Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Hvað á slík mismunun landsmanna, að vera lengi við lýði ?

Guðjón Arnar dró fram hið stórkostlega óréttlæti og mismunun sem íbúar sjávarþorpa búa við og hafa búið við nú í áraraðir þess efnis að vera hugsanlega sviptir atvinnu á einni nóttu, vegna kerfis sem heimilar, framsal aflaheimilda millum útgerða án skilyrða. Hann taldi upp byggðirnar allt í kring um landið sem allar hafa fundið fyrir annmörkum þessa kerfis. Góð ræða hjá Guðjóni eins og hans er von og vísa.

kv.gmaria.


mbl.is Guðjón Arnar: Fólk í sjávarbyggðum nýtur ekki raunverulegs jafnréttis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Megi kærleikur umvefja aðstandendur í sorg.

Blessuð sé minning Ástu Lovísu Vilhjálmsdóttur með þökk í huga fyrir þá lífsreynslu sem hún deildi með okkur allt til enda. Ég bið algóðan Guð að styrkja, styðja og umvefja ástvini hennar sem reynt hafa mikið á langri og erfiðri göngu gegn um illvígan sjúkdóm. Minningin um góða konu lifir áfram sem gefið hefur af sér til svo margra með því að deila reynslu sinni. Sorgin er langur gangur í skógi tilfinninganna en þar er minningin fjársjóður sem glæðir von og trú.

kv.gmaria.


Mjög ánægjulegt að Frjálslyndi flokkurinn fékk þingmann í Reykjavík.

Frjálslyndi flokkurinn fékk þingmann kjörinn í Reykjavík í síðustu kosningum Jón Magnússon og styrkir það stöðu flokksins á landsvísu þar sem þingmenn eru einnig til staðar af höfuðborgarsvæðinu ásamt landsbyggðinni. Reyndar tel ég að við höfum átt inni fyrir einum þingmanni til viðbótar að minnsta kosti, á þessu svæði ef tekist hefði að jafna atkvæðavægi í raun en það náðist ekki þessu sinni. Málefni þau sem flokkurinn ræddi í síðustu kosningabaráttu eru þau málefni sem varða fólkið í landinu, svo sem skattkerfisbreytingar er lúta að því að létta álagi af þeim tekjulægstu í þjóðfélaginu hvað skattbyrði varðar ásamt því atriði að takast á við löngu tímabæra endurskoðun á kvótakerfi sjávarútvegs sem er efnahagslegur dragbítur á þróun byggðar í landinu og kerfi sem ekki virkar við uppbyggingu þorksstofnsins. Málefni innflytjenda er löngu tímabært að ræða enda allir flokkar alveg sleppt því að ræða þau mál fram til þessa, og ekkert fé til íslenskukennslu til dæmis að finna eins og raun ber vitni að kom fram á haustdögum 2006 þegar allt í einu fannst fjármagn hálfu ári fyrir þingkosningar á ríkisstjórnarfundi. Við Frjálslyndir munum áfram efla okkar starf fyrir land og þjóð hvarvetna og vinna að málum fólksins í landinu.

kv.gmaria.


Lög á fyrirtæki um fleiri konur í stjórnir er bull.

Að setja lög á lög ofan um alla skapaða hluti jafnt mögulega sem ómögulega hefur verið eins konar síbyljusöngur aðdáenda forsjárhyggju hér á landi. Lagasetning þarf hins vegar að byggjast á því að skapa skilyrði, ramma er einstaklingar og fyrirtæki geta gengið að sem vísu í einu þjóðfélagi. Það atriði að setja í lög hvað margar konur eiga að vera í stjórn eins fyrirtækis er óframkvæmanlegt fyrirbæri vil ég leyfa mér að segja og það atriði að aukinn hlutur kvenna til áhrifa eigi að nást fram með slíku er algerlega að snúa hlutum á haus, því hver einstaklingur skyldi ætíð njóta verðleika sinna án tilliti til kyns. Það er hægt að hvetja og stuðla að ýmsu í þessu sambandi hvað varðar að móta viðhorf í einu samfélagi og það verkefni er kvenna sjálfra fyrst og fremst, varðandi jafnstöðu á launamarkaði, ekki hvað síst innan verkalýðsfélaga en það atriði að ætla að skoða hugmyndir að setja lög á fyrirtæki varðandi magn kynjanna í stjórnum er út úr korti í mínum huga að teknu tilliti til allra þátta.

kv.gmaria.


Kappakstur í íbúðahverfum og alls konar hundakúnstir.

Ég horfði á kappakstur út um gluggan hjá mér fyrir nokkrum kvöldum síðan alveg stórhneyksluð. Ekki nóg með það tveir bílar voru ekki bara í kappakstri heldur alls konar hundakúnstum við að keyra nálægt hver öðrum og bremsa og stoppa um tíma. Það voru tvær ferðir en ég fór út á svalir með myndavél kæmu þeir þriðju ferðina. Mér datt í hug Playstation leikur og hugsaði með mér hvort kynslóðin sem nú er að fá bílpróf geri ef til vill ekki mikinn greinarmun á ekta vélknúnu ökutæki og handstýringu bak við tölvu. Ef til vill ætti að gera það að forsendu þess að fá ökuskírteini að hafa hjólað eins og 300 kílómetra á reiðhjóli sama árið og bílpróf er tekið. Það er hins vegar ekki svo að skuldinni verði einungis skellt á unga ökumenn , margir eru til fyrirmyndar sem betur fer og þeir sem eldri eru allsendis ekki endilega hinir hvítþvegnu en of mikið er af ungum ökumönnum sem eru að missa próf vegna fíflaláta sem stofna lífi og limum fólks í hættu. Því ber þess vegna að fagna að vanvitar eru gómaðir við sinn fíflaakstur.

kv.gmaria.


mbl.is 50 stöðvaðir fyrir of hraðan akstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkefni umhverfisráðuneytisins eru víðtæk.

Nú veltur heldur betur á því hvort hinn nýji umhverfisráðherra láti sig varða verkefni þessa ráðuneytis í víðu samhengi þ.e. einnig gagnvart íslensku hafsvæði kring um landið. Við erum ekki að byggja upp þorskstofninn hér við land og það þarf að komast að því hvers vegna svo er komið að það kerfi sem við lýði er byggir stofninn ekki upp. Eitt er ljóst að það er röskun í fæðukeðju hafsins og það eitt er vægast sagt alvarlegt mál sem ekki verður framhjá litið. Það mun þurfa fyrr eða síðar að leggja heildstætt mat á núverandi aðferðafræði við öflun sjávarfangs, með tilliti til sjálfbærni og viðhalds lífkeðjunnar í hafinu kring um landið. Við Íslendingar þurfum ekki að fljóta sofandi að feigðarósi og meðtaka sífellt minni tölur um þorskafla í einu kerfi í áraraðir án þess að vera menn til horfast í augu við endurskoðun eins stykkis kerfis alveg sama hvað kerfi slíkt kann að nefnast.

kv.gmaria. 


Endur á hverfanda hveli ?

Getur það verið að brátt heyri Andastofninn sögunni til, þegar svo er komið að Mávurinn étur egg andanna og unga einnig. Sársvangurinn vargfuglinn leitar að æti sem ekki er lengur að finna í formi  sandsílis við ströndina, og étur egg, og unga. Hvað hefur klikkað í lífkeðjunni ? Hvers vegna er sandsílið að hverfa ?  Það er núverandi dragnót sem því veldur segir mér trillukarl. Það sem eitt sinn var dragnót innihélt kaðla um það bil 13 mm, en núverandi veiðarfæri eru víst 30 mm vírmanilla, þ.e. mun umfangsmeiri ásamt því að vera nú dregin með allt að 7oo hestafla vélarafli, ef til vill allan sólarhringinn við strendur landsins, út um allt. Veiðiaðferðirnar eru hluti af núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, kvótakerfinu. Það er því nokkuð áleitin spurning hvort núverandi handhafar aflaheimilda kunni að bera ábyrgð á því að sandsílið er að hverfa, sem aftur veldur því að mávurinn étur egg og unga andanna og hvað eftir verður af öndum til að gefa brauð veit enginn. Maður með byssu að plamma á sársvanga máva er varla vitræn aðferð í þessu sambandi.

kv.gmaria.


Fréttamennska á Íslandi.

Fjölmiðlun er faggrein í námi þar sem námið gengur að öllum líkindum út að það atriði að viðhafa fagleg vinnubrögð hvarvetna. Þau hin sömu vinnubrögð hljóta að vera að varpa fram öllum hliðum mála varðandi hvert umfjöllunarefni og vega og meta sjónarmið viðmælenda til frásagnar. Þótt til séu frábærir fjölmiðlamenn í stéttinni sem hafa það að leiðarljósi að skýra mál til fullnustu þá verð ég að segja eins og er að margir eru skussarnir sem vaða sinn veg áfram í blindni einstefnu á einhliða frásagnir mála án þess að viðhafa gagnrýnt viðhorf gagnvart öndverðum sjónarmiðum frásagna hvers konar. Hið svokallaða markaðfrelsi hefur ekki áorkað framþróun í þessum efnum , heldur þvert á móti gert það að verkum að frásagnir af lífi fólks í formi frétta fá lítið pláss lengur innan um auglýsingaskrum markaðsmennskunnar hér á landi. Of lítið. Eignarhlutdeild einstakra aðila á fjölmiðlamarkaði hér á landi á fleiri en einum fjölmiðli,  hefur auðsýnt sínar birtingamyndir þess efnis að alls konar auglýsingamennska er notuð og nýtt til þess að auglýsa þennan fjölmiðil í hinum fram og til baka, hring eftir hring, árið um kring, og þessu landslagi hafa fjölmiðlamenn aðlagað sig meira og minna á kostnað nauðsynlegrar þjóðfélagsrýni, því miður. Gildir þar engu hvort um er að ræða ríkið eða einkaaðila á markaði er drottna og dýrka í krafti stærðar.  Þetta er slæmt og þarf að breytast.

kv.gmaria. 


Ráðherraábyrgð á lögleiðingu framsals og leigu kvóta á Íslandi.

Mestu mistök allrar síðustu aldar á stjórnmálasviðinu eru þau að mínu mati að leiða í lög, óhefta braskumsýslu með óveiddan fisk úr sjó millum útgerðarmanna sem handhafa aflaheimilda. Hvaða ríkisstjórn sat þá og hverjir voru við stjórnvölinn ? Sjávarútvegsráðherra sá sem innleiddi þessar lagabreytingar sem ráðherra heitir Þorsteinn Pálsson og sá hinn sami var gerður að sendiherra síðar en gegnir nú starfi ritsjóra á Fréttablaðinu. Blaði sem ekki er hægt að segja að hafi verið mjög gagnrýnið á núverandi sjávarútvegskerfi sem heitið getur frá upphafi og ef mig misminnir ekki þá var á sínum tíma í hlutabréfaævintýrinu hinu mikla þegar sjávarútvegsfyrirtækin voru þar á markaði til staðar stofnun Orca hóps sem meðal annars innihélt núverandi eigendur að Fréttablaðinu og stærstu handhafa aflaheimilda þá á Íslandsmiðum sameinaða í fjármagnstilstandi einhvers konar. Það liggja víða saman strengir þegar peningarnir eru annars vegar fyrr og síðar en tilvist þeirra skiptir máli sem og hver ákvarðanataka ráðamanna um aðferðir er í því sambandi með tilliti til heildarhagsmuna umfram sérhagsmuni hvers konar. Framsalið svo ekki sé minnst á veðstetningu hins óveidda fiskjar í fjármálastofnunum í framhaldinu eru efnahagslegur Akkilesarhæll sem íslenska þjóðin er enn að gjalda fyrir nú í dag og því sjálfsagt að velta fyrir sér ráðherraábyrgð í því efni.

kv.gmaria.


Opna þarf hið ónýta kvótakerfi, afnema leigubrask og gefa frelsi til veiða á trillum.

Það vita allir sem vilja af vita að leiguliðar í sjávarútvegi í núverandi fyrirkomulagi eru ekki að hafa af slíkum veiðum afkomu sem skilar þeim hinum sömu eðlilegum afrakstri eða þjóðfélaginu skattekjum, þar af leiðandi. Einstaklingsfrelsinu hafa nefnilega verið settar verulegar skorður hvað varðar aðkomu manna að sjávarútvegi hér á landi, fyrst við upphaflegar úthlutunarreglur kerfisins, svo ekki sé minnst á allra handa síðari breytingar sem allar hafa miðast við að minnka hlut einyrkja og smábáta sem hluta af kerfinu og tilfærsla úr dagakerfi síðast yfir í kvóta hefur enn fækkað mönnum að störfum . Þróun þessi er algjörlega andstæð allri vitneskju um umhverfisvænar veiðiaðferðir sem hluta af íslensku fiskveiðistjórnunarkerfi og fjarri því að geta talist sjálfbær þróun hjá einni þjóð. Það þarf nefnilega að skoða með hvers konar tólum og tækjum við veiðum fisk, sem og hvers virði eitt starf trillusjómanns er í því sambandi sem leggur sinn afla á markað í sinni heimabyggð og skapar atvinnu. Það gefur augaleið að um það verður spurt innan tíðar hve sjálfbær þjóðin er varðandi fiskveiðar  sem atvinnugrein á alþjóðlega mælikvarða og samsetning fiskiskipaflotans og veiðiaðferðir og veiðarfæri, ástand fiskistofna og fleira mun þar leggjast á vogarskálarnar til mælingar. Okkur Íslendingum nægir að líta til frænda okkar í Færeyjum og sjá vitræna fiskveiðistjórnun í sátt við móður náttúru sem aftur setur þá á toppinn hvað varðar sjálfbærni.

kv.gmaria.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband