Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
Ríkissjóður rekin á núlli með skattpíningu hinna tekjulægstu, í rúman áratug.
Mánudagur, 7. maí 2007
Það er alvarlegt að mismuna þegnunum einkum og sér í lagi ef slík mismunun er innifalin í kerfi mannsins. Núverandi skattkerfi með tekjutengingafyrirbærinu sem fyrir löngu hefur bitið í skottið á sér er sorglegur vitnisburður aðferða núverendi ríkisstjórnarflokka, sem hvorugir hafa náð að eygja sýn á kjör fólksins sitjandi í Fílabeinsturni valdsins of langan tíma. Núverandi skattkerfi hefur framleitt fátækt í voru landi, með frystingu skattleysismarka og þeirri óráðsíu að aftengja mörkin verðlagsþróun í landinu , meðan verðtrygging fjárskuldbindinga var færð fjármálastofnunum á silfurfati við sölu banka úr eigu ríkis í hendur einkaaðila. Lágtekjufólk, aldraðir og fatlaðir hafa mátt ganga gegnum móðuharðindi vorra tíma í formi vitundarleysis sitjandi ráðamanna um kjör fólksins í landinu og þá atlögu að sjálfsvirðingu einstaklinganna sem ekki hafa getað tekið þátt í sams konar þjóðfélagi lífsgæða og aðrir landsmenn. Þetta er ástand sem einfaldlega er ekki líðandi í siðaðra manna samfélagi stundinni lengur.
kv.gmaria.
Togstreita ríkis og sveitafélaga í bráðnauðsynlegum skipulagsframkvæmdum.
Mánudagur, 7. maí 2007
Magnús Þór benti réttilega á það í þætti í dag í Reykjavík norður, hvers konar togstreita hefði einkennt athafnir R-lista annars vegar og ríkisstjórnar hins vegar en þar var einmitt um að ræða núverandi formann SF og fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, sem báðir áttu setu sem borgarstjórar í Reykjavík. Það er nefnilega með ólíkindum að ekki skuli hafa tekist að koma í horf stofnæðum út úr og inn í höfuðborg landsins. Meira og minna einkenndi það umræðu um þessi mál til langs tíma hnútukast um keisaranna skegg meira og minna á kostnað athafna til verka. Svipað dæmi má finna varðandi tvöföldun Reykjanesbrautar sem komst gegnum Hafnarfjörð en tafðist í gegnum Garðabæ á leið í Kópavog öllum til tjóns. Það er lágmark að stjórnsýslustig ríkis og sveitarfélaga starfi saman að nauðsynlegum skipulagsframkvæmdum og slikar framkvæmdir lendi ekki sem flokkspólítískt hnútukast af heimskulegum toga, á kostnað verkefna sem þarf að framkvæma alveg sama hvar á landinu er.
kv.gmaria.
Þögn stjórnmálaflokka um kvótakerfið, allra nema Frjálslynda flokksins.
Mánudagur, 7. maí 2007
Samfylkingin hefur ekki skoðun á kvótakerfinu og formaðurinn sagði það ekki vera til umræðu mikið nú eins og fyrir síðustu kosningar, það var nú allt og sumt. Vinstri Grænir og formaður þeirra Steingrímur Joð, brást hinn versti við þegar Sigurjon Þórðarson benti á andvaraleysi hans flokks í kjördæmaþætti Norðaustur nýlega. Þetta sama andvaraleysi þessara beggja stjórnarandstöðuflokka hefur Guðjón Arnar einnig bent á. Andvaraleysi sitjandi stjórnarflokka er algert og þeir hinir sömu hafa rembst eins og rjúpan við staurinn að telja landsmönnum trú um að sól sé í heiði, þótt halgél dynji á landsmönnum. VG og SF hafa því verið í þagnarbandalagi um kvótakerfi sjávarútvegs, með ríkisstjórnarflokkunum og margir vinstri menn því miður á þeirri skoðun að fiskveiðar séu ekki eitthvað sem við Íslendingar þurfum að vera hugsa um til framtíðar þar komi eitthvað annað til. Sem dæmi hefur sýn á lífríki sjávar ekki verið meðferðis í umhverfisvitundarvakningu hinni meintu hér á landi, því fer svo fjarri, aðeins það sem hönd á festir eða augað sér.
Mál er að linni.
kv.gmaria.
Árangur fjársveltra ráðuneyta Framsóknarmanna ?
Mánudagur, 7. maí 2007
Það er allt í uppnámi í heilbrigðisgeiranum og hátæknisjúkrahús tekst ekki að manna og starfsmenn geta ekki tekið sitt sumarfrí. Árangur ? Barnaverndarmálin og vandi barna sem ánetjast fíkniefnum skyldi maður álykta að fengi fé til úrræða, en því er ekki að heilsa og biðlistar eftir meðferðarúrræðum og yfirfull neyðarvistun hefur meðal annars orsakað að vandinn eykst fremur en hitt þegar úrræðaleysið er fyrir hendi, og heilbrigðisvandamál knýja dyra. Hvað þá jú yfirfullt BUGL og biðlistar enda sama húsnæði þar á bæ í 30 ár, ég endurtek 30 ár sem er til skammar fyrir hlutaðeigandi aðila við stjórnvölinn. Það var ekki fyrr en á síðasta ári að ríkið ákvað að veita fjármagni til bygginga við Bugl en þá höfðu einstaklingar og fyrirtæki safnað fé til uppbyggingar þar á bæ áður en það kom til sögu. Árangur ? Svar mitt er Nei.
kv.gmaria.
Hve lengi ætlar sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins að verja ónýtt kerfi ?
Mánudagur, 7. maí 2007
Fer fiskveiðistjórnunin eins og refa og minkaævintýri Framsóknarmanna fyrir áratugum síðan, þar sem hamast var þangað til allt fór á hvínandi kúpuna ? Meðan menn neita því að horfast í augu við vankanta eigin aðferðafræði í langan tíma, í stað þess að taka til við nauðsynlegar umbreytingar , fer sem fer. Mér skilst að Kompás hafi í kvöld dregið fram ágalla fiskveiðistjórnunarkerfisins, á enn eftir að sjá þáttinn en fagna því sannarlega að ljósi sé varpað á þessi mál.
kv.gmaria.
Hvaða velferðarsamfélag er Sjálfstæðisflokkurinn að tala um ?
Sunnudagur, 6. maí 2007
Auglýsingar ríkisstjórnarflokkanna ekki hvað síst Sjálfstæðisflokksins varðandi það atriði að landsmenn vaði í velferð og kaupmætti er sem blaut tuska framan í fólk sem lifir illa eða ekki af til dæmis ellilífeyri og er sligað af greiðslu þjónustugjalda í heilbrigðisþjónustu og lyfjakostnaði. Aldraðir eru reiðir og reiði þeirra er réttlát, biðlistar eftir hjúkrunarrýmum gefur þessari ríkisstjórn í raun falleinkunn í vitund og ábyrgð í þessum málaflokki. Menn hafa nefnilega haft langan tíma til að gera eitthvað og standa sig í úrræðum en það hafa þeir EKKI gert, og hjákátlegt loforðaflóð um úrbætur nú allt í einu eftir sextán ár er einfaldlega eitthvað sem fólk treystir ekki lengur.
kv.gmaria.
Er Landsamband Íslenzkra útgerðarmanna í ríkisstjórn eða ríkisstjórnin í LÍÚ ?
Sunnudagur, 6. maí 2007
Það hefur ekki farið framhjá nokkrum manni að ríkistjórnarflokkarnir báðir standa og sitja eins og LíÚ, vill og er skemmst að minnast þess að Sjálfstæðisflokkurinn fann línuívilnun sem súper patentlaustn fyrir síðustu kosningar þegar kvótakerfið var ofarlega í umræðunni, en greinilega þá eitthvað í ama við LÍU sem komu ævarreiðir vegna þessa síðar. Flokkur eða flokkar við stjórnvölinn sem sjá ekki fiskistofna minnka til dæmis um helming í formi landaðs afla eins og þorskinn hér við land áður en kvótakerfið kom til sögu og nú árið 2007 eru flokkar sem tala gegn betri vitund.
Flokkar sem hafa engar áhyggjur af því hvort fiskistofnar minnka ár frá ári í einu stykki kerfi eru að hugsa um aðra hagsmuni en uppbyggingu stofnanna.
kv.gmaria.
Fjármagnsbrask í stað fiskveiða, datt mönnum það í hug ?
Sunnudagur, 6. maí 2007
Getur það verið að þeim stjórnmálamönnum sem sátu og samþykktu framsal aflaheimilda milli útgerðarfyrirtækja hafi ekki verið það ljóst hvernig túlkun lagana varð í framkvæmd sinni ? Datt þeim í hug að bankar tækju til við að taka óveiddan fisk gildan sem veð ? Sáu þeir það fyrir að einn góðan veðurdag kæmi að því að einhver útgerðarmaður myndi selja sig út úr greinninni og sitja eftir með fúlgur fjár ? Sáu þeir fyrir að fyrirtækin myndu ekki víla fyrir sér að selja alla atvinnuna burt úr einu þorpa án þess að depla auga ? Því miður fyrirfinnast ekki önnur eins mistök á sviði stjórnmálanna alla siðustu öld en þau að lögleiða fjármagnsbrask í kerfi sjávarútvegs, brask sem hefur gert það að verkum að menn hafa litla sýn á annað en sjálft braskið s.s. stöðu fiskistofna, stöðu byggðarlaga atvinnulega, umgengni á fiskimiðunum, og fleira og fleira. Hámark ósvífninnar var og er þegar útgerðarmenn hófu að tala um " eignarétt " á sameign þjóðar, vegna peningabraskumsýslunnar allrar. Raunveruleg hagræðing íslensku þjóðarinnar af þessu kerfi er engin en fórnarkostnaður mikill og landsbyggðin rústir einar. " Hagræðing í sjávarútvegi " er gömul klisja sem ríkistjórnarflokkar klifa á og væri nær að úrelda hið fyrsta því sú einfalda staðfreynd að hemingi minna er fært á land af þorski nú en fyrir upptöku þessa kerfis segir allt sem segja þarf.
kv.gmaria.
Amma til sölu ?
Laugardagur, 5. maí 2007
Hannes Hólmsteinn leggur hér út pistil í sínum ofurvinsæla dálki lesninga á blogginu um orð þess efnis að menn frjálshyggju væru tibúnir til þess að selja ömmu sína sem að hans sögn hafi fallið úr munni vinstri manna. Það má svo sem alveg velta því fyrir sér nú orðið hvað menn telja að geti gengið kaupum og sölum þegar menn hafa gengið svo langt að gera óveiddan fisk úr sjó að söluvöru á þurru landi sem viðskiptaeiningu verðmæta. Burtséð frá langtímamati á stærð fiskistofna til dæmis, sem og verðmyndun og kostnaði er slík umsýsla óhjákvæmilega hlýtur að innihalda. Skattaálögur hins opinbera á umsýsluna eru vissulega tekjulind í þjóðarbúið eða hvað ? Af hverju ekki ólæknaðir sjúkdómar, ófædd lömb, mjólk úr kú, sem verslunarvara með framsal og leigu undir formerkjum hagræðingar meints markaðssamfélags hjá 300 þúsund manna þjóð ? Það skyldi þó aldrei vera að menn kunni að hafa flogið framúr sjálfum sér sem aftur kynni að orsaka það álit manna að menn væru tilbúnir til þess að selja ömmu sína. Framkvæmdasjóður aldaðra hefur ekki byggt upp öldrunarþjónustu heldur hafa peningarnir verið notaðir í rekstur eins skringilegt og það nú er.
kv.gmaria.
Hverjum datt í hug að frysta skattleysismörk á sínum tíma ?
Laugardagur, 5. maí 2007
Ber Framsóknarflokkurinn ábyrgð á frystingu skattleysismarka ? Hvað með Sjálfstæðisflokkinn, var hann hugmyndasmiðurinn í því sambandi ? Hví mætti verkalýðshreyfingin ekki grá fyrir járnum ? Höfðu lífeyrissjóðirnir ef til vill fjárfest í atvinnulífinu, þar sem hagsmunir sjóðanna miðuðust við rekstur fyrirtækja á hvað lægstum launagreiðslum er aftur ávaxtaði fé sjóðanna ? Rannsókn sýndi að 10 % landsmanna bjó við fátækt , vegna hvers ? Ef til vill vegna þess að skattprósenta lagðist af fullum þunga á upphæð sem var undir framfærslumörkum félagsmálastofnanna, og skilgreiningu fjármálastofnanna allra um upphæðir til framfærslu einstaklingsins ? Hvaða snillingur skyldi í raun bera ábyrgð á því atriði að skattleysismörkinn skuli hafa verið fryst í langan tíma aftengd verðlagsþróun í landinu ? Hver var það sem bar og ber ábyrgð á því ?
kv.gmaria.