Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012
Íslenska ullin er einstakur varmagjafi.
Þriðjudagur, 31. júlí 2012
Þetta verkefni sem hér má lesa um er eitthvað sem ég óska viðkomandi til hamingju með og mér kæmi ekki á óvart að ætti eftir að slá rækilega í gegn.
Eiginleika ullarinnar til þess að draga úr verkjum og bólgum þekki ég af eigin raun þar sem ég hefi notað værðarvoð sem ég fékk í fermingargjöf, til þess að hjálpa mér með bakverki, til lengri og skemmri tíma.
Ég sef á ullinni um leið og kólnar að hausti og líður betur í líkamanum.
Sama máli gegnir um kvef hósta og pestir þá sef ég með ullartrefla vafða um hálsinn sem mér finnst hjálpa með sama móti sem varmagjafi.
Íslenska ullin er einstök.
kv.Guðrún María.
Hitahlífar úr íslenskri ull gegn bólgum og verkjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ég um mig frá mér til mín....
Mánudagur, 30. júlí 2012
Mér finnst það ekki skemmtilegt að þurfa að ganga kæru og kvörtunarleiðir minna erinda gagnvart mér sjálfri og mínum hagsmunum en raunin er sú að stundum knýr nauðsyn til þess arna.
Tilkomnar skuldir fara ekki eitt eða neitt frá manni, spurningin er hins vegar hvernig er mögulegt að takast á við þær hinar sömu og gegnum tíðina hafa samningar verið sú leið sem ég þekki til þess arna að því marki að semja um það sem mögulegt er að ráða við.
Stundum gengur það vel á öðrum tíma miður.
Húsaleigusamningi mínum hér í félagslegri leiguíbúð, var rift vegna skulda í janúar 2010, og húsnæðisskrifstofa eða lögfræðingur hennar fékk tíma hjá sýslumanni til útburðar. Þá gekk ég til nauðasamninga við þann hinn sama lögfræðing sem aftur fór til húsnæðiskrifstofunnar til samþykkis.
Þar var einungis í boði samningur sem þýddi greiðslur sem ég ekki réði við og náði ekki að greiða nema einn mánuð, en í kjölfarið leitaði ég eftir því að fá að greiða það sem ég gæti en því var hafnað og óskaði þá eftir því við yfirmann húsnæðisskrifstofu, að ég yrði látin vita, hvenær ég þyrfti að fara úr íbúð þessari.
Um það bil tveir mánuði liðu og þá hefur við mig samband stúlka frá húsnæðisskrifstofu sem segir að það þurfi að koma mér inn á húsaleigubætur aftur og biður mig að skila umsókn, sem ég geri.
Skömmu síðar lendi ég í vinnuslysi og ég heyri ekkert frá einum eða neinum í um það bil heilt ár, uns fulltrúi á húsnæðiskrifstofu hefur samband við mig á haustmánuðum 2011, og spyr mig hvort ég geti ekki farið að greiða áfallandi leigu aftur sem ég geri í upphafi árs 2012 en fer síðan í viðtal við sama fulltrúa í febrúar þar sem óskað er eftir því að ég greiði niður eldri skuld en ég óska eftr fresti til þess uns mínum slysauppgjörsmálum sé lokið, en hún gefur mér frest fram í maí til þess hins sama.
Málið var hins vegar sent í lögfræðing áður en maí var liðinn og mér sagt að ég hefi aðeins haft frest til maí ekki fram í maí.
Aðkoma lögfræðings í þetta skuldamál á þessum tímapunkti, þýddi 198, þúsund króna þóknun fyrir að rifta leigusamningi, fyrir húsnæðisskrifstofu sem hafði áður verið rift 2010 af sama lögfræðingi þá sem þá kostaði 110, þúsund.
Húsnæðisskrifstofan þurfi enga nýja aðkomu lögfræðings með tilheyrandi kostnaðarhækkun heldur einungis eitt bréf til mín þess efnis að óska eftir því að ég, leigusamningslaus frá 2010, færi úr húsnæðinu.
Einn einstaklingur verður ekki dreginn tvisvar fyrir dóm til þess að dæma sama löggerning, þ.e að rifta húsaleigusamningi.
Lögmaður lagði í málsskjölum fyrir dóminn plagg sem er með einni undirritun af hálfu yfirmanns húsnæðiskrifstofunnar, án minnar undirskriftar og án votta, til þess að láta dæma riftun við mig.......
Vegna eldri skulda fæ ég ekki neinn leigusamning, fyrr en ég get greitt niður eldri skuld, samkvæmt reglum, þótt ég hafi greitt leigu frá janúar 2012, og síðasti leigusamningur er frá 2009, sem eins og áður sagði var rift í upphafi árs 2010.
Það er afar óljóst í þessu máli hverjum er hagur í því að hækka skuld þess sem er í nógu erfiðri tekjustöðu þá og þegar við aðkomu lögfræðings í mál þetta, ásamt þvi að reyna að framkvæma löggerning sem áður hafði verið gerður.
Það eru fleri atriði í máli þessu sem ég hefi lagt inn sem stjórnsýslukæru um framkvæmd mála þessara en tel ekki upp hér.
kv.Guðrún María.
Aftur í matvörubissness.
Sunnudagur, 29. júlí 2012
Ég óska Jóhannesi alls góðs eins og öllum öðrum en verð að viðurkenna að ég undrast að sá hinn sami hafi ekki fengið sig fullsaddan af störfum í matvörubissness hér á landi, þar sem frekar langt er um liðið síðan hann var verslunarstjóri SS í Háaleitinu, að mig minnir þau tíu ár sem við störfuðum saman hjá sama félagi í þá daga.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og Bónus ævintýrið varð að veruleika sem enn er meðal vor en vissulega verður fróðlegt að vita hvernig samkeppni kemur til með að verða svo ekki sé minnst á hag neytenda í þvi sambandi.
Kostur, Bónus og Krónan eru í nágrenninu og það skyldi þó aldrei vera að nýr samkeppnisaðili komi til með að lækka verðið.
Kemur í ljós.
kv.Guðrún María.
Margmenni við opnun Iceland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Refurinn er eins og markaður án landamæra.
Laugardagur, 28. júlí 2012
Detti mönnum það i hug að það sé bara hægt að hætta því að halda refum í skefjum þá er það ekki svo, því rándýrið refurinn er eins og markaður sem enginn hefur mörkin.
Þetta er sennilega fimmta eða sjötta bloggið sem ég skrifa, ár eftir ár, til þess að reyna að minna menn á það að refum þarf að halda í skefjum, eins og minkum ef vilji er til þess að viðhalda búskap með kindur sem og náttúru og fuglalífi á landinu.
Samræmdar aðgerðir stjórnsýslustiganna tveggja, ríkis og sveitarfélaga þarf því að vera að finna í þessu efni, ekki eftir nokkur ár, heldur þetta ár, sem árin framundan.
kv.Guðrún María.
Hefur misst 173 lömb í tófuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kærleikurinn á sér ekki endamörk.
Laugardagur, 28. júlí 2012
Til mín hringdi kona fyrr í vikunni, sem kallar sig " Gamlan Gaflara " en heitir Margrét Guðmundsdóttir og vildi styðja mig með því að opna söfnun mér til handa, varðandi baráttu mína til að halda þaki yfir höfðinu.
Viðbrögð mín við þessu símtali voru tár, því einhvern veginn fannst mér allt það fallegasta í mannlegri tilveru vera eitthvað sem mér hafði verið auðsýnt af annarri manneskju sem ég þekkti ekki neitt en bjó í mínu bæjarfélagi og var ekki sama um framgang mála.
Við hittumst síðan skömmu síðar og þá kom það í ljós að við eigum það sameiginlegt að hafa starfað með börnum, hún sem kennari en ég sem skólaliði, en einnig er trúin á æðri mátt í öllum hlutum okkur sameiginleg.
Fegurðin í mannsálinni sem og trú á mínu samfélagi og mínu bæjarfélagi jókst til muna við að þessi kona skyldi hafa fyrir því að sýna umhyggju sína mér til handa með þessu móti, sem er ekki aðeins fallegt, heldur einnig vottur um það að eitt samfélag er samfélag manna með skilning og vitund fyrir því hvernig náunganum líður.
Elsku Margrét Guðmundsdóttir, mikilhæfa dugnaðarkona, hjartans þakkir.
kv.Guðrún María.
Augnablikssýn á íslenskt samfélag og stjórnarfarið.
Fimmtudagur, 26. júlí 2012
Hvernig er stjórnarfarið í einu landi í kjölfar efnahagshruns ?
Það birtist með ýmsu móti, en þó einkum á þann veg að líkt og fyrri daginn er tilhneigingin til þess að spara aurinn en kasta krónunni í alls konar ákvarðanatöku frá því smæsta upp í það stærsta, alls ráðandi, með það yfirmarkmið að setja fram rekstarlegar tölur sem geta verið viðkomandi yfirvöldum þóknanlegar svo nái endurkjöri næsta kjörtímabil, líkt og ekki komi annað kjörtímabil síðar.
Til dæmis hamagangur Reykjavíkurborgar þess efnis að sameina skóla á stóru svæði og lágmarka þjónustu íbúa í heilum hverfum sem upphaflega byggðust sem eining, undir formerkjum sparnaðar, gott dæmi um það að spara aurinn en kasta krónunni, sökum þess að þar sem samfélagsþjónusta sem slík er skorinn niður verður verðfall á eignum íbúa og hnignun þeirrar einingar sem átti að byggja sem samfélag.
Annað dæmi má finna þessa efnis hér í mínu bæjarfélagi, þar sem hamagangur gagnvart öryrkjum og efnalitlu fólki þess efnis að henda þeim úr leiguhúsnæði á vegum bæjarins vegna skulda þar sem vísitölutengdar hækkanir eru innifaldar á hverri krónu sem viðkomandi skuldar, ásamt dráttarvöxtum hafa sinn framgang með viðbótar stjórnvaldsákvörðunum um aukinn kostnað við lögfræðiinnheimtu, sem hækkar skuld viðkomandi sem ekki er líklegt að hafi meiri greiðslugetu við það hið sama.
Hinir sömu aðilar telja að þeir standi sig vel við innheimtuaðferðir án íhugunnar um að vandi efnalítilla fjölskyldna fer ekkert við að flytja hann til með því að henda fólki út en vissulega geta menn sýnt fram á hreyfingu á biðlistum eftir húsnæði sem slíku, en líklegt er að þeim efnaminni sem hvorki hafa getað keypt eða leigt, á almennum markaði, sé þá nauðugur sá kostur að búa í tjaldi og munu þá rísa tjaldbúðir.
Með öðrum orðum menn eru afskaplega uppteknir um að vanda sig við það að spara aurinn en kasta krónunni, sópa vandanum undir teppið í stað þess að taka á honum og finna úrlausnir.
Eðli máls samkvæmt er það algalin leið að hækka skatta í kreppu, til þess eins að ríkisreikningurinn líti vel út á blaði, þótt fólkið i landinu geti ekki lifað í þessu skattaumhverfi.
Þveröfug aðferð þ.e að lækka skatta í slíku ástandi er aftur á móti hvetjandi aðgerð í þá veru að örva hagkerfi sem þarf að byggja upp og halda fyrirtækjum gangandi sem bjóða vinnu og þar af leiðandi minna atvinnuleysi við lýði og hækkandi tekjustig.
Það hefur verið mjög fróðlegt fyrir okkur Íslendinga að kynnast hagstjórn hér á landi sem hefur annars vegar komið frá hægri ríkisstjórn og hins vegar vinstri stjórn undir somu formerkjum eigi að síður hvað varðar það sem ég vil kalla núllþráhyggju í ríkisbúskapnum varðandi það að enginn þorir að skulda eina krónu þar á bæ til þess að byggja upp framtíðina og núverandi kynslóð á vinnumarkaði skal hvoru tveggja bera brúsa efnahagslegrar niðursveiflu og rýrnunar fjármuna ásamt aukinni skattlagningu samtímis.
Þetta er min augnablikshugleiðing um vort stjórnarfar hér á landi í dag.
kv.Guðrún María.
Lýðræðisumbætur taka tíma, en stórt skref var stigið í Icesavemálinu.
Fimmtudagur, 26. júlí 2012
Mín skoðun er sú að nú þegar hafi átt sér stað ferli sem ekki verður aftur snúið með á veg lýðræðisumbóta af þeim toga að færa almenning nær ákvarðanatöku um hin ýmsu mál, hvort sem mönnum líkar betur eða ver.
Þrátt fyrir alls konar agnúagang núverandi valdhafa í garð forseta vors, varðandi beitingu ákvæðis stjórnarskrár um að fela almenningi vald um lög í landinu, þá ættu þau hin sömu í raun að þakka fyrir að þetta skref var stigið, því það leiðir eina þjóð fram á veg, frekari lýðræðisumbóta.
Jafnframt á sér stað ákveðin vitundarvakning meðal almennings varðandi það atriði að taka þátt í ákvörðunum um eigin mál, þegar möguleikinn er til staðar.
kv.Guðrún María.
„Sigur lýðræðislegrar byltingar“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Markaðshyggjuþokumóðan ?
Þriðjudagur, 24. júlí 2012
Það er einhver dulúð sem fylgir þokunni og sannarlega sérstakt að sjá Esjuna pakkaða inn í þokumóðu.
Hér á árum áður eyddi ég miklu magni af orðum að ræða markaðshyggjuþokumóðuna sem mér fannst ganga ljósum logum, allt þar til hrundi hér í efnahagslífi einnar þjóðar, en hefur eitthvað breyst frá þeim tíma ?
Held ég hafi lesið rétt að skilanefnd Kaupþings hafi verið að höfða mál gegn lífeyrissjóðunum, sem áður hafði verið lesið um að ættu að fjárfesta í flestu á komandi árum hér á landi í formi Framtakssjóðs en samkvæmt fréttum einnig hafa þó tapað nokkur hundruð milljörðum.
Eitthvað finnst manni þetta skringileg rúlletta, og spurning um hvort menn gangi kanski enn um í markaðhyggjuþokumóðunni, þrátt fyrir yfirlýsingar um allt annað.
kv.Guðrún María.
Esjan hulin þokufjalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Guð blessi norsku þjóðina.
Mánudagur, 23. júlí 2012
Það er erfitt að minnast þessarra voðaatburða sem áttu sér stað fyrir ári síðan, því úrvinnslan úr sorginni tekur tíma fyrir aðstandendur, en það var falleg stund sem við fengum að sjá frá Noregi í kvöld þar sem fólk sameinaðist við stund sem slíka.
Megi góður Guð vera með þeim sem misstu sína í þessum harmleik.
kv.Guðrún María.
Lögðu rósir við minningarreitinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það var í Þykkvabænum....
Mánudagur, 23. júlí 2012
Ég sendi hamingjuóskir í Þykkvabæinn með Kartöfluhátína, sem er sannarlega flott framtak hjá þeim svo ekki sé minnst á listasýningar því til viðbótar.
Það var í Þykkvabænum sem ég steig mín fyrstu spor á vinnumarkaði fjórtán ára gömul, við vinnu í sláturtíðinni en 16 ára hafði ég fundið æskuástina mína þar sem ég síðar giftist, og dvöl mín í Þykkvabænum á þeim tíma því meiri en ella árin fram yfir tvítugt er leiðir okkar skildu.
Þykkvabærinn var á þessum árum einstakt samfélag af sveit og þorpi, þar sem kartöfluræktin var í blóma samhliða blönduðum búskap hjá mörgum.
Heyskapur og rollutilstand allra handa, ásamt heyskap og auðvitað kartöfluupptöku var eitthvað sem litaði mannlífið, og eitt sinn var stödd á kartöfluvél er Hekla hóf að gjósa og það var sérstök upplifun að sjá það.
Þykkvibærinn á stóran kapítula í mínum minningasjóði, enda eins og áður sagði
einstakt samfélag.
kv.Guðrún María.
300 manns gæddu sér á kartöflusúpu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |