Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Svo er það árið 1998, hvað var þá efst í huga ?

Sunnudaginn 1. nóvember, 1998 - Bréf til blaðsins

Hvar er mannlegi þátturinn í markaðsbúskapnum?

Frá Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

MEÐ ólíkindum er, hve miklu virðist hægt að fórna á altari markaðshyggjunnar. Ég á þá við til dæmis ýmsa hreint og beint heimskulega kjarasamninga er gerðir hafa verið á undanförnum árum, þar sem aukið vinnuálag, allt að því ofurmannlegt, hefur verið niðurstaða að loknu samningaþrefi um hærri laun.

Hvar er mannlegi þátturinn í markaðsbúskapnum?

Frá Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

MEÐ ólíkindum er, hve miklu virðist hægt að fórna á altari markaðshyggjunnar. Ég á þá við til dæmis ýmsa hreint og beint heimskulega kjarasamninga er gerðir hafa verið á undanförnum árum, þar sem aukið vinnuálag, allt að því ofurmannlegt, hefur verið niðurstaða að loknu samningaþrefi um hærri laun. Merkilegt er að það virðast einkum fagstéttir svo sem hjúkrunarfræðingar og fólk í uppeldisstörfum er hafa undirgengist slíka samninga til handa sínu fólki. Meira og minna virðist slíkt umsamið undir formerkjum einhvers konar sparnaðar af hálfu vinnuveitanda sem er oftar en ekki borgin eða ríkið í þessu tilviki. Á sínum tíma gerði hið gamla Fóstrufélag Íslands svokallaða ábatasamninga við Reykjavíkurborg er þýddu fleiri börn á hverja deild, og nokkrar krónur í viðbót í vasann. Það steingleymdist hins vegar að reikna út hve mjög þjónustan kynni að versna við slíkar ráðstafanir, hvað þá hve mjög slíkt kynni að auka veikindaforföll þeirra er sinntu hinu ofurmannlega hlutverki að hafa of mörg börn í einu að sinna.

Hvert barnmargt foreldri veit, hve mikinn tíma þarf til þess að sinna hverju barni, en svo virðist sem einhverjum hagfræðispekingum hafi tekist að útiloka hinn annars eðlilega mannlega þátt er störf þessi útheimta og bjóða upp á einhvers konar vélræna umönnun til handa komandi kynslóð, umönnun er byggist á hópuppeldi, þar sem allt að því ómögulegt er að einstaklingurinn fái notið sín í nokkrum mæli. Hópuppeldi fram eftir öllum aldri getur orðið til þess að einstaklingurinn muni eiga erfitt með að treysta á nokkuð annað en hópinn sem hann lifir og hrærist í, því er unglingamenning í dag ef til vill mjög eðlileg miðað við þær aðstæður er okkar uppeldis- og skólakerfi býr við.

Fleiri háskólamenntaðir leikskólakennarar munu ekki leysa þann vanda er við blasir, nær væri að mennta mun betur aðila er sitja við samningaborðið um staðal starfa þessara, þ.e. að tilgangur starfanna fái notið sín til lengri og skemmri tíma, í stað hinna týpísku skammtímalausna.

Aðhlynning sjúkra og aldraðra

Nákvæmlega sama er hvert litið er varðandi aðhlynningu eða umönnunarstörf á vegum Reykjavíkurborgar eða hins opinbera, alls staðar er vinnuálag þannig að tími fyrir hinn mannlega þátt hefur verið nær klipptur út úr tíma þeim sem gefinn er til starfanna. Fólk gefst upp og leitar sér að vinnu á öðrum vettvangi. Þetta heitir að nýta starfskraftana og "spara".

Dettur einhverjum í hug að gæði veittrar þjónustu geti aukist á sama tíma?

Varla, því fer sem fer, hægt og sígandi sættir almenningur sig við sífellt lélegri og ómarkvissari þjónustu, faglegur metnaður og siðferðiskennd þeirra er störfum þessum sinna fýkur út í veður og vind, og gróði í einhverri mynd til handa einhverjum er ekki auðfinnanlegur. Fagstéttir s.s. læknar standa slopplausir eftir lítt upphefjandi umræðu af hagsmunalegum toga, varðandi einkafyrirtæki er hyggst ráðast í gerð gagnagrunns, er þó kann að skila þeim sjálfum betra starfsumhverfi. Þar hafa fokið nokkur siðalögmál veg allrar veraldar, og spurning hvort ekki sé þörf á verulegri endurmenntun í siðfræði mannlegra samskipta. Það færi betur að menn eyddu tímanum í að reikna út hvernig væri mögulegt að hafa fleira fólk að störfum, undir viðunandi vinnuálagi, í störfum er útheimta andlegt og líkamlegt þrek, sem á sín takmörk, takmörk sem löngu er tímabært að leita að hér á Íslandi, ef ósk er um að mannvænt samfélag verði til í framtíðinni til handa afkomendum okkar.

Verkefnum þarf að raða rétt

Langir biðlistar eftir hjartaaðgerðum, sökum rangrar forgangsröðunar verkefna, sjúkir og fatlaðir undir fátæktarmörkum, á sama tíma og deilt er um hvort enn eigi að leyfa fáum útvöldum að braska með sameiginlegan þjóðarauð, fiskveiðiheimildir (þ.e. þeim er áttu auð er framsal aflaheimilda var lögleitt á sínum tíma), slíkt hlýtur að vekja hvern þenkjandi mann til umhugsunar um tilgang og markmið orða og athafna. Landið okkar fallega er á góðri leið með að leggjast í auðn sökum illa ígrundaðrar nytjastefnu, er birtist hvort tveggja í stóriðju til lands og sjávar, stóriðju er tekur sinn toll, verksmiðjuskipin hreinsa hafsbotninn og henda hluta af aflanum, afla er einhvern tíma hefði talist verðmæti við Íslands strendur.

Hið sama má heimfæra upp á landbúnaðinn, þar sem stóriðjudráttarvélar verka áburðaruppsprengt fóður í búpening á nokkrum vikum í verksmiðjubúið, sem framleiðir ódýra vöru fyrir neytendur. Næsta jörð fer í auðn vegna þess að hana nytjar enginn lengur, ekki einu sinni verksmiðjubóndinn, landið stendur ónýtt í orðsins fyllstu merkingu. Enn sem fyrr virðist skortur á víðsýni hamla nauðsynlegri þróun, því þróun er framför, en ekki afturhvarf til þeirra tíma er ónóg ráð og léleg vitneskja réðu ferð. Nú er til nóg af ráðum og allnokkuð af vitneskju um hvernig skuli best skipað ráðstöfunum, og það er okkar skylda að sjá til þess eftir fremsta megni að skila landinu okkar og auðæfum þess eins og við tókum við því.

GUÐRÚN MARÍA ÓSKARSDÓTTIR,



Hvað var efst í huga 1997 ?

Fimmtudaginn 6. nóvember, 1997 - Bréf til blaðsins

Hamlar skortur á víðsýni almennri þjóðfélagsþróun ?

Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

BILIÐ milli ríkra og fátækra breikkar hér á Íslandi sem annars staðar, en fjarlægð stjórnenda frá vandamálum einhvers konar, sem við er að fást, virðist oftar en ekki hamla ákvarðantöku um skipulagsbreytingar einhvers konar uns í algjört óefni er komið og til vandræða horfir.

Hamlar skortur á víðsýni almennri þjóðfélagsþróun?

Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

BILIÐ milli ríkra og fátækra breikkar hér á Íslandi sem annars staðar, en fjarlægð stjórnenda frá vandamálum einhvers konar, sem við er að fást, virðist oftar en ekki hamla ákvarðantöku um skipulagsbreytingar einhvers konar uns í algjört óefni er komið og til vandræða horfir.

Verkalýðshreyfingin eyðir milljónum króna til þess að auglýsa sjálfa sig, í stað þess að hækka ögn greiðslur til þeirra er nú njóta lífeyris. Lífeyrissjóður bænda tapaði milljónum í flugrekstri, en hjá þeim sjóði gleymdist að telja eiginkonur bænda til við sjóðsstofnun, þótt þær hinar sömu teldust skattgreiðendur á sama tíma. Ekkert hefur verið leiðrétt til handa þessum hópi þegnanna, fremur en þeim er kunna að verða fyrir óvæntum mistökum í hinni annars hátæknivæddu og gífurlega flóknu heilbrigðisþjónustu, sem virðist þó ekki hátæknivædd þegar kemur að því að telja fjölda mistaka á ári hverju og greiðslur vegna mistaka.

Einhverra hluta vegna hefur farist fyrir að meta raunverulegan árangur reglulega, og skilja sauðina frá höfrunum, hvað varðar afrek til afspurnar, á þessu sviði sem er blanda af einka og ríkisrekstri, með óskiljanlegum útboðum á verkþáttum þjónustunnar, þar sem ekki stendur steinn yfir steini hvað varðar heildaryfirsýn til handa stjórnvöldum, er við leggjum þó meginhluta skattpeninga okkar í.

Því miður virðist oftar en ekki að fulltrúar fólksins, alþingis- og sveitarstjórnarmenn, komi hreinlega af fjöllum, þegar fólkið í landinu dregur fram þann raunveruleika er blasir við í einstökum málum. Það er einkennilegt eigi að síður, á tímum sífellt betri þekkingar, að hinn mannlegi þáttur, það er tími fyrir umönnun í þjónustu við manninn frá vöggu til grafar, í samfélagi voru hefur færst í átt til vélrænt skilgreindra athafna, er munu seint þjóna tilgangi sínum sem skyldi.

Hvers vegna eru athafnir vorar svo ótrúlega mikið skilgreindar nú til dags? Jú, menntun inniheldur þau skilaboð frá leikskóla upp í háskóla, að hæfileikinn til þess að skilgreina hvers konar vandamál sé númer eitt. Hæfileiki til þess að leysa úr skilgreindum vandamálum lýtur aftur í lægra haldi, vegna fjarlægðar frá hinum raunverulegu viðfangsefnum. Þau hin sömu viðfangsefni mæta hins vegar ungu menntafólki ef til vill á nokkuð öðrum forsendum, er vinna í hinum ýmsu faggreinum tekur við. Allt að því þrælavinna tekur til dæmis við hjá ungum læknum, er sinna aðhlynningu sjúkra, og hafa menntað sig til þess arna.

Leikskólakennarar féllu í þann pytt á sínum tíma að gera ábatasamninga við borgaryfirvöld, og fjölga börnum í staðinn fyrir nokkrar krónur. Þessi fjölgun hefur ekki gengið til baka mér best vitanlega en fleiri börn á starfsmann þýðir einfaldlega minni athygli til handa hverju barni.

Sama þróun, það er ofurálag í störfum, er einnig hjá starfsstéttum í heilbrigðisþjónustunni, og í raun með ólíkindum hve mjög hinn faglegi metnaður hefur fokið út í veður og vind, með togstreitu um launakjör meðal hinna ýmsu hópa þar á bæ.

Allt þýðir þetta lélegra þjónustustig, er eykur hættu á mannlegum mistökum. Minni athygli til handa ungum einstaklingum í uppvextinum getur þýtt fleiri vandamál seinna á ævinni. Aðhlynning mannsins frá vöggu til grafar, þarfnast því athygli okkar er nú teljumst til ríkjandi kynslóðar og greiðum skatta til þess að njóta þjónustu þessarar, og ef stjórnvöld sofna á verðinum, með stundarhagsmuni um skjótfenginn gróða með aðferðum sem þessum, þá þarf almenningur að vaka vel.

GUÐRÚN MARÍA ÓSKARSDÓTTIR,

form. Lífsvogar.




Hvað var efst í huga ári síðar, október 1996 ?

Miðvikudaginn 9. október, 1996 - Bréf til blaðsins

Skattlagning út í bláinn

Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

ÞEGAR laun erfiðisins er ekki lengur að finna sökum letjandi, fremur en hvetjandi, skattaumhverfis er illa komið fyrir einni þjóð. Þegar hinn íslenski launamaður þarf að taka lán til þess að framfleyta sér og sínum er eitthvað að. Hinum ýmsu ráðamönnum hefur orðið tíðrætt um það upp á síðkastið hversu mjög landsmenn hafi eytt um efni fram.

Skattlagning út í bláinn

Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

ÞEGAR laun erfiðisins er ekki lengur að finna sökum letjandi, fremur en hvetjandi, skattaumhverfis er illa komið fyrir einni þjóð. Þegar hinn íslenski launamaður þarf að taka lán til þess að framfleyta sér og sínum er eitthvað að. Hinum ýmsu ráðamönnum hefur orðið tíðrætt um það upp á síðkastið hversu mjög landsmenn hafi eytt um efni fram. Hvernig væri að þessir góðu menn kæmu um stund niður úr fílabeinsturninum og litu augum lífskjör þorra almennings í landinu sem er nær því að sligast undan skattbyrði og ber lítið annað úr býtum heldur en aukið vinnuálag og lægri laun, laun sem duga vart eða ekki til framfærslu?

Hinn mikli þrýstingur á sparnað innan hins opinbera hefur leitt af sér næstum ómannúðlegt vinnuumhverfi og nægir þar að nefna hinar ýmsu sparnaðarherferðir í heilbrigðisþjónustugeiranum og umönnun ýmiss konar þar sem mönnun er í lágmarki sökum "sparnaðar" og fólk útkeyrt af vinnuálagi. Þessi annars sérkennilegi sparnaður étur sjálfan sig upp með vinnuforföllum starfsfólks, lélegri þjónustu sem og hugsanlegum langvarandi áhrifum er kunna að felast í nokkurs konar vélrænni umönnun er ég hygg að enginn vilji hafa til frambúðar. Manneskjan, hvort sem hún er ung eða gömul, þarfnast umhyggju er verður ekki mæld í einingum eða normum, per mínútur og sekúndur, hvorki hjá þessari kynslóð frekar en annarri.

Sú framtíðarsýn er felst í því að hlúa að hornsteini samfélagsins, fjölskyldunni, með öllum ráðum þarf að koma til sögunnar. Hér ætti til dæmis að veita verulegan skattaafslátt er hjón eignast sitt fyrsta barn í stað þess að veita meiri afslátt fyrir fjárfestingu í steinsteypu.

Einnig þarf að hefja aftur á loft fyrrum frumkvæði Reykjavíkurborgar, að greiða foreldrum fyrir að dvelja heima með börnum sínum. Fæðingarorlof þarf að lengja og heimgreiðslur að koma á móti, til tveggja ára aldurs, svo tilfinningalegum þörfum ungra barna sé hægt að sinna af foreldrum þeirra sem eru þess alla jafna best umkomin. Þetta getur jafnvel mótað líf hins unga borgara fyrir lífstíð, þ.e. að hinum tilfinningalega þætti sé sinnt af alúð í upphafi. Öll tveggja ára börn á landinu ættu síðan að eiga þess kost að umgangast, félaga sína á sama aldri í leikskólum landsins.

Það gefur augaleið að ef foreldrar ættu þess kost að dvelja heima með börnum sínum til tveggja ára aldurs myndi rýmkast til á vinnumarkaði og atvinnuleysi ef til vill minnka. Hið sama þarf að gilda hvað varðar fólk í námi, hvatning til þess að dvelja fyrstu tvö árin með börnum sínum þarf að vera til staðar. Námið getur beðið í tvö ár en tilfinningar barnsins ekki.

Skattlagning er tæki til stjórnunar og því fyrr sem stjórnmálamenn finna færar leiðir til þess að hefja á loft hin sönnu gildi, gildi er vara munu til framtíðar til handa komandi kynslóð, því færri samfélagsleg vandamál munu verða oss fjötur um fót. Vonandi er þess einnig að vænta að verkalýðshreyfingin rói öllum árum í átt til mannvænlegra samfélags, í komandi kjarasamningum, og sjái til þess að umsamin laun að loknum skattgreiðslum dugi hverjum vinnandi manni til framfærslu.

GUÐRÚN MARÍA ÓSKARSDÓTTIR,

Látraströnd 5, Seltjarnarnesi.




Hvað var efst í huga í október 1995 ?

Fimmtudaginn 19. október, 1995 - Velvakandi

Er þjóðin í fjötrum hægri og vinstri forræðishyggju?

Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

ÞAÐ er afskaplega áleitin spurning, þegar ákveðin stétt manna stendur að því að skipa sjálfum sér sess utan þess ramma sem gildir um alla aðra. Ég er farin að halda að hluti hægri manna sé illa haldinn af forræðishyggju sem byggist einkum og sér í lagi á hagfræði sem ekki kann að tala. Hagfræði sem ekki kann að tala, er engin hagfræði í samfélagi manna.

Er þjóðin í fjötrum hægri og vinstri

forræðishyggju?

Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

ÞAÐ er afskaplega áleitin spurning, þegar ákveðin stétt manna stendur að því að skipa sjálfum sér sess utan þess ramma sem gildir um alla aðra. Ég er farin að halda að hluti hægri manna sé illa haldinn af forræðishyggju sem byggist einkum og sér í lagi á hagfræði sem ekki kann að tala. Hagfræði sem ekki kann að tala, er engin hagfræði í samfélagi manna. Núllþráhyggjan í ríkisbúskapnum nær ekki nokkurri átt. Spara aurinn en kasta krónunni. Hefði nokkrum lifandi manni dottið í hug fyrir nokkrum áratugum að loka sjúkrahúsum, þegar fólk þyrfti nauðsynlega á þjónustunni að halda. Nei, það held ég ekki, en hagfræðin sem ekki kann að tala, spyr ekki fólk, aðeins tölur. Nákvæmlega það sama virðist uppi á tengingnum hjá ráðamönnum Reykjavíkurborgar. Hækkun strætisvagnafargjalda er vart til þess fallin að auka fjölda farþega. Þó er hækkunin mest hjá þeim sem hafa ekki bílpróf ennþá og þeim sem hættir eru að keyra bíl. Vinstri forræðishyggja á ferð í strætó að þessu sinni. Ef spurt er um svör, dettur sama gamla platan á fóninn, "Allt fyrri meirihluta að kenna".

Taka þarf upp nýja búskaparhætti

Alls staðar svamla menn í sama núllpyttinum. Lausnir í landbúnaðarmálum, jú búa til sauðfjárverksmiðjur, þar sem það virðist hafa steingleymst að taka með í reikninginn að lífræn ræktun afurða sem og hófleg nýting lands, er eitt af því sem kann að bjarga jarðkringlunni. Ekki eitt orð um lífræna ræktun í fréttum að minnsta kosti í tengslum við gerð búvörusamnings. Kannski eiga saufjárforstjórar að bregða sér í hlutverk "Súpermanns" og stunda ræktun samkvæmt kenningum Rudolfs Steiner. Hugmyndafræði hans er í raun, að miklum hluta til sá búskapur sem tíðkaðist á Íslandi fram á sjötta áratuginn og elstu bændur þekkja og kunna. Fyrir tíma forræðishyggjuráðunauta, sem réðu ferð og takið eftir hvatningu um aukið framleiðslumagn, ár eftir ár. Þessir sömu postular sitja nú og segja fátt á tímum þrenginga, þegar ráðist er á bændastéttina í heild sem afætur samfélagsins og hvaðeina. Það á að ryðja elstu bændunum út svo þeir nái ekki að skila lífsstarfi sínu í hendur afkomendanna. Eftir ca. áratug þarf svo að stokka upp á nýtt, þegar verksmiðjukjöt verður ekki lengur það sem fólk vill kaupa.

Hvenær opnast augu fólks?

Sauðkindin gerir lítið annað en að viðhalda því umhverfi sem hún hrærist í, og græða landið frekar en að eyða því, en það byggist á því að takmarka fjölda á hverja spildu lands. Nákvæmlega það sama á við um hross og nautgripi. Hér sem annars staðar virðast menn því hlaupa eftir hagfræðinni mállausu úr gluggalausa stöðugleikakofanum. Hvenær í ósköounum ætla menn að opna augun fyrir því sem er að gerast í kring um okkur og taka mið af því? Hvaða landbúnaðarráðherra var það nú aftur sem hvatti bændur af stað í fiskeldi og loðdýrarækt í stórum stíl á sínum tíma? Hvað skyldi sá góði maður vera að gera í dag?

Verður hið fámenna lögreglulið landsmanna brátt upptekið við sjóróðra allt í kring um landið? Kannski verður hægt að semja við bófana um að fara í verkfall á meðan. Kannski getur slökkviliðið hlaupa í skarðið. Ekki gott að segja. Kannski sameinast ríkisstjórnarflokkarnir í einn flokk og til sögunnar kæmi Framstæði sjálfssóknarflokkurinn. Ef til vill myndu þá tínast úr hópnum þeir sem enn meta manngildið ofar auðgildi og ná því að eygja skóginn fyrir trjánum.

Virðingarfyllst,

GUÐRÚN MARÍA ÓSKARSDÓTTIR,

Látraströnd 5, Seltjarnarnesi.

 

Mun eitt þjóðfélag verða þess umkomið að endurnýja gildismatið ?

Áður en bankarnir hrundu og hið meinta góðæri ríkti, var orðin til alvarleg stéttskipting í einu þjóðfélagi, þar sem himinn og haf aðskildi þjóðfélagshópa hvað tekjur varðar.

Tilfærsla auðs í einu samfélagi undir formerkjum frjálshyggju hafði alvarlega annmarka sem var skipulagið og eftirlitsleysið.

Lögleiðing frjáls framsals í sjávarútvegi, jafngilti peningaprentun og raskaði all mörgum efnahagslegum forsendum, ekki hvað síst vegna þess að fyrirtækin skiluðu ekki skattainnkomu í réttu samræmi við tilætlaðar forsendur breytinga þessara. Þess vegna var ekki hægt að lækka tekjuskattsprósentu á launamenn á almennum vinnumarkaði að mínu mati.

Skipulagið í þessari atvinnugrein setti Ísland á annan endann þar sem landsbyggðin var að hluta til afskrifuð atvinnulega, en ofþensla á Reykjanesskaganum fór úr böndum i staðinn, þar sem menn sitja nú uppi með ofþensluna og offjárfestingaæðið.

Allt afar þjóðhagslega óhagkvæm þróun á svo stuttum tima í einu landi, þar sem nýbyggð mannvirki í eigu hins opinbera og einstaklinga varð að engu um allt land, og fólk á landsbyggðinni fjötrað i atvnnuleysi með verðlaust eignarhúsnæði.

Ef læra á af reynslunni og endurmeta þarf vissulega að skoða aðferðafræðina við skipulag kerfa þeirra sem maðurinn hefur komið á fót í einu þjóðfélagi, hvort sem um er að ræða kvótakerfið eða heilbrigðiskerfið, menntakerfið eða félagsþjónustu, svo ekki sé minnst á landbúnað í landinu.

Endurnýjað gildismat mun vonandi fylgja í kjölfar þeirra efnahagslegu hremminga sem við nú stöndum frammi fyrir en það gildismat er okkar hvers og eins.

kv.Guðrún María.

 

 

 


Sammála.

Held að þessi athugasemd sem hér kemur fram sé réttmæt, það er óraunhæft að ganga út frá því að þessar skattahækkanir skili því inn til þjóðarbúsins, sem þarf um þessar mundir.

kv.Guðrún María.

 

 


mbl.is Má ekki ganga of nærri skattstofnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar forsendur málanna fljúga til hæða...

Hvers vegna skyldi það vera að svo seint og illa gangi að komast að niðurstöðum um hin ýmsu mál sem taka þarf ákvarðanir af hálfu sitjandi stjórnmálamanna ?

Mín skoðun er sú að ákveðin tegund af miðjumoði hafi einkennt stjórnmálin á síðari tímum þar sem enginn þorir að taka af skarið og hvers konar niðurstöður ákvarðanatöku einkennast af miðjumioði skoðana allra, án afgerandi þátta um hin ýmsu mál.

Tilhneiging til þess að reyna að gera öllum til hæfis með því móti, að sleppa því hreinlega að kveða af eða á um einstök mál, hefur þýtt doða á stjórnmálasviðinu almennt og að hluta til algeran vandræðagang til þess þoka málum áfram.

Yfirlit yfir ósköp álíka stefnuskrár stjórnmálaflokka eru gott dæmi um þetta miðjumoð.

Afskaplega léleg þekking manna á fundarstjórn almennt, varðandi það atriði að leiða mál til lykta með lýðræðislegum aðferðum þar að lútandi hefur eins og áður sagði þýtt, oftar en ekki útþynntar niðurstöður í málum eða engar.

Þar með hafa menn sloppið við það að taka ákvörðun um eitthvað af eða á og firrt sig ábyrgð af slíku.

Sífellt loðnari lagasmíð hefur velt ákvarðanatöku um ýmislegt yfir á hendur dómsstóla í landinu.

Svo koma stjórnmálamenn ef til vill og skammast yfir ákvörðunum dómsstólanna síðar.

Í upphafi skyldi endir skoða og stjórnarfar má sannarlega færa til betri vegar með skilvirkari ákvarðanatöku,

kv.Guðrún María.

 

 

 

 

 

 

 


Blaðurgirni í Seðlabankanum.

Hvort skyldu þessi orð hafa verið látin falla sem orð aðalhagfræðings hins Íslenska Seðlabanka, eða af persónulegu mati viðkomandi aðila á stjórnmálum í eigin landi ?

Raunin er sú að aðalhagfræðingur Seðlabankans getur varla tjáð sig um það sem enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um hér á landi, nema slíkt flokkist sem getgátur.

Getgátur eru í ætt við blaðurgirni.

kv.Guðrún María.

 


mbl.is Telur Ísland stefna á evrusvæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halelúja, var ég að lesa Baggalút ?

Minnir óneitanlega á eitthvað kommúniskt satt best að segja og halda mætti að þetta væri grín en svo virðst ekki vera.

Viðkomandi hefur nefnlega verið gestur í Silfrinu og hér og þar til þess að tala fyrir aðild að Esb, endalaust afar lengi, og nú er hann verðlaunaður fyrir það......

kv.Guðrún María.


mbl.is Benedikt útnefndur Evrópumaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarna er ég ekki alveg sammála Evu Joly.

Hin íslenska rannsókn á hruni bankakerfisins, tengist óhjákvæmilega skipulagi Evrópusambandsins og samninga um frjálst flæði fjármagns milli landa og starfssemi íslenskra banka á erlendri grund.

Þar getur Evrópusambandið ekki hlaupið bak við næsta tré sem alsaklaust apparat, svo mikið er víst og rannsókn á því hvernig það gat gerst að fjármálaeftirlit í Bretlandi, Hollandi og víðar ásamt því íslenska væri alveg patt sem og stjórnvöld landanna, þarfnast skoðunar við.

Hvað varðar kostnað við rannsókn hérlendis þarf að nýta þann lögfræðlega mannafla sem nú þegar er ráðinn hjá hinu opinbera, og færa störf úr ráðuneytum tímabundið þar sem vanhæfisskilyrði hamla ekki starfi manna, sama á við um endurskoðun og bókhald.

kv.Guðrún María.

 


mbl.is Ein mikilvægasta rannsóknin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband