Sunnudagspistill, hugsað upphátt.

Það hefur verið skritinn tími hjá mér þetta sumar frá lokum maí til núna í byrjun október, þar eitt stykki óvissa hefur verið fyrir hendi.

Nú er ákveðinni óvissu eytt og við tekur önnur óvissa að öllum líkindum í framhaldinu, en svona er þetta blessað líf okkar sitt á hvað, gleði og sorg, sigur og tap, skúrir og sólskin.

Maður hefur hins vegar ekkert val um annað en að halda áfram veginn , sama hvað það er sem heimsækir mann hverju sinni áskapað ellegar ekki áskapað.

Ég var að pakka niður bókum í kassa í gær og ein bókin vildi ekki ofan í kassa og rann úr greipum mér á gólfið, kápan fór í sundur sem hafði reyndar áður verið límd saman svo ég tók bókina til hliðar. Þetta var bókin Lög og réttur eftir Ólaf heitinn Jóhannesson, góð og merk bók sem ég hef gegnum tíðina gluggað í milli spjalda.

Mér varð hugsað til þess hve mikill fjársjóður finnst á rituðu máli hér á landi í formi útgefinna bóka um hin ýmsu mál, en ég rakst einnig á bók sem heitir Hundrað hugvekjur og skrifaðar voru af prestum forðum daga til húslestra þar sem lagt er út af tilvitnunum úr Biblíunni.

Sú bók er algjör gullmoli sem ég hafði lesið pínulítið í hér einu sinni en sá að ég þyrfti að gera aftur.

Við það að pakka niður bókunum öðlaðist ég smávegis yfirsýn yfir bókaflóðið sem tilheyrir mínu heimili og komið hefur úr ýmsum áttum.

Ég á bara eftir að pakka niður um það bil hundrað ljóðabókum og þá er bækurnar tilbúnar til þess að fara í geymslu og ég get haldið áfram og tekið eldhúsið næst í þvi efni.

kv.Guðrún María.


Burt með Bakkus.

Þetta framtak SÁÁ er fagnaðarefni því sannarlega þarf að byggja upp úrræði á landsvísu fyrir einstaklinga til þess að koma þeim út úr fjötrum vímuefna.

Jafnframt er það sannarlega nauðsynlegt að gjaldtaka á áfengi tengist afleiðingum ofnotkunnar þess hins sama en eins og vitað er þá hefur gjald á bensín ekki runnið til vegamála endilega gegnum tíðina.

Bakkus hefur lengi elt mig uppi allt í kring um mig þótt enn hafi ég ekki fallið í þann pytt í eiginlegum skilningi þá hefur það orðið mér að yrkisefni, sem ég fann í skúffunni í kvöld og læt fylgja með.

" Bakkus.

Hve mörg eru tárin sem taumlaust fljóta,
er tilvera Bakkusar tekur öll völd.
Hve mörg eru árin sem orðalaust þjóta,
á brott við hans ógnþrungnu gluggatjöld.

Þola og þola en þola samt ekki,
þolgæði endalaust, ástin hún knýr.
Loks brotna sundur þeir þolgæðishlekkir,
er rökhyggjan kalda að manninum snýr.

Brynja sig staðfestu, brynja sig veldi,
búast við Bakkusi í bardagahug.
Bjóða honum verustað annan að kveldi,
vísa honum burtu með hálfkveðnum hug.

Horfa út í tómið í hugsanaflaumi,
hafa átt en tapað, því Bakkus er til.
Fegurð og góðmennsku finna í draumi,
fallvölt er gæfa við Bakkusaryl.

Bakkusarylur er Bakkusarhylur,
Bakkus er gleði og Bakkus er sorg.
Bakkus er skaðvaldur, barnið þitt skilur
ef býrðu að staðaldri við Bakkusartorg. "

gmó.

kv.Guðrún María.


mbl.is Undirskriftasöfnun fyrir Betra lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri stjórnin í landinu kann ekki meðalhófsreglu núverandi stjórnarskrár.

Skömmu eftir valdatöku þeirrar stjórnar sem nú situr benti ég á það hér á mínu bloggi að gjaldtaka hins opinbera var hækkuð um meira en helming í einu, varðandi bifreiðagjöld í því tilviki.

