Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Aðeins einn stjórnmálaflokkur hefur treyst sér til að ræða málefni innflytjenda, Frjálslyndi flokkurinn.

Það atriði að starfandi stjórnmálaflokkar treysti sér ekki til þess að ræða mál sem þarf að ræða er gömul saga og ný. Frjálslyndi flokkurinn verður ekki undir þá sök seldur sem betur fer og kjarkur og þor forystumanna flokksins þess efnis að ræða málefni innflytjenda sem allir starfandi flokkar hafa komið sér hjá að ræða þótt stórkostleg fjölgun innflytjenda til landsins hafi átt sér stað. Það skortir ekki lýsingaorðflóðið og upphrópanirnar af háflu annarra flokka í garð flokksins þótt ríkisstjórnin hafi loks dröslast til þess að sauma saman stefnu í málefnum innflytjenda  í fyrsta skipti , hafandi ekki lagt krónu í íslenskukennsku til handa fólki af erlendu bergi brotnu aðfluttu hingað til lands fyrr en þessi umræða varð til, í samfélaginu. Þá vöknuðu menn við sínar málamyndaráðstafanir í þessu efni sem voru þær að ekkert hafði verið að gert til þess að hjálpa fólki til þess að aðlagast nýju samfélagi, þótt öll landamæri hafi verið opnuð upp á gátt til þess að bjóða fólk velkomið sem vinnuafl á lágum launum. Sf og Vg hafa ekki þorað að opna munninn af ótta við vinsældatap .

kv.gmaria.


Einn stjórnmálaflokkur með umbreytingar á fiskveiðistjórn á dagskrá, Frjálslyndi flokkurinn.

Andvaraleysi Samfylkingar og Vinstri Grænna sem stjórnarandstöðuflokka gagnvart stjórnun fiskveiða hér við land er algjört, og að mínu áliti hneisa í ljósi þess árangursleysis sem núverandi aðferðafræði fiskveiðistjórnunar hefur sýnt í valdatíð stjórnarflokkanna. Þessir tveir flokkar hafa algjörlega komið sér hjá því að viðhafa skoðanir á stjórnun fiskveiða , líkt og þeir hafi ekki hugmynd um á hverju útflutningsverðmæti þjóðarinnar byggjast að drjúgum hluta til og hve miklu máli það skiptir fyrir Íslendinga framtíðarinnar að hafið sú auðlind okkar sé nýtt og notuð með vitund til framtíðar en ekki skammtímagróðasjónarmið í farteskinu. Hámark vitundarleysisins, í þessu efni var að mér virtist ganga núverandi formanns Samfylkingar á fund LÍÚ með sáttaplagg um kerfið í núverandi mynd. Um þetta kerfi mun ALDREI ég endurtek ALDREI ríkja sátt meðal þjóðarinnar. Þess vegna berst Frjálslyndi flokkurinn fyrir breytingum á þessu kerfi til hagsbóta fyrir land og þjóð þar sem frelsi einstaklingsins til athafna við fiskveiðar er ekki til sölu í formi kvóta.

kv.gmaria.


Alþingi og framkvæmdavaldið.

Fjarlægð sitjandi stjórnar og hins háa Alþingis varðandi það í hvað fjármunir fara er atriði sem án efa þarf verulega að taka til endurskoðunar því þar er nefnilega ekki nóg að samþykkja fjárlög með því að ýta á takka, punktur og pasta og svo hvað ??? Kalla bara á Ríkisendurskoðun til þess að fara ofan í saumana á hinum og þessu fjárveitingum ef áhöld eru um hvernig skili sér í raun. Samband þingmanna við virkni framkvæmda allra þarf og á að vera náið , mun nánarar að mínu viti en það er í dag. Myndi til dæmis einhver sitjandi alþingismaður geta samþykkt það að fólk sem hefur verið skilgreint sem öryrkjar megi gjöra svo vel að hætta að vera öryrkjar þegar það hið sama fólk verður 67 ára og kemur að ellilífeyri ? ´´Eg dreg það mjög í efa en almannatryggingakerfi í heild hefur verið þyrnir í augum alþingismanna lengi hvað endurskoðun varðar og þetta dæmi er eitt af mörgum þar sem hrópandi vitleysa hittir fyrir þ.e hið opinbera lækkar sínar bætur til fólks er telst öryrkjar þegar viðkomandi hefur náð aldri til ellilífeyris, líkt og einhverju máli skipti hvort fólk er ekki lengur fært til vinnu vegna aldurs eða hömlunar af öðrum toga til atvinnuþáttöku. 

kv.gmaria.


Sjávarþorpin lifni og sveitirnar blómstri.

Það þarf að glæða Ísland allt lífi á ný , undir nýjum formerkjum þess að hver maður að störfum sé virði þjóðhagslegra verðmæta. Til þess þarf skipulagsbreytingar frá því sem nú er í heimskulegum haftakerfum íslenzku atvinnuvegakerfanna. Frelsi einstaklingsins til þess að skapa sér atvinnu og sjá sér og sínum farborða hefur verið í öndvegi vorrar þjóðar unz kvótakerfi sjávarútvegs og landbúnaðar héldu innreið sína sem var í tíð núverandi handhafa við stjórnvölinn í íslenzku samfélagi. Brask með mjólk úr beljunni eða óveiddan fisk úr sjó í formi kvótahandhafa þess hins sama mun brátt líða undir lok hér á landi og frelsi manna til athafna upp renna á ný sökum þess að verksmiðjubúskapur er ekki framtíð sú sem komandi kynslóðir hafa hugsað sér að lifa við. Það er því nokkuð sama hvaða kvótagreifar munu reyna að verja þá hina sömu háttu , til sjávar eða sveita , þeir hinir sömu, munu þurfa að hopa fyrir framtíðarhugsun í stað skammtímasjónarmiða.

kv.gmaria.


Að bjarga börnum úr klóm fíkniefna.

Fíkniefnavandinn er víðfemt vandamál í íslensku samfélagi og eitt af þeim vandamálum sem vaxið hafa okkur yfir höfuð líkt og margt annað nú á dögum. Raunin er sú að nægilegt fjármagn er enn ekki til staðar til þess að á boðstólum séu ætíð viðunandi úrræði til úrlausnar í vanda barna og ungmenna. Neyðarvistun á Stuðlum er tímabundið úrræði þar sem börn eru vistuð til þess að bjarga þeim úr viðjum fíkniefna og til áframhaldandi meðferðarúrræða. Stuðlar eru hins vegar eina stofnunin sem þjóna skal öllu höfuðborgarsvæðinu eins og það leggur sig og með ólíkindum að ekki skuli hafa verið stutt frekar við þessa starfssemi með sams konar úrræðum víðar miðað við mannfjölda á svæðinu. Það er hins vegar ekki nóg að vista börn tímabundið ef ekki tekur eitthvað úrræði við í framhaldinu sem tekur mið af vanda þess einstaklings sem þar er vistaður. Barnaverndarstofa hefur á sínum vegum eitt lokað vistheimili /meðferðarstofnun úti á landi EITT, þau eru ekki fleiri þótt hluti barna sem ánetjast hefur fíkniefnum kunni hugsanlega að vera umfram þá þörf sem þetta eina heimili getur sinnt. Til þess hins sama hefur ekki fundist fjármagn að virðist enn sem komið er , sem er slæmt því það er ekki nægilegt að foreldrar berjist sem vígamenn við þennan draug , lögregla sem víkingar við að gera fíkniefni upptæk og forvarnarmenn við fræðslu , ef þeir sem ánetjast hafa fíkninni og heita börn er ekki hægt að taka til viðeigandi meðferðar.

kv.gmaria. 


Heilbrigðiskerfið íslenzka.

Aðhald og sparnaður í þjónustu hins opinbera er af hinu góða EN slíkt má hins vegar ekki fara í þann ógöngufarveg að sjálfur sparnaðurinn geri það að verkum að þjónustu skorti hér og þar og verkefni séu í járnum. Sjálf vil ég sjá gæðastaðla gilda hvarvetna sem þjónusta er veitt undir formerkjum þekkingar á hinum ýmsu sviðum. Gæðastaðlar eiga að gera það að verkum meðal annars að aldrei sé um að ræða að fólk sé að störfum örþreytt vegna mannaskorts. Nægur mannafli að störfum við þjónustu sem þessa er ein forsenda þess að gæði þjónustu séu fyrir hendi. Þar má ekki spara aurinn en kasta krónunni.

kv.gmaria.


Gervihagvöxtur Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Það er ekki furða þótt landsmenn skuli ekki finna þann kaupmátt sem stjórnarherrarnir hafa reynt að telja landsmönnum trú um að séu til staðar því sá hagvöxtur er upphaflega tilkomin í formi þess að Alþingi leiddi í lög að menn mættu selja sín á milli heimildir til þess að veiða fisk. Með öðrum orðum réttur til þess að veiða fisk varð allt í einu að söluvöru á brasktorginu, þrátt fyrir það atriði að fyrsta grein í lögunum um stjórn fiskveiða kveði enn á um að fiskimiðin kring um landið " séu sameign landsmanna " .  Frá þeim tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar og afrakstur brasks með óveiddan fisk á þurru landi auðsýnt birtingarmyndir með stórkostlegri byggðaröskun og verðmætasóun þess er varið hafði verið af almannfé til uppbyggingar um land allt í formi eigna hins opinbera og einstaklinga sem þar bjuggu . Enduruppbygging á höfuðborgarsvæði hefur ekki haldist í hendur við hamaganginn og samgöngur því þar í einum hnút við slíka tilflutninga á allt of skömmum tíma. Það gleymdist alveg að setja gjaldtöku á útgerðarfyrirtækin við tilflutning aflaheimildanna sem er og verður ægileg mistök þegar grannt er skoðað.

kv.gmaria.


Eyðsla og sóun í formi ofurolíuháka til lands og sjávar.

Mesta mengunin sem til staðar er , er af völdum mannsins sjálfs í formi útblásturs ökutæka og tækja og tóla sem tilheyra atvinnugreinum til lands og sjávar þar sem sístækkandi einingar hafa kallað á enn frekari olíu til brennslu af auðlindum jarðar. Skammtímasjónarmið útreikninga allra hafa einungis miðast að mestu við krónur á blaði , fjögur ár í senn. Fiskiskipafloti heimsbyggðarinnar gæti þurrausið verðmæti úr hafinu í einu vetfangi aðeins ef afkastagetan liti ekki hömlum. Það atriði að bílaeign per menn skuli hér á landi vera nær heimsmeti er gott dæmi um vanmat okkar á raunverulegum lifsgæðum til lengri tíma. En þar hafa stjórnvöld steinsofið á verðinum , varðandi það atriði að stuðla að því að hagur þegna byggist á því að nota almenningssamgöngur, sem og því atriði að skattar og tollar á eyðslugrannari ökutæki væri mun minni en á þau er eyða meiru af eldsneyti af auðlindum jarðar. Það atriði að íslenzkir fiskimenn skuli ekki hafa frelsi til að veiða á handfæri á trillum sem eyða lítilli olíu við Íslandsstrendur er skandall á heimsvísu meðan fjölveiðiskip með ofurolíueyðslu sigla ef til vill verkefnalítil um miðin í leit að loðnu sem hefur verið ofveidd.

kv.gmaria.

 


Oss vantar ekki áfengi í matvörubúðir.

Frjálshyggjupostular vaða fram með frumvarp um það að leyfa sölu á bjór og áfengi í matvörubúðum, án þess þó að hlusta á þau varnaðarorð sem heilbrigðisyfirvöld hafa hér borið fram ár eftir ár sem eru þau að aukið aðgengi eykur neyslu. Sjálf tel ég þessar tillögur jafngilda því að viðkomandi óska eftir því að auka þurfi sjálfkrafa útgjöld til heilbrigðismála í þessu sambandi og hver er þá tilgangurinn þegar upp er staðið ? Mér er hann fremur óskiljanlegur og ef við fullorðið fólk getum ekki höndlað tilveruna nema að kaupa áfengi í matvörubúðum þá spyr ég hvaða vandamálaflokkun er til staðar í einu þjóðfélagi ?

kv.gmaria.


Frjálslyndir og Vg að fella stjórnina.

Fylgi Frjálslynda flokksins sem og fylgi VG og Sf virðist nægja til þess að ríkisstjórnin hefur ekki lengur hreinan meirihluta. Til hamingju Íslendingar því sannarlega þarf að gefa Framsóknar og Sjálfstæðismönnum frí frá störfum, enda gjörsamlega staðnaðir við stýrið í hugmyndafræði til nútíma framþróunar hvers konar. Þar er þó einn galli á gjöf Njarðar að hvorki Samfylking né Vinstri Grænir virðast hafa mótað sér skoðun í sjávarútvegsmálum ólíkt Frjálslynda flokknum sem barist hefur fyrir breyttum aðferðum við fiskveiðistjórnina. Á Alþingi í dag bar Guðjón Arnar Krístjánsson enn einu sinni upp tillögu þess efnis að aðskilja veiðar og vinnslu í sjávarútvegi eins sjálfsagt og slíkt nú er þar sem þjóðfélag samkeppnislögmála er við lýði við lítinn hljómgrunn stjórnarflokka forsjárhyggjuafla núverandi stjórnarflokka sem þó þykjast vilja leyfa sölu á áfengi og bjór í matvörubúðum meðan enginn gaumur er gefinn að viðskiptaháttum í aðalatvinnugrein þjóðarinnar með rúman helming útflutningsverðmæta.

kv.gmaria.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband