Eyðibyggðastefna stjórnvalda í landbúnaði og sjávarútvegi.
Þriðjudagur, 13. maí 2008
Kvótasetning í sjávarútvegi og síðar frjálst framsal aflaheimilda millum útgerðaraðila orsakaði eina mestu byggðahnignun sem um getur hér á landi, hvort sem mönnum líkar betur eða ver. Ef hinn þjóðhagslegi fórnarkostnaður þessara aðgerða hefði skilað sér til baka í formi skuldlausra útgerðarfyrirtækja svo ekki sé minnst á miklar skattgreiðslur af þeirra hálfu í þjóðarbúið þá kynni svo að vera að ögn meiri sátt væru um aðgerðir þessar. Hvorugt er fyrir hendi og skuldir útgerðarinnar á síðasta ári tæpir fimm milljarðar en tíu fyrstu ár kvótakerfis hins frjálsa framsals voru fyrirtækin skattlaus.Á sama tíma var farið fram með hugmyndafræðina um færri og stærri bú bænda án umhugsunar um afleiðingar þess hins sama til langtíma þar sem bændum var borgað fyrir að hætta búskap í stað þess að veita þeim búsetustyrki til þess að hugsa um landið og hafa möguleika opna á viðbótarframleiðsu að þörfum.Engin yfirsýn ráðamanna var fyrir hendi um afleiðingar þessara breytinga í sjávarútvegi og landbúnaði fyrir þjóðarhag í heild.Raunin er sú að afrakstur bænda af stóriðjubúskap hefur lítt eða ekki aukið tekjur bænda, því tilkostnaður við stórbúskap er mikill og þar vegur þáttur eins og olía og tæknivæðing of mikið líkt og í stórútgerð í sjávarútvegi.Tilkostnaður við innkomu nýliða í hvoru tveggja sjávarútveg og landbúnað hér á landi hefur verið gerður nær ómögulegur sem aftur veldur tilheyrandi stöðnun í stað þróunar í tveimur veigamestu atvinnugreinum þjóðarinnar gegnum tíðina.Þjóðhagsleg verðmætasóun þessara aðgerða er gífurleg því uppbyggð verðmæti í formi eigna um allt land af hálfu hins opinbera í formi skóla og heilsugæslu, vega og annarar þjónustu sem veitti störf var fyrir bí og skattfé því í raun ,brennt á báli sem notað var í þá hina sömu uppbyggingu. Það má segja að þeir sem ekki voru stórútgerðarmenn eða stórbændur hafi átt veg sinn vísan á brott úr fyrrum störfum á mölina í leit að atvinnu, við óhóflega uppbyggingu dvergborgarríkis á Reykjanesskaganum með tilheyrandi þenslu og uppsprengdu húsnæðisverði. Eftir sátu eins konar einokunarherrar sem réðu lögum og lofum um kaup og kjör líkt og fyrir einni öld. Höfuðborgarsvæðið mátti ekki við svo miklum tilflutningi fólks á svo skömmum tíma og ekki hafðist undan að byggja íbúðarhúsnæði eða nauðsynleg samgöngumannvirki, skóla, heilsugæslu og þjónustu alla er hið opinbera skal veita þar sem landsmenn búa.Það skortir þvi verulega á nauðsynlega yfirsýn um þjóðarhag í þessu sambandi, og allt of mikil stökk í umbreytingum á of skömmum tíma sem þessar kerfisbreytingar hafa gert að verkum eru mistök á mistök ofan til handa einni þjóð.Ég leyfi mér að fullyrða að Íslendingar vilja byggja landið allt ekki aðeins hluta þess en til þess þarf að skapa færi og þau færi eru til öllum landsmönnum til hagsbóta fyrr og síðar með þvi að skipta verkum og gera nýliðun mögulega í landbúnaði og sjávarútvegi og umbreyta kerfum sem ekki eru á vetur setjandi.
Guðrún María Óskarsdóttir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góð grein og allt hverju orði sannara. Og til að bæta gráu ofan á svart, þá hefur Mannréttindanefnd S Þ fellt þann úrskurð að kvótakerfið í sjávarútvegi, brjóti mannréttindi, er þá ekki það sama uppi í landbúnaði? Ég sé ekki mikinn mun á þessum tveimur kvótakerfum. Ekki er ég heldur farinn að sjá hvernig ríkisstjórnin ætlar að bregðast við áliti Mannréttinnefndarinnar, eða hvort nokkuð á að bregðast við því?
Jóhann Elíasson, 13.5.2008 kl. 01:28
Sæll Jóhann.
Mér kæmi ekki á óvart að sama gilti um landbúnaðinn þegar grannt er skoðað.
Aðgerðaleysið varðandi niðurstöðu Mannréttindanefndarinnar er algjört, enn sem komið er og í raun vanvirðing við Íslensku þjóðina.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 13.5.2008 kl. 01:47
Flott grein, eitt langar mig að leiðrétta, skuldir sjávarútvegsins á síðasta ári voru vel á fjórða hundrað milljarða. Eins og allir vita þá hefur gengið hrunið og skuldirnar aukist að sama skapi.
Með bestu kveðju Halli.
Hallgrímur Guðmundsson, 13.5.2008 kl. 19:37
Já takk fyrir það Halli.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 14.5.2008 kl. 01:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.