Hvað þarf ríkisstjórn landsins að gera ?
Fimmtudagur, 15. júlí 2010
Það þarf að taka til í hverju horni hins opinbera stjórnkerfis og skera niður allra handa nefndir og ráð, sem og stofnanir sem við höfum ekki efni á að reka nú um stundir, hvort sem okkur líkar betur eða ver.
Verkefni sem slík þarf að færa eins og skot undir valdssvið ráðuneyta.
Skoða þarf grunnþjónustuþætti samfélagsins og auka við þar sem þarf, en skera í burtu hvers konar umframþjónustu sem hægt er að vera án um tíma.
Hið opinbera getur ekki lagt álögur á almenning og fyrirtæki í landinu án þess að taka til í eigin ranni áður, og þar þarf að taka til.
Við þurfum hvorki Jafnréttisstofu eða Barnaverndarstofu, heldur duga aðilar á hverju stjórnsýslusviði fyrir sig sem og ráðuneyti til ákvarðanatöku.
Við þurfum heldur ekki Fjölmiðlastofu, þvi fer svo fjarri.
Við þurfum ekki nema hluta af því ofureftirlitsstjórnsýslubákni sem hér er til staðar á hinum ýmsu sviðum, hvort sem um er að ræða sjávarútveg, landbúnað, iðnað, lýðheilsu, svo ekki sé minnst á menntun.
Vinna þarf að þvi að sameina fjármálastofnanir í landinu, við höfum ekkert að gera með það að hafa hér þrjá banka.
Afnema þarf verðtryggingu fjárskuldbindinga og endurskoða lög um starfssemi verkalýðsfélaga í landinu með tilliti til núverandi fyrirkomulags sjóðasöfnunar og aðkomu vinnuveitanda að frjálsum verkalýðsfélögum launamanna.
Það er óásættanlegt að verkalýðshreyfing þessa lands sé rekin sem fyrirtæki með gífurlegan launakostnað með lögbundinni innheimtu af launafólki, þar sem iðgjöld í lífeyrissjóði hafa verið notuð og nýtt sem áhættufjármagn í markaðsbrask fyrirtækja í landinu. Slíkt gengur gegn því lögbundna hlutverki sem tilgangur sjóðasöfnunar þessarar er.
Þetta þarf að gera áður en stjórnvöld svo mikið sem ræða um það að hækka frekar skatta á hinn vinnandi mann í landinu undir þeim kringumstæðum sem uppi eru í íslensku efnahagslífi.
Að öðrum kosti hafa stjórnvöld lýst yfir stríði við almenning í landinu.
kv.Guðrún María.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.