtækið....
Sunnudagur, 14. apríl 2013
Sú er þetta ritar flutti út á land og varð að skipta um símafyrirtæki þar sem þjónusta Vodafone er ekki til staðar á því svæði sem ég bý. Þjónustunni var því sagt upp en áfram komu reikningar og ég hafði greitt meira en ég átti að gera.
Ég hafði samband við fyrirtækið sem tók til við að leiðrétta þessi mistök, sem átti sér stað í lok febrúar og taldi ég þar með málið úr sögunni.
Nei nú fyrir nokkrum dögum fékk ég aftur reikning upphæði þjóunustunnar sem var sagt upp í nóvember á síðasta ári, þrátt fyrir að búið væri að leiðrétta vitleysuna þess efnis mér best vitanlegaí lok febrúar.
Ég leggst nú undir feld og íhuga hvernig ég á að snúa mér í þessu máli, en það skal viðurkennt að það fauk í mig.
kv.Guðrún María.
Ekki kerfisbundin skekkja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hraðakstur færist í vöxt aftur, því miður.
Þriðjudagur, 9. apríl 2013
Ég hefi verið á flakki á þjóðvegum Suðurlands frá því ég flutti austur og mér finnst menn þurfa að flýta sér æ meira nú orðið, þ.e. ekki virðist duga að vera á leyfilegum hámarkshraða, sem maður merkir þegar ekið er framúr manni á þeim hinum sama hraða.
Hins vegar er það svo að ég mæti ekki lengur eins mörgum lögreglubílum til dæmis yfir Hellisheiði og ég gerði um tíma og sennilega kemur þar til sögu niðurskurður til lögreglunnar en sýnileiki lögreglu á vegunum virkar í þessu efni.
kv.Guðrún María.
Hefur áhyggjur af hraðakstri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um daginn og veginn.
Mánudagur, 8. apríl 2013
Leita og leita aftur að þaki yfir höfuðið eins skemmtilegt og það nú er, með svimandi háar tölur sem leiguverð á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.
Á maður að leigja þak yfir höfuðið fyrir allar manns mánaðartekjur og láta auðnu ráða hvort maður hefur í sig og á, eða pakka saman einu stykki heimili og búa í herbergi sem hugsanlega inniheldur tölur sem hægt er að ráða við ?
Það er áleitin spurning þessa dagana hjá mér, hver verður niðurstaðan á eftir að koma í ljós.
Það væri nú fróðlegt vita einhvers konar tölulega stöðu á húsnæðismarkaði, hvað sitja fjármálastofnanir með mikið af auðu húsnæði til dæmis, hve mikið á Íbúðalánasjóður og hve mikið er framboðið á markaði ?
Hefur fólki fjölgað og þarf kanski að byggja meira , eða hvað ?
Spyr sú sem ekki veit.
kv.Guðrún María.
Hvers vegna geta fullvinnandi verkamenn á Íslandi varla leigt eða keypt húsnæði á húsnæðismarkaði ?
Föstudagur, 5. apríl 2013
Getur verið að umsamin laun á vinnumarkaði fyrir fulla vinnu verkamanns séu langt frá einhvers konar framfærsluviðmiðum ?
Svarið er já, svo hefur verið í all mörg ár, það þekkir sú er þetta ritar sem fór í greiðslumat á ákveðnum tímapunkti hjá fjármálastofnunum til þess að meta möguleika til kaupa á húsnæði samkvæmt launatekjum.
Staðan var sú að fyrir lifstíð samkvæmt sömu launum var slíkt ekki fyrir hendi með sömu launakjörum, þá í vinnu sem skólaliði grunnskóla í mínu sveitarfélagi með alla mögulega starfsmenntun til þess arna.
Eini möguleikinn var að fara á biðlista eftir félagslegu húsnæði, en þangað til aðstoðaði sveitarfélagið við það að komast í leiguíbúð á frjálsum markaði með því að lofa styrk sem var breytt í lán og lánið var síðan tekið af húsaleigubótum, án þess að láta mig svo mikið sem vita, er ég fékk úthlutað félagslegri leiguíbúð, þannig að leiga var eðli máls samkvæmt hærri.
Raunin er sú að laun ófaglærðra verkamanna á íslenskum vinnumarkaði eru úr öllu samhengi við allt sem heitir framfærsla einstaklings til þess að hafa hvoru tveggja þak yfir höfuðið og í sig og á.
Meðan verkamenn samþykkja slík tilboð um launakjör hér á landi af hálfu sinna forystumanna í Verkalýðsfélögum sem bera slíkt á borð, breytist lítið í þeim efnum.
kv.Guðrún María.
Gylfi: 20% leiðin hjálpar ekki tekjulágum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ég gæti sagt svo margt og mikið.....
Fimmtudagur, 4. apríl 2013
... mælt í hljóði, hafið raust,
en þótt í burtu, þyrlist rykið,
það kemur aftur endalaust.
Það er rétt hjá Sigurði að heilbrigðismál hafa alla jafna ekki verið kosningamál, en hvað veldur ?
Hvað hafa margir læknar setið á Alþingi undanfarin kjörtímabil ?
Fáir.
Hvers vegna ?
Laun ?
Kanski.
Mín skoðun er hins vegar sú eins og áður að núverandi kerfi þarfnist skoðunnar við, ekki hvað síst varðandi það atriði að efla grunnþjónustu við heilbrigði sem aftur hefur með það að gera hve mikið álag er til staðar á Landspitala Háskólasjúkrahús.
Jafnframt þarf að dreifa verkefnum og nýta húsakost úti á landi sem aftur skapar störf og er skynsamleg og eðlileg ráðstöfun verkefna sem eykur aðgengi íbúa að þjónustu og lágmarkar þörf fyrir kostnað sjúklinga við ferðalög til höfuðborgarinnar.
Einnig þarf að taka fyrir skipulag Landspítala Háskólasjúkrahúss og rýna ofan í kjölinn í stjórnunarlega ábyrgð, fjölda starfa við það hið sama og árangursmeta þá hina sömu stjórnun með tilliti til gæða þjónustunnar.
Enn skortir því miður samhæfingu millum fagaðila sem starfa saman í sama kerfi og ætlað er að vinna í samfellu til handa þeim sjúklngum sem þangað koma, það er margra ára saga þar sem ekkert breytist, sem er slæmt.
Skortur á þeirri hinni sömu samhæfingu lendir sem aukinn kostnaður eins samfélags og endurtekning innlagna æ ofan í æ sem telur jú meiri innlagnir en ekki samfellu í meðferð sjúklinga sem þeir hinir sömu eiga eigi að síður rétt á samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga.
Það er þvi ekki nóg að setja bara endalaust fjármagn í heilbrigðismál ef menn leggja sig ekki niður við að skoða kerfið ofan í kjölinn að mínu viti, þar sem grunnþjónusta við landsmenn alla þarf að vera í lagi, til þess að lágmarka álag á hátæknisjúkrahúsið, og eðli máls samkvæmt þarf sú þjónusta að i lagi á fjölmennasta svæðinu en þar er hún því miður næstum ónýt.
kv.Guðrún María.
Farin fram af bjargbrúninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |