Sjálfstæðisbarátta Íslendinga stendur enn.
Laugardagur, 18. júní 2011
Frelsi er ekkert frelsi nema þess finnist mörk, þvi innan marka frelsisins fáum við notið þess.
Það gildir um ölll svið hins mannlega lífs í raun sem og skipulag mannsins hvers eðlis sem er, og nú í dag ættum við að vita
að þrátt fyrir gífurlega menntun undanfarinna áratuga hér á landi hefur sú hin sama menntun ekki skilað okkur heilbrigðu
þjóðfélagi á fjármálasviðinu, því það skorti verulega á að mörk frelsis væri að finna í þvi efni.
Hinn aldagamli undirlægjuháttur okkar Íslendinga þess efnis að bugta okkur og beygja fyrir menntamönnum hefur þvi miður,
kostað það að mannleg skynsemi hefur að hluta til verið lögð til hliðar, þar sem hinum og þessum kennimönnum hefur verið gefinn
frjáls taumur með tilraunastarfssemi kenninga sinna í íslensku þjóðfélagi hér og þar á hinum ýmsu sviðum.
Þessi hrærigrautur flókinda í skipulagi og uppbyggingu eins þjóðfélags sem Alþingismenn hafa dansað eftir í áraraðir, þar sem einn leggur
til ferð austur meðan annar vill fara vestur undir formerkjum kenninganna, sem aftur verður til þess að miðjumoðið úrlausnanna er það að fara ekki neitt, hvorki austur né vestur, heldur standa í stað til þess að rugga ekki bát fræðimannanna, og málamiðla öllu einhvern veginn.
Alþingi hefur til dæmis tekist að búa til lagafrumskóg sem er orðinn svo ófær og samvaxinn af stagbættu reglugerðaflóði gegnum árin að menn hafa ekki lagt í það að fara í heildarendurskoðun þess hins sama, en þar er um að ræða almannatryggingalöggjöfina.
Það er eitt dæmi af of mörgum um handónýta lagasetningu sem fyrir löngu hefur misst tilgang sinn við reglugerðaflóð hinna ýmsu ráðherra gegnum tíðina, en lög á lög ofan gera það sist að verkum að þjóna borgunum heldur kosta einungis endalausa vinnu lögmanna hér á landi fyrir dómstólum sem sumir hafa efni á en ekki aðrir.
Þegar svo var komið hér á landi eftir tíma þann sem stjórnmálamenn voru í því að útdeila gæðum eftir hentugleikum hér og það á kostnað almúgans, að meint frelsi á fjármálamörkuðum og einkavægðing var innleidd, var nautunum sleppt lausum án þess að svæðið innihéldi nokkrar einustu girðingar, eins stórkostlegt og það nú var á að horfa.
Nýríkir jólasveinar hösluðu sér völl í hinu guðdómlega frelsi allra handa, og keyptu og seldu fyrirtæki ellagar gerðu þau gjaldþrota og stofnuðu ný eins og ekkert væri og Alþingi horfði á andaktugt. Búið var að selja bankanna og Alþingi bara horfði á eitt þjóðfélag fara norður og niður án þess að geta æmt eða skræmt, svo mikið frelsi án marka hafði mönnum verið fengið í hendur með lögum frá Alþingi og ees reglugerðum sem samþykktar hafa verið á færibandi.
Þeir fáu sem andmæltu voru hrópaðir niður af öflugum talsmönnum hinna nýríku jólasveina sem óðu um eins og naut í flagi í eigin fjölmiðlum, sem sáu dyggilega um að auglýsa einungis þá sem þeim voru þóknanlegir hverju sinni og þeir höfðu hagsmuni af.
Gat einhvern órað fyrir að vort land gæti orðið gegnsýrt af slikum framgangi með allri þeirri menntun sem þjóðin hefur öðlast til þessa ?
Svar mitt er Nei, mig óraði ekki fyrir því þótt ég hafi verið ein af þessum andmælendum í tíma góðærisins.
kv.Guðrún María.
Hugsjónir Jóns að leiðarljósi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.