Frjálslyndi flokkurinn kynnti tillögur og þingmál í dag.
Þriðjudagur, 28. október 2008
Set hér inn frétt af xf.is, um tillögur þær sem þingflokkur Frjálslyndra kynnti á blaðamannafundi í dag.
"
Þingflokkur Frjálslynda flokksins 27.10.2008.
Meðfylgjandi frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands verður lagt fram á Alþingi þegar Alþingi kemur saman á morgun.
frumvarpinu eru þær meginbreytingar gerðar varðandi Seðlabankann að
1. Einn Seðlabankastjóri stjórnar bankanum.
2. Seðlabankastjóri skal hafa víðtæka þekkingu á fjármálum og efnahagsmálum.
3. Seðlabankastjóri ber ábyrgð á ákvörðunum um afgreiðslu mála.
4. Nýtt bankaráð verði skipað við gildistöku laganna.
5. Nýr Seðlabankastjóri verði skipaður við gildistöku laganna.
Meðfylgjandi þingályktunartillaga um innköllun íslenskra aflaheimilda verður lögð fram á morgun.
1. Ríkisstjórninni er falið að innkalla aflaheimildir
2. Stofnaður verði sérstakur auðlindasjóður sem leigi út aflaheimildir
3. Leiga aflaheimilda verði bundin við íslenska ríkisborgara á jafnréttisgrundvelli.
4. Óheimilt verði að framleigja leigðar veiðiheimildir.
5. Tekjur af leigu renni í sérstakan auðlindasjóð samkvæmt nánari reglum sem settar verði.
------------------------
Afstaða þingflokks Frjálslynda flokksins vegna aðsteðjandi efnahagsvanda:
Þingflokkur Frjálslynda flokksins bendir á að Frjálslyndi flokkurinn lagði áherslu á það í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningar árið 2007 að gera yrði breytingar varðandi gjaldmiðilinn. Nauðsynlegt væri að tengja krónuna við stærra myntkerfi og/eða taka upp viðmiðun hvað gengi varðar við erlenda mynt eða myntkörfu helstu viðskiptaþjóða okkar.
Lögð var áhersla á að fólk og fyrirtæki hefðu sambærileg lánakjör og gerist annars staðar í okkar heimshluta.
Frjálslyndi flokkurinn varaði við miklum innflutningi peninga með jöklabréfum og öðrum þeim hætti þar sem við værum að flytja peninga inn í landið frá útlöndum en út háa vexti. Þessi þróun varð vegna hárra stýrivaxta Seðlabanka Íslands. Stýrivaxtastefna Seðlabankans vann ekki gegn verðbólgu en stuðlaði að fölsku gengi sem olli því að gjaldmiðilinn lenti í ólgusjó spákaupmennsku.
Vegna þeirrar stefnu og stefnuleysis sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á stöndum við nú frammi fyrir verstu stöðu sem íslenskt hagkerfi hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir.
Nú þarf að beita samræmdum aðgerðum í efnahags- og atvinnumálum og bendir þingflokkur Frjálslynd flokksins á eftirfarandi:
- Efnahagsmál:
1. Úr því sem komið er eigum við ekki aðra kosti en sækja um lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þingflokkur Frjálslynda flokksins styður þá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.
2. Mikilvægt er að upplýsingar verði gefnar um það hver vandi þjóðarinnar er eftir hrun bankanna og hvað líklegt er að ríkissjóður þurfi að greiða vegna bankanna. Ríkisstjórnin verður að láta vinna þær upplýsingar þegar í stað og gera Alþingi grein fyrir niðurstöðunum. Raunhæfar úrlausnir á vandanum byggjast á því að fyrir liggi hver vandinn er.
3. Sótt verði um samstarf og lánafyrirgreiðslu frá hinum Norðurlöndunum og bent á að ákveðin vilyrði hafa verið gefin af hálfu Norðmanna hvað það varðar.
4. Tryggja verður stöðugleika gjaldmiðilsins og í því skyni verður að tengja krónuna svo fljótt sem auðið er stærra myntkerfi. Þingflokkur Frjálslynda flokksins leggur áherslu á að tekið verði upp náið samstarf við Noreg í því sambandi og kannað til hlítar hvort að Ísland og Noregur geti komið sér saman um að hafa sameiginlega mynt og peningamálastefnu.
5. Gjaldmiðillinn verður að vera tækur sem verðmælir bæði í langtíma- sem skammtímaviðskiptum. Á grundvelli þess að önnur skipan verði tekin upp í gjaldmiðilsmálum verði verðtrygging inn- og útlána felld niður á sama tíma og stöðugleiki gjaldmiðilsins verði tryggður.
6. Vextir langtímalána verði breytilegir en verðtrygging verði ekki almenn viðmiðun í lánakerfinu.
- Atvinnumál:
1. Vaxtastefna og lánakjör verða að vera með þeim hætti að fyrirtækin geti rekið blómlega atvinnustarfsemi. Þess vegna er það markmið að lækka stýrivexti Seðlabanka Íslands verulega og skapa skilyrði til þess að atvinnulíf og einstaklingar eigi kost á hagkvæmum lánum.
2. Vinna verður gegn atvinnuleysi með því að gefa markaðnum aukið svigrúm til nýsköpunar m.a. með því að tryggja góð og hagkvæm lánakjör og lánafyrirgreiðslu.
3. Auka verður fiskveiðiheimildir samkvæmt tillögum Frjálslynda flokksins.
4. Skoða verður arðbæra virkjunarkosti og stóriðjukosti og hraða undirbúningi og upphafstíma framkvæmda svo sem kostur er.
5. Leggja verður sérstaka áherslu á starfsemi sprotafyrirtækja í nýsköpun einkum þeirra sem vilja byggja á sérstökum kostum landsins og sjálfbærri starfsemi.
5. Þingflokkur Frjálslynda flokksins tekur sérstaklega fram að hann telur atvinnuleysi vera versta böl sem verður að vinna gegn af öllu afli.
- Íslensk stjórnmál:
Frjálslyndi flokkurinn telur að mikil veðrabrigði verði í íslenskum stjórnmálum þegar þjóðin gerir sér grein fyrir hvernig haldið hefur verið á málum. Frjálslyndi flokkurinn er opinn frjálslyndur flokkur sem hefur lagt áherslu á það sem flokkurinn kallar Mannúðlega markaðshyggju. Þar sem miðað er við að kostir frjáls markaðar sé nýttur en miðað við samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og virkt aðhald og eftirlit ríkisvaldsins af atvinnustarfseminni. Frjálslyndi flokkurinn mun vinna áfram í samræmi við þá stefnumótun.
Frjálslyndi flokkurinn berst fyrir því að víðtæk samstaða frjálslynds fólks geti náð fram til að frjálslynd viðhorf ábyrgrar stefnu í efnahagsmálum grunduð á hugmyndum flokksins um mannúðlega markaðshyggju nái fram að ganga.
Frjálslyndi flokkurinn berst fyrir siðvæðingu íslensks stjórnmálalífs og gerir kröfu til þess að allar upplýsingar varðandi bankahrunið og efnahagsþrengingarnar verði lagðar á borðið. Frjálslyndi flokkurinn mun m.a. í því sambandi fara fram á að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd þingsins á grundvelli ákvæða 39.gr. stjórnarskrárinnar.
Þá telur Frjálslyndi flokkurinn nauðsynlegt að fá greiningu erlends óháðs aðila á því hvað olli hruni íslensks efnahgslífs. "
kv.gmaria.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæl mín kæra, gott að vekja athygli á þessum góðu tillögum Frjálslyndra.
Hafðu góðan dag.
Ásgerður Jóna Flosadóttir, 28.10.2008 kl. 17:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.