Og það var fleira árið 1998.
Sunnudagur, 14. júní 2009
Föstudaginn 4. september, 1998 - Innlendar fréttir
Ástþór Magnússon einn aðstandenda nýrrar stjórnmálahreyfingarÍhuga framboð undir heitinu Lýðræðisflokkurinn
Ástþór Magnússon einn aðstandenda nýrrar stjórnmálahreyfingar
Íhuga framboð undir heitinu Lýðræðisflokkurinn
ÁSTÞÓR Magnússon, forstöðumaður Friðar 2000, ásamt fleiri einstaklingum, íhugar nú framboð til alþingiskosninga undir nafninu Lýðræðisflokkurinn. Sverrir Hermannsson, fyrrum bankastjóri Landsbankans, hugðist ásamt stuðningsmönnum sínum nota sama nafn á stjórnmálahreyfingu sína og framboð sem nú er í undirbúningi.
Í fréttatilkynningu frá þremur aðstandendum fyrri hópsins segir að nafnið Lýðræðisflokkurinn hafi verið skráð á vegum þeirra í júní sl. og fengið kennitölu. "Umræðufundir þessa hóps hafa staðið lengi," segir þar ennfremur, "og munu halda áfram, þótt málefnagrundvöllur að skynsamlegri fiskveiðistjórnun sé þegar fundinn, er önnur vinna undir merkjum lýðræðislegra vinnubragða, í fullum gangi."
Aðstandendur hópsins segjast meðal annars hafa kynnt Sverri hugmyndafræði sína, sem byggist á því að "bjarga móður náttúru" og auka vitund um siðgæði, frá vöggu til grafar. Undir fréttatilkynninguna skrifa Ásgeir Önundarson, Garðar H. Björgvinsson og Guðrún María Óskarsdóttir.
Sverrir ekki áhyggjufullur
"Ég hef engar áhyggjur af þessu í bili," segir Sverrir Hermannsson um nafngiftir stjórnmálahreyfinganna beggja. "Það er langt þangað til okkar flokkur verður stofnaður og nógur tími til að athuga sinn gang."
Ástþór Magnússon, sem staddur er í Grikklandi, staðfesti það í gær í samtali við Morgunblaðið, að hann væri einn aðstandenda hópsins sem sendi frá sér fréttatilkynninguna. Stefnt er að því að halda málþing í lok mánaðarins og að sögn Ástþórs verður í kjölfar þess ákveðið hvort farið verður í sérstakt framboð, eða hvort tekið verður upp samstarf við einhverja aðra starfandi eða fyrirhugaða stjórnmálahreyfingu.
Ástþór segir að hreyfing Sverris Hermannssonar sé aðeins ein af þeim sem til greina kemur í þessu sambandi, einnig geti til dæmis hugsast samstarf við nýja kvennahreyfingu, nýjan flokk vinstrimanna eða jafnvel Sjálfstæðisflokkinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.