Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Ofbeldi gegn konum, er alheimsvandamál.

Það er mjög ánægjulegt til þess að vita að sérhæfð meðferð skuli til staðar  hér á landi, varðandi það atriði að aðstoða menn sem beita konur sínar andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Þegar ég fór að kynna mér þessi mál hér einhvern tímann las ég það að ein kona væri laminn á 15 sekúndna fresti einhvers staðar í heiminum sem er hörmulegt. Heimilisofbeldi var fyrir nokkru skilgreint sem eitt helsta heilbrigðisvandamál þjóða heims hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Þolendur þessa ástands eru börn inni á heimilunum sem þar sem þau sem slíkt upplifa kunna hugsanlega síðar að verða gerendur í slíku. Þær ómældu þjáningar allra hlutaðeigandi jafnframt þess sem beitir slíku eru því óendanlegar. Feluleikur þessa efnis viðgengst hins vegar oft og mjög lengi þar sem konur mega þurfa að lifa við löskun til líkama og sálar um langan tíma, án þess að finna aðferðir til þess að brjóta sig út úr slíku ástandi. Því ber þess vegna að fagna að sérhæfð meðferðarúrræði séu til staðar.

kv.gmaria.


Ég gæti sagt svo margt og mikið , mælt í hljóði, hafið raust....

en þótt í burtu þyrlist rykið. Það kemur aftur endalaust.

 

Þá er að reyna aftur, aftur,

enn á ný að hækka róm.

Vita hvort að komi kraftur

kanski með sinn leyndardóm.

kv.gmaria.


Athyglisvert viðtal í Kastljósi um þróun í tækni á sviði læknavísinda.

Þegar svo er komið að tæknin hefur hugsanlega áorkað þeim áfanga að nema taugaboð og nýta í þágu mannslíkamans hvað varðar skort á hreyfigetu og lömun hvers konar í stoðkerfum líkamans, hljýtur slíkt að þýða afskaplega stórt skref á sviði tæknimöguleika þessa efnis. Þótt enn sé eftir að vega og meta áhættu ýmis konar í formi rannsókna um hvað hugsanlega kunni að kosta ´sem og hvort áhættan sé virði annarrar áhættu aukahluta í líkamanum þá er hér um að ræða vægast sagt forvitnilegt verkefni. Takk fyrir þetta mjög svo áhugaverða viðtal Kastljós.

kv.gmaria.


Frjálslyndi flokkurinn hefur hamrað á breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu í áratug.

Það hefur vægast sagt verið athyglisvert að fylgjast með í stjórnmálum frá því tillögur Hafrannsóknarstofnunar um niðurskurð í þorksveiðikvóta á næsta fiskveiðiári komu til sögu. ALLT Í EINU ÞÁ, gátu allir íslenskir stjórnmálaflokkar aðrir en Frjálslyndi flokkurinn ALLT Í EINU rætt fiskveiðistjórn sem þeir hinir sömu höfðu vart látið sig varða í áratug eða svo. Ákvarðanir í kjölfar tillagna Hafrannsóknar fyrir næsta fiskveiðiár um stórfelldan niðurskurð lutu ekki gagnrýni þeirra er settust í valdastólana þótt hvoru tveggja sjálfsagt og eðlilegt hefði verið að fá fram skýringar HVERS VEGNA ráðgjöf sem farið hefur verið eftir í megindráttum frá hinni sömu stofnun í tuttugu ár, skilar nú einungis niðurskurði þorksstofnsins til veiða. Málamyndatilstand stjórnvalda til þess að takast á við þann vanda sem þetta skapar þjóðarbúinu til viðbótar hins innbyggða kerfisvanda sem fyrir hefur verið, er einungis eitt sjónarspilið af mörgu þar á bæ.  Einn þingmaður stjórnarflokkanna Árni Johnsen virðist nú hafa áttað sig á því að það vanti hrygg í fiskveiðiráðgjöfina, og kanski koma fleiri út úr skápnum fljótlega varðandi nákvæmlega hið sama.

kv.gmaria.


Frjálslyndi flokkurinn er hægra megin við miðju í íslenskri pólítik.

Þótt argaþras allra handa hafi einkennt Frjálslynda flokkinn frá upphafi þá breytir það því ekki að þar er fólk sem ekki getur sætt sig við þá öfgafrjálshyggju sem að hluta til má segja að hafi gengið til liðs við vinstri forsjárhyggju kommúnisma í aðferðafræði nútímans, þar sem markaðsfrelsið verður að helsi einokunar fárra í formi auðsöfnunar. Gamli Alþýðuflokkurinn sem að hluta til rann inn í Samfylkinguna hefur afsalað sér varðstöðu um jöfnuð í voru þjóðfélagi en gamla Alþýðubandalagið dagaði upp sem grænn flokkur fastur í allt að því einhliða áhorfi á andstöðu gegn vatnsafsvirkjunum og álverum ásamt einhvers konar femínisma skilgreiningu því til viðbótar. Framsóknarflokkurinn lenti utan stjórnar hafandi stjórnað með Sjálfstæðisflokki um árabil og goldið þar gagnrýni fyrir vikið. Uppstokkun í forystu Framsóknarflokksins hafa fært hann nær Frjálslynda flokknum í ýmsum áherslum að ég tel en Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú um stundir án efa enn fleiri óánægða félagsmenn innanborðs sem munu eiga valkost að fjórum árum liðnum þar sem Frjálslyndi flokkurinn er, varðandi hófsama hægri pólítik sem vill markaðsfrelsi í formi markaða sem skila fólkinu arði alls staðar á landinu.

kv.gmaria.


Haustið er tími, tímaleysisins.

Sumur hér á landi eru þannig að bókstaflega allt leggst niður alveg sama hvaða starfssemi þar á í hlut, en síðan hleðst allt á hausttímann fram að jólum þegar hið sama á sér stað í desember. Fundir á fundi ofan um allt mögulegt hér og þar eru daglegt brauð. Ráðstefnur á ráðstefnur ofan hlaðast einnig á þennan tíma þar sem virðist ekki hvað síst nú orðið stílað inn á þann tíma er þing kemur saman og nýjir þingmenn alla jafna duglegir að sækja slikt fram og til baka á hendingi um allt. Því til viðbótar sitja flestir fastir í umferðahnútum innanbæjar og ferðalögin taka tímanna tvenna fram og til baka. Þurfti oní miðbæ í dag á fund hvað annað, og lenti í því að finna stæði með gamaldagsstöðumæli til að setja pening í sem ég og gerði. Enginn tími kom og ég las litla letrið sem birtist " out of order " . Einmitt en skemmtilegt , þurfti að vega og meta í tímaleysinu hvort ég ætti að taka þá áhættu að leggja þarna að viðlagðri stöðumælasekt og matið var að slíka áhættu yrði ég að taka þar og þá. Sem betur fer slapp ég við sekt.

kv.gmaria.


Láglaunapólítik hins opinbera orsakar skort á þjónustu sem skattgreiðendur hafa greitt fyrir.

Launamunur millum opinbera geirans og annarra er gegnumgangandi í þjóðfélaginu og skrifast á margt, meðal annars skort á framsýni þeirra sem við stjórnvölinn standa á hverjum tíma sem og metnaðarleysi þeirra sem gegna forystu fyrir félög launamanna í störfum fyrir hið opinbera en þar verður að undanskilja kennarasambandið sem hefur gert heiðarlega tilraun til raunverulegrar kjarabaráttu fyrir hönd sinna félagsmanna. Skorturinn á framsýni þess efnis að greiða ekki laun sem nægja til að halda fólki í störfum við þjónustu hins opinbera er algjör því þjónustan er ekkert að fara eitthvað hún er til staðar lögum samkvæmt og skal verða áfram og stöðugleiki í starfsmannahaldi skilar ekki aðeins fólki með reynslu heldur einnig þjónustu sem til staðar er og þarf ekki að setja á biðlista vegna undirmönnunar líkt og tízkan hefur verið og er enn.

kv.gmaria.


mbl.is Allt að 30% launamunur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er lögbrot að tala um tóbak, hvað með ólögleg fíkniefni ?

Að öllum líkindum þarf hið háa Alþingi að takast á við það " smáverkefni " að fara að skoða lög um tóbak í ljósi þess að menn hafa orðið uppvísir að mæra fíkniefni í útgefnu rituðu máli en svo sérkennilegt eins og það er, er tóbak leyfileg söluvara , fíkniefni ekki. Ætla mætti eðli máls samkvæmt að fyrr hefði það verið leitt í lög að banna umræðu um ólöglega söluvöru áður en bann við umræðu um hina löglegu gengi í gildi. Á síðum internetsins hefur lengi verið að finna allra handa talsmenn til dæmis ágætis canabisneyslu , en enn sem komið er er lagasetning um netið lítil sem engin. Aðhald manna gagnvart umræðu af þessu tagi eru oft andvaraleysi sem aftur veldur því að umburðarlyndi verður til, sem er slæmt að mínu mati. Það atriði að menn fái að tala gegn lögbrotum á ekki að líðast.

kv.gmaria.


Vitstola vitleysingar undir áhrifum fíkniefna í miðbænum ?

Þegar svo er komið að það telst " húmor " af einhverra hálfu að mæra fíkniefnaneyslu opinberlega í rituðu máli í útgáfu blaðs þá er það vart að furða að stig neyslunnar sé með því móti að sérsveit lögreglunnar þurfi að vera til staðar á aðalskemmtistaðasvæði borgarinnar um helgar. Án efa loga símalínur fjölmiðlanna fljótlega, yfir meintu harðræði lögreglunnar við handtökur á mönnum við ýmislegt annað en að pissa bak við hurð í miðbænum ef til vill þeir sömu og kölluðu eftir sýnilegri löggæslu í miðbænum , hver veit ?

kv.gmaria.


HVER hefur húmor fyrir fíkniefnum ?

Góð frásögn birtist í Fréttablaðinu í dag þar sem vakin er athygli á blaði undir nafninu Djöflaeyjan þar sem dansaður er dans kring um fíkniefnaneyslu með ýmis konar lýsingum sem viðkomandi ritstjóri segir " húmor " og lætur þess jafnframt getið að menn hljóti að vera í dópi hafi þeir ekki húmor fyrir þessu. Sjálf myndi ég nú halda þvert á móti satt best að segja og bókstaflega til háborinnar skammar að menn skuli komast upp með það að prenta slíkar frásagnir hvað þá dreifa.

Geðveiki eða dauði er það " ´húmor " ?

Fíkniefnaneysla ungmenna í þessu þjóðfélagi er þjóðfélagsmein og stórkostlegur bölvaldur sem gegnsýrir heimili og fjölskyldur hlutaðeigandi og veldur þjóðhagslegum kostnaði þess efnis að meðhöndla afleiðingar neyslunnar á hina margvíslegustu vegu. Foreldri sem horfa þarf á barn sitt fært burt í járnum vitstola af völdum neyslu , hlær ekki frekar en foreldrið sem vakað hefur fram á nætur árum saman í ferli sem slíku. Ég get ekki ímyndað mér að barnaverndaryfirvöldum sé hlátur í hug né heldur geðlæknum og geðhjúkrunarfræðingum, hvað þá lögreglumönnum og skólayfirvöldum almennt.

Burt með svona skrif.

Hér þarf hreinsunar við og ég frábið mér allt tal um tjáningarfrelsið í þessu efni því það á ekki við, hér er um ólöglegt athæfi að ræða þ.e. notkun fíkniefna og það atriði að slíkt sé fært í bómullarbúning sem þennan á ekki að eiga sér stað. Bendi á í því sambandi að það er bannað að tala um tóbak.

kv.gmaria.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband