Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Baráttuna gegn fíkniefnaglæpamönnum þarf enn að efla, spurning um fé skattborgara.

Það er ömurlegt til þess að vita að hér í þessu þjóðfélagi séu menn mitt á meðal okkar sem lifa og nærast á sjúklegri fíkn einstaklinga í notkun efna. Menn sem enn komast upp með það að hafa tekjur af slíkri glæpastarfssemi meðan vandamálin lenda á herðum skattgreiðenda við að´fást við að koma þeim einstaklingum sem slikum sjúkleika eru haldnir úr því ástandi. Baráttan heldur áfram við að berjast gegn slíku og fordæma þá aðila sem slíka iðju ástunda og koma þeim bak við lás og slá einum og einum og öllum á endanum.

kv.gmaria.


Efnahagsstefna núverandi ríkisstjórnar , er hver ?

Telja ráðamenn við stjórnvölinn að endalausar hækkanir stýrivaxta Seðlabanka muni einhverju breyta til betri vegar í íslenskum efnahagsmálum ? Hefur núverandi ríkisstjórn reiknað það út hvað mikið það kostar þá er skulda fé í þessu landi að þróun mála sé með þessum hætti ? Verðtrygging er enn fyrir hendi hér á landi þar sem útlánastarfssemi hvers konar er ekki að taka nokkra einustu áhættu , einungis þeir sem þurfa á lánsfé að halda sem greiða mismuninn í formi okurlánavaxta.

kv.gmaria.


Árangursstjórnun í einu þjóðfélagi.

Það er ekki sama hve miklum fjármunum er varið í hitt og þetta samfélagssviðið ef fjármunir þeir hinir sömu skila ekki því gæðastigi þjónustu sem vera skal. Við eigum að standa okkur í því að sinna grunnþjónustu við menntun og heilbrigði í landinu , því góð grunnþjónusta er forvörn á hvoru sviði fyrir sig. Sama er að segja um svið félagsþjónustu í landinu, grunnþáttinn nægilegan mannafla að störfum þarf að hafa til staðar. Biðlistamenning er því miður og hefur verið viðtekin venja undir formerkjum þess að nægilegt fé sé ekki til staðar til að veita þjónustu hjá hinu opinbera, þótt skattgreiðendur inni fé af hendi og hafi innt fyrir þá þjónustu sem skal og skyldi vera til staðar. Hér þarf að breyta um í hugsunarhætti að mínu viti og eitthvað sem verið hefur allt of fast í kerfi voru , því miður. Tekjustofnar sveitarfélaga til þess að uppfylla sitt þjónustuhlutverk þurfa að vera í lagi og í samræmi við umfang verkefna hverju sinni. Það er nefnilega ekkert lögmál að alltaf þurfi almenningur að vera að kvarta og kveina yfir því að þjónustustofnanir standi sig ekki hér og þar í sífellu.

kv.gmaria.


Kostnaðarvitund Alþingis og ráðamanna við stjórnvölinn.

Ég hef hvatt alla til þess að skoða og ígrunda fjárlög hvers árs um leið og þau koma fyrir sjónir manna ár hvert. Jafnframt er mjög fróðlegt að skoða spár ráðuneyta milli ára um kostnað við málaflokka þar sem oftar en ekki virðist lítið eða ekki hafa verið tekið tillit til þess að landsmönnum kunni hugsanlega að fjölga og þjónusta hvers konar kosti þar af leiðandi meira milli ára. Sjaldnast er sú vitund fyrir hendi að hafa fé fyrir hendi á fjárlögum aukreitis í bráðnauðsynlega þjónustu svo sem varðar hátæknisjúkrahús í landinu, því miður og þessi sjúkrahús því að glíma við það verkefni að spara og spara og spara sem er gott og gilt í sjálfu sér sem markmið en EKKI eðlilegt þegar kemur að mannahaldi sem þarf að vera til staðar svo þjónusta skili sér sem skyldi þar sem álag á starfsmenn er spurning um gæði sem vera skulu til staðar. Sú leiðinlega aðferð að vera ár hvert að taka á uppsöfnuðum vanda hér og þar með alls konar skammti úr hnefa er aðferð sem þarf að afleggja eins og skot og er okkur sem þjóð til vansa. Skortur á yfirsýn yfir eitt stykki kerfi og kostnað þar að lútandi er alger, hvað varðar samhæfingu og skilvirkni eininga allra en þess í stað hefur verið einblýnt á stærsta póst útgjalda hátæknisjúkrahúsin sem eru þó hluti af heildinni og verkefni þeirra hafa heilmikið með skilvirkni eininga annarra allra að gera. Hver og einn einasti nýkjörinn alþingismaður ætti að fara á námskeið sérstaklega til þess að kynna sér tilkomu útgjalda til heilbrigðismála en þar er um fjárfrekasta útgaldaflokk þjóðarinnar að ræða.

kv.gmaria.


Verðlagseftirlit í ógöngum eða hvað ?

Síðustu fréttir herma að stór verslanakeðja á lágvörumarkaði í landinu véfengi niðurstöður kannana á vegum verkalýðsmiðstýringarapparatsins ASÍ. og hefur af þeim sökum óskað eftir dómskvöddum matsmönnum til þess að koma málum á hreint varðandi verðlag í landinu. Fyrir mína parta get ég svo sem efast um það að það þurfi hagfræðing til þess að gera verðkannanir en var það ekki Guðmundur heitinn jaki sem talaði um " hagfræðingastóð " innan verkalýðshreyfingarinnar á sínum tíma ? Það er annars svolítið skondið að fylgjast með ASÍ þegar Samfylking er komin í ríkisstjórn og þegar Samfylking var ekki í ríkisstjórn en samtenging þessa bandalags við viðkomandi stjórnmálaflokk er eitthvað sem ég hefi gagnrýnt og mun gagnrýna hvað varðar ýmsa hluti sem ég tel óeðlilega tengingu við stórnmál.  Það atriði að við launþegar séum að kosta miðstýringu innan verkalýðshreyfingarinnar með þessu móti er eitthvað sem ég álít að sé tímaskekkja í nútíma samfélagi.

kv.gmaria.


Mun sjávarútvegsráðherra funda með Hafrannsóknarstofnun, í byggðum landsins ?

Ákvörðun sjávarútvegsráðherra þess efnis að fara alfarið að tillögum Hafrannsóknarstofnunar um niðurskurð í þorskafla komandi fiskveiðisárs,  hefur kalllað á mikla gagnrýni á stofnunina sem og ráðuneytið. Hvernig mun ráðherra svara þessari gagnrýni sem og Hafrannsóknarstofnun ? Er það ekki hvoru tveggja sjálfsagt og eðlilegt að stjórnvöld gefi almenningi um land allt kost á því að fá að funda með stjórnvöldum, þar sem fyrirsvarsmenn Hafró eru einnig til svara, varðandi forsendur þeirrar hinnar sömu ákvarðanatöku ?

kv.gmaria.


Sálin þarf umhyggju og atlæti.

Við þurfum að næra vora sál því afskaplega margt í nútíma samfélagi gerir það að verkum að sálin verður útundan í hamagangi hinum mikla á lífsgæðahlaupabrautinni. En hvernig kynni einhver að spyrja... Mitt svar er kyrrð og aftur kyrrð því meiri kyrrðarstundir sem við getum fundið í tíma og rúmi þvi betra. Endalaust áreiti allra handa auglýsingaskrums dynur á okkur í tónum og rituðu máli á blaðsneplum sem og skjánum sem við erum með fyrir framan okkur fram og til baka árið um kring. Að hlusta á náttúruna, hjala þar sem lækur rennur eða brim gnauðar , fugla syngja, eða bara hlusta á umhverfi án hinna minnstu hljóða er eitthvað sem endurnærir. Því til viðbótar er það næring að gefa af sér og auðsýna kærleik og virðingu,  þeim er á vegi manns verða.

kv.gmaria.


Vestmannaeyjar eiga sína eigin menningu, svo sem Þjóðhátíð.

Sökum tengsla minna við Eyjarnar þar sem amma og afi bjuggu lengst af, var ég tíður gestur í Eyjum á ungdómsárum á ferðalagi undan Eyjafjöllum, þar sem flugferðir voru á sínum tíma tvær í viku frá Skógasandi þegar Douglasinn gamli var og hét. Það voru allir svo glaðir í Eyjum og lífsgleðin draup af hverju strái. Flestir voru kenndir við kennileyti hvort sem var um dvalarstað eða vinnu að ræða þannig að þótt menn hétu sama nafni villtust menn ekki á neinum í Eyjum. Ási i Bæ frændi fram í ættir var skáld mikið og stórskemmtilegur karakter þar sem hann lét að sér kveða og löngum stjórnandi brekkukórsins á Þjóðhátíð Vestmannaeyja. Við því starfi tók Árni Johnssen sem viðhaldið hefur því hlutverki nú í áraraðir með sóma. Samstaða og eining Vestmanneyinga um sitt samfélag er eitthvað sem við uppi á landi mættum læra af.

kv.gmaria.


Skattleysismörkin eru ennþá gjörsamlega út úr kú......

Við Frjálslynd höfðum hátt um hækkun skattleysismarka í kosningabaráttunni og ekki að ósekju, því hinn almenni launamaður í landinu hefur verið hlunnfarinn varðandi það atriði að mörk skatta hafa ekki haldist í hendur við verðlagsþróun í landinu. Þessi blessuð mörk hafa nú verið 90 þús í sex mánuði , þar áður 69 þúsund sagt og skrifað síðan 1995 ..............  Það er lágmarkskrafa að skattar séu sanngjarnir én það eru þeir ekki eðli máls samkvæmt þegar svo hátt hlutfall skatta leggst á svo lágar tekjur sem raun ber vitni.

Leiðréttingu takk.

kv.gmaria.


Tryggingastofnun og Tannlæknar, gjöri svo vel að koma sér saman um samning um þjónustu.

Heilbrigðiskerfið er kerfi þar sem til staðar á að vera niðurgreidd þjónusta fyrir almenning í landinu sem greiðir skatta. Eigi að síður eru starfandi tannlæknar í landinu sem ekki hafa samning við Tryggingastofnun gildandi þannig að gjaldskrá sú sem gildir hjá tannlæknum er ekki sú sem TR viðurkennir sem gilda. Þetta ástand hefur ríkt of lengi og almenningur úti í mýri um hvað sé rétt og hvað ekki hvað varðar uppsett gjald til greiðslu. Þessu ástandi þarf að linna hið fyrsta og koma þarf á samningi sem gilda skal sem hin opinbera þjónusta sem ekki á að þurfa að vera á reiki í þessu efni.

kv.gmaria.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband