Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
Þjónustustig sveitarfélaga þarf að skilgreina og staðla, í leikskólaþjónustu og annarri þjónustu.
Miðvikudagur, 12. september 2007
Ég hef talað fyrir því nokkuð lengi að þjónustustig sveitarfélaga verði skilgreint og staðlað varðandi það atriði hvaða sveitarfélag hvar á landinu er að standa sig í að uppfylla sitt lögboðna hlutverk varðandi þjónustu leikskóla, grunnskóla, félagsþjónustu, samgöngumál er að þeim snýr. Landsmenn geti þannig haft upplýsingar um hve vel hvert sveitarfélag sé statt á hverjum tíma og hugsanlega valið sér búsetu að hluta til eftir því hinu sama. Við skattgreiðendur greiðum skatta og gjöld til þess að þjónusta þessi sé fyrir hendi þá eigum við að fá að vita það hver er að standa sig og hver ekki, hvar og hvnær.
kv.gmaria.
Árásin á Bandaríkin 11 sept. skynjun mín kvöldið áður.
Þriðjudagur, 11. september 2007
Kvöldið áður en árásin á tvibaurarturnana í New York átti sér stað taldi ég mig hafa fengið heimsókn að handan við móðuna miklu sem fyrir mig persónulega var maðurinn minn heitinn. Þessi skynjun var sterk, svo sterk að mér var ekki sama og daginn eftir kom það í ljós að greinilega var eitthvað á ferð sem sló heimsbúa um þá heljarveröld sem mannsins athafnir geta áskapað. Dofi þess efnis að mega þurfa að sjá fjölda fólks farast í næstum beinni útsendingu fréttamiðla af atburðum var ógnvænlegur. Ég votta aðstandendum öllum þeirra sem þar misstu sína nánustu mína virðingu og vona að við heimsbúar munum eiga vit til þess að stemma stigu við slíkum harmleikjum í nánustu framtíð.
kv.gmaria.
Afnám verðtryggingar er næsta verkefni stjórnvalda í landinu.
Þriðjudagur, 11. september 2007
Til hvers í ósköpunum eiga landsmenn allir að taka þátt í " lottósöfnun " fjármálafyrirtækja í formi verðtryggingar fjárskuldbindinga þegar bankar eru ekki lengur í ríkiseigu. Mér er og hefur verið það atriði gjörsamlega óskiljanlegt. Það er jafn óskiljanlegt að fulltrúar íslenskrar alþýðu skuli ekki hafa getað létt þessum klafa af launamönnum í landinu með kröfugerð þess efnis í kjarasamningum. Við stofnun hlutabréfamarkaðar og sölu ríkisbanka átti að afnema verðtryggingu í áföngum en auðvitað var það ekki gert þá frekar en annað sem látið hefur verið reka á reiðanum. Nú þegar fjármálafyrirtæki heimta að fara að gera upp í öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni þá þarf að afnema verðtryggingu eins og skot.
kv.gmaria.
" It´s good for the company " að gera upp í evrum.
Þriðjudagur, 11. september 2007
Gaut augum á viðtal í Kastljósi nú áðan þar sem bankamaður var í viðtali varðandi evruumræðu. Hann kvað það hagsmuni fyrirtækisins Straums ef ég tók rétt eftir að gera upp í evrum. Fjármálafyrirtæki sjá um sig sjálf og ef svo er komið að samband fjármálafyrirtækja sem staðsett eru í einu landi við sitt samfélag og þáttöku í því takmarkast aðeins af blindri eiginhagsmunahyggju þar sem fyrirtækin telja að þjóðfélagið skuli í einu og öllu taka mið af hagsmunum þeirra varðandi stigvaxandi gróða ár frá ári, er illa komið. Því miður er fullt af fjármálamógúlum í nútimanum sem sveipa sig skykkju alþjóðavæðingar í Hrunadansi hins þröngsýna viðhorfs gróðasjónarmiða án vitundar um það að gróðinn verður til í samfélaginu í heild. Samfélagi sem keyrir bankanna um í barnakerru með bæði axlabönd og belti verðtryggingar fjárskuldbindinga hvers konar.
kv.gmaria.
Fátt er skemmtilegra en að mála.
Þriðjudagur, 11. september 2007
Er búin að vera að mála hjá mér heimilið síðan á laugardag enda löngu tímabært verkefni. Það er einhvers konar andleg hreinsun að henda dótinu saman í haug og mála veggina. Svona eins og að aka yfir Mýrdalssand eða ef til vill bara til Keflavíkur með hraunið eitt beggja megin. Gott ef ég fæ mér bara ekki striga og fer að mála myndir þegar ég er búin að mála íbúðina.
kv.gmaria.
Láglaunapólítik undir náð hins opinbera, ekki hvað síst konur á vinnumarkaði við þjónustu við manninn frá vöggu til grafar.
Mánudagur, 10. september 2007
Það er þyngra en tárum taki til þess að vita að hvoru tveggja ríki og sveitarfélög ganga á undan hvað varðar launastefnu í starfsmannahaldi. Launastefnan er síðan þess valdandi að ekki tekst að manna þjónustustörf og þjónusta er skert ár eftir ár eftir ár sama saga hring eftir hring. Það er nefnilega ekkert sem bannar stjórnmálamönnum við setu í stjórnum ríkis og sveitarfélaga að gera betur við starfsmenn sína en taxtar verkalýðsfélaga innihalda en viðhorfið er of hefur verið " bara að spara og spara og spara " í launagreiðslum sem aftur étur sjálft sig upp í skorti á starfsfólki og skertri þjónustu sem aftur veldur réttmætri óánægju skattgreiðenda sem HAFA borgað fyrir það að þjónustan sé til staðar lögum samkvæmt. Hinn kynbundni launamunur er fyrst og fremst af tilstuðlan þeirrar láglaunapólítikur sem viðgengst og viðgengist hefur hjá hinu opinbera á báðum stjórnsýslustigum og stjórnmálamenn hafa veruleg áhrif á við stjórnvöl þar á bæ ef vilji er fyrir hendi .
kv.gmaria.
Hvar ert þú ? ......... við erum hér........
Mánudagur, 10. september 2007
Fyrir nokkru fékk ég símtal hjá símafyrirtæki sem ég er ekki í viðskiptum við sem vildi spyrja mig nokkurra spurninga en ég sagðist vera upptekin og vonaði að það dygði til að berja af sér annað símtal. Nei aftur hringdi stúlka frá þessu símafyrirtæki sem ég hafði hætt viðskiptum við fyrir rúmu ári síðan og til hvers ? Jú til þess að segja mér að ég hefði hætt hjá þeim fyrir ári og þeir væru að hringja og athuga hvernig mér líkaði þjónustan hjá hinu fyrirtækinu sem ég hefði viðskipti við nú. Ég gat ekki orða bundist og tjáði stúlkunni að með fyllstu virðingu fyrir viðskiptum og samkeppni þá teldi ég það fullkomlega óeðlilegt að fá slíkar spurningar frá fyrirtæki sem ég verslaði ekki við og hygðist ég fara í viðskipti við fyrirtækið þá myndi ég sjálf hafa samband. Ég hef sennilega lent í hlutverki Júdasar við það að yfirgefa símafyrirtækið og prófa þjónustu hjá öðru fyrirtæki samkvæmt þessu símtali en markaðstilstandið á sér engin landamæri.
kv.gmaria.
"Ómarktækir, óvandaðir ruddar í íslenskri pólítik " aðstoðarmaður samgönguráðherra ræðir málin í blaðagrein.
Mánudagur, 10. september 2007
Mér svelgdist á kaffinu þegar ég las úrdrátt úr grein Roberts Marshal í Morgunblaðinu í dag, því sjaldan hefi ég séð aðra eins árás í formi orða og þar á sér stað á prenti og það úr munni aðstoðarmanns ráðherra í ríkisstjórn landsins. Spjótunum er beint að Bjarna Harðarsyni bloggvini mínum en orðrétt er úrdrátturinn svona
" Það má því líka segja að Bjarna Harðar hafi tekist á ótrúlega stuttum tíma að afhjúpa sig sem ómarktækan og óvandaðan rudda í íslenskri pólítík " Ég hefði nú haldið að oft hafi verið minna tilefni til meiðyrðamála en í þessu tilviki og skammarlegt að opinber embættismaður skuli láta sér slíkt um munn fara. Grein þessi er annars að virðist vegna gagnrýni Bjarna á Grímseyjarferjumálið.
kv.gmaria.
Þarf að rífast um skyr ?
Sunnudagur, 9. september 2007
Mjólkurafurðin skyr er ekki einkaeign fyrirtækja, heldur afurð sem framleidd hefur verið úr mjólk sem kemur úr kúm sem bændur eiga. Allt öðru máli gegnir um markaðssetningu á léni í formi framleiðlsu með skyr.is nafninu. Hver og einn einasti framleiðandi ætti að geta búið til skyr og selt sem skyr, ef hann selur það ekki undir þessu framleiðslunafni. Ég ætla rétt að vona að við skattgreiðendur þurfum ekki að borga fyrir verkefni dómsstóla við það að útkljá mál sem slík.
kv.gmaria.
Fullvinnsla afurða í sjávarútvegi kann að færa Íslendinga af stigi hrávinnnsluútflutningsþjóðar, með verðmætasköpun í samræmi við það.
Sunnudagur, 9. september 2007
Hlýddi á afar ánægjulega frétt í hádeginu þess efnis að sjávarútvegsfyrirtæki hefði ákveðið að bregðast við þorskaflaskerðingu með því að fullvinna afurðir innanlands í formi afurða sem tilbúinna rétta á disk. Auðvitað eigum við Íslendingar að fullvinna afurðir en ekki flytja þær út óunnar, alveg sama hvað þar er á ferð. Á sínum tíma starfaði ég hjá SS, þegar félagið hóf tilraunir með tilbúna rétti við kynningar í búðum, en þar kom til sögu framsýni þeirra sem þar réðu ferð og síðar hefur skilað félaginu markaðshlutdeild í vöru innanlands, vöru sem eftirspurn er eftir sem aftur skapar atvinnu innanlands en félagið sem upphaflega var í eigu sunnlenskra bænda flutti sig út á land með meginstarfssemi sem einnig var skref sem ég álít hafa verið í þágu eigenda og þjóðfélagsins í heild. Sams konar þróun í fullvinnslu sjávarafurða hefði fyrir löngu siðan átt að geta verið tilkomin hér á landi að mínu viti, en því ber að fagna að menn haldi af stað í þá átt.
kv.gmaria.