Almenningur í landinu kaus yfir sig sömu ráðstjórn í síðustu kosningum, því miður.
Fimmtudagur, 4. desember 2008
Það atriði að Samfylkingin hoppaði upp í ráðherrastóla í stað Framsóknarflokks við stjórnvölinn með Sjálfstæðisflokknum, breytti engu í áherslum stjórnvalda við stjórn landsins, engu.
Það var fyrirsjáanlegt fyrir kosningar til þings en þá ríkti enn meint góðæri hluta landsmanna sem trúðu á tilvist íslensks markaðssamfélags þá við lýði, sem þó ekkert var í raun .
Þar hafði fáum verið færður aðgangur að fjármagni á silfurfati líkt og flest árin áður hér á landi, til þess að leika sér með en sem aldrei fyrr eftir að óveiddur fiskur var gerður að braskvöru, og ævintýralegt Matadorspil upphófst í samfélaginu þar sem ekkert eðlilegt viðmið var lengur til um laun manna á vinnumarkaði.
Allt að því Guðadýrkun ríkti gagnvart alþjóðavæðingu og hinu mikla markaðsfrelsi fjármagns millum landa, þótt markaður í þjóðfélagi með þrjú hundruð þúsund manns væri ekki markaður, og myndi aldrei teljast markaður vegna höfðatölu.
Búið hafði verið til þjóðfélag stéttskiptingar hér á landi álíka því sem var fyrir um það bil öld síðan með ákveðinni tegund öfgafrjálshyggju sem einnig má heimfæra sem hreina ráðstjórnarhyggju kommúnisma í raun, hvað valdstjórn varðar.
Nægir þar að nefna skattaoffar og núllþráhyggju í ríkisrekstri sem aftur leiddi af sér lélega grunnþjónustu á hinum ýmsu sviðum samfélagsins, meðan endalausum fjármunum var varið í framboð til Öryggisráðsins og fleiri málamyndaverkefna á sviði sýndarmennsku erlendis.
Hið meinta frelsi var í raun helsi, sem hluti þjóðar hafði kynnst en stærri hluti má nú meðtaka við fall fjármálakerfis um veröld víða ,sem bitnar þyngra á þjóð sem hefur samþykkt að veðsetja óveiddan físk úr sjó í fjármálastofnunum með öllum þeim áhættuþáttum sem þar eru meðferðis.
kv.gmaria.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.