Sjávarútvegsfyrirtæki voru á hlutabréfamarkaði hinum íslenska um tíma, en hvað svo ?
Föstudagur, 12. febrúar 2010
Það atriði að búa til markaðsbrask í sjávarútvegi varð innspýting fyrir íslenskan hlutabréfamarkað og fyrirtæki i greininni um tíma, meðan ekki hafði enn orðið til sú þróun að gróðinn færðist út úr greininni í annars konar atvinnurekstur eins og gerðist síðar.
Lífeyrissjóðir er áður höfðu fjárfest í sjávarútvegsfyrirtækjum færðu fjárfestingar sínar annað og smátt og smátt hurfu sjávarútvegsfyrirtækin af markaði þar sem þá og þegar hafði verið búið að ofskuldsetja fyrirtækin í formi offjárfestinga ´meðal annars í tólum og tækjum, þar sem fjármálastofnanir tóku veð í óveiddum fiski úr sjó, í formi aflaheimilda.
Það atriði að fjármálastofnanir tækju veð í óveiddum fiski úr sjó er byggðist á afar mörgum áhættuþáttum og var og er sérkapítuli út af fyrir sig í þróun viðskiptasiðferðis í landinu, þar sem sömu fjármálastofnanir tóku ekki gild veð með sama áhættustigi úr nokkurri annarri atvinnustarfssemi eða umsvifum einstaklinga hvers konar.
Man einhver eftir ORCA hópnum sem kom saman á sínum tíma sem var ef til vill gott dæmi um samsafn fjármagnseigenda sem meira og minna tengdust því fjármálabraski sem hnýtt hafði saman bönd í íslensku samfélagi ?
Offjárfestingar voru því miður raunin af hálfu fyritækja og skuldir útgerðar í engu samræmi við þau stórkostlegu skilyrði sem Alþingi hafði fært fyrirtækjum til starfa með lögleiðingu markaðsbrasksins.
Margur verður af aurum api segir máltækið og það hefðu stjórnmálamenn er stuðluðu að þessu markaðsbraski ef til vill átt að gera sér grein fyrir ásamt þröngsýnu viðhorfi á einhliða stærðarformúlur allra handa í smáu samfélagi þrjú hundruð þúsund manns.
kv.Guðrún María.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.