Síðan hefur vægast sagt mikið vatn runnið til sjávar í alls konar skatta og gjaldahækkunum hins opinbera.

Nýjasta dæmið er hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu sem er eins og skjóta sig í fótinn og eyðileggur gjörsamlega það sem varið hafði verið í kynningarátak á landinu áður af hálfu sömu stjórnarherra eftir eldgos og tafir á flugsamgöngum um heim allan, þegar jökullinn minn gaus.

Þessir stjórnarhættir einkennast af handapatskendum aðferðum sem ekki finna samræmi, því miður.

kv.Guðrún María.


mbl.is Ísland ekki miðpunktur heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misþroskagreining er einn áhættuþátta til að leiðast í fíkniefni.

Í upphafi skal endir skoða segir máltækið og ákveðnir áhættuþættir í lífi einstaklinga sem vitað er um í frumbernsku er eitthvað sem ætti að vera hvati að stuðningi gegnum skólakerfið hvers konar til þess að forða fleirum frá því að leiðast út á braut fíknisjúkdóma.

Langvarandi fíkniefnaneysla leiðir hins vegar af sér ýmsar tegundir geðrænna vandkvæða, allt spurning um tíma í neyslu sem slíkri.

Að vissu leyti er enn til staðar stórkostlegur skortur á samhæfðum vinnubrögðum í voru kerfi til þess að taka á afleiðingum fíknar, þar sem m.a. fjármagni til starfssemi geðdeilda innan LSH er þröngur stakkur skorinn en einnig skortir lokaðar deildir fyrir ungmenni sem eru BÖRN sem meðferðarúrræði, þar sem Vogur hefur slíkt ekki til staðar.

Rannsóknir eru af hinu góða en satt best að segja hélt ég að allt þetta hefði verið vitað áður sem hér kemur fram.

kv.Guðrún María.


mbl.is Kljást við fíkn og geðræn einkenni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.

Það er alveg ágætt að sá hópur sem hér kemur fram undir formerkjum áhuga um Evrópusambandsaðild sýni sig sem einstaklingar á sínum stað í þjóðfélaginu hvort sem um er að ræða hugsanlega forkólfa fyrirtækja með gróðavon ellegar einhverja sem eiga hlutabréf í fyrirtækjum sem hugsanlega gætu grætt á aðild að Evrópusambandinu, við sölu á öllu mögulegu sem ómögulegu, ellegar aðra sem sjá ekki sólina fyrir styrkveitingum utan að frá.

Eitt er ljóst að framtið með lægri launum en nú eru til staðar sem eru allsendis nægilega lág, bíður við inngöngu í Evrópusambandið.

Það vita þeir sem vilja vita.

Óheft landamæri athafnafrelsis er sannarlega ekki eitthvað sem við Íslendingar skyldum heldur íhuga nú um stundir í ljósi nýliðinnar reynslu varðandi það hið sama.

Framtíðarsýn einnar þjóðar byggist fyrst og fremst á eigin sjálfbærni hvað varðar gjaldmiðil og efnahagsstefnu og samvinnu við aðrar þjóðir á grundvelli þess hins sama, svo er og mun verða.

Fullveldi þjóðar og sjálfsákvarðanataka um mál öll er ekki söluvara til inngöngu fyrir skammtímahagsmuni einstakra fyrirtækja á markaði í Evrópu.

kv.Guðrún María.


mbl.is Vilja breyta framtíðarsýninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

" Hin umbeðna gerð má fara fram "

Þetta eru dómsorð í dómi Héraðsdóms Reykjaness í morgun, en ég fékk tölvupóst klukkan 11.47, um að ég gæti mætt í dómshald klukkan 11.45, sama dag til að hlýða á niðurstöðu, sem eðli máls samkvæmt var nú ekki hægt þannig að ég fékk dóminn sendan í tölvupósti skömmu seinna.

Dómur þessi er sérstakur fyrir þær sakir að hér tekst stjórnvaldi í þessu tilviki Húsnæðisskrifstofu Hafnarfjarðar að setja fram beiðni fyrir dómstól um löggerning þ.e. riftun samnings við mig, þótt ég hefði engan gildan samning sem væri hægt að rifta, vegna þess að slikum hafði áður verið rift.

Þessi málaleitan Húsnæðiskrifstofu Hafnarfjarðarbæjar þýddi kostnaðarauka sem nemur 280 þúsund krónum, sem hefði verið hægt að forða með einu símtali þess efnis að óska eftir þvi að ég færi úr íbúð þessari ellegar með bréfi þess efnis.

Dómur sá sem kveðin var upp í þessu máli er þessi.

"

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 2. október 2012 í máli nr. A-119/2012:
Húsnæðisskrifstofa Hafnarfjarðar
(Þórdís Bjarnadóttir hrl.)
gegn
Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur

Umrædd aðfararbeiðni barst héraðsdómi 18. júní 2012. Beiðnin var tekin fyrir 16. júlí síðastliðinn og var þá mætt af hálfu gerðarþola. Þann dag var málinu frestað til 10. september síðastliðinn, í því skyni að gerðarþoli gæti skilað greinargerð í málinu. Þegar beiðnin var svo aftur tekin fyrir á dómþingi 10. september síðastliðinn var að nýju mætt af hálfu gerðarþola og skilaði gerðarþoli greinargerð. Að svo búnu tjáðu aðilar sig um málið og var það því næst tekið til úrskurðar. Gerðar­­beiðandi er Húsnæðisskrifstofa Hafnarfjarðar, kt. […], Strandgötu 11, Hafnarfirði. Gerðarþoli er Guðrún María Óskarsdóttir, kt. […], Berjahlíð 1, Hafnarfirði.

I.
Gerðarbeiðandi krefst þess að gerðarþoli verði, ásamt öllu því sem honum tilheyrir, borinn út úr íbúð merkt 03 01 að Berjahlíð 1, fastanúmer 223-1394, Hafnarfirði, með beinni aðfarargerð. Auk þess krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, ásamt því að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Gerðarþoli krefst þess að málinu verði vísað frá dómi.

II.
Málsatvikum er lýst svo í aðfararbeiðni að gerðarþoli leigi framan­greinda íbúð af gerðarbeiðanda. Þann 1. júlí 2011 hafi gerðarþoli tekið íbúðina á leigu. Samkvæmt samningnum hafi leigutími hafist 1. júlí 2011. Sam­kvæmt ákvæðum 3. gr. samningsins megi beita öllum venjulegum úrræðum til að knýja fram efndir, meðal annars ákvæðum húsaleigusamnings, yrðu vanefndir af hálfu annars hvor samnings­aðila á samningnum. Þann 31. janúar 2012 hafi Húsnæðisskrifstofa Hafnarfjarðar sent gerðarþola lokaaðvörun þar sem skorað hafi verið á gerðarþola að greiða húsaleigu­skuld fyrir 10. febrúar 2012, að öðrum kosti yrði innheimta falin lögmanni og leigu­samningi rift vegna vanskila. Þann 29. maí 2012 hafi lögmaður sent gerðarþola greiðsluáskorun, sem birt hafi verið fyrir honum 31. maí 2012, þar sem skorað hafi verið á hann að greiða ofangreinda húsaleiguskuld innan tíu sólarhringa frá móttöku greiðsluáskorunarinnar, að öðrum kosti yrði húsaleigusamningi rift án frekari fyrir­vara. Gerðarþoli hafi ekki sinnt þessari áskorun og sé gerðarbeiðanda því nauðsynlegt að leggja fram beiðni þessa. Gerðarbeiðandi hafi þegar sent gerðarþola tilkynningu um riftun samningsins.
Gerðarbeiðandi kveður útburðarkröfu þessa byggja á því að framangreindum leigusamningi hafi verið rift vegna vanefnda leigutaka á leigugreiðslum. Um lagarök er vísað til 78. gr. laga um aðför nr. 90/1989 og 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Krafan um málskostnað sé reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafan um virðisauka­skatt byggist á því að gerðarbeiðandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því sé nauðsyn að áhrifa hans sé gætt við ákvörðun málskostnaðar. Gerðarbeiðandi kveður gerðina fara fram á ábyrgð gerðarbeiðanda en á kostnað gerðarþola.

III.
Í framlagðri greinargerð gerðarþola kemur fram að gerðarþoli hafi lagt fyrir dóminn frumrit af síðasta húsaleigusamningi sem gerðarþoli hafi undirritað vegna leigu á framangreindri íbúð. Sá samningur sé dagsettur 21. júlí 2009, en þeim samningi hafi verið rift fyrir Héraðsdómi Reykjaness 7. janúar 2010. Gerðarþoli kveðst engan annan húsaleigusamning hafa undirritað síðan þá.
Þá kveður gerðarþoli „tilraunir fulltrúa Húsnæðisskrifstofu Hafnarfjarðar með fulltingi lögmanns, þess efnis að leggja fram afrit af pappírum til riftunar, í fyrsta lagi án undirskriftar minnar til dóms og í öðru lagi skannað afrit við dómshald 16. júlí sl.“ stangast á við 8. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, þar sem segir að allar breytingar á leigusamningi eða viðbætur skulu gerðar skriflegar og undirritaðar af aðilum samningsins. Einnig vísar gerðarþoli til 31. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, en ákvæðið fjallar um misneytingu, og laga um aðför nr. 90/1989, nánar tiltekið 10. og 96. gr.
Gerðarþoli segir jafnframt að gerðarbeiðanda hafi átt að vera fullljóst að enginn húsaleigusamningur væri fyrir hendi til að rifta með tilheyrandi „kostnaðarþóknun“ til handa lögmanni gerðarbeiðanda, eða 200.000 krónum. Gerðar­beiðandi hafi einungis þurft að senda eitt bréf með ósk um að gerðarþoli færi úr íbúðinni án aðkomu lögmanns og frekari „kostnaðartilbúningi“ við málið. Þá kveðst gerðarþoli hafa lagt fram stjórnsýslukæru. Gerðarþoli kveðst krefjast frávísunar málsins vegna vanreifunar á málatilbúnaði gerðarbeiðanda.

IV.
Með umræddri gerðarbeiðni fylgdi afrit leigusamnings, dags. 9. febrúar 2012, um leigu íbúðarinnar að Berjahlíð 1 í Hafnarfirði, frá 1. júlí 2011 til 30. júní 2012. Það afrit er í samræmi við lýsingu gerðarbeiðanda á atvikum málsins í aðfararbeiðni, en þó er einungis undirskrift gerðarbeiðanda á afritinu. Í þing­haldi 16. júlí síðastliðinn kvaðst gerðarþoli ekki kannast við samninginn. Í þinghaldi 10. september síðastliðinn lagði gerðarbeiðandi fram frumrit leigusamnings milli aðila, dags. 12. febrúar, og er samningurinn tímabundinn frá 1. febrúar 2010 til 31. júlí 2010. Sá samningur ber með sér að vera undirritað af báðum aðilum málsins, en gerðarþoli kveður undirskrift sína falsaða þótt um sé að ræða sömu rithönd og á öðrum skjölum í málinu, s.s. greinargerð gerðarþola. Í þinghaldi 10. september síðastliðinn viðurkenndi gerðarþoli hins vegar að búa í íbúðinni og skulda húsaleigu.

Gerðarþoli hefur ekki sýnt fram á að 31. gr. laga nr. 7/1936 eigi við í máli þessu. Þá er að mati dómsins ekki ástæða til að vísa máli þessu frá þótt gerðarbeiðandi hafi lagt fram óundirritaðan leigusamning með aðfararbeiðni sinni, enda hafa verið lögð fram frekari gögn í málinu og gerðarþoli hefur viðurkennt að skulda húsaleigu. Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan verður að líta svo á að leigusamningur sem gerðarbeiðandi lagði fram í þinghaldi 10. september síðastliðinn liggi til grundvallar samningssambandi aðila og að samningurinn hafi framlengst ótímabundið samkvæmt 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, þar sem gerðarþoli hélt áfram að hagnýta hið leigða húsnæði. Að þessu virtu og með vísan til þess að óumdeilt er að gerðarþoli skuldar húsaleigu og gerðarbeiðandi hefur lýst yfir riftun á leigusamningi aðila, að undangenginni greiðsluáskorun, á gerðarþoli að svo komnu engan rétt til umráða yfir hús­næðinu. Skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 eru því fyrir hendi og ber að taka til greina kröfu gerðarbeiðanda um aðfarargerð.
Með hliðsjón af greindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á gerðarbeiðandi rétt til málskostnaðar úr hendi gerðarþola, sem þykir hæfi­lega ákveðinn 80.000 krónur.
Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.


ÚRSKURÐARORÐ

Hin umbeðna gerð má fara fram.
Gerðarþoli, Guðrún María Óskarsdóttir, greiði gerðarbeiðanda, Húsnæðisskrifstofu Hafnarfjarðar, 80.000 krónur í málskostnað.

Sandra Baldvinsdóttir "

kv.Guðrún María.



Framsal ríkisvalds til inngöngu í Evrópusambandið ?

Tillögugerð um nýja stjórnarskrá inniheldur sérstakan kafla um Framsal ríkisvalds sem hér segir.

" 111. gr. Framsal ríkisvalds

Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi."

Núverandi stjórnarskrá heimilar ekki framsal ríkisvalds með því móti sem hér er lagt til en ákvæði þar að lútandi kemur fram í bæklingi þeim sem nú hefur verið dreift inn á heimili landsmanna.

" 21. gr. Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til."

Mér kemur ekki til hugar að samþykkja þessa tillögugerð.

kv.Guðrún María.


mbl.is Samræðuvefur um stjórnarskrána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kostar þetta ráðherraskiptatilstand skattgreiðendur ?

Ráðherraskipti korteri fyrir kosningar þýða varla annað an fráfarandi ráðherra nýtur biðlauna út kjörtímabilið, eða hvað ?

Að skipta út fjármálaráðherra sem hefur lagt fram fjárlög og láta annan taka við embætti er afskaplega ólíklegt að talist geti til fyrirmyndar fyrir nokkra þá sem halda um valdatauma.

kv.Guðrún María.


mbl.is „Tek við afar góðu búi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðvitund samtímans og stjórnmálin.

Þegar svo er komið að menn fara hringinn kring um eigin sannfæringu til þess að þóknast tíðarandanum þá er þörf að staldra við og hugleiða tilganginn.

Hinn aldagamli undirlægjuháttur okkar Íslendinga er ríkjandi í dag sem aldrei fyrr undir formerkjum þess sem ég kalla " liberisma " þar sem allir eru sammála öllum í einhverju sem aftur gerir það að verkum að þeir hinir sömu eru skoðanalausir um hin ýmsu mál.

Þetta skoðanaleysi gerir það að verkum að stjórnmál og stjórnmálaflokkar upp til hópa eru eins og kjötsúpa með rófum, haframjöli, gulrótum, káli, grjónum og salti, sem öllum líkar vel en enginn veit hvort áherslan er meiri á haframjölið eða gulrófurnar, kjötið eða saltið, millum þeirra sem sjóða súpuna hverju sinni.

Þeir sem skera sig úr þessari flóru liberalkjötsúpukokka i stjórnmálum, eru undantekningalítið hafðir að háði og spotti og þeim velt upp sem sérvitringum þótt slíkir sérvitringar mættu sannarlega vera mun fleiri öllum til hagsbóta.

Væri það eðlilegt að kirkjunnar þjónar slepptu því alveg að þjóna kristinni trú í messum með ræðum um eitthvað annað ?

Allt hefur sín mörk og innan marka frelsisins fáum við notið þess en við þurfum að þekkja þau mörk sem til staðar eru, þannig er hægt að skapa ábyrgara samfélag með vitund um siðgæði.

kv.Guðrún María.


Hamingjuóskir í Flensborg.

Frábært að sjá þemaverkefnin í heilsueflingu framhaldsskóla og nú er það geðræktin sem ekki skiptir minna máli en hreyfing og næring.

Til hamingju með árin 130 Flensborgarskóli.

kv.Guðrún María.


mbl.is Flensborgardagurinn á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband