Tími á eldgos ?

Vonandi er veðurblíðan undanfarið ekki tákn um svokallað " gosveður " sem áður og fyrr á stundum var rætt um ef einmuna veðurblíða var um langan tíma. Ég var um fimm ára aldurinn þegar Surtur gaus og seint gleymast þær miklu myndir úr barnsminni af reykjarstrókunum sem stigu til himins séð undan Eyjafjöllum. Hekla gaus svo af og til með mismiklum látum frameftir uppvaxtarárunum og einu sinni var það þannig að pabbi þurfti að fara til Reykjavíkur sama dag og Hekla byrjaði að gjósa og mér fannst það afar óþægilegt því eitthvað skorti á öryggistilfinninguna. Ég hafði reyndar lesið og lesið fram og aftur um Kötlugosin í bókum og sennilega magnað upp hræðslutilfinningu gagnvart slíku um helming við þann lestur. Síðan gaus í Vestmannaeyjum árið sem ég fermdist og amma og afi komu upp á land, um nóttina. Fyrsta gosmorguninn nötraði jörðin heima og búpeningur var á ferð og eirði ekki kyrr. Ótrúlegar tilviljanir varðandi það atriði að Eyjaflotinn skyldi allur hafa verið í höfn daginn áður vegna óveðurs var þess valdandi að svo vel gekk að flytja íbúa á brott. Mömmu dreymdi draum fyrir því að allt færi vel í Vestmannaeyjum og höfnin myndi ekki lokast og það gekk eftir. Óhjákvæmilega öðlaðist maður óttablandna virðingu fyrir náttúruöflunum og tilvist þeirra.

kv.gmaria.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband