Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
Markaðshyggjuþokumóðan.
Þriðjudagur, 6. nóvember 2007
Við lifum í þjóðfélagi samkeppninnar, samkeppni þar sem neytandinn er eins og rjúpnaveiðimaður sem hefur villst í þoku á heiðinni. Hann hefur ekki minnstu möguleika að fylgjast með stórkostlegu sjónarspili verðbreytinga þar sem 1 kíló af sykri lækkar kl.14.oo um eina krónu hjá einni stórverslanakeðju og hin lækkar strax kl. 14.15 um krónu minna, en þá bregst hin við kl. 14.30, og lækkar kaffi um krónu og þá hækkar hin sykurinn um krónu og en lækkar kaffi á móti , korteri síðar.
Svo er það hlutabréfamarkaðurinn og stofnun fyrirtækja, eða er það kanski ósköp svipað ?
kv.gmaria.
Öngstræti jafnréttismála, lagasetning um valdboð á valdboð ofan, engum til hagsbóta.
Mánudagur, 5. nóvember 2007
Mín skoðun er sú að fyrirhuguð lagasetning sem rætt er um sé ekki þess eðlis að breyta nokkrum sköpuðum hlut öðrum en þeim að auka skriffinsku og kostnað hins opinbera í formi alls konar kæra og kvartana allra handa, síðan málsmeðferðar fyrir dómsstólum og endalausum verkefnum þar að lútandi meðan laun verkakvenna standa í stað áratug eftir áratug.
Útjöld hins opinbera þarf sizt af öllu að auka það vill ansi oft gleymast við hvers konar lagasetningu á hinu háa Alþingi og nærtækara væri að skoða skattaumhverfið í þessu sambandi hvað varðar réttláttar og stórnauðsynlegar aðgerðir til kjarabóta fyrir stóran hóp kvenna í láglauna og umönnunarstörfum í okkar þjóðfélagi, þar sem hækka þarf skattleysismörk og minnka skerðingar hlutavinnuhópa sem vilja taka þátt í vinnumarkaði með takmarkaða vinnugetu.
Í upphafi skal endirinn skoða og alltaf er ágætt að eygja skóginn fyrir trjánum.
kv.gmaria.
Ætla Íslendingar að tryggja umhverfismat virkjanaframkvæmda í Asíu ?
Mánudagur, 5. nóvember 2007
Á hvaða vegferð eru ráðherrar sem tala tveim tungum hér heima annars vegar og erlendis hins vegar, þar sem íslenskum orkufyrirtækjum er ætlað að ryðja braut um heiminn í einkabissness sem ráðherrar ganga erinda fyrir burtséð frá því hvort raforkuframleiðslan verður nýtt til álvera þar eða ekki ellegar umhverfismats íbúa á viðkomandi svæðum ?
Þessir sömu ráðherrar eru nefnilega á móti auknum virkjanaframkvæmdum hér á landi, vegna taps á landi og einnig, ef raforkan verður notuð i álver.
Svo virðist sem ráðherrar Samfylkingarinnar hafi hver um annan þveran hreinlega tapað áttum við það eitt að setjast í stóla í ríkisstjórn og illa skiljanlegt hvort þeir ganga til hægri eða vinstri í dag eða á morgun.
kv.gmaria.
" The ring of fire ! " orkuútgerð landsmanna í Indónesíu.
Mánudagur, 5. nóvember 2007
Var að klára að horfa á endursýningu á viðtali við iðnaðarráðherra í Silfrinu sem ég sá aðeins á hlaupum í dag. Það er alveg greinilegt að iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar ætlar að bjarga heiminum, til dæmis að taka þátt í því að tvöfalda raforku í heiminum með jarðvarma eins og ekkert sé.
Sá hinn sami telur einnig eðlilegt að Reykvíkingar taki þátt í bissness með gróðavon í huga í þessum efnum. Hann er þeirrar skoðunar en eins og hann sagði sjálfur " Já ég er þeirrar skoðunar ".
kv.gmaria.
HVER kostaði ferð iðnaðarráðherra til Indónesíu ?
Mánudagur, 5. nóvember 2007
Ég tel það hvoru tveggja sjálfsagða og eðlilega spurningu að almenningur fái að vita hver greiðir fyrir ferð iðnaðaráðherra til Indónesíu og Filippseyja. ER það íslenska ríkið eða fór ráðherrann erlendis í boði fyrirtækisins ? Voru það ef til vill stjórnvöld í viðkomandi löndum sem buðu í þessa ferð ? Hver borgar ?
kv.gmaria.
Stjórna fyrirtækin stjórnmálamönnum við stjórnvölinn ?
Mánudagur, 5. nóvember 2007
Borgarstjóri Reykjavíkur kvað ákvörðun í stjórn Orkuveitunnar þess efnis að REI tæki þátt í verkefnum á Filippseyjum hafa þurft að taka strax svo svar bærist til Filippseyja, þar sem iðnaðaðarráðherra samflokksmaður hans var nú einmitt staddur með fyrirtækinu.
Er það svo að fyrirtækin séu farin að stjórna ferð og gangi mála á undan valdhöfum, og ef svo er þarf ekki aðeins að fara að athuga gangverkið ?
kv.gmaria.
Tvísköttun landsmanna er óþolandi stjórnarskrárbrot.
Sunnudagur, 4. nóvember 2007
Það er kominn tími til að menn fari að horfa á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar varðandi borgara þessa lands þar sem tvisvar er verið að taka skatta af fjármunum sem launþegar hafa greitt til lífeyrissjóða með skerðingum á bótum almannatrygginga, vegna greiðslna úr sjóðum þessum.
Það er engin heil brú í framkvæmd mála eins og verið hefur og óskíljanlegt að ár eftir ár skuli sitjandi stjórnvöld komast upp með að iðka þessa framkvæmd mála á kostnað eigenda fjármuna þeirra sem greitt hafa lögboðin gjöld í sjóði þessa.
Offar yfirvalda í skattöku gagnvart þegnunum er ALDREI réttlætanlegt, og því fyrr sem því linnir með breytingum til umbóta úr því ástandi því betra.
kv.gmaria.
Lífríki sjávar er jafn mikilvægt , lífríki á þurru landi, það vill gleymast.
Sunnudagur, 4. nóvember 2007
Það er ekki sama hvernig við veiðum fiskinn í sjónum. Rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á hafsbotninn eru af skornum skammti hér á landi eins og margar aðrar rannsóknir sem lúta að fiskveiðum eins furðulegt og það nú er miðað við tilvist okkar sem fiskveiðiþjóðar. Niðurrif kóralsvæða á hafsbotni fyrir tilstuðlan botnveiðarfæra er því miður atriði sem flestir sjómenn vita að hefur átt sér stað á Íslandsmiðum eins og annars staðar án nauðsynlegra aðgerða til að spyrna við fótum í þvi hinu sama niðurrifi.
Kórallinn vex ekki eins og gras heldur er vöxtur hans í öldum talinn, en kórall og kóralsvæði er eitthvað sem fyrir löngu síðan hefði átt að friða um heim allan með tilliti til hlutverks í lífkeðjunni sem hluta af lungum jarðar og skjóli og hlíf fyrir vöxt hinna mismunandi fiskistofna.
Innkoma öfgafrjálshyggjugróðasjónarmiða " hagfræðinnar sem ekki kann að tala " hefur sett mark sitt á Íslandsmið sem áður gjöfula auðlind í þágu þjóðar og byggðar í landinu öllu.
Umhverfisvernd sem ekki tekur mið af lífríki sjávar til jafns við lífríki á þurru landi með umhverfismati þar að lútandi er aðeins hálf umhverfisvernd.
kv.gmaria.
Frelsi til kaupa á áfengi er sízt af öllu það frelsi sem skortir hér á landi.
Laugardagur, 3. nóvember 2007
Þeir sem telja sig ganga erinda frelsisboðskaps hljóta að verða að taka rökum þess efnis að skynsemisforsendur málanna kunna að vera ofar hinum meinta skorti á frelsi í þessu efni aðgengi til kaupa á áfengi.
Aukið aðgengi eykur neyslu, það er ekkert flókið, reyndar mjög einfalt og allt spurning um vilja manna til þess að takast á við þann þjóðhagslega kostnað sem aukin neysla hefur í för með sér í formi útgjalda dómsmálaráðuneytis við löggæslu, heilbrigðisráðuneytis við þjonustu við heilbrigði, félagsmálaráðuneytis við meðferðarúrræði, barnavernd og fjármálaráðuneytis við aukin útgjöld í málaflokka.
Frelsi sem þetta mun því fjötra skattgreiðendur frekar en nú eru dæmi um til framtíðar litið með auknum kostnaði hins opinbera.
kv.gmaria.
Kvótakerfi sjávarútvegs er þjóðhagslega óhagkvæmt kerfi í núverandi mynd.
Laugardagur, 3. nóvember 2007
Það atriði að festa ákveðið magn veiðiheimilda til handa þeim aðilum er veiddu mest magn af fiski á per tímapunkti, þýddi ofurkapp viðkomandi aðila til þess að ná inn hverju kílói , hvernig sem að því væri farið, jafnvel með því að henda fiski sem ekki var nógu langur í sentmetrum talið aftur í hafið . Þar er því um eyðslu og sóun að ræða sem við höfum ekki leyfa til að viðhafa í umgengni við lífríki móður jarðar á láði og legi.
Þessu til viðbótar til að bæta gráu ofan á svart að mínu mati var lögleitt framsal þessarra hinna sömu heimilda millum útgerðaraðila án skilyrða nokkurs konar, landið þvert og endilangt sem aftur orsakaði atvinnu fólks burt úr sjávarþorpum á einni nóttu og tilheyrandi upplausnarástandi til handa íbúum þar sem aðgerð sem þessi kunni að þýða eignaupptöku íbúa á viðkomandi stöðum og sóun hvers konar fjármuna sem hið opinbera hafði þá og þegar innt af hendi , til samgangna , heilsugæslu, grunnskóla, ásamt lánakjörum við íbúðakaup til handa íbúum.
Meginmarkmið og tilgangur kvótasetningar var að byggja upp fiskistofna og verðmesta fiskinn, þorskinn, sem fyrir löngu var ljóst að ekki væri að takast en síðasta ár leggur rannsóknarstofnun ríkisins til skerðingu, umfram allt sem menn hafði órað fyrir á afar veikum grundvelli sem skortur á rannsóknum þar að lútandi er.
Tilraunir hins opinbera til þess að vega á móti þeim afföllum sem þessi ákvörðun er, fela því miður í sér enn eina sendingu til skattgreiðenda um að borga fyrir lélegt skipulag mála í þessu annars þjóoðhagslega óhagkvæma kerfi fyrir landsmenn alla.
kv.gmaria.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)