Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
Tveir síðustu fjármálaráðherrar, hafa neitað hlusta á fólkið í landinu.
Miðvikudagur, 2. maí 2007
Sitjandi fjármálaráðherra landsins var í sjónvarpsþætti í kvöld, þar sem umræða um skattbyrði á tekjulægstu þegnanna var meðal annars til umræðu. Það skipti engu máli þótt fyrirspyrjandi, eða þáttakendur aðrir í umræðu hefðu bent á ýmsar staðreyndir varðandi þyngingu skattbyrði tekjuminnstu hópa þessa samfélags. Ráðherrann sagði alla aðra (en hann ) fara með rangt mál. Þvílík og önnur eins þráhyggja og þar kom fram er vandfundinn. Þetta er sami maður og lét þau orð falla á síðustu dögum þingsins , í umræðu af sama toga þar sem sá hinn sami spurði.
" Drengir sjáiði ekki veisluna ? " þar sem að öllum líkindum var átt við allsnægtaborðið sem almenningur á að sitja við í dag. Fyrir þann einstakling sem illa eða ekki dregur fram lífið af launum fyrir fulla vinni í íslensku samfélagi eftir greiðslu skatta í dag, getur ekki litið á þessi orð þessa ráðamanns öðruvísi en sem vitundarfirringu og eða valdsmannshroka. Forveri hans í embætti fjármálaráðherra núverandi forsætisráðherra átti við sömu erfiðleika að etja varðandi það atriði að hlusta á fólkið í landinu og trúa orðum þess um sín kjör í stað þess að einblína á meðatalsútreikninga á blaði um kjör fólks. Svo vill nefnilega til að forsendur útreikninga eru margar og mismunandi en flókið var það ekki þegar fólk með innan við eitt hundrað þúsund krónur í mánaðarlaun lenti undir fátæktarmarkaskilgreiningu við það eitt að greiða þá tekjuskattsprósentu af upphæð sem var nær samhliða fátæktarskilgreingunni.
Menn sem hafa misst sjónar á aðstæðum þeirra sem erfiðast róa í voru þjóðfélagi , hafa ekkert að gera við stjórnvölinn.
kv.gmaria.
Velferðarkerfi á brauðfótum, án fjármagns til rekstrar.
Þriðjudagur, 1. maí 2007
Þegar fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar guma sig af aukningu útgjalda til heilbrigðismála milli ára hefur ekki verið tekið mið af fjölgun íbúa sem nota þurfa kerfið, kerfi sem að hluta til hefur verið vinsælt að vaða í og skera af til reksturs einkum og sér í lagi, meðan sjálfvirk útgjaldaaukning til dæmis í formi lyfjakostnaðar hefur ekki lotið nokkri einustu skoðun sem þyrfti. Hvað þá mat á áhrifum biðlista í hina ýmsu þjónustu sem margsinnis hefur verið sýnt fram og sannað að eykur útgjöld í raun í stað þess að hægt sé að taka á vandamálum þegar þau knýja á. Heilbrigðiskerfið í heild hefur verið sem heilög kú sem menn hafa ekki lagt sig niður við að þróa og umbreyta með það að markmiði meðal annars að nýta kosti einkaframtaks í þjónustu hins opinbera á afmörkuðum sviðum sem aftur kynni að þýða sparnað sem nýttist bráðasjúkrahúsum. Ennþá árið 2007 hefur ekki tekist að byggja upp nægilega þétt net grunnþjónustu við heilbrigði þar sem hver maður hefur greiðan aðgang að sínum heimilslækni, en á sama tíma niðurgreiðir hið opinbera aðgengi landsmanna beint í sérfræðiþjónustu þar sem kostnuður hamlar leitunar fólks að. Aukning þjónustugjalda í heilbrigðisþjónustu undanfarin ár og áratugi hamlar leitan hluta fólks sem er afar slæmt og áskapar enn frekari vandamál. Skortur á uppbyggingu öldrunarstofnanna þar sem Framkvæmdastjóður aldraðra hefur verið notaður í rekstur í stað bygginga sem hlutverk sjóðsins er, er hörmulegur vitnisburður vitundar og virðingaleysis við þá sem lokið hafa ævistarfi hér á landi.
Fleira mætti nefna en læt staðar numið í bili.
kv.gmaria.
Íslendingar vilja endurheimta frelsi til athafna við fiskveiðar.
Þriðjudagur, 1. maí 2007
Það atriði að frelsi til sjósóknar skuli hafa verið afnumið í reynd á Íslandi hjá hinni miklu fiskveiðiþjóð frá örófi alda, með því atriði að færa fyrirtækjum vald til þess að sölsa undir sig heimildir til veiða sem ALDREI skyldi orðið hafa og eru og verða mestu mistök þjóðþingsins alla síðustu öld. Mistök sem sem leikið hafa íslenskt samfélag grátt, þar sem samfélög fólks í sjávarþorpum hafa kring um landið allt orðið að láta í minni pokann fyrir stjórnvaldsaðgerðum í þágu nokkurra útgerðarfyrirtækja fyrst og fremst er síðan hafa leigt frá sér heimildir til veiða dýrum dómum til einyrkja sem enn þrjóskast við það lifibrauð að veiða fisk úr sjó. Undir formerkjum hagræðingar sem engin er og síminnkandi fiskistofnar bera vitni um. Tilgangur og markmið þessa kerfis er löngu veg allrar veraldar og urðu það skömmu eftir lögleiðingu framsals og leigu aflaheimilda. Frelsi einstaklinga til athafna er eitt það dýrmætasta sem varðveita þarf og virða og gildir þar engu um hvaða atvinnugrein á í hlut. Þar skiptir all miklu máli að meta hve miklu hver einstaklingur kann að skila af sinni atvinnustarfssemi í formi skatta í þjóðarbúið og hve miklu stórfyrirtækið skilar sem ein eining. Þar skiptir einnig máli að virða það atriði að fjármunum almennings hefur verið varið til þess að byggja íbúðarhúsnæði um allt land sem og þjónustumannvirki og samgöngur í áraraðir.
Núverandi stjórnvöld hafa brugðist því hlutverki sínu að standa vörð um landsmenn alla og það skattfé sem þeir hafa lagt af mörkum gegnum tíðina og afhent fyrirtækjum vald til athafna á kostnað almennings undir formerkjum hagræðingar sem eins og áður sagði engin er.
Það er þvi þjóðhagsleg nauðsyn að breyta núverandi kerfi sjávarútvegs hér á landi hið fyrsta, og valdheimildir til þess arna eru sannarlega fyrir hendi en vilja þarf til verka og þann vilja virðist einungis að finna í Frjálslynda flokknum.
kv.gmaria.
Bakkabræður ganga í endurnýjun lífdaga.
Þriðjudagur, 1. maí 2007
Alveg er það stórkostlegt að sjá söguna um Bakkabræður blasa við í stjórnmálaumræðunni kosningar eftir kosningar þar sem málefnafátæktin er slík að ef verja þarf aðferðir viðkomandi flokks þá er tekið til að moka með fjósaskóflunni út um hina meintu glugga moldarkofans. Menn eru þess ekki umkomnir einu sinni að nota prik til þess að vita hver á hvaða fætur eru ofan í vatninu eins og Bakkabræður ku hafa notað forðum daga. Björn Ingi borgarfulltrúi Reykvíkinga fer mikinn þessa stundina í sinni einræðu sem ekki leyfir athugasemdir, þess efnis að ræða að Gróa á Leiti sé í Frjálslynda flokknum, að öllum líkindum vegna gagnrýni Sigurjóns Þórðarsonar, á störf allsherjarnefndar þingsins. Ég get upplýst Björn að Gróa var ekki viðstödd nýstofnað Félag kvenna í Frjálslynda flokknum en minni hann jafnframt á blaðaskrif hans sjálfs fyrir síðustu kosningar þar sem hann ritaði blaðagrein litaða dylgjum í garð frambjóðanda flokksins þá í mínu kjördæmi, sem hann fékk svar við frá þeirri er hér ritar og fleirum á síðum Morgunblaðsins.
Jafnframt vil ég minna Björn á það að sannleikurinn gerir yður frjálsan.
kv.gmaria.
Hagsmunir hins almenna launamanns á Íslandi.
Þriðjudagur, 1. maí 2007
Hvers vegna er það svo að nú árið 2007 að virkt upplýsingaflæði frá verkalýðsfélögum til handa nýjum starfsmönnum á vinnumarkaði um skyldur og réttindi gegnum trúnaðarmannakerfi er ekki í gangi. Þá ér ég að tala um reglulega fundi til dæmis fjórum sinnum á ári á hverjum vinnustað þar sem trúnaðarmaður fundar og nýtt fólk að störfum fær upplýsingar sem eru nauðsynlegar til þess að vita hvaða verk viðkomandi skal inna af hendi samkvæmt gildandi kjarasamningum félaga. Ég hefi unnið nokkuð lengi á vinnumarkaði og reyndar gegnt starfi trúnaðarmanns um tíma og veit að félögin ýta ekki á sína trúnaðarmenn til fundahalds, né heldur bjóða félögin sjálf sérstaklega upp á fundi um réttindi og skyldur reglulega mér best vitanlega. Þetta er hins vegar mjög slæmt og gerir það að verkum að breytileg verkefni eru hugsanlega innt af hendi frá einum vinnustað til annars hjá sömu starfsstétt. Heildaryfirsýn varðandi það atriði að vinnan innihaldi verkefni í samræmi við umsamin kjarasamning skortir að ég tel.
Álag á álag ofan, ef starfsmenn vantar að störfum.
Rekstur ýmissa stofnanna hins opinbera hefur gengið fyrir sig með því móti að í sífellu þar fólk að taka á sig álag dags daglega af mannaskorti vegna veikinda, þar sem enginn er til staðar til að leysa af án þess þó að fá svo mikið sem eina krónu fyrir. Fólk gefst upp og flýr störfin því engin eru mótmælin frá verkalýðsfélögum varðandi þetta hið sama atriði og vinnuveitendur alveg í friði með að hafa þetta bara svona. Slæm þróun en ekkert gerist meðan enginn veifar málinu.
Frysting skattleysismarka, var og er hneisa.
Það atriði að frysta mörk skattleysis og aftengja verðlagsþróun við upphæð sem var nær fátæktarskilgreiningu félagsmálastofnanna í rúman áratug er eitthvað sem hlutaðeigandi aðilar ríkisstjórn og verkalýðsfélög eiga enn eftir að útskýra hvers vegna var gert. Þar hefi ég enn ekki heyrt nokkur einustu rök fyrir slíkri aðgerð, en hvergi var að finna kröfu félaga við kjarasamningsgerð um hækkun þessara marka ár eftir ár eftir ár, því miður. Launþegar á Íslandi voru gerðir að þrælum á skattagaleiðu, þar sem saman fóru litlar sem engar launahækkanir til handa þeim lægst launuðu meðan skattleysismörk sátu föst og frosinn. Stundum mætti halda að menn hafi ekki yddað blýantinn við útreikninga þessa, hvað þá ritað tölur á blað.
Það er mál að linni og hver einn einasti maður á að eiga þau mannréttindi að lifa af launum sínum hér á landi fyrir fulllan átta stunda vinnudag. Annað er okkur ekki sæmandi sem þjóð.
Gleðilegan 1.maí ágætu landsmenn til sjávar og sveita. Frjálslyndi flokkurinn mun halda baráttufund í Aðalstræti þar sem okkar ágæti formaður Guðjón Arnar mun flytja ávarp kl.15.00.
kv.gmaria.