Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Borga launþegar semsagt braskið á hlutabréfamarkaði með lagaboði ?

Launþegi skal samkvæmt lagaboði greiða iðgjöld í lífeyrissjóð, og sjóðurinn fer síðan og braskar með iðgjöldin í fjárfestingum í hlutabréfum.

Ef sjóðirnir tapa er lífeyrir skertur frá því sem áður var lofað, en því til viðbótar er einnig önnur löggjöf sem gerir það að verkum að skerða greiðslur með samtengingu við almannatryggingar þannig að launþeginn fær aldrei meira en sem nemur almannatryggingaupphæðinni að virðist.

Launþegar halda því uppi braski á hlutbréfamarkaði að virðist með lagaboði frá Alþingi, og síðan sér sama Alþingi til þess með tekjutengingum að ávinningur launþegans er kemur að töku lifeyris verði enginn, þegar upp er staðið.

Algjör snilld.

kv.Guðrún María.


mbl.is „Kerfið byggist á braski“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið og meðferð þess.

Það er nú afar ánægjulegt að framkvæmdastjóri Landssambands smábátasjómanna skuli vilja auka lýðræði lífeyrissjóðanna, en hvað með lýðræðið í hans eigin félagi er það á góðu róli ?

Hafa sömu menn setið við borðið í áratug, eða er regluleg endurnýjun í stjórn félagsins ?

Hafa tillögur sem samþykktar hafa verið á fundum félagsins náð fram að ganga, varðandi fiskveiðistjórnun hér við land, eða hefur þeim verið stungið undir stól ?

Mín skoðun er sú að Landssamband smábátasjómanna hafi því miður ekki verið þess umkomið að standa vörð um frelsi smábátasjómannsins til veiða á Íslandsmiðum gegnum tíðina, hvað svo sem veldur.

kv.Guðrún María.


mbl.is Vildu ekki ræða breytingu á stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna eiga að bera ábyrgð.

Umsýsla fjármuna sem innheimt er samkvæmt lagaboði eins og er um iðgjöld launþega í lífeyrissjóði, á ekki að geta verið háð mismunandi mati við áhættufjárfestingar þeirra hinna sömu fjármuna af hálfu þeirra sem þar fara með forsvar.

Fyrir löngu síðan hefði átt að koma til einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn, með stjórn þar sem mönnum væri skipt út reglulega á fimm ára fresti eða svo.

Miðaldalýðræðið sem fólst í því að stjórnir verkalýðsfélaga skipuðu í stjórnir lífeyrissjóða heyrir vonandi sögunni til fljótlega.

Fyrir löngu síðan hefðu einnig átt að liggja fyrir skýr markmið um það í hverju sjóðum þessum væri heimilt að fjárfesta og hverju ekki, með tilliti til hagsmuna eigenda fjármuna í þessu sjóðum, sem eru launþegar í landinu.

Þrjú hundruð þúsund manna samfélag stækkaði ekki í einhvern markað þótt stofnuð væri Kauphöll, né heldur breyttist fámennisklíkugangurinn eitthvað við það hið sama og það atriði að sömu menn sætu á sama stað áratugum saman innan Verkalýðshreyfingarinnar og skipuðu síðan sér þóknanlega menn í forsvar lífeyrissjóðanna orkaði eðli máls samkvæmt engri umbreytingu né endurskoðun.

Raunveruleg skýrsla um tap sjóðanna þarf að sýna yfirlit yfir fjárfestingar frá stofnun hlutabréfamarkaðar hér á landi og allt það flakk með fjárfestingar sem sjóðir þessir stóðu í.

Forsvarsmenn hvers sjóðs fyrir sig bera þar ábyrgð, fyrst og síðast, sú ábyrgð verður ekki yfirfærð á markaðsmennina.

kv.Guðrún María.


mbl.is Hafnar því að bera ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað þarf að endurskoða lög um lifeyrissjóðina.

Hræðsla stjórnmálamanna við að rugga bát verkalýðshreyfingarinnar hefur verið fyrir hendi og er enn fyrir hendi því miður, þar finnast þó undantekningar hjá einstökum þingmönnum en því miður allsendis ekki nógu mörgum.

Sökum þess hefur engin endurskoðun á skipulagi sjóðanna farið fram á þingi um langan tíma.

Í raun er þessi skýrsla einnig áfellisdómur yfir starfssemi verkalýðshreyfingarinnar sem skipar í stjórnir sjóðanna, og fróðlegt verður að vita hvort menn munu nú loksins gera launþegum kleift að hafa aðkomu að kosningu í stjórnir sjóða þessarra eftir þessa skýrslugerð.

Það er ljóst að sjóðirnir hafa tapað gífurlegu fé launamanna í landinu á áhættufjárfestingum í hinni ýmsu ævintýramennsku þar sem veðjað var á þá stærstu og mestu og mátti ljóst vera ef fylgst var með fréttum hér og þar af fjárfestingum meðan á þvi stóð.

Þeir kyntu því elda ævintýramennskunnar að virtist.

kv.Guðrún Maria.


mbl.is Endurskoða þarf lög um sjóðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanvirðing við lýðræðislegt fyrirkomulag af hálfu meirihluta í Reykjavík ?

Hvers konar yfirdrottnunarvald af hálfu þeirra sem sitja við stjórnvölinn, þar sem fólki er sýnd vanvirðing um aðkomu að eigin málum svo sem skólamálum er skömm og þá hina sömu skömm virðast yfirvöld í Reykjavíkurborg núverandi ætla að viðhafa varðandi fyrirætlanir um breytingar í andstöðu við íbúa.

Skammtímahugsun um sparnað tröllríður húsum að virðist með fyrirhuguðum breytingum og þeim hrærigraut sem yfirvöld hyggjast yfirfæra á almenning í Grafarvogi í skólamálum.

Reiði íbúa er miklu meira en skiljanleg í þessu sambandi, og svo vill til að unglingar eru börn sem eiga sinn rétt í þessu samfélagi, rétt sem þarf að standa vörð um.

kv.Guðrún María.


mbl.is Foreldrar reiðir og óánægðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætla borgaryfirvöld í Reykjavík að vinna að breytingum í skólamálum í andstöðu við íbúa ?

Mér er óskiljanlegt hvernig skólamálayfirvöld í Reykjavík virðast hafa unnið sína vinnu, varðandi framtíðarskipulagsmál skóla í höfuðborginni.

Dettur einhverjum í hug að það sé æskilegt að stækka einingar skólaumhverfis barna á grunnskólaaldri frá því sem er til staðar nú þegar ?

Hvers eiga íbúar að gjalda er festu kaup á lóðum, og íbúðum í hverfi, þar sem hverfisskóli var tilkynnt framtíðarskipulag ?

Þurfa þeir hinir sömu að flytja sig í önnur sveitarfélög til þess að geta verið öruggir um tilvist hverfisskóla barna sinna upp grunnskólaaldur ?

Raunin er sú að þetta mál skiptir flestar fjölskyldur meginmáli.

kv.Guðrún María.


mbl.is Mikil reiði vegna sameiningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýst stjórnleysið um bæjarstjórastólinn ?

Það er að vissu leyti með ólíkindum hve langan tíma þar virðist taka í Kópavogi að koma saman starfhæfum meirihluta að nýju.

Þvílikt og annað eins þrátefli er vandfundið á seinni tímum, og sannarlega skyldi í upphafi endir skoða þegar bæjarfulltrúar rjúka fram með drastískar uppákomur eins og mér finnst hafa gerst í þessu máli, því miður.

kv.Guðrún María.


mbl.is Guðríður yrði bæjarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Megi góður Guð styðja og styrkja þá sem syrgja.

Ég hygg að enginn sé ósnortinn eftir frásögn unga mannsins sem komst af úr sjóslysinu við Noreg.

Lýsing hans var eins og að lesa heila bók um atburðinn, þar sem hetjuleg þrautseigja, harka og dugnaður hjálpaði þessum unga manni.

Ég bið góðan Guð að styðja og styrkja alla þá er syrgja sína nánustu úr þessum harmleik.

kv.Guðrún María.


mbl.is „Ég ætla ekki að gefast upp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við upplifum gróðurhúsaáhrifin með öfgum í kulda eða hita.

Til eru þeir sem enn afneita gróðurhúsaáhrifum sem tilkomin eru af völdum mannsins.

Ég er ekki ein af þeim og tel mig hafa melt það mikið af vitnesku þess efnis að geta vitað að maðurinn og athafnir hans hafa áhrif á umhverfið, þar með talið veðurkerfi jarðar.

Allar þær aðferðir sem við getum notað og nýtt til þess stuðla að aukinni endurnyjun í lífkeðjunni með minna mengandi samgöngutækni og tólum hvers konar til framleiðsluaðferða matvæla fyrir mannfólkið er eitthvað sem þarf að vera í vitund og sinni hvers hugsandi manns.

kv.Guðrún María.


mbl.is Harðasti vetur síðan 1984
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðgjafahóp ?

Er fyrrum forstjóri Landsspítala líklegur til þess að vera án tengsla við starfandi lækna sem óháður aðili og stjórnandi í ráðgjafahóp um úrbætur ?

Því miður er það oftar en ekki svo í okkar þjóðfélagi að sama fólkið er skipað í endurskoðun yfir aðferðafræði sem viðkomandi hafa jafnvel tekið þátt í ellegar eru höfundar að að hluta til.

Starfsmenn ráðuneyta gegnum áraraðir hafa komið að skipulagi heilbrigðisþjónustu í nefndum og ráðum, undantekningalítið er þar sama fólkið á ferð.

Er líklegt að einhverra breytinga sé að vænta við slíkt ?

Veit ekki, en raunin er sú að það sem þessi ráðgjafahópur á að gera úttekt á er allt á verksviði Landlæknisembættisins, lögum samkvæmt.

kv.Guðrún María.


mbl.is Gera úttekt á læknastofum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband