Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Um daginn og veginn, rétt fyrir kosningar.

Á laugardaginn kýs ég í fyrsta skipti hér í Árborg, og ég kýs MINN flokk Framsóknarflokkinn til sveitarstjórnar hér eins og ég hefði einnig gert í mínu fyrra sveitarfélagi Hafnarfirði.

Það hefur verið mér einstök ánægja að kynnast góðu stjórnmálastarfi í Framsóknarflokknum sem ég kynntist í mínu fyrra bæjarfélagi.

Lýðræði um ákvarðanatöku um mál öll sem vera skyldi hvarvetna í slíku starfi,  skiptir þar meginmáli ásamt síflelldri endurskoðun á því samfélagi, sem við lifum í og þróun mála.

Ég var annars að hugsa um það á dögunum hvað það væri  nú langt síðan ég var virkur þáttakandi í pólítíkinni áður en ég slasaði mig og fann það út að það var nú víst ekki nema eitt kjörtímabil síðan að ég var á lista Framsóknar í Hafnarfirði með mínum góðu félögum þar á bæ.

Tíminn líður og mín orka fer áfram í það að halda í horfinu með mitt heilsutetur, og nýlega fengið leyfi frá mínum sjúkraþjálfara til þess að hjóla á hjóli.og það var eins og himnasending fyrir mig og ég hjólaði eins og enginn væri morgundagurinn um daginn.

Uppskar hins vegar harðsperrur og verki svo ég hægði á mér og hvíldi um stund en nú í kvöld fór ég loks aftur í hjólaferð og frelsið við það að fá vindinn í fangið á ferð og fara víðar um en gangandi er mikið.  Hér á Selfossi er sannarlega gósenland hjólreiðamannsins, sléttlendi þar sem erfiðar brekkur eru ekki vandamál og stígar um allt.

Sumarið verður án efa nýtt í það hjá mér að kanna nýjar slóðir á hjólinu svo mest sem verða má til viðbótar við mína sjúkraþjálfun.

 

kv.Guðrún María. 

 

 

 

 


Ágætu Hafnfirðingar, gefið vinstri flokkunum frí, við stjórn bæjarins.

Sú er þetta ritar var íbúi Hafnarfjarðar frá árinu 1998 til ársins 2012, og starfaði þar í bæ sem skólaliði í einum grunnskóla bæjarins til ársins 2010 er ég lenti í vinnuslysi í vinnu minni og varð að hverfa frá þáttöku á vinnumarkaði í kjölfar þess slyss.

Ég leigði íbúð í félagslega leigukerfinu en hafði safnað skuldum um tíma sem erfitt var að greiða úr ýmissa hluta vegna sem endaði með því að bærinn vísaði mér úr þeirri hinni sömu íbúð með tvöföldum lögfræðikostnaði á þá hina sömu skuld, þrátt fyrir það atriði að greiðsla leigu væri fyrir hendi er örorkubætur komu til sögu eftir slys það er ég hafði orðið fyrir í vinnu minni fyrir Hafnarfjarðarbæ.

Réttindagæslumaður fatlaðra átti samskipti við núverandi bæjarstjóra um mál mitt, þar sem því var lofað að fundin yrði úrlausn húsnæðislega, en það var EKKI gert.

Lögfræðingur bæjarins þ.e Húsnæðisskrifstofu situr einnig sem kjörinn fulltrúi bæjarstjórnarmeirihluta  í yfirkjörstjórn m.a. sem er að mínu viti ekki góð stjórnsýsla því fer svo fjarri og löngu kominn tími til að menn taki sér tak í þessum efnum og uppfylli fullkomlega skilyrði stjórnsýslulaga um vanhæfi, varðandi verkefni fyrir bæinn og aðkomu að þeim.

Sífelldur sparnaður við rekstur grunnþjónustu s.s skóla þar sem viðkvæði var því miður að " spara aurinn, en kasta krónunni " er eitthvað sem er svo afskaplega erfitt að breyta viðhorfi gagnvart og Hafnarfjörður sem litið var til á sínum tíma sem góðu sveitarfélagi í skólamálum, hefur farið verulega aftur í þeim efnum, en sú er þetta ritar var eins og áður sagði starfsmaður bæjarins sem sannarlega lagði á sig aukaálag til þess að reyna að redda öllu sem reddað varð eins vel og mögulega mátti vera fyrir bæinn sinn, sem starfsmaður í áratug.

Það má sannarlega betur gera í Hafnarfirði þessum fallega bæ sem ég sakna svo mjög en á ekki afturkvæmt til að sinni og von mín er sú að við taki nýtt fólk í bæjarstjórn með nýja sýn og nýtt stjórnkerfi og nýja forgangsröðun. 

 kv.Guðrún María.

 

 

 

 


Nokkur orð um geðheilbrigðiskerfi okkar Íslendinga.

Ekkert kerfi mannsins er fullkomið, hins vegar er hægt að samhæfa og þróa aðferðir til þess að betrumbæta brotalamir í kerfum mannsins öllum til hagsbóta.

Geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi hvað bráðaaðstoð varðar er aðeins á hluta landsins þ.e í Reykjavík, ekki úti á landi, þótt full ástæða sé til að slíkt væri til staðar í hverjum landsfjórðungi. 

Þetta kostar ferðir með fólk til Reykjavíkur í þörf fyrir slíka þjónustu, sem og ferðalög aðstandenda utan af landi gagnvart sjúkum einstaklingum í þessari stöðu.

Skortur á samhæfingu kerfa gagnvart verulegum vandamálum einstaklinga er atriði sem þarf að taka til skoðunnar þar sem kerfi félagsmála sveitarfélaga, heilsugæsla og lögregla þurfa að eiga til staðar teymi sem talar sig saman reglulega og tekur á málum í stað þess að einstaklingur í vanda veltist til lögreglu og frá lögreglu í viðtöl á heilsugæslu og út úr viðtölum á heilsugæslu aftur til lögreglu sitt á hvað.

Því miður hefur tilhneyging heilbrigðiskerfis verið um of sú að reyna að flokka í sundur annars vegar fíkn og hins vegar geðsjúkdóma þótt eðli máls samkvæmt sé hið síðarnefnda oft afleiðing þess fyrrnefnda og fylgist að en sama má reyndar segja um vort félagskerfi þar sem slík flokkun á sér stað.

Vandinn leysist ekki við að skilgreina og flokka í sundur í stað þess að eygja yfirsýn á heildarmyndina sem eins og áður sagði þarfnast samvinnu allra aðila er koma að málum til úrvinnslu í erfiðum aðstæðum. 

Við skyldum ætíð gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að forða okkar ungmennum frá því að ánetjast fíkniefnum, hins vegar þegar vandi er tilkominn þarf að taka á honum af festu og samhæfingu þar sem kosta þarf til fjármunum í formi mannafla að störfum við úrlausn þeirra mála, þekking er nægileg hér á landi til þess hins sama.

Því fyrr sem komið er að málum einstaklinga því meiri von er til þess að viðkomandi nái bata.

Það á sannarlega EKKI að vera þannig að fyrst þurfi  veikur einstaklingur að rekast á umhverfi sitt áður en meðferð kemur til sögu, en því miður eru slík dæmi til staðar og sökum þess er það mjög svo nauðsynlegt að lögregla sé hluti af teymi sem koma þarf á fót með heilsugæslu og félagsþjónustu sveitarfélaga, gagnvart fullorðnum einstaklingum í vanda eins og börnum.

 

kv.Guðrún María. 

 

 

 


Íslensk Verkalýðshreyfing þarf að semja um lágmarkslaun á vinnumarkaði sem nægja til framfærslu.

Því miður er það ekki nóg að ganga um með margra ára gömul kröfuspjöld um jöfnuð allra handa einn dag á ári ef raunin er síðan sú í samningsgerð um kaup og kjör að lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði til handa hinum almenna launamanni nægi þeim hinum sama ekki til framfærslu.

Það er ávísun á fátækt í einu samfélagi, baráttu og basl.

Bætur almannatrygginga taka mið af lægstu launum á vinnumarkaði og þvi ekki að undra að kjör öryrkja og aldraðra fylgi basli hins almenna verkamanns þar sem ekki hefur tekist að semja um kaup og kjör lágmarkslauna svo nægi til framfærslu í áraraðir.

Samtenging verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða þeirra hinna sömu er síðan hafa aftur fjárfest í atvinnulífinu er afar furðulegt fyrirbæri sem enn á eftir að aftengja og því fyrr því betra því verkalýðsfélögin eiga að vera langt frá fjármunaumsýslu lífeyrissjóða hvers konar að mínu viti, þannig að samningar um kaup og kjör á vinnumarkaði komi aldrei til með að vera umhugsun um samtengda fjármuni nokkurs konar.

Fyrsti maí baráttudagur verkalýðsins er góður dagur sem því miður hefur misst að hluta til tilgang sinn vegna þess hve illa hefur gengið hér á landi fyrir íslenska verkalýðshreyfingu að standa vörð um tilgang sinn.

 

kv.Guðrún María. 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband