Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014
Samfylkingin gjaldfellir málflutning sinn í þinginu.
Fimmtudagur, 27. febrúar 2014
Það er afar leiðinlegt þegar slík atvik koma upp á þjóðþingi Íslendinga að málflutning þingmanna sé ekki hægt að bera fram fyrir börn í uppvexti eins og virðist eiga við í þessu tilviki.
Jafnframt er hér um að ræða varaformann stjórnmálaflokksins Samfylkingarinnar sem gjaldfellir allan málflutning flokksins, hvers eðlis sem er.
Ef ég hefi skilið rétt er sá hinn sami flokkur ekki tilbúinn til þess að ræða efnislega skýrslu Hagfræðistofnunar þess efnis að engar varanlegar undanþágur fáist fyrir Ísland við aðild að Evrópusambandinu sem flestir vissu nú að væri raunin sem hafa kynnt sér málin.
Samfylkingin var eigi að síður afar dugleg við það að telja landsmönnum trú um hina ýmsu möguleika þess efnis að fá undanþágur frá skilyrðum sambandsins á síðasta kjörtímabili eftir að umsókn var send inn án þess að kanna þjóðarvilja til þess hins sama.
kv.Guðrún María.
Kallaði ráðherra helvítis dóna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Til hamingju Ísland.
Mánudagur, 24. febrúar 2014
Ég fagna því að núverandi stjórnarflokkar hafi tekið af skarið varðandi þetta mál, en raunin er sú að meirihluti þjóðarinnar er andsnúinn þvi að ganga í þetta bandalag að svo komnu máli en aðferðafræði fyrri ríkisstjórnar þess efnis að sækja um aðild, ÁN ÞESS AÐ SPYRJA ÞJÓÐINA, voru mistök þeirra er þar sátu, og þau hin sömu mistök urðu m.a þess valdandi að þeir flokkar komust ekki aftur að valdataumum.
Eins stórhllægilegt og það nú var að fylgjast með þáverandi stjórnarmeirihluta leika tveimur skjöldum í máli þessu fram og til baka þar sem annar flokkur var andsnúinn aðild en hinn ekki, þá hefur það einnig verið vægast sagt sérstakt að sjá hluta Sjálfstæðismanna taka upp vasaklútana og tala um svik núverandi flokka í þessu máli, líkt og núverandi ríkisstjórn skyldi framfylgja stefnu vinstri flokkanna sem sátu áður, varðandi þetta eina mál. Afar sérstakt en það atriði að una lýðræðislegum meirihluta mála í sínum flokkum virðist vera nokkuð á reiki þar á bæ.
Raunin er sú að ætíð skyldi þjóðaratkvæðagreiðsla viðhöfð áður en haldið er í slíka vegferð, sem ekki var gert af hálfu fyrri stjórnarmeirihluta og eins og áður sagði þýddi það að viðkomandi var vísað frá valdataumum í kosningum.
Þar veldur hver á heldur.
kv.Guðrún María.
Fagna því að umsóknin sé dregin til baka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópusambandspólítíkin og sannleikurinn.
Miðvikudagur, 19. febrúar 2014
Hversu margir fulltrúar fyrrverandi ríkisstjórnarflokka, töldu landsmönnum trú um það að við Íslendingar gætum fengið undanþágur frá stefnu Evrópusambandsins í hinum ýmsu málum ?
Hvað olli því að vitneskja um það að aðildarríki fengju ekki neitt nema tímabundnar undanþágur sem var fyrir hendi á þeim tíma, var ekki meðferðis í þeim hinum sama málflutningi ?
Skyldi það ekki vera ágætt dæmi um hráskinnaleik pólítikur sem og lýðræðisleysi að einn stjórnmálaflokkur sem hefur það á stefnuskrá að ganga í Evrópusambandið sama hvað tautar og raular skuli hafa getað fengið annan flokk sem var andvígur aðild með sér í stjórnarsamstarf með þeim skilyrðum að sá hinn sami tæki þátt í því afdalalýðræði að koma Evrópusambandsumsókn gengum þingið án þess að spyrja þjóðina álits í því efni ?
Samstarfið varðandi þau hin sömu mál í þeirri ríkisstjórn var síðan heil ópera af hinum ýmsu uppákomum.
kv.Guðrún María.
Ísland gat ekki stytt sér leið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sannarlega er breytinga þörf.
Þriðjudagur, 18. febrúar 2014
Ég fagna því mjög að sjá yfirsýn félagsmálaráðherra yfir þann málaflokk sem hér um ræðir, þar sem ég er innilega sammála henni um að gagngerra kerfisbreytinga sé þörf.
Skortur á þjónustu sem og samhæfingu aðila allra er vinna eiga að hagsmunum eins og sama einstaklings með tvígreindan sjúkdóm s.s geðræn vandamál og fíkn er alvarlegur hér á landi, og raunveruleg meðferðarúrræði virðast ekki fyrir hendi fyrr en viðkomandi hefur rekist á umhverfi sitt með afgerandi hætti, á einhvern handanna máta.
Tilraunir til þess að fela einkaaðilum þjónustu varðandi meðferðarúrræði í formi styrkja frá ríkinu er eitthvað sem því miður hefur þannig verið úr garði gert að eftirlit og yfirsýn samasem ábyrgð fylgir ekki verkefninu s.s það atriði að barnavernd veit ekki af þvi að einstaklingar undir lögaldri gangi út úr meðferð á Vogi........ kanski sama daginn og viðkomandi kom þangað inn þar sem ekki er samstarf á milli þeirra hinna sömu aðila, eða þannig var það alla vega......, þegar ég þekkti til í því efni.
Barn greint með geðrænan kvilla sem ekki fékk þjónustu á Bugl, og geðdeildir fullorðinna urðu að vista í neyð, varð að meðtaka það að þar var ekki sama þjónusta sökum þess að barnið mátti ekki vera meðal fullorðinna.
Þjónusta á Bugl kom loks til sögu ekki vegna þess að barnaverndaryfirvöld hefðu áorkað slíku heldur var það Lögreglan sem fór með barnið á Bugl þegar móðirin var úrvinda af þreytu á sínum tíma og kom þá loks til sögu innlögn, þeim góðu mönnum sem þar komu til sögu má lengi þakka, þar sem loks var raunveruleg meðferð varðandi vanda við að etja fékk meðferð aðila sem höfðu sérþekkingu á slíku.
Síðan hefur vissulega mikið vatn runnið til sjávar og reynsla og upplifun mín sem aðstandanda einstaklings með vanda sem slíkan við etja sem og tökum kerfisins á því hinu sama á hverjum tima, er eitthvað sem varla er hægt að skilgreina lengur.
Eigi að síður veit ég það nú í dag sem ég aldrei hefði samþykkt fyrir rúmum hálfum áratug að afglæpavæðing varðandi canabis er eitthvað sem einungis er tímaspursmál hvenær yfirvöld koma til með að skoða alvarlega, hvað varðar kostnað við löggæslu í landinu frá a- ö.
Neysluna ætti nefnilega að færa inn á heilbrigðissviðið þar sem sjúkir fíklar gætu fengið sína skammta í apótekum, þar sem yfirsýn yfir vandamálið yrði til staðar, sem aftur myndi aftengja undirheimastarssemi að stórum hluta til og minnka umfangið.
Heilbrigðissviðið sem og félagsmálayfirvöld þurfa hins vegar að vera þess umkomin að taka á vanda þeirra sem eru alvarlega veikir, þar sem úrræði þurfa að haldast í hendur hjá hvoru kerfi fyrir sig.
kv.Guðrún María.
Ungmennum í vanda veitt aðstoð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilsan og bætiefnin.
Þriðjudagur, 11. febrúar 2014
Undanfarnar vikur hefi ég lesið og lesið og lesið ýmsan fróðleik sem finna má á netinu um efnafræðilegan skort á bætiefnum hinum ýmsu sem hugsanlega kunna að orsaka hina ýmsu kvilla sem hrjá okkur mannfólkið.
Sá lestur hefur aukið mér fróðleik, þar sem ég hefi hvoru tveggja kynnt mér, annars vegar fróðleik óhefðbundinna lækninga ásamt læknisfræðilegum skýringum.
Ástæðan var sú að ég uppskar sveppasýkingu í meltingarfæri m.a, í fyrsta skipti á ævinni, eftir inntöku pensillíns, en ég tók ekki inn AB mjólk meðferðis eins og ég hefi stundum gert vegna þess að ég hefi verið að upplifa mjólkuróþol um nokkurt skeið og því sneitt hjá mjólkurvörum, en þess má geta að þessa tegund af pensillíni hafði ég ekki áður tekið inn.
Allt þetta vesen var viðbót við axlarbrot og tilheyrandi stoðkerfisvandamál sem voru þó nægileg fyrir og ég er að vinna í sífellt í sjúkraþjálfun.
Eftir þennan lestur um hinn ýmsa fróðleik um krankleik og bætiefnaskort sem og allra handa mögulega sjúkdóma virðist það vera að það er að æra óstöðugan að ætla sér að reyna að fara eftir öllu sem maður les um það sem " maður ætti að taka inn til þess að bæta heilsuna " EN hins vegar tel ég að vort heilbrigðiskerfi mætti innihalda meira af mælingum um það hvaða efnaskortur kann hugsanlega að hrjá manninn, ekki hvað síst er aldur færist yfir sem og áhrif mataræðis og gerlaflóru í líkamanum á almennt heilbrigði.
Það eru jú meltingarfærin sem þurfa að virka sem skyldi til þess að vinna efni úr fæðunni. og fæðan þarf að innihalda þau nauðsynlegu efni sem líkaminn þarf.
Til þess að meltingarfærin starfi eðlilega þarf líkaminn jafnframt, alla þá mögulegu hreyfingu sem hver getur áorkað, það skiptir miklu máli.
Það atriði að ganga þótt maður geti ekki hlaupið skiptir miklu máli við að halda vöðvum líkamans starfhæfum, þar sem allt vinnur saman til hjálpar og ganga hvern dag er eitthvað sem endalaust skyldi leggja áherslu á.
Að lokum fræðsla og lestur um heilbrigði almennt sem og það sem hrjáir hvern á hverjum tíma er vitneskja sem nýtist til þess að reyna að feta veg skynsemi við inntöku bætiefna hvers konar, þar sem ég vildi sjá fleiri mæla þörf einstaklinga fyrir slíkt, með það að markmiði að koma í veg fyrir sjúkdóma sem bætiefnaskortur kann að orsaka.
kv.Guðrún María.
Sjóðfélagar lífeyrissjóða og fyrirtækjabrask sjóðanna.
Miðvikudagur, 5. febrúar 2014
Samstaða okkar Íslendinga um sjálfsagt og eðlilegt lýðræði svo sem aðkomu sjóðfélaga að fjárfestingum lífeyrissjóða í atvinnurekstri er eitthvað sem ekki hefur komist á koppinn, frekar en það afdalalýðræði að stjórnir verkalýðsfélaga skipi í stjórnir lífeyrissjóða sem síðan fjárfesta í atvinnurekstri þar sem sömu aðilar og skipa í stjórnirnar semja við um kaup og kjör.
Með ólíkindum er að enginn skuli hafa verið þess umkominn á Alþingi Íslendinga að breyta svo sem stafkrók um starfssemi félaga á vinnumarkaði að virðist að hræðslu við að rugga bát of stórra hagsmunahópa.
Það tókst þó að lauma því inn í lög að sjóðunum væri heimilt að skerða greiðslur til sjóðfélag ef hinir sömu uppfylltu ekki ávöxtunarkröfu um hagnað ár hvert, burtséð frá fjárfestingum allra handa.
Oftar en ekki eru gamlir formenn verkalýðsfélaga skipaðir í stjórnir lífeyrissjóða í stað þess að hreinlega að fela óháðum fjármálafyrirtækjum alfarið umsýslu sjóðanna og framkvæmd.
Eftir hrunið hér á landi var stofnaður Framtakssjóður sem lífeyrissjóðirnir lögðu fé í til fjárfestinga í íslensku atvinnulífi, án þess að spyrja sjóðfélaga sem þó höfðu greitt iðgjöld í sjóði þessa.
Fjárfestinga þar sem hin og þessi stórfyrirtæki eru nú í rekstri þar sem fé sjóðanna hefur verið lagt í en hinn almenni verkamaður hjá þessum fyrirtækjum má koma og fara á lélegum launum, meðan nokkrir forstjórar og yfirmenn fá kaupauka allra handa.
Þvílík og önnur eins della er vandfundin er því miður þetta er í boði verkalýðsfélagnna í landinu sem
SKIPA Í STJÓRNIR LÍFEYRISSJÓÐANNA, eins og ég hef sagt þúsund sinnum í ræðu og riti um þessi mál á umliðnum árum.
Raunin er sú að hagsmunabandalag verkalýðsfélaga versus lífeyrissjóða er orðið ríki í ríkinu sem vill ráða sér sjálft og aðeins örfáir aðilar taka ákvarðanir, meira og minna beintengdir hver öðrum.
kv.Guðrún María.