Svo er það árið 1998, hvað var þá efst í huga ?

Sunnudaginn 1. nóvember, 1998 - Bréf til blaðsins

Hvar er mannlegi þátturinn í markaðsbúskapnum?

Frá Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

MEÐ ólíkindum er, hve miklu virðist hægt að fórna á altari markaðshyggjunnar. Ég á þá við til dæmis ýmsa hreint og beint heimskulega kjarasamninga er gerðir hafa verið á undanförnum árum, þar sem aukið vinnuálag, allt að því ofurmannlegt, hefur verið niðurstaða að loknu samningaþrefi um hærri laun.

Hvar er mannlegi þátturinn í markaðsbúskapnum?

Frá Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

MEÐ ólíkindum er, hve miklu virðist hægt að fórna á altari markaðshyggjunnar. Ég á þá við til dæmis ýmsa hreint og beint heimskulega kjarasamninga er gerðir hafa verið á undanförnum árum, þar sem aukið vinnuálag, allt að því ofurmannlegt, hefur verið niðurstaða að loknu samningaþrefi um hærri laun. Merkilegt er að það virðast einkum fagstéttir svo sem hjúkrunarfræðingar og fólk í uppeldisstörfum er hafa undirgengist slíka samninga til handa sínu fólki. Meira og minna virðist slíkt umsamið undir formerkjum einhvers konar sparnaðar af hálfu vinnuveitanda sem er oftar en ekki borgin eða ríkið í þessu tilviki. Á sínum tíma gerði hið gamla Fóstrufélag Íslands svokallaða ábatasamninga við Reykjavíkurborg er þýddu fleiri börn á hverja deild, og nokkrar krónur í viðbót í vasann. Það steingleymdist hins vegar að reikna út hve mjög þjónustan kynni að versna við slíkar ráðstafanir, hvað þá hve mjög slíkt kynni að auka veikindaforföll þeirra er sinntu hinu ofurmannlega hlutverki að hafa of mörg börn í einu að sinna.

Hvert barnmargt foreldri veit, hve mikinn tíma þarf til þess að sinna hverju barni, en svo virðist sem einhverjum hagfræðispekingum hafi tekist að útiloka hinn annars eðlilega mannlega þátt er störf þessi útheimta og bjóða upp á einhvers konar vélræna umönnun til handa komandi kynslóð, umönnun er byggist á hópuppeldi, þar sem allt að því ómögulegt er að einstaklingurinn fái notið sín í nokkrum mæli. Hópuppeldi fram eftir öllum aldri getur orðið til þess að einstaklingurinn muni eiga erfitt með að treysta á nokkuð annað en hópinn sem hann lifir og hrærist í, því er unglingamenning í dag ef til vill mjög eðlileg miðað við þær aðstæður er okkar uppeldis- og skólakerfi býr við.

Fleiri háskólamenntaðir leikskólakennarar munu ekki leysa þann vanda er við blasir, nær væri að mennta mun betur aðila er sitja við samningaborðið um staðal starfa þessara, þ.e. að tilgangur starfanna fái notið sín til lengri og skemmri tíma, í stað hinna týpísku skammtímalausna.

Aðhlynning sjúkra og aldraðra

Nákvæmlega sama er hvert litið er varðandi aðhlynningu eða umönnunarstörf á vegum Reykjavíkurborgar eða hins opinbera, alls staðar er vinnuálag þannig að tími fyrir hinn mannlega þátt hefur verið nær klipptur út úr tíma þeim sem gefinn er til starfanna. Fólk gefst upp og leitar sér að vinnu á öðrum vettvangi. Þetta heitir að nýta starfskraftana og "spara".

Dettur einhverjum í hug að gæði veittrar þjónustu geti aukist á sama tíma?

Varla, því fer sem fer, hægt og sígandi sættir almenningur sig við sífellt lélegri og ómarkvissari þjónustu, faglegur metnaður og siðferðiskennd þeirra er störfum þessum sinna fýkur út í veður og vind, og gróði í einhverri mynd til handa einhverjum er ekki auðfinnanlegur. Fagstéttir s.s. læknar standa slopplausir eftir lítt upphefjandi umræðu af hagsmunalegum toga, varðandi einkafyrirtæki er hyggst ráðast í gerð gagnagrunns, er þó kann að skila þeim sjálfum betra starfsumhverfi. Þar hafa fokið nokkur siðalögmál veg allrar veraldar, og spurning hvort ekki sé þörf á verulegri endurmenntun í siðfræði mannlegra samskipta. Það færi betur að menn eyddu tímanum í að reikna út hvernig væri mögulegt að hafa fleira fólk að störfum, undir viðunandi vinnuálagi, í störfum er útheimta andlegt og líkamlegt þrek, sem á sín takmörk, takmörk sem löngu er tímabært að leita að hér á Íslandi, ef ósk er um að mannvænt samfélag verði til í framtíðinni til handa afkomendum okkar.

Verkefnum þarf að raða rétt

Langir biðlistar eftir hjartaaðgerðum, sökum rangrar forgangsröðunar verkefna, sjúkir og fatlaðir undir fátæktarmörkum, á sama tíma og deilt er um hvort enn eigi að leyfa fáum útvöldum að braska með sameiginlegan þjóðarauð, fiskveiðiheimildir (þ.e. þeim er áttu auð er framsal aflaheimilda var lögleitt á sínum tíma), slíkt hlýtur að vekja hvern þenkjandi mann til umhugsunar um tilgang og markmið orða og athafna. Landið okkar fallega er á góðri leið með að leggjast í auðn sökum illa ígrundaðrar nytjastefnu, er birtist hvort tveggja í stóriðju til lands og sjávar, stóriðju er tekur sinn toll, verksmiðjuskipin hreinsa hafsbotninn og henda hluta af aflanum, afla er einhvern tíma hefði talist verðmæti við Íslands strendur.

Hið sama má heimfæra upp á landbúnaðinn, þar sem stóriðjudráttarvélar verka áburðaruppsprengt fóður í búpening á nokkrum vikum í verksmiðjubúið, sem framleiðir ódýra vöru fyrir neytendur. Næsta jörð fer í auðn vegna þess að hana nytjar enginn lengur, ekki einu sinni verksmiðjubóndinn, landið stendur ónýtt í orðsins fyllstu merkingu. Enn sem fyrr virðist skortur á víðsýni hamla nauðsynlegri þróun, því þróun er framför, en ekki afturhvarf til þeirra tíma er ónóg ráð og léleg vitneskja réðu ferð. Nú er til nóg af ráðum og allnokkuð af vitneskju um hvernig skuli best skipað ráðstöfunum, og það er okkar skylda að sjá til þess eftir fremsta megni að skila landinu okkar og auðæfum þess eins og við tókum við því.

GUÐRÚN MARÍA ÓSKARSDÓTTIR,



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband