Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Trú, von og kærleikur.

Bænin er máttug það skal ég vitna um hér og nú því hafi ég ekki getað sagt það áður þá segi ég það nú á hátíð frelsara lífs vors og ljóss því sú er þetta ritar leitaði ásjár St. Jósefssystra í Hafnarfirði helgina fyrir jólahátíðina til fyrirbæna fyrir sínum nánustu og sér hvað varðar erfiðar aðstæður af heilsufarslegum toga og viti menn tveimur dögum seinna koma loks úrlausnir þar sem góðir menn lögðu meira á sig til þess að finna þær hinar sömu úrlausnir fyrir barn , í þessu tilviki barnið mitt sem á mig að en ekki annað foreldri á lífi sér til handa.

Í gærkveldi kom ég að bási í Jólaþorpinu í Hafnarfirði þar sem St. Jósefssystur voru með sölubás og ég táraðist af þakklæti sem mér fannst ég finna svo mjög og ég keypti litla styttu sem ég pakkaði inn í jólapakka sem ég ritaði sem gjöf til mín frá barninu sem fékk loks hjálpina sem það þurfti, barninu mínu sem fékk að koma heim til mín af sjúkrastofnun þrjá tíma á aðfangadaginn til þess að vera með mér yfir blájólahátíðina sem gerði það að verkum að kærleikurinn jók veg vonarinnar um bata og trúin á hið góða sat eftir hjá öllum hlutaðeigandi.

kv.gmaria.


Þeir komu af fjöllunum einn og einn, á hverjum degi jólasveinn.!

Ég ákvað að skellla mér í jólasveinabúning , því það eru víst að koma jól og þótt maður hafi ekki arkað ofan af fjöllum á árinu í eiginlegum skilningi þá má svo sem segja að maður hafa arkað í óeiginlegum skilningi. Arkað um á akvegum kerfisúrlausna uppfundinna af manninum sem oftar en ekki eru eins og bílvél með köttátið í ólagi ellegar léleg kerti og hinti og dynti gangverk af þeim sökum. Endalaust vesen vegna þess að bíllinn er búin sumardekkjum í hálku en með nagla þegar vegir eru auðir sem aftur eyðir vegunum og mengar yfir heilbrigðismörk. Spara aurinn en kasta krónunni er krafa skammtimamarkaðssjónarmiða á hinu heilaga altari Mammons sem inniheldur margvíslega möguleika til skuldasöfnunar hvers konar í formi skrautlegra plastkorta sem notuð eru sem gjaldmiðill í viðskiptum. Aldraðir , börn og einstæðingar falla ekki inn í hið annars staðlaða form viðmiða kaupmátt ráðstöfunartekna sama hvort um er að ræða kjötkatlahafana eða verkalýðshagfræðinga með sínar reiknistikur meðaltala allra handa sem samsama hentugar úrlausnir til samjöfnuðar í tölum á blaði ef svo ber undir. Það er hins vegar kosningaár á vori komanda og afar margir tilbúnir hér og þar til þess að auka hróður eigin ágætis umfram aðra sem er gott og gilt í sjálfu sér svo fremi tilgangurinn helgi meðalið og jafnrétti , frelsi og bræðralag sé meðferðis til þjónustu við sannleika og réttlæti , þegnum þessa lands til handa.

kv.gmaria.


Mannafla skortir að störfum og fólk gefst upp...

Það atriði að mannafla skuli skorta að störfum í opinberri þjónustu jafnvel í fangelsum eins og nú kom fram í Kastljósi kvöldsins er áfellisdómur yfir áherslum stjórnvalda gagnvart gæðum þjónustu. Störf sem innt eru af hendi í samfélagsþjónustu hvort sem um er að ræða störf er krefjast menntunar eða störf sem ófaglærðir inna af hendi samhliða fagmenntuðum við að veita sömu þjónustu inniheldur það atriði að reynsla og tími manna að störfum í formi þekkingar er virði gulls til framtíðar. Aukið vinnuálag  per einstakan starfsmann, undir formerkjum þess að spara í stöðugildum stofnanna í heild , heitir í mínum huga það að spara aurinn en kasta krónunni, því mannlegt álag á sér mörk, og fásinna þess efnis að ofgera fólki i erfiðum störfum kostar peninga í formi þess að mennta nýtt fólk og þjálfa til starfa því reynslan sem tapast kann að vera margfalt meira virði en það atriði að launa eitt stöðugildi í viðbót til starfa. Skammtímasjónarmið þess efnis að sýna fram á meintan sparnað hér og þar er enginn sparnaður þegar upp er staðið og árangurinn eða öllu heldur afleiðingar slíkrar stefnu er sífellt versnandi velferðarumgjörð án allra staðla um gæði þjónustu.

kv.gmaria.

 


Lyfjaávísanir lækna til fíkla ?

Getur það verið að hið opinbera taki ekki í taumana ef um er að ræða lyfjaávísanir á contalgin lyf til fólks sem telst vera langt leiddir fíklar ? Ef sú er raunin að slíkt viðgangist þá er það lágmark að læknir sá er ávísar hafi með viðkomandi sjúkling að gera alfarið með stöðugu eftirliti ég endurtek stöðugu. Ef ekki þá skyldu slíkar ávísanir ekki eiga sér stað.

Frásögn Jóhannesar í Kompási þess efnis að eftirlitslæknir Byrgisins hefði ávísað lyjfum til fíkla er mál sem ég tel að þurfi sannarlega að rannsaka og það ofan í kjölinn. Lyfjaávísanir eru ábyrgðarhluti og eftirlit með slíkri framkvæmd þar að sjálfsögðu að hafa eftirfylgni að öðrum kosti er nefnilega hugsanlega komið til sögu að slíkt viðhaldi ákveðnum hluta fíkinefnamarkaðar.

Hefur viðkomandi læknir fengið áminningu um slíkt áður til dæmis og þá hvar ?

Það hlýtur Landlæknsembættið að eiga til í sínu gagnasafni.

kv.gmaria.

 

 


Frá Pontíusi til Pílatusar.

" Því miður það eru bara engin úrræði " " Við höfum bara engar úrlausnir ........!  "  fyrir börn í fíkn með geðræna kvilla, segir heilbrigðiskerfið sem bendir á barnaverndarkerfið sem bendir á lögreglu sem bendir á barnaverndarkerfið og heilbrigðiskerfið . Bugl vill ekki sjá fíkla, geðdeildir vilja ekki sjá unglinga og meðferðarstofnanir Barnarverndarstofu vilja ekki sjá börn með geðræna kvilla því engir fagaðilar eru þar að störfum sem heitið getur á sólarhringsvöktum.

Það er því eins gott fyrir foreldra barna sem lenda í slíku að fara að lesa sér til um samspil geðrænna vandamála við fíkn því eins víst er að foreldrar sjálfir megi þurfa að fást við þetta samspil heima fyrir ef slík staða kemur upp í hendur viðkomandi.

 Meðan flogið er eftir fótbrotnum manni sem keyrði út af fullur einhvers staðar má barn með kvilla af geðrænum toga ef til vill una því að slíkt sé ekki hægt að meðhöndla af því kvillinn kom til sögu vegna neyslu fíkniefna að virðist og eins og áður sagði vísar hver á annan , hver um annan þveran.

Betur má ef duga skal og eins og skot þarf að koma á samráði dóms, félags, og heilbrigðisyfirvalda um þessi málefni barna og samhæfa úrlausnir með það að markmiði að fækka vandamálum í stað þess að auka því hvert barn með geðræna kvilla í neyslu er auðveld bráð glæpamanna til þjónustu við starfssemi sem slíka.

kv.gmaria.


Hagsmunir íbúa Suðvesturkjördæmis.

Mosfellingar, Kópavogsbúar, Garðbæingar, íbúar á Álftanesi ásamt Hafnfirðingum byggja stærsta kjördæmi landsins. Kjördæmi sem liggur kringum Reykavík höfuðborgina í landinu. Það eru margvíslegir hagsmunir sem eðli máls samkvæmt er eðlilegt að fólk geri kröfu um að sé fyrir hendi af hálfu hins opinbera hvort sem um er að ræða ríki eða sveitarfélög til þjónustu við íbúa.

Samgöngumannvirki og framkvæmdir við þann þátt er atriði sem virðist varla hafa lotið samstarfi millum sveitarfélaga á svæðinu hvað þá heldur ríkisins og ástandið í þeim málum viðkomandi ábyrgðarhandhöfum lítt til sóma. Grunnþjónustuþættir svo sem heilbrigiðsþjónusta per íbúa birtist ekki í stöðugildum starfandi heimilislækna svo eitt dæmi sé tekið, og nauðsynleg uppbygging þjónustu við aldraða í formi úrræða virðist hafa setið á hakanum vægast sagt.

Rekstur grunnskóla í höndum sveitarfélaga hefur ekki þýtt einhverja sérstaka framþróun á því sviði sérstaklega því sama pólítík " að spara aurinn en kasta krónunni " er við lýði þar alveg sama hver á í hlut rétt eins og hjá ríkinu.

Skattkerfi sem fremur letur en hvetur til vinnuþáttöku vegna tekjutenginga alls konar hittir fyrir íbúa þessa kjördæmis eins og aðra á landinu.

Atvinnutækifærum einyrkja í sjávarútvegi hefur fækkað og fækkað við tilfærslu smæstu útgerðareininga inn í kvótakerfi sjávarútvegs og áhorf á annars konar atvinnutækifæri því eðli máls samkvæmt inn í myndinni , þrátt fyrir fullkomnar aðstæður svo sem höfn í Hafnarfirði.

Fjölgun einkahlutafélaga með tilheyrandi minni skattekjum til sveitarfélaga er atriði sem gerir það að verkum að skattkerfið þarf að skoða með tilliti til þess að fjármunir til þjónustu hvers konar komi sem eðlilegur hluti af skattgreiðslum íbúa.

Fyrst og síðast þarf hins vegar að vera til staðar samstarf millum Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga þar sem hagsmunir eru sameiginlegir í því efni og óviðunandi að einstök sveitarfélög alveg sama hver taki ekki þátt í þeim hinum sameiginlegu hagsmunum sem lúta að þörfum íbúa allra.

kv.gmaria.

 

 


Umfang fíkniefnaglæpamanna í íslensku samfélagi.

Áður en þú getur snúið þér við kann barnið þitt að vera búið að " redda " sér ólöglegum fíkniefnum sem ganga kaupum og sölum á næsta götuhorni, alls staðar. Já þetta er svona segir fólk , alveg hræðilegt EN hvað gerum við í því að tala gegn þessu þjóðfélagsmeini sem kostar okkur stórfé af skattfé okkar að fást við ár hvert ? Eru stjórnmálamenn í flokkum almennt að láta málið til sín taka, er´búið að kaupa gegnumlýsingabúnað fyrir gáma til dæmis ? Nei því miður en aukið fjármagn til meðferðar af afleiðingum þessara efna er fyrir hendi , ár hvert í formi löggæslu og meðferðarúrræða allra handa , hvarvetna. Á sama tíma þrífst þetta glæpasamfélag á því að ´hræða fólk til að borga skuldir fyrir ólöglega starfssemi í landinu sem viðheldur fíklum við efnin og stofnunum við vandamálin sem síflellt kosta fleiri krónur i formi frekari vandræða. Einn einstaklingur auglýsir í fjölmiðlum sérstaklega gegn þessari vá , hann heitir Svavar Sigurðsson og mér best vitanlega kostar sínar auglýsingar sjálfur. Skyldi það geta verið að frekari áróður í formi auglýsingamennsku kynni að vera hægt að kosta af framtakssemi einhverra þó ekki væri nema til þess að reyna að forða einhverjum af vegi glæpamanna sem ganga lausir um allar jarðir ? Sjálf vildi ég að gefinni reynslu BANNA gsm símanotkun ungmenna undir 18 ára aldri á Íslandi sem kynni að hafa veruleg áhrif. Ótal fleiri ráð eru til en þau þarf að ræða og það er timabært.

kv.gmaria.


Markaðshyggja og mannréttindi.

Að hluta til hefur íslenskt þjóðfélag verið gegnsýrt af undanfarinn áratug af markaðshyggjuboðskap á þann veg að kerfi hins opinbera hverju nafni sem þau nefnast skuli spara og spara og spara. Svo mjög að ég álít að sparnaðurinn sé á þann veg víða " að spara aurinn en kasta krónunni ".

 Það er slæmt , því aðhald og ráðdeild er sjálfsögð og eðlileg en óraunhæfar kröfur ´fjárveitingavaldsins um sparnað sem skerðir þjónustustig stofnana þannig að þjónustan verður lakari , þýðir hnignun og skort á framtiðarsýn hvað varðar metnað um ágæti og árangur faglegra gæða.

Ég tel að þjónustustig þurfi að skilgreina hvað varðar veitta þjónustu hins opinbera á velferðarsviðinu, hvoru tveggja af hálfu ríkis og sveitarfélaga, þannig að tryggt sé að allir gangi að sama þjónustustigi alls staðar á landinu, ásamt því atriði að nægilegur mannafli fagmenntaðra sé að störfum við slíka þjónustu.

Hver kynslóð greiðir skatta og þann sameiginlega sjóð þarf að nýta með vitund um sams konar staðal velferðar frá einni kynslóð til annarrar.

kv.gmaria.

 


Í friði og sátt, við hefjum flugið hátt.

Friður á jörð er háleitt hugtak , en við sjálf getum vissulega lagt okkar af mörkum til að áskapa frið meðal manna. Fyrst erum það við sjálf og nánasta umhverfi okkar svo það sem lýtur að umgjörðinni um umhverfið og veröldinni sem við lifum í . " Sjálft hugvitið, þekkingin , hjaðnar sem blekking, ef hjarta er ei með sem undir slær " sagði skáldið og eru orð að sönnu því kærleikur og virðing er forsenda vitrænnar ákvarðanatöku . Forsenda kærleiks og virðingar eru heilindi og notkun sannleikans skiptir þar meginmáli. Fjölmörgum framfaramálum má þoka í þágu vors samfélags ef þetta er veganestið meðferðis millum manna , og millum flokka sem starfa í þágu almennings í landinu og fá kjörna fulltrúa á Alþingi Íslendinga.

Því fyrr sem gagnkvæm virðing mun ríkja millum afla í íslenskum stjórnmálum því betra fyrir eitt stykki samfélag.

kv.gmaria.

 


Frelsi einstaklingsins og samfélagslega ábyrgðin.

Endursýning sjónvarps á spjalli við Milton Friedman, var afar áhugaverð, ekki hvað síst fyrir þau skoðanaskipti sem þar áttu sér stað af hálfu fræðimanna okkar í þættinum, Björns, Stefáns og Ólafs. Að hluta til fannst mér prófessorinn ekki koma með haldbær rök til móts við þá Ólaf og Stefán undir það síðasta, hvað varðar það atriði að mikilvægi þess að stjórnvöld hafi fyrir það fyrsta vald til að stíga á bremsur og stýra ákveðnum atriðum er aftur stuðla að efnahagslegu jafnvægi eins þjóðfélags svo sem í formi atvinnustefnu og skattastýringar.

Þar gilda ekki sömu lögmál um þjóðfélög er telja milljónir manna sem íbúa og þjóðríki sem ekki hafa íbúa innan við hálfa milljón manna.

Þetta var annars mjög fróðlegt og vonandi að sjónvarpið finni meira af slíku efni á sinni könnu til endursýningar .

kv.

gmaria. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband