Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010
Atvinnuleysi áskapar aukna fátækt, eðli máls samkvæmt.
Sunnudagur, 26. desember 2010
Það stoðar lítt fyrir stjórnvöld að berja hausnm við steininn, tilkomið atvinnuleysi þýðir aukna fátækt hjá hluta þjóðarinnar og var þó nóg til staðar fyrir hrun einnar þjóðar.
Ákveðnir þjóðfélagshópar bera skarðan hlut frá borði af þjóðarkökunni og hafa gert of lengi fyrir ótrúlegan skipulagslegan klaufaskap við skattlagningu og tekjutengingar alls konar þar sem viðmið upphæða eru fjarri raunveruleika við að fást.
Hvorki láglaunafólk á vinnumarkaði, ellilífeyrisþegar eða öryrkjar eiga að þurfa að líða skort í íslensku samfélagi með tilliti til þjóðartekna og menntunarstigs þjóðarinnar.
Mikilvægasta verkefni stjórnvalda er uppbygging atvinnu til þess að viðhalda einu stykki efnahagskerfi gangandi og til þess eru færar leiðir meðal annars við það að auka aflaheimildir í sjávarútvegi.
kv.Guðrún María.
Heimsmet í skattaálögum af hálfu einnar ríkisstjórnar.
Sunnudagur, 26. desember 2010
Skattlagning á fólk og fyrirtæki hefur náð nýjum hæðum hér á landi, hæðum sem ríkisstjórnin sjálf mun sennilega ekki ná að komast yfir.
Hverjum hefði dottið í hug að vinstri flokkarnir myndu setja heimsmet í skattaálagningu ?
Líkt og skattlagning væri líklegasta aðferðin til hjálpar þjóðinni í atvinnuleysi sem þekkist ei í hagfræðikenningum.
Getur það verið að íslenskri þjóð eigi að vera vel skiljanlegt að það sé kanski betra að sjá sólina koma upp í sem aðilar að Evrópusambandinu ?
Vil ekki trúa því en eitt er ljóst almenningur og fyrirtæki eru ekki líkleg til þess að auka umsvif og örva eitt lítið hagkerfi við skattlagningu í samdrætti.
kv.Guðrún María.
Atvinnuskapandi verkefni eins og skot.
Sunnudagur, 26. desember 2010
Það er hlutverk stjórnvalda að greiða fyrir atvinnuskapandi verkefnum, sem fyrir liggja á borðinu hverju sinni og það atriði að hafa ekki heildarsýn yfir þau hins sömu mál, getur kostað þjóðina mikið.
Það er einnig hlutverk stjórnvalda að greiða fyrir fjárfestingum á þann veg að halda sköttum í hófi og til þess þarf sýn á hið sama.
Það er lélegt að engar einustu nýjar hugmyndir um atvinnutækifæri skuli hafa komið fram frá sitjandi ríkisstjórn í landinu, en ég hefi ekki orðið vör við það og hafi það farið framhjá mér þá bið ég forláts.
Því miður er það tilfinning mín að núverandi ríkisstjórn bíði eftir því að sólin komi upp við aðild að Evrópusambandinu og ekkert skuli fram borið fyrr en aðildarferlinu sé lokið, en ef svo er þá er sitjandi stjórn vanhæf til valdanna.
kv.Guðrún María.
Stjórnmálaástandið hér á landi.
Sunnudagur, 26. desember 2010
Það er sérkennilegt ástand í stjórnmálum hér á landi ekki hvað síst sökum þess að núverandi ríkisstjórn ákvað að setja aðildarumsókn að Evrópusambandinu í forgang verkefna stjórnarinnar, í stað þess að einbeita sér að uppbyggingu landsins úr efnahagslegum rústum hrunsins.
Samþykkt samstarfsflokksins VG, varðandi þetta mál eru helstu mistök formanns flokksins og skrifast á það að " selja sannfæringu sína fyrir setu við valdataumana " því miður.
Það var nefnilega vitað mál að aldrei yrði sátt um það hið sama í flokki sem hefur haft andstöðu við Evrópusambandið á stefnuskránni lengi, og naut kjörfylgis vegna þess í kosningum.
Evrópusambandsmálið skiptir stjórnmálaflokkunum gömlu Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki upp í fylkingar með og á móti sem ekki er til bóta nú um stundir þegar aldrei hefur verið meiri þörf fyrir sterka afstöðu til mála allra.
Raunin er sú að aðildarumsókn að Evrópusambandinu nú er þvílík tímaskekkja og alröng forgangsröðun hagsmuna lands og þjóðar, af hálfu sitjandi stjórnvalda.
Skortur á notkun þess að bera málið undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort bæri að sækja um mun verða Akkilesarhæll jafnaðarmanna hér á landi um langan tíma fram á veg, því miður.
kv.Guðrún María.
Jólabókin.
Sunnudagur, 26. desember 2010
Ég fékk bók í jólagjöf, bókina Útkall, þar sem frásagnir fólksins austur undir Fjöllum af atburðunum þar voru efni bókarinnar að hluta.
Afskaplega fróðlegt var að lesa frásagnir af upplifun atburða þessara í nánd, og hafi allir þeir sem sögðu frá hjartans þakkir fyrir að deila þessu með okkur.
Það er eitt að fylgjast með fréttum og annað að vera þáttakandi í þessum hildarleik náttúruhamfara, óvissu á óvissu ofan dögum, vikum, og mánuðum saman.
Æðruleysi íbúa í þessum aðstæðum var og er einstakt.
kv.Guðrún María.
Hugleiðing um jól.
Laugardagur, 25. desember 2010
Jólin eru góður tími hugleiðinga um lífið og tilveruna, og mér varð hugsað til þess í dag hversu mikil " þægindi " nútímaðurinn hefur í raun.
Við getum hringt í flest alla, hvar sem er, hvenær sem er, og fáum að vita flest sem gerist nær samstundis heimsálfa í millum.
Við skreytum húsin hlý, með jólaljósum þar sem birtan af þeim verður svo mikil að kertaloginn lýsir varla.
Við eigum orðið ryksuguvélmenni sem sjá um að þrífa, uppþvottavélar sem vaska upp, örbylgjuofna sem hita og sjóða mat, rafmagnstannbursta og rafmagnsrakvélar, brauðristar, blandara, rafmagnsrúm og rafmagnsteppi.
Rafmagnsflatskjá, sem tekið hefur við af landslagsmyndinni i stofu landsmanna, og tölvur með nettengingu, og alls konar hleðslutæki fyrir græjur samskiptatækninnar.
Kaffivélar sem vantar bara að brenna baunirnar lika, áður en þær mala og laga kaffi, en kanski kemur það einhvern tímann.
Þegar manni verður hugsað nokkra áratugi aftur í tímann þegar allt þetta var ekki til staðar sem er nú í dag, þá er ágætt að hugleiða hvernig maðurinn hafi virkilega komist af án þessarra tækja og tóla.
Sú er þetta ritar á til dæmis ekki uppþvottavél eða flatskjá en hvorugt finnst mér mig vanta sérstaklega hins vegar hefi ég ekki haft mannmargt heimili.
En auðvitað er þetta bara þróun, eða hvað ?
kv.Guðrún María.
G L E Ð I L E G J Ó L.
Föstudagur, 24. desember 2010
Óska vinum og ættingjum og samstarfsmönnum, fjær og nær, sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla, og góðs og farsæls komandi árs, með þökk fyrir árið sem er að líða.
Sérstakar óskir sendi ég austur undir Eyjafjöll, þar sem hugurinn hefur löngum dvalið stóran hluta síðasta árs, horfandi úr fjarlægð á vini og ættingja berjast við nátturuöflin í hamförum eldgoss.
Ég kveiki á kerti, hér heima um hátíðarnar, fyrir foreldra mína sem hvíla í Eyvindarhólakirkjugarði, undir Eyjafjöllum, og manninn minn sem hvílir í Gufuneskirkjugarði, og tengdaforeldra mína sem einnig hvíla þar.
Ég bið öllum Guðsblessunar um þessi jól, en sjálf mun ég halda jólin hátíðleg með drengnum mínum á deild 15, á Landspítala Háskólasjúkrahúsi.
hjartans þakkir fyrir kærleik á árinu sem er að líða.
Guðrún María.
Þorláksmessa og skatan.
Fimmtudagur, 23. desember 2010
Hin síðari ár hefur sá siður skapast á mínum bæ, að koma saman á þessum degi og borða skötu, en skötu hef ég borðað frá því ég man eftir mér og þótt góð.
Ólíkt öðrum borða ég líka brjóskið af skötunni en móðir mín heitin sagði mér það að í brjóskinu væri að finna mikilvæg efni fyrir beinin og orð hennar voru mér nægileg í því efni.
Gæti reyndar borðað skötu mun oftar en einu sinni á ári en tillitssemi við nágranna sem ef til vill kunna ekki að meta þennan góða fisk, hefur gert það að verkum að einu sinni á ári er skatan fram borin á mínum bæ, á Þorláksmessudaginn, en ekki oftar.
Það er hins vegar mikill munur á því hvort skatan er verkuð á vestfirzkan máta eður ei og það skal viðurkennt að fyrst þegar ég smakkaði skötu að vestan, fannst mér hún vægast sagt sterk því ég hafði vanist saltaðri skötu hér sunnanlands alla jafna.
Hjá mér er hátíð í bæ að borða skötuna á Þorláksmessu.
kv.Guðrún María.
Jólin koma.
Fimmtudagur, 23. desember 2010
Það er alltaf stemming kring um jólastússið og einkar skemmtilegt að vera úti í búðum að vinna fyrir jól, en sjálf er ég fjarri þeirri stemmingu þetta árið en desember 2009, rann saman myrkranna milli hjá mér, við kynningar á mat í jólaversluninni, í aukavinnu.
Kærleikur og elskulegheit eru yfirhöfuð einkennandi þáttur í hinum mannlegu samskiptum fyrir fæðingarhátíð frelsarans, þar sem svo mikilvægt er að eiga barnið í sjálfum sér meðferðis til þess að taka þátt í hinni einlægu gleði barnanna og eftirvæntingu fyrir hátíðinni.
kv.Guðrún María.
Jólaösin að ná hámarki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Burt með verðtrygginguna og vísitölutengingar þar að lútandi.
Þriðjudagur, 21. desember 2010
Hin viðtekna venja sem skapast hefur hér á landi þegar kjarasamningar losna að bæði ríki og sveitarfélög ásamt hinum almenna markaði hafa tryggt sig fyrirfram gagnvart hvers konar mögulegum hækkunum launa á vinnumarkaði, með skatta og gjalda og verðlagshækkunum og ástandið nú er þar engin undantekning frá því sem var fyrir hrunið í islensku samfélagi.
Með öðrum orðum það er búið að hafa af launafólki mögulega kaupmáttaraukningu í samningum.
Verkalýðshreyfingin hefur samjammað sig þessu ástandi og því engin umbreyting komið til sögu varðandi það atriði að kaupmáttur launa hafi verið í samræmi við raunveruleika þann sem við blasti að lokinni samningagerð.
Til þess að breyta þessu ástandi þarf m.a. að afnema verðtrygginguna og aftengja sjálfvirkar vísitölutengingar þar að lútandi, til þess að skapa heilbrigðan ramma um íslenskt efnahagslif og forsendur samningagerðar til handa launamönnum á vinnumarkaði og almennri stjórn efnahagsmála í landinu.
kv.Guðrún María.
Álögur þyngja stöðuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)