Framtíð Íslands er velferð þegnanna, óháð aldri.
Þriðjudagur, 20. mars 2007
Aldraðir, börn og öryrkjar hafa einhvern veginn lent utandyra í " veislunni " sem fjármálaráðherrann ræddi um nú rétt fyrir þinglok, enda það sammerkt með þessu hópum að þeir hafa ekki sérstakt samningsumboð sér til handa og verða að treysta á ráðstafanir þær sem kjörnir fulltrúar ákveða um aðstæður þar að lútandi. Þykjustuleikurinn þess efnis að " búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld " er nú í dag öfugmæli ein í allt of miklu magni, svo miklu að okkur núverandi kynslóð á miðjum aldri má telja til skammar. Hið sama má segja um afskaplega marga þætti er lúta að börnum, hvort sem um er að ræða grunnmenntun eða þann tíma sem foreldrum er mögulegt að inna af hendi með börnum sínum á skeiði frumbernsku. Þótt fjöldinn allur af rannsóknum sýni það og sanni að tilfinningalegt atlæti foreldra sé forvörn númer eitt lífsleiðina alla fyrir lítið barn, hvað varðar uppbyggingu sjálfsmyndar, þá gefa hvorki ráðstafanir skattalega rými til dvalar fólks með börnum sínum nema að afar takmörkuðu leyti. Vinnuvikan hefur ekki styst heldur þvert á móti lengst og hjá láglaunafólki ná endar ekki saman sem aftur gefur augaleið að slíkt bitnar á börnum þar sem hið óréttláta skattkerfi kemur enn og aftur við sögu. Öryrkjar sem einhverra hluta vegna hafa tapað heilsugetu til vinnuþáttöku hafa mátt búa við skerðingar á skerðingar ofan þar sem bætur hafa ekki haldist í hendur við þróun verðlags í einu landi. Ábyrgðarleysi fjármálaráðherra landsins sem situr uppi í Fílabeinsturninum í ráðuneytinu þess efnis að tala um " veislu " þegar hluti fólks á við erfiðar aðstæður að etja, til að komast gegn um daga, vikur og mánuði, er mikið.
kv.gmaria.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Eins og þú veist gmaria er ekki hverjum sem er boðið í veislur,á dögum víkingana voru þeir sem minnst máttu sín látnir sitja utar en aðrir. Konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt 1915 ef ég man rétt, þá var lífaldurinn ekki svo hár og Brandur langafi minn sem var bóndi á Önundarhorni fékk ekki að kjósa vegna þess að hann hafði ekki nægjanlegar tekjur. En hreppstjórnin hafði fært niður framtal hans, sem hann síðan kærði. Löngum hafa ráðamenn fundið aðferðir til þess að fá "réttar" kosningar, en eftir sat að hann gat ekki kosið í það skiptið.
Ester Sveinbjarnardóttir, 20.3.2007 kl. 03:10
Nei það er sko rétt mannréttindin koma ekki á silfurfati en auðvitað hefur Brandur langafi ekki sætt sig við hina óréttlátu málsmeðferð, blessuð sé minning hans.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 21.3.2007 kl. 01:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.