Ég um mig, frá mér, til mín.

Í dag flutti ég lögheimili mitt úr Hafnarfirði austur í Rangárþing Eystra, nánar tiltekið í Fljótshlíðina, þar sem ég fékk húsnæði á leigu um tíma.

Ég bíð nú eftir að finna sjúkraþjálfun mér til handa hér á svæðinu en allt tekur tíma að senda beiðni um slíkt hingað austur en það er í gangi.

Það er stutt síðan að sjúkraþjálfarinn minn i Hafnarfirði náði að hjálpa mér út úr einni niðurdýfunni með mitt bak, með því að toga hrygginn til, en ég krossa fingur yfir því að komast gegnum þessa flutninga án bakslags enn sem komið er.

Ég veit að ég mun búa við hreyfiskerðingu í mínu baki og skort á styrk það sem eftir er, en ég er býsna þrjósk að reyna að bjarga mér og reyni að halda áfram við það að gera það sem ég get, meðan það drepur mig ekki úr verkjum.

Fyrir mig er það yndislegt að komast í kyrrð sveitarinnar eftir argaþras og óvissu um þak yfir höfuðið frá því í maí sl. en fljótlega mun ég rita erindi til Umboðsmanns Alþingis um aðferðafræði stjórnsýslu í fyrrum bæjarfélagi mínu og koma mun i ljos hvort og hvernig farið hefur verið að lögum í því hinu sama.

Það líður að jólum og um leið og ég hefi komið mér fyrir, ætla ég að verða sama jolabarnið og ég hef alltaf verið, varðandi það að upplifa þau hin sömu sem best má vera.

kv.Guðrún María.


Sannleikurinn er sagna bestur.

Hjörleifur Guttormsson talar tæpitungulaust um stöðu VG, sem er sýnileg þeim sem vilja sjá, þar sem stefnumiðum flokksins varðandi andstöðu við aðild að Evrópusambandinu var stungið undir stól til þáttöku í ríkisstjórn með Samfylkingu.

Hafi einhver einn flokkur einhvern timann áður flúið eigin stefnu að loknum kosningum með eins afgerandi hætti og Vinstri hreyfingin Grænt framboð gerði, þá veit ég ekki hvaða dæma skyldi leita í því efni.

kv.Guðrún María.


mbl.is Segir VG „ósjálfbært rekald“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin skyldi skattlögð út úr efnahagshruninu, úrræði vinstri manna við stjórnvölinn.

Þær kolröngu aðferðir sem núverandi valdhafar hafa iðkað við stjórnvölinn, að auka skatta í stað þess að lækka þá hina sömu í kjölfar efnahagshruns, mun seint líða landsmönnum úr minni.

Raunin er sú slíkt hefur ekki aðeins aukið fátækt almennt, heldur einnig sett bremsu á hjól atvinnulífsins sem aftur er bein leið til stöðnunnar.

Alls konar niðurskurður á þjónustu hér og þar undir formerkjum gífurlegs sparnaðar sem króna og aura á blaði til að guma sig af fyrir næstu kosningar er eitthvað sem ekki tekur mið af fjögun fólks í landinu nema það kjörtímabil sem viðkomandi valdhafar hafa til umráða í umboði kjósenda.

Rándýrt lýðskrum allra handa um nýja stjórnarskrá sem patentlausn mála allra er borið á borð fyrir landsmenn á sama tíma og fötluðu fólki er vísað á götuna, öldruðum sagt að borga hærri skatta og bíða og bíða og biða eftir þjónustu sem þeir hinir sömu hafa greitt fyrir með sköttum gegn um tíðina.

Ríkið reynir að yfirfæra vanda atvinnuleysis á skuldug sveitarfélög með málamyndaaðgerðum sem milliliðir allra handa hirða megintekjur af.

Allt miðast við að leggja á nógu háa skatta alveg burtséð frá afleiðingum þess hins sama, bara ef hægt er að sýna tölur á blaði, sem síðan skal blaðrað um fyrir næstu kosningar sem gullbrjóstsykur fyrir kjósendur.

Því miður.

kv.Guðrún María.


Um daginn og veginn.

Flutningar úr Hafnarfirði austur í Fljótshlíð var verkefnið síðustu helgi og ég hef kvatt Hafnarfjörð að sinni, og fagna því að koma aftur í íslenska sveit til búsetu, því ef einhver elskar íslenska sveit, þá er það ég.

Með góðra manna hjálp komst ég gegn um þessa flutninga en bræður mínir tveir báru hitann og þungann af þvi hinu sama.

Ég mun gefa mér góðan tíma til að taka upp úr kössum eins og að pakka niður, og njóta þess friðar sem hin íslenska sveit gefur af sér.

kv.Guðrún María.


Alveg stórskemmtilegt að sjá opinberar stofnanir rífast innbyrðis.

Er einhver pólítik í þessu Lúpínumáli, spyr maður óhjákvæmilega, því venjan er að allir hanar gala er liður að kosningum til þings ?

Sú er þetta ritar hefði talið það eðlilegra að stofnanir hins opinbera gætu komið sér saman um einstök verkefni er heyra undir sama svið, í þessu tilviki eyðingu Lúpínu.

Lúpínu sem ekki fyrir svo löngu síðan var sáð til þess að græða örfoka land, af hálfu sömu sérfræðiráðunuta viðkomandi stofnanna hins opinbera sem á þeim tíma voru allir sáttir við það hið sama að virtist.

kv.Guðrún María.


mbl.is Lúpínan í Þórsmörk þrætuepli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagsleg ábyrgð sveitarfélaga, spara aurinn en kasta krónunni ?

Útboð þjónustu er hvoru tveggja sjálfsögð og eðlileg leið til þess að ná niður kostnaði við rekstur hvers konar, svo fremi að útboðsverkefni hverju sinni innihaldi sömu þjónustu og áður var fyrir hendi.

Sé hins vegar verið að bjóða út hluta þjónustu sem fyrir var en ekki alla, þá er það sveitarfélaganna að upplýsa um slíkt.

Stórkostlegur klaufaskapur við útboðsgerð hefur að mínu viti valdið því að hluti verkefna sem einu sinni voru innt af hendi af starfsmönnum sveitarfélaga til dæmis við þrif í skólum, þýða allt aðra gerð af þjónustu en fyrir var, miklu minni, en í því felst sparnaðurinn þar á bæ.

Þar sitja því eftir verk sem lenda á öðrum sem ekki hafa hingað til haft slíkt á sínu verksviði en mega þurfa bæta þvi, við sín störf, vegna þess hins sama en fá ekki krónu meira í launaumslagið fyrir.

Í upphafi skyldi því endir skoða í þessu sambandi og útboðsgerð sveitarfélaga þarf að innihalda öll þau verk sem unnin voru en ekki hluta þeirra.

kv.Guðrún María.


mbl.is Kemur verst við ófaglærðar konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er " almennilegt velferðarkerfi " ?

Hvað er " almennilegt velferðarkerfi " ?

Er það kerfi sem fer að lögum um þjónustu við íbúa ?

Eða er það kerfi sem gerir meira en að fara að lögum, hvað þjónustustig varðar ?

Spyr sú sem ekki veit.

kv.Guðrún María.


mbl.is Magnús Orri „sveiflaðist mikið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað berjast margir stjórnmálamenn fyrir lífsgæðum fatlaðra ?

Án efa má finna fögur orð á blaði um félagsleg réttindi fatlaðra, frá ýmsum þeim er nú taka þátt í prófkjörsbaráttu varðandi hugsanlega setu á Alþingi í komandi kosningum, en kanski hafa þeir hinir sömu frambjóðendur ef til vill ekki raunsýn á stöðu þessa hóps í voru samfélagi þar sem ýmsar ráðstafanir í þá veru sem hér er mótmælt hafa litið dagsins ljós í framkvæmdum hins opinbera undir formerkjum sparnaðar.

Spara aurinn en kasta krónunni og einhver einn hópur öryrkja skal mega þurfa að bera skert lífsgæði ákveðinn tíma sem annar hefur notið áður ellegar aðrir mega hugsanlega njóta í framtíð komandi, þegar til koma alls konar átök til umbóta til að bæta það sem skorið var af til handa einum hópi umfram annan.

Ég nefni enn og aftur meðalhófsreglu stjórnarskrárinnar íslensku sem vera skyldi leiðarljós í ákvarðanatöku allri til handa einstaklingum í þessu landi, af hálfu hverra þeirra er fara með fjárveitingavald og ákvarðanatöku á hverjum tíma.

kv.Guðrún María.


mbl.is Skert lífsgæði fatlaðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir hvern starfar viðkomandi blaðamaður ?

Það kemur ekki fram í fréttinni fyrir hvern viðkomandi blaðamaður Halldór Bachmann starfar og ágætt væri að fá þær hinar sömu upplýsingar til fróðleiks.

kv.Guðrún María.


mbl.is Ísland sagt íhuga nýtt nafn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrastólar og stefna flokksins.

Það er allsendis ekki sama hvort menn setjast í ráðherrastóla ellagar þurfa að sitja á bekknum við eldhúsborðið í þinginu, hvað varðar skoðanir og fylgispekt við eigin flokk, eða hvað ?

Vinstri hreyfingin grænt framboð stakk eigin stefnu undir stól við upphaf þessa ríkisstjórnarsamstarfs og afskaplega mismunandi er hvernig tekist hefur að fá þingmenn jafnt sem flokksmenn til þess að dansa áfram á þeim hinum sama dansleik, sem og þá kjósendur sem komu flokki þessum til valda til embætta við stjórn landsins.

Það er missir að Guðfríði Lilju sem þingmanni en mikið skil ég hana vel að vilja yfirgefa sviðið nú um stundir.

kv.Guðrún María.


mbl.is „Vilji menn halda flokknum saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband