Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
Landið allt þarf að byggja, nota og nýta.
Miðvikudagur, 2. apríl 2008
Það á ekki að þurfa að vera til staðar togstreita millum þeirra sem búa í höfuðborg og þeirra sem búa í dreifðari byggðum lands einfaldlega vegna þess að íbúar beggja svæða greiða sameiginlega skatta og skyldur í einn sjóð.
Uppbygging samgangna í takt við tímann er eðlileg þjónusta hins opinbera hvar sem er, en atvinnumöguleikar og tækifæri eru háð því að sitjandi stjórnvöld skapi skilyrði fyrir aðkomu manna að slíku í sínu skipulagi um land allt.
Hinar dreifðu byggðir landsins hafa mátt þola alls konar misvitrar aðferðir undir formerkjum meintrar hagræðingar i sjávarútvegi og landbúnaði undanfarna áratugi þar sem áhorf á allt að því verksmiðjubúskap til lands og sjávar hefur verið það eina sem stjórnvöld hafa eygt sýn á.
Þessi einhliða sýn stjórnvalda á atvinnuskipulag án endurskoðunar þess hins sama hefur ekki skilað tilætluðum árangri og báðum kerfum hinna gömlu atvinnuvega þarf að breyta svo aðkoma einstaklingsframtaks fái notið sín og verðmæti í formi lands og samgöngumannvirkja, skóla og heilsugæslu njóti jafnræðis um land allt.
Handapataúrlausnir til þess að taka á vanda hér og þar, sitt á hvað sem verið hefur viðkvæði stjórnarstefnu undanfarinna áratuga er engin framtíðarsýn því fer svo fjarri.
Frelsi einstaklingsins á að vera hið sama um land allt.
kv.gmaria.
Stjórnar markaðurinn Íslandi eða menn í ríkisstjórn landsins ?
Miðvikudagur, 2. apríl 2008
Algjört andvaraleysi og skortur á vitund fyrir afkomu almennings í landinu einkenndi svör forsætisráðherra í viðtali í sjónvarpi í kvöld. Sá hinn sami kallaði hugsanlega 60 þúsund króna aukningu útgjalda heimila í landinu vegna efnahagsástandsins " SNERTILENDINGU " .
Hvílik firring !
Telja menn virkilega að hægt sé að láta reka á reiðanum og bíða eftir gjaldþrotum heimila sem hugsanlega hafa þurft að horfa í nokkurra þúsunda aukningu milli mánaða sem nægilegt vandamál í mörg herrans ár hins meinta góðæris sem aðeins hluti landsmanna hefur orðið var við.
ER það peningamagn í umferð og þróun þess sem ræður ferð í einu samfélagi án þess að sitjandi aðilar við stjórnvölinn telji sig þurfa að taka ákvarðanir lengur ?
Gera ráðamenn sér ekki grein fyrir því að aðeins almennar skattalækkanir hins opinbera eru eina andsvarið sem stjórnvöld hafa í hendi sinni ?
Eftir hverju eru menn að bíða ?
kv.gmaria.
Verðtrygging afnumin og vísitalan tekin úr sambandi.
Þriðjudagur, 1. apríl 2008
Það hlaut að koma að því að einhverjar aðgerðir litu dagsins ljós og tenging vísitölu við verðlag þar sem gengið er með því móti sem verið hefur í þeirri þenslu sem eitt þjóðfélag hefur mátt þola er vissulega genginn sér til húðar. Það ber því að fagna því að dagur aðgerða skuli vera upp runninn til þess að takast á við það ástand sem skapast hefur í efnahagsumhverfi hér á landi.
Þess ber hins vegar að geta að í dag er 1. apríl og það sem þú hefur nú þegar lesið því aðeins til þess samansett að fá þig lesandi góður til þess að hlaupa apríl í hinu íslenska efnahagsöngþveiti.
Takk fyrir innlitið.
kv.gmaria.
Almenningur þarf að fá að vita um hvað bæklunarlækna og Tryggingastofnun greinir á um.
Þriðjudagur, 1. apríl 2008
Ef ég þekki rétt þá hefur Tryggingastofnun ákveðin ramma af fjárlögum sem rúmast til þess að semja við lækna og þeir hinir sömu vilja fá meira en því nemur.
Rétt eins og fyrri daginn er það óviðunandi að slíkt þurfi að bitna á sjúklingum, algjörlega óviðunandi.
kv.gmaria.
Bæklunarlæknar utan samninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fólk er farið að hamstra .... ! sagði fjölmiðlamaðurinn undrandi....
Þriðjudagur, 1. apríl 2008
Samt hafði sá hinn sami fjallað stanslaust í heila viku um hækkandi verðlag og hið hrikalega efnahagsástand í landinu.
Vissulega er ástandið slæmt en ekki verður það betra við að berja lóminn endalaust og stundum finnst mér sumir fjölmiðlamenn lítið átta sig á áhrifum af miklu magni neikvæðrar umfjöllunnar á stuttum tíma.
Spaugstofan nam þetta ansi vel og gerði snilldarþátt sem andsvar við neikvæðninni.
kv.gmaria.