Hvað var efst í huga ári síðar, október 1996 ?

Miðvikudaginn 9. október, 1996 - Bréf til blaðsins

Skattlagning út í bláinn

Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

ÞEGAR laun erfiðisins er ekki lengur að finna sökum letjandi, fremur en hvetjandi, skattaumhverfis er illa komið fyrir einni þjóð. Þegar hinn íslenski launamaður þarf að taka lán til þess að framfleyta sér og sínum er eitthvað að. Hinum ýmsu ráðamönnum hefur orðið tíðrætt um það upp á síðkastið hversu mjög landsmenn hafi eytt um efni fram.

Skattlagning út í bláinn

Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

ÞEGAR laun erfiðisins er ekki lengur að finna sökum letjandi, fremur en hvetjandi, skattaumhverfis er illa komið fyrir einni þjóð. Þegar hinn íslenski launamaður þarf að taka lán til þess að framfleyta sér og sínum er eitthvað að. Hinum ýmsu ráðamönnum hefur orðið tíðrætt um það upp á síðkastið hversu mjög landsmenn hafi eytt um efni fram. Hvernig væri að þessir góðu menn kæmu um stund niður úr fílabeinsturninum og litu augum lífskjör þorra almennings í landinu sem er nær því að sligast undan skattbyrði og ber lítið annað úr býtum heldur en aukið vinnuálag og lægri laun, laun sem duga vart eða ekki til framfærslu?

Hinn mikli þrýstingur á sparnað innan hins opinbera hefur leitt af sér næstum ómannúðlegt vinnuumhverfi og nægir þar að nefna hinar ýmsu sparnaðarherferðir í heilbrigðisþjónustugeiranum og umönnun ýmiss konar þar sem mönnun er í lágmarki sökum "sparnaðar" og fólk útkeyrt af vinnuálagi. Þessi annars sérkennilegi sparnaður étur sjálfan sig upp með vinnuforföllum starfsfólks, lélegri þjónustu sem og hugsanlegum langvarandi áhrifum er kunna að felast í nokkurs konar vélrænni umönnun er ég hygg að enginn vilji hafa til frambúðar. Manneskjan, hvort sem hún er ung eða gömul, þarfnast umhyggju er verður ekki mæld í einingum eða normum, per mínútur og sekúndur, hvorki hjá þessari kynslóð frekar en annarri.

Sú framtíðarsýn er felst í því að hlúa að hornsteini samfélagsins, fjölskyldunni, með öllum ráðum þarf að koma til sögunnar. Hér ætti til dæmis að veita verulegan skattaafslátt er hjón eignast sitt fyrsta barn í stað þess að veita meiri afslátt fyrir fjárfestingu í steinsteypu.

Einnig þarf að hefja aftur á loft fyrrum frumkvæði Reykjavíkurborgar, að greiða foreldrum fyrir að dvelja heima með börnum sínum. Fæðingarorlof þarf að lengja og heimgreiðslur að koma á móti, til tveggja ára aldurs, svo tilfinningalegum þörfum ungra barna sé hægt að sinna af foreldrum þeirra sem eru þess alla jafna best umkomin. Þetta getur jafnvel mótað líf hins unga borgara fyrir lífstíð, þ.e. að hinum tilfinningalega þætti sé sinnt af alúð í upphafi. Öll tveggja ára börn á landinu ættu síðan að eiga þess kost að umgangast, félaga sína á sama aldri í leikskólum landsins.

Það gefur augaleið að ef foreldrar ættu þess kost að dvelja heima með börnum sínum til tveggja ára aldurs myndi rýmkast til á vinnumarkaði og atvinnuleysi ef til vill minnka. Hið sama þarf að gilda hvað varðar fólk í námi, hvatning til þess að dvelja fyrstu tvö árin með börnum sínum þarf að vera til staðar. Námið getur beðið í tvö ár en tilfinningar barnsins ekki.

Skattlagning er tæki til stjórnunar og því fyrr sem stjórnmálamenn finna færar leiðir til þess að hefja á loft hin sönnu gildi, gildi er vara munu til framtíðar til handa komandi kynslóð, því færri samfélagsleg vandamál munu verða oss fjötur um fót. Vonandi er þess einnig að vænta að verkalýðshreyfingin rói öllum árum í átt til mannvænlegra samfélags, í komandi kjarasamningum, og sjái til þess að umsamin laun að loknum skattgreiðslum dugi hverjum vinnandi manni til framfærslu.

GUÐRÚN MARÍA ÓSKARSDÓTTIR,

Látraströnd 5, Seltjarnarnesi.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband