Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Frjálslyndi flokkurinn vill velferðarþjóðfélag sem stendur undir nafni.

Það atriði að hið opinbera standi í þvi að heimta skatta af bótum almannatrygginga og stundi alls konar tekjutengingaútreikningakúnstir til þess að ná krónum úr hægri vasanum yfir í þann vinstri er fáránlegt í einu orði sagt. Það er með ólíkindum að þing eftir þing skuli ekki hafa tekist að laga annaðhvort skattkerfið ellegar almanntryggingakerfið á þann veg að ekki sé verið að vega að framfærslumöguleikum fólks sem í litlu eða engu getur umbreytt stöðu sinni að þessu leyti. Ef öryrkjar með hluta vinnugetu reyna að taka þátt í samfélaginu með hlutavinnu kemur refsivöndurinn og skerðir og hirðir hluta afkomunnar þannig að viðkomandi er í nær sömu stöðu eftir. Ef fólk leitar síðan ásjár félagsmálayfirvalda í sveitarfélögum til aðstoðar og fær hugsanlega styrki til aðstoðar, þá viti menn styrkirnir eru skattlagðir sem tekjur , sem er hámark tilgangsleysis í þessu efni. Við í Frjálslynda flokknum leggjum til að öryrkjar geti unnið fyrir upphæð að einni milljón króna árlega án þess að slíkt skerði bætur, og hið sama gildi um aldraða hér á Íslandi.

kv.gmaria.


Ábyrgð fjölmiðla í íslensku samfélagi er mikil.

Hlutleysi blaðamanna gagnvart skoðanamótun í framsögn frétta hvers konar, hvað varðar pólítiska dilkadrátta er hlutur sem ekki á að eiga sér stað alveg sama hver á í hlut. Nákvæmlega sama má reyndar segja um umfjöllun um markaðsmál og fyrirtæki , hin faglega yfirsýn blaðamannsins á ekki að þurfa að auka hlut eða halla á einn eða annann. Ekki svo fremi að umfjöllunin sé fagleg. Nýlegt dæmi um léleg vinnubrögð er að finna á ríkisfjölmiðli ruv. þar sem fréttamaður sýður saman frétt um ágreining innan stjórnmálaflokks skömmu fyrir kosningar, ágreining sem allir koma af fjöllum með, sú er þetta ritar sem aðrir. Fréttamenn sem verða uppvísir að ófaglegum vinnubrögðum eiga ekki fá að viðhafa þau hin sömu vinnubrögð áfram átölulaust, því slíkt setur blett á stéttina í heild.

kv.gmaria.


Stóriðjupopp , stopp , stopp...

Steingrímur og Ómar ásamt Ingibjörgu troða upp með " stóriðjustopp " fyrir þessar kosningar og reyna að telja landsmönnum trú um að það kunni að bjarga mönnum frá afleiðingum gróðurhúsaáhrifanna að stoppa stóriðjuna strax. Ómar ætlar einungis að tala um umhverfismál og Steingrímur hefur innleitt femínisma sérstaklega með stóriðjustoppinu. Eigi að síður er hér verið að ræða raforkuframleiðslu með vatnsafli og framleiðslu á áli sem er endurnýtanlegur málmur. Ef til vill er spurningin um að koma þessari framleiðslu úr landi yfir á aðrar þjóðir svo við Íslendingar séu patt í því til dæmis að framleiða flugvélar til þess að ferðast til annarra landa , þáttöku í framleiðslu bíla og ýmiss annars iðnvarnings sem nútíminn inniheldur. Var einhver að tala um þjóðernishyggju ?

kv.gmaria.


Brottkast fiskjar á ekki að eiga sér stað.

Kvótakerfi takmarkaðra fiskveiðiheimilda eru alla jafna sóunarkerfi að því leyti að hvati til þess að velja verðmesta fiskinn er fyrir hendi þar sem afli er takmarkaður. Evrópusambandið situr nú í súpunni í sínu skipulagi í þessu efni þar sem brottkast er gífurlegt vandamál. Í rauninni höfum við nákvæmlega ekki nokkurt einasta leyfi til þess að ganga svona um náttúruna mennirnir því náttúran hefur takmörkuð jarðargæði og þar er hafsbotninn og fiskistöðvarnar engin undantekning. Það er nefnilega til annars konar fiskveiðistjórnun þar sem hvatinn að slíku er ekki eins ríkur og í kvótakerfi því sem nú er við lýði. Brottkast orsakar það að veiddur afli á miðunum í heild er annar en tölulegar upplýsingar í landi gefa til kynna sem aftur raskar viðmiðum hvers konar til útreikninga eðli máls samkvæmt. Við Íslendingar þurfum því sem allra fyrst að koma okkur út úr slíku kerfi.

kv.gmaria.


Skuldir íslenskra útgerðarfyrirtækja.

300 milljarðar var það síðasta sem heyrði um skuldsetningu fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi. Er það ásættanlegt ? Hvað varð af hagræðingunni hinni miklu sem núverandi kerfi átti að skapa ? Var kanski offjárfest í tækjum og tólum ? Eða klikkuðu útreikningarnir um fiskistofnana ? Eða var það línuívilnunin sem hugsanlega orsakaði þessa skuldasöfnun ?

kv.gmaria.


Þeir þóttust ætla að laga kvótakerfi sjávarútvegs.

Núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar setti það inn í sinn stjórnarsáttmála að takmarka framsal aflaheimilda innan fiskveiðisársins og auka byggðakvóta. Jafnframt innihélt stjórnarsáttmálinn það atriði að sett yrði ákvæði í stjórnarskrá þess efnis að auðlindir sjávar væru sameign íslensku þjóðarinnar. HVORUGT gekk eftir sem efndir við fólkið í landinu. Fækkun atvinnutækifæra , afkoma og búseta fjölda fólks um landið allt var hins vegar undir í þessu sambandi og gífurleg þjóðhagsleg verðmætasóun þess efnis að dsuppbyggð verðmæti í formi eigna út um hinar dreifðu byggðir landsins mættu lúta í lægra haldi fyrir skipulagi sem þjónaði einungis hagsmunum útgerðarmanna ekki íbúa eða skattgreiðenda í landinu, hvar sem þeir búa.

Úrelding uppbyggðra mannvirkja fyrir almannafé um land allt.

Heilsugæslustöðvar, skólar, löggæsla , og önnur almannaþjónusta ásamt fjárfestingum einstaklinga í íbúðarhúsnæði og atvinnuumsýslu varð eldiviður á bál einhliða áhorfs á það atriði að útgerðarmenn gætu rekið fyrirtæki með gróðaumsýslu , brasks með óveiddan fisk í formi kvóta , landshluta á milli að hentugleikum. Svo komu flestir af fjöllum með það atriði að verja þyrfti fjármagni til þess að byggja heilsugæslu aftur á höfuðborgarsvæðinu fyrir landflótta landsbyggðarmenn úr atvinnuleysi, svo ekki sé minnst á skóla og síðast en ekki síst samgöngur þar sem margir flykkjast á sama tíma á sama svæði. Þvílík og önnur eins verðmætasóun ákvarðana í atvinnustefnu fyrirfinnst varla þótt langt væri leitað og einhver kynni að segja hver er árangur kvótakerfisins með markmiðum og tilgangi sem fallið hefur um sjálft sig . Svarið er því miður enginn því þorskur er í sögulegu lágmarki og skuldir og fjárfestingar í kerfinu allt of miklar. Byggða og atvinnusjónarmiðin urðu að engu sjálfkrafa við lögleiðingu framsals og leigu það mátti hverjum manni vera ljóst. Núverandi ríkisstjórnarflokkar viðurkenna ekki vandann og stjórnarsáttmálinn um leiðréttingu á mesta óréttlæti sögunnar er því enn fyrir hendi viðkomandi flokkum til lítils sóma.

kv.gmaria.

 


Innheimta þjónustugjalda í heilbrigðisþjónustu á Íslandi, hefur aukist hvað mikið ?

Hvað þurfa sjúklingar að borga mikið fyrir rönthgenmyndatöku í dag og hvað mikið borgaði sjúklingur áður en þessi ríkisstjórn sem nú situr við völd kom að stjórnartaumum ? Hve mikið þurfa sjúklingar að inna af hendi í formi alls konar þjónustugjalda í kerfi sem okkur er talinn trú um að sé hluti af okkar velferð ? Getur það verið að hinar lágu bætur sem sjúklingar með langvinna sjúkdóma hafa gangi að hluta til aftur inn í heilbrigðiskerfið sem hluti af þjónustugjöldum þeim sem inna þarf af hendi hægri vinstri fram og til baka ? Það skyldi þó aldrei vera að hugsanlega þyrfti að fara að skoða ýmsa þætti heilbrigðisþjónustu og færa úr viðjum hins miðstýrða ríkisbákns til nútíma aðferða varðandi nýtingu fjármagns með útboðum og þjónustusamningum um afmarkaða þætti. Heilbrigðis og almannatryggingakerfi landsmanna hefur of lengi verið látið endurskoðunarlaust af hálfu alþingismanna. Því hinu sama viðhorfi þarf að breyta og laun heilbrigðisstétta eiga að vera í samræmi við önnur laun á vinnumarkaði og þar fólk að störfum í fullu starfi en ekki hálfu á vegum hins opinbera við þau verk sem hið opinbera hefur með höndum. Samhæfingu og skilvirkni verkþátta varðandi heilbrigðisþjónustu með tilliti til nýtingar skattpeninga þarf að auka með áherslu á það atriði að inna af hendi grunnþjónustu heilsugæslu og bráðasjúkrahúsa, með nýtingar skattpeninga til þess arna. Á þeim stigum þjónustunnar má gjaldtaka ekki hamla leitan og einmitt sökum þess er hér spurt hve mikið myndataka kostaði á sínum tíma og hve mikið kostar hún nú ?

kv.gmaria.


Gömul vangavelta úr kommóðuskúffunni.

Enn er nú liðið eitt atburða ár,

atburða mikilla, harmur er sár.

Fallin í valinn svo fjöldamörg líf,

ó finn þú oss Drottin í sorginni hlíf.

 

Þótt yfir oss dynji hin óskapar él,

allt hefur staðinn og tímann að tel.

Þótt myrkrið á stundum dagana dylji,

er dugur og kjarkur, lifsins vilji.

 

Lífið er til þess að finna og vinna,

sigur í afrekum athafna sinna.

Öðlast og skilja að hver athöfn og orð,

spor okkar marka við mannanna borð.

 

Vor auður er einkum að endingu sá,

er uppspretta kærleikans byggir helst á.

Kærleikur heldur í sannleikans hönd,

saman þeir sigra af ströndu á strönd.

 

Ísland er yndislegt augum að sjá,

við árstíða birtu sem himnunum frá.

Andstæður skapa vort einstæða land,

okkar í sálina binda þær band.

 

Vort auðuga málið við eigum að virkja,

vekja upp vísugerð, fara að yrkja.

Finna svo hvernig í hrynjandi tónum,

hefjum við okkur á flug upp úr skónum.

 

kv.gmaria.


Umhverfi sjávarútvegs til framtíðar er stærsta hagsmunamál Íslendinga.

Enginn þáttakenda í stjórnmálaumræðum í Norðausturkjördæmi minntist einu orði á sjávarútveg nema fulltrúi Frjálslynda flokksins. Ég endurtek ENGINN. Getur það verið að núverandi kerfi sjávarútvegs hér á landi sem verið hefur við lýði í rúma tvo áratugi hafi skilað tilætluðum tilgangi sínum svo sem uppbyggingu verðmesta fiskistofnsins þorsks ? Svarið er nei. Hafa starfandi stjórnmálaflokkar í landinu hvort sem um er að ræða stjórnarflokka eða stjórnarandstöðu virkilega steingleymt þessum annars mikilvæga málaflokki í þjóðarbúskap okkar Íslendinga sem skapar rúman helming útflutningstekna ár hvert ? Svo vill til að verndun heiðargæsa á hálendinu þótt virðingarverð sé, er hjóm eitt , miðað við umhugsun um matarforðabúr þjóða heims sem er hafið kring um Ísland og umhverfisverndarsjónarmið hafa enn ekki eygt í sínum annars mikla hamagangi hér á landi undanfarið. Þar skiptir meginmáli á hverju kerfi mannsins grundvallast að teknu tilliti til aðferðafræði sem þarf að betrumbæta og breyta í ljósi árangursleysis.

kv.gmaria.


Vitund um siðferði, verkefni stjórnmálamanna á hverjum tíma.

Frelsið er yndislegt, en til þess að við fáum frelsis notið , þurfum við að þekkja þess mörk. Frelsi getur hæglega breyst í frumskógarlögmál ef engin eru mörkin. Frelsi getur einnig breyst í helsi ef mörkin eru með því móti að maðurinn fái ekki rými til athafna í sinni tilveru innan þeirra. Verkefni stjórnmálamanna að draga mörkin réttlætis og sanngirni millum aðferða í samfélaginu á hverjum tíma er mikið og því skyldi ekki gleyma að ein forsenda þess að stjórnmálamenn séu fyrirmynd er sú að þeir hinir sömu auðsýni hver öðrum virðingu. Þar eru nefnilega dregin mörk sem aftur einkennir samfélag á hverjum tíma í ræðu og riti. Það skiptir því miklu máli að  við þáttakendur í stjórnmálastarfi í landinu sýnum gott fordæmi og ræðum málefni á grundvelli málefnanna sjálfra sem við berum fram fyrir alþjóð. Illmælgi um næsta mann, fordæming á persónum, og almennt skortur á almennum mannasiðum er ekki atriði sem við viljum sjá móta samfélag til framtiðar. Við berum ábyrgð við erum fyrirmyndir.

kv.gmaria.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband