Frumvarp fjármálaráðherra til stofnunar opinbers hlutafélags, til að aðstoða fjármálastarfssemi.
Laugardagur, 23. maí 2009
Rakst á þetta á alþingisvefnum, en þar var að finna nýtt lagafrumvarp fjármálaráðuneytis, með umsögn fjárlagaskrifstofu um hið sama sem ég set hér inn.
"
Fjármálaráðuneyti,fjárlagaskrifstofa:
Með frumvarpi þessu er óskað heimildar til handa fjármálaráðherra til þess að stofna opinbert hlutafélag til að aðstoða fjármálafyrirtæki við fjárhagslega endurskipulagningu atvinnufyrirtækja. Gert er ráð fyrir að félagið sjái um endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja sem komin eru í rekstrarerfiðleika en eru talin skipta miklu máli fyrir íslenskt samfélag. Með þessu verði áframhaldandi starfsemi þeirra tryggð til framtíðar. Frumvarpið byggist á fyrstu starfsáætlun samráðsnefndar um endurreisn fjármálakerfisins. Samkvæmt frumvarpinu er félaginu heimilt að kaupa eignarhluti í þjóðhagslega mikilvægum atvinnufyrirtækjum sem þarfnast endurskipulagningar og eru komin í eigu ríkisbanka eða annarra fjármálafyrirtækja.
Tilgangur félagsins er samkvæmt frumvarpinu að sinna endurskipulagningu slíkra fyrirtækja, bæði fjárhags- og rekstrarlega, og að því loknu sjá um sölu fyrirtækjanna. Ekki liggur fyrir umfang starfsemi fyrirtækisins, meðal annars vegna þess að efnahagur ríkisbankanna liggur ekki endanlega fyrir og ekki er ljóst hver er fjöldi þeirra fyrirtækja sem gætu fallið undir starfsemi félagsins. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að sérstakri nefnd verði falið að leggja mat á fjárhagslegt umfang starfseminnar og þörf félagsins fyrir rekstrarfé. Það er fyrst þegar sú nefnd hefur lokið störfum að fyrir liggur mat á hugsanlegum kostnaði ríkisins við yfirtöku fyrirtækjanna.
Verði frumvarpið óbreytt að lögum og ákvörðun tekin á grundvelli þeirra um að stofna félagið mun ríkissjóður leggja því til 20 m.kr. vegna stofnhlutafjár sem færist þá í efnahagsreikning ríkisins en ekki sem útgjöld í rekstrarreikning. Komi til þess að félagið hefji rekstur er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður verði borinn uppi af þeim félögum sem tekin verða til eignasýslu og að sá kostnaður falli því ekki á ríkissjóð. "
Mjög fróðlegt.
kv. Guðrún María.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.