Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
Almannahagsmunir ofar eiginhagsmunum einstakra flokka.
Fimmtudagur, 17. maí 2007
Enn sem komið er hefur íslenskt samfélag möguleika til þess efnahagslega að skipta þjóðarkökunni réttlátlega millum þegnanna. Frelsi einstaklingsins til athafna að uppfylltum skilyrðum réttlátrar skattöku gagnvart öllum er greiða skatta til samfélagsins, er forsenda framþróunar og jöfnuðar. Atvinnufrelsi á ekki að vera til sölu sem vara á leigumarkaði stórfyrirtækja í einkaeigu, eins og á sér stað í sjávarútvegi, fremur en frelsi til viðskipta og verslunar megi þurfa að lúta allt að því einokun risafyrirtækja á hverju sviði fyrir sig. Það þarf að halda byggð í landinu öllu ekki aðeins hluta þess og það veltur á atvinnustefnumótun annari en tilfærslu örfárra starfa hins opinbera út á land. Íslendingar hafa alla burði til þess að anna eigin þörfum um matarforða í landbúnaði og sjávarafurðum en á þeim sviðum liggur jafnframt tækifæri um það atriði að taka forystu sem þjóð með vitund um mikilvægi sjálfbærni á sviðum matvælaframleiðslu sem og fullvinnslu í stað hráefnisútflutnings afurða. Nægileg þekking og kunnátta er fyrir hendi hér á landi til þess að þróa gömlu atvinnugreinar sjávarútvegs og landbúnaðar í farveg framtíðar með umhverfisvitund að leiðarljósi í framleiðsluaðferðafræði allri.
kv.gmaria.
Kjörnir þingmenn hafa traust kjósenda.
Fimmtudagur, 17. maí 2007
Orð fjölmiðlamanna um íslenzka pólítik eru á stundum lituð af flokkadráttum ellegar menn mynda sér skoðanir af magni frétta er viðkomandi lifir og hrærist í um tíma. Það er ótrúverðugt af einhverjum að henda fram orðum um að einum tilteknum stjórnmálaflokki sé ekki treystandi við stjórnvöl landsins hafandi fengið til þess lýðræðislegt umboð tiltekins fjölda kjósenda fyrir nokkrum dögum síðan. Raunin er sú að Frjálslyndi flokkurinn var nær stöðugt fréttaefni fyrir jól og fram í janúarmánuð í fjölmiðlum þar sem persóna fyrrum framkvæmdastjóra og ritara var til umræðu og einhverra hluta vegna var forsíða Morgunblaðisins lögð undir fréttina hvers vegna veit sú er þetta ritar ekki en upp frá þessu auglýsti viðkomandi einkablogg á netinu, áður en viðkomandi gekk til varaformannskjörs í flokknum. Síðar var því lýst yfir af hálfu viðkomandi að alltaf hefði verið meiningin að yfirgefa flokkinn þrátt fyrir þáttöku í þessu kjöri sem var sem blaut tuska í garð flokksmanna. Viðkomandi tók svo þátt í því að stofna annan stjórnmálaflokk ásamt öðrum en náði ekki kjöri til þings þar á bæ. Þannig var það í stuttu máli. Veldur hver á heldur, fyrr og síðar. Ef til vill lét Frjálslyndi flokkurinn yfir sig ganga of mikið af yfirlýsingum sem lítil sem engin stoð var fyrir af hálfu fyrrum framkvæmdastjórans í fjölmiðlum einkum og sér í lagi varðandi nýja félaga í flokknum og varaformann flokksins, en því verður ekki breytt úr þessu og flokkurinn hélt sínu fylgi frá í síðustu kosningum með kjöri fjögurra þingmanna á Alþingi Íslendinga.
kv.gmaria.
Mikilvægi þess að auka hlut smábátaflota í fiskveiðum við Ísland er mikið.
Miðvikudagur, 16. maí 2007
Ég lit svo á að eitt stærsta umhverfismál samtímans sé aukning fiskveiða við landið með veiðarfærum í sátt við lífríkið , handfærum og línu, ekki dregnum veiðarfærum við hafsbotn. Aukning starfa á þjóðhagslegan mælikvarða við fjölgun smábáta þýðir skattalega innkomu í þjóðfélagið af störfum við veiðar og starfssemi þar sem nýting uppbyggðra hafnarmannvirkja um allt land skilar sér ,svo ekki sé minnst á það atriði að stemma stigu við þeim landsbyggðaflótta sem núverandi system kerfis sjávarútvegs hefur innihaldið. Fiskiskipastólinn þarf að skoða og aðgæta hve mikið magn hans er til staðar með dreginn veiðarfæri er raska hugsanlega lífríki sjávar og endurmeta aðferðafræði í ljósi þess. Uppbygging þorsks við Ísland hefur mistekist í núverandi kerfi sjávarútvegs og menn verða að gjöra svo vel að horfast í augu við þá hina sömu staðreynd fyrr eða síðar. Verðmætasóun er alla jafna fylgir kvótakerfum svo sem hinu íslenska í formi brottkasts og lélegrar nýtingar sjávarfangs er atriði sem við eigum ekki að sætta okkur við að sé til staðar. Endurmat á aðferðafræði vísinda á Íslandi við veiðar úr hafinu er nauðsynlegt í ljósi reynslu síðustu tveggja áratuga og stjórnvöldum ber skylda til þess að hefjast handa við það hið sama endurmat.
kv.gmaria.
Hugum að heilsunni fyrr en síðar.
Miðvikudagur, 16. maí 2007
Sú er þetta ritar hefur mátt kljást við bakvandamál all nokkuð með allra handa úrlausnum þar að lútandi frá því um tvítugt. Ætíð er það hins vegar sama sagan að þegar manni batnar þá hamast maður einhvers staðar of mikið aftur í stað þess að taka mið af vandamálinu. Á sínum tíma vann ég við það 17 eða 18 ára að baka kex í verksmiðju þar sem við kvenfólkið máttum þurfa að burðast með 50 kg sykurpoka milli staða svo ekki sé minnst á marga 25 kg. smjörlíkiskassa á sífelldu flakki. Um það bil ári síðar hóf ég störf hjá Sláturfélaginu á Skúlagötunni og fannst það lítið mál að fylla 20 kg kassa af vörum og vippa milli staða en einn aldinn samstarfsmaður minn þá lét þess getið við mig að ég væri fín í sjómennsku svona " kraftakona ". Frá þessum tíma skyldi maður ætla að mikið vatn hafi runnið til sjávar varðandi vinnuvernd og líkamlegt álag starfa á vinnumarkaði. Ég er hins vegar ekki svo viss um að verkalýðsfélögin hafi látið sig þessi mál varða nægilega mikið gagnvart sínum félagsmönnum enn þann dag í dag. Ofálag starfa er að finna einkum og sér í lagi í opinbera geiranum þar sem ekki tekst að manna stöður og álag leggst á þá sem fyrir er hvoru tveggja líkamlegt og andlegt. Við sjálf þurfum að vaka í þessu sambandi og huga að heilsunni.
kv.gmaria.
Afskipti markaðsmanna af kosningum til Alþingis.
Miðvikudagur, 16. maí 2007
Jóhannes Jónsson í Bónus auglýsti stuðning sinn við einn einstakan stjórnmálaflokk nokkru fyrir kosningar til þings. Þar var um að ræða heilsíðuauglýsingar í dagblöðum. Eru auglýsingar Jóhannesar þess valdandi að ekki tókst að fella ríkisstjórnina ? Spyr sá sem ekki veit ? Er það eðlilegt að forsvarsmenn stórfyrirtækja blandi sér í kosningabaráttu með þessu móti, þar sem nokkuð ljóst er að almenningur í landinu hefur ekki efni á því að auglýsa heilsíðuauglýsingar sem slíkar þótt vilji væri fyrir hendi ? Það gerðist í kosningunum 2003 að þáverandi framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækis sá sig tilknúinn til þess að vara við hugmyndum Frjálslynda flokksins um breytingar á kvótakerfinu í blaðagrein sem fulltrúi fyrirtækisins. Var það eðlilegt ? Tel alveg tímabært að ræða þessi mál.
kv.gmaria.
Velferðarmálin brenna á fólkinu í landinu.
Þriðjudagur, 15. maí 2007
Það var áberandi í þessari kosningabaráttu hve margir aldraðir láta sig málefni þjóðfélagsins varða, þar sem kjörin og afkoman eru mál númer eitt , tvö og þrjú. Fólki er misboðið. Sama máli gegnir um lágtekjufólk og fólk sem hefur mátt lúta heilsutapi. Þessir hópar hafa ekki eygt þann kaupmátt sem núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa rætt sem " árangur allra handa-góðærisveislan " enda verið að greiða skatta af bótum sem fylgja fáránlegum láglaunatöxtum sem viðgangast sem laun á vinnumarkaði. Sjálf vildi ég sjá hið háa Alþingi takast á við það verkefni að skilja á milli verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða, hvað varðar það atriði að stjórnir félaga skipi í stjórnir sjóðanna. Þarna er nefnilega óeðlileg samtenging á milli að mínu viti, þar sem fjárfestingar sjóðanna í atvinnulífinu kunna að hafa áhrif á samninga um kaup og kjör á vinnumarkaði, vegna þess að verkalyðsfélögin skipa í stjórnir sjóðanna. Því til viðbótar eiga nú setu fulltrúar atvinnurekanda í sjóðunum vegna viðbótaframlags þeirra er samningar innihéldu eitt sinn og samþykktir voru. Samtenging vinstri flokkanna við verkalýðshreyfinguna bæði VG og Samfylkingar hefur allsendis ekki orðið til þess að þessir flokkar hafi svo mikið sem andað á skipulagsbreytingar nokkurs konar þar á bæ sem ég tel þó nauðsynlegar ef skipulagið skal fylgja þróun þjóðfélagsins úr miðstýringu í frelsi fólksins. Frelsi fólksins og verkalýðsfélaga fer ekki í flokksgreinarálit og félögin þurfa að vera óháð öðru en þvi að standa vörð um kjör hins almenna félagsmanns hvarvetna, og aftengd umsýslu með fjárfestingar lífeyrissjóða í atvinnulífinu á sama tíma. Sem dæmi er enn til miðstjórn ASÍ sem er tímaskekkja veruleg hvað varðar baráttu fyrir kjörum fólks á hinum ýmsu stöðum sem ekki verður normuð niður í ákvarðanatöku í miðstjórn verkalýðsfélaga á Íslandi.
kv.gmaria.
Skattkerfið og tekjutengingar, skyldi þurfa að taka til ?
Mánudagur, 14. maí 2007
Þeir aðilar sem koma til með að mynda starfhæfan meirhluta við stjórnvölinn munu þurfa að sýna fram á eitthvað annað en þyngstu byrðar á tekjulægstu hópana sem skattapólítik. Skattkerfið er stjórntæki hvað varðar réttláta byrði þáttöku í sköttum af hálfu einstaklinga og fyrirtækja í landinu og örugglega. Um réttlæti í því efni hefur ekki verið að ræða í stjórnvaldsaðgerðum undanfarin rúman áratug hér á landi, því stjórnvöld frystu skattleysismörkin og aftengdu verðlagsþróun, en hafa aldrei verið krafin útskýringa á nauðsyn þess hins arna, enn sem komið er. Komi ekki til breytinga á skattkerfinu er næsta víst að hvers konar fjölskyldugerð kann að þurfa að stofna ehf. félag um sinn heilmilsrekstur þar sem rekstarmarkmiðin eru þáttaka í þjóðfélaginu sem grunneining.
kv.gmaria.
Á að endurskoða kvótakerfi sjávarútvegs ?
Mánudagur, 14. maí 2007
Sú stjórn sem kemur til með að verða mynduð sem starfshæfur meirihluti mun þurfa að takast á við það verkefni að endurskoða kvótakerfi sjávarútvegs hvort sem þeim hinum sömu líkar betur eða ver. Ágallar þessa kerfis hrópa á aðgerðir sem ekki þola bið. Landsbyggðin hefur sent skýr skilaboð til stjórnvalda að ég tel, hingað og ekki lengra. Fjármagnsbraskið hefur orðið fiskveiðum og uppbyggingu fiskistofnanna yfirsterkara og sökum þess er landsbyggðin í rúst. Formúlur fiskveiðiráðgjafar stjórnvalda í uppnámi og endurskoðun því óhjákvæmileg. Fiskimiðin sameign ? Ég er ansi hrædd um að nýr stjórnarsáttmáli þurfi að kveða afar skýrt á um það atriði að fiskimiðin kring um landið séu í raun sameign íslensku þjóðarinnar í framkvæmd en ekki sem orð á blaði.
kv.gmaria.
Frjálslyndi flokkurinn heldur sínu fylgi.
Mánudagur, 14. maí 2007
Við Frjálslyndir stóðum sjóinn og héldum fylgi frá síðustu kosningum, það er vel. Reyndar finnst mér við eiga vel inni fyrir einum manni enn a.m.k. og maður veltir fyrir sér jöfnunarkerfinu og vægi atkvæða í því sambandi. Ég þakka þann stuðning við okkar málsstað sem skilað hefur okkur stöðu í íslenskum stjórnmálum sem er til áframhaldandi vaxtar og uppbyggingar. Sterk forysta flokksins nú um stundir og samstaða og samvinna flokksmanna sem aldrei fyrr mun verða til þess að áherslumál okkar svo sem ómögulegt kvótakerfi sjávarútvegs, ómögulegt skattkerfi fyrir þá tekjulægstu, og málefni innflytjenda, verður enn rætt og reifað í sölum Alþingis.
kv.gmaria.
Burt með ríkisstjórn misskiptingar auðs á Íslandi.
Laugardagur, 12. maí 2007
Frjálslyndi flokkurinn er lykillinn að því að fella núverandi ríkisstjórnarflokka úr sessi. Guðjón Arnar Kristjánsson kom því afar vel til skila í sjónvarpsumræðum formanna flokkanna, þar sem hann dró fram allt það andvaraleysi sem núverandi stjórnvöld hafa orðið uppvís að í garð hinna tekjulægstu í þessu landi, þar sem vinnandi fólk hefur verið fjötrað sem þrælar á skattagaleiðu ríkisstjórnarflokkanna. Á sama tíma og kvótahandhafar selja sig út úr sameign þjóðarinnar sem ekkert væri og enginn þorir að andmæla. Aldraðir, og sjúkir ásamt börnum, afgangsstærð í samfélaginu sem ekkert má kosta meðan ríkisstjórnarflokkar guma af hinu guðdómlega góðæri með meðaltalsútreikningum af launum forstjóra fjármálafyrirtækja, annars vegar og verkamannalaunum hins vegar, þar sem meðaltalið rýkur yfir öll viðmið meðaltekjumannsins , vegna mismunar á eitt hundrað þúsund krónum og einni milljón í mánaðarlaun. " Drengir sjáiði ekki veislunna " sagði fjármálaráðherra ríkisstjórnarinnar í þinglok og hvílíkt og annað eins vitundarleysi um kjör fólks í landinu er vandfundið. Hinn vinnandi maður í opinberri þjónustu á Íslandi hefur ekki verið í veislu svo mikið er víst, heldur ekki fólk sem lokið hefur ævistarfi eða fatlaðir á bótum almannatrygginga. Núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa því klæðst " Nýju fötum keisarans " í tilraunum sínum til þess að telja almenningi trú um að góðæri ríki í landinu fyrir alla. Svo er ekki því skulu núverandi valdhafar víkja fyrir þeim sem vilja umbreyta þeim áherslum.
kv.
Guðrún María Óskarsdóttir.