Hugleiðing, í Lýðvarpinu, 100,5, frá því á þriðjudaginn.
Föstudagur, 8. maí 2009
Ég heiti Guðrún María Óskarsdóttir, og ég ætla að ræða um stjórnmál og samfélagið sem við lifum í.
Mín bjargfasta skoðun er sú að því fyrr sem við náum að þróa hugmyndir um persónukjör og beint lýðræði, því betra fyrir okkar samfélag, við losnum úr viðjum flokkafjötra sem hafa haft þá tilhneigingu að þróast í klíkusamfélög með flokksforsjárhyggjuna í farteskinu sem miðast við að viðhalda flokks og eigin hagsmunum.
Fyrst og síðast er það nefnilega þannig að við þurfum að virða hagsmuni heildarinnar í einu þjóðfélagi og það atríði að fá einstaklingana að borði ákvarðanatökunnar skiptir máli um framhaldið. Þingmenn eru ekki kjörnir á þing til að hugsa fyrir þjóðina heldur til þess að tala máli hennar.
Almenningur í landinu á því að fá að koma oftar og betur að því að segja sína skoðun á viðfangsefnum eins samfélags, sem varðar fólkið sjálft og líf þess.
Íslenskt samfélag hefur annars þróast í stökkum sem er í ætt við margt er einkennir vort þjóðareðli þar sem akkorðsvinna á akkorðsvinnu ofan hefur lengst af verið tíðarandinn.
Við stukkum úr torfkofum í timbur og steinsteypu, að vísu með kolaeldavélarnar um tíma, meðan verið var að tengja rafmagnið og virkja, en frá þeim tíma hefur tala rafmagnstækja og tóla á heimilum landsmanna margfaldast. Hluti þeirrar kynslóðar sem nú er á efri árum hefur upplifað eitt samfélag ganga gegn um ótrúlegar umbreytingar í einu þjóðfélagi, í raun frá örbirgð til allsnægta og nú aftur kreppu þar sem harðnar á dalnum.
Það þarf sterk bein til að þola góða tíma, segir í góðri bók og það eru orð að sönnu, því engum er hollt að gleyma sér í allsnægtunum, og fallið er hátt þegar skóinn kreppir aftur að.
Heil kynslóð hér á landi hefur aldrei kynnst atvinnuleysi fyrr en nú og viðbrigðin eru mikil eðlilega, en einu sinni er allt fyrst og það koma tímar og það koma ráð, og hvers konar mótlæti verðum við að reyna að líta á sem verkefni og lærdóm í lífsbókinni, með öllu því æðruleysi sem okkur er mögulegt.
Við þurfum að endurnýja gildismatið á öllum sviðum vors samfélags, ekki hvað síst mættum við íhuga það hve nátengd
orðin agi og ábyrgð eru.
Frelsi er ekkert frelsi nema þess finnist mörk, því innan marka frelsins fáum við notið þess.
Sjálf hefi ég upplifað agalaust þjóðfélag hér á landi undanfarna tvo áratugi að minnsta kosti, á þann veg að lætin og hamagangurinn í einu þjóðfélagi hefur valdið því að mörg kerfi mannsins hafa verið að vinna verkin á hlaupum.
Fullt af fólki í vinnu sem veit ekki neitt og getur ekki upplýst borgarana um ýmislegt er þjónustu hins opinbera tilheyrir.
Ef til vill ekki furða þegar svo er komið að lagasetning frá hinu háa Alþingi er oft ekki betur úr garði gerð en svo að lög rekast hver á annars horn jafnvel innan eins lagabálks. Svo kemur reglugerðaflóðið þar sem ráðherrar hafa valdheimildir um til viðbótar við oftar en ekki lélega lagagerð. Við höfum ekkert að gera með það að smíða lög á lög ofan um alla skapaða hluti.
Lög eiga að vera skýr og skiljanleg þannig að dómstólar þurfi ekki að taka mið af misvísandi skilaboðum í formi laga um eitt eða annað í okkar samfélagi og athöfnum manna. Sjálf talaði ég fyrir því á sínum tíma að hér á landi væri til Stjórnlagadómstóll, sem meðal annars hefði það hlutverk með höndum að yfirfara nýja lagasetningu frá Alþingi, með tilliti til áður fram kominna laga.
Númer eitt tvö og þrjú þurfum við Íslendingar nú að gangsetja hjól atvinnulífsins og þar eigum við fyrst að taka til við þær breytingar sem við getum gert nú þegar í gömlu atvinnuvegunum landbúnaði og sjávarútvegi.
Við eigum að skipta báðum kerfum i tvennt, þar sem annars vegar núverandi skipulag er til staðar og hins vegar kerfi er undirgangast alþjóðleg viðmið umhverfismarkmiða og sjálfbærrar þróunar gildir. Það þýðir að fleiri smærri einingar fái þrifist í einu kerfi samhliða þeim stærri,þar sem við getum þróað framleiðslu að þörfum markaða með vægi hvors kerfis fyrir sig.
Opna þarf atvinnugreinarnar og gefa ákveðið frelsi til nýlíðunar á báðum stöðum í formi smærri eininga,þar sem samkeppni byggist á gæðavörum framleiddum af fleiri aðilum en fyrir hafa verið áður. Við munum nýta land og nýta mannafla, mannvirki og skapa störf, ásamt því að snúa við þeirri byggðaröskun sem einhliða stefna á stærðarhagkvæmni hefur valdið hingað til.
Það á enginn framleiðslurétt á mjólk, eða leyfi til að veiða fisk um aldur og ævi hér á landi og það er fásinna að bera á borð að slíkt myndi eignarétt. Menn eiga tól og tæki til framleiðslu og fiskveiða en leyfið geta þeir ekki eignafært, því það er stjórnvalda að ákveða slíkt á hverjum tíma með þjóðarhagsmuni að leiðarljósi.
Innanhússbrask með mjólkur eða þorskkvóta mun þurfa að líta á sem barn síns tíma hér á landi og aðlaga lagaumhverfið að því hinu sama með breyttum áherslum tvenns konar skipulags i kerfunum.
Um leið og okkur Íslendingum tekst að snúa við byggðaþróun og við tökum til við það að nýju að byggja landið allt en ekki hluta þess, mun verða til ákveðið jafnvægi að nýju varðandi eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði og verðmyndun á mörkuðum hér á landi, þvi við eigum yfirbyggt svæði á Reykjanesskaganum sem getur tekið við fjölgun íbúa þar,
Við þurfum að skoða skattaumhverfið all verulega og lögin um einkahlutafélög svo ekki sé minnst á bókhaldsskil og möguleika fyrirtækja til þess að kaupa tap ár eftir ár í skattaumhverfnu. Jafnframt þarf að skoða þau hin sömu mál í alþjóðlegu samstarfi þannig að við höldum ekki af stað í sömu vegferð og varð okkur að falli.
Við þurfum einnig að skoða umgjörð um starfssemi verkalýðshreyfingarinnar hér á landi og umsýslu lífeyrissjóðanna, þar sem taka þarf úr notkun miðstýringarbatterý sem engan veginn þjónar nútima samfélagi varðandi aðkomu launþega um eigið fé í sjóðum sér til handa.
Núverandi hagstjórnarmistök sem við sitjum uppi með mun þurfa að leiðrétta og laga að þvi marki að eitt þjóðfélag geti haldist gangandi áfram, án fjöldagjaldþrota heimila og fyritækja. Ég lít svo á að Alþingi muni þurfa að gefa núverandi lánastofnunum heimild til sérsamninga um lánakjör og afborganir til handa einstaklingum af fjárskuldbindingum sem hafa tvöfaldast.
Greiðslumat banka á möguleikum til afborgana ætti að liggja fyrir í ljósi stöðu einstaklinga og fyrirtækja, sem er misjöfn í okkar samfélagi og samningar um afborganir ættu að innihalda ákveðin tíma samkomulags um slíkt er aftur myndi þýða ákveðin hluta afskrifta í samhengi við það að viðkomandi stendur við þann samning innan tímaramma.
Þetta er eina leiðin að mínu viti til þess að þjóðin standi ekki frammi fyrir fjöldagjaldþrotum.
Sérstök bráðabirgðalög, eða viðbót við greiðsluaðlögun , þessa efnis með heimild til handa lánastofnunum ættu þvi að vera fyrsta verk nýrra stjórnvalda.
Samvinna er nauðsyn og það að vinna mál í sátt við þjóðina skiptir máli, þar má sannarlega leggja til hliðar hluta af hinum pólítísku skeggklippingum, og skotgrafahernaði, sem verið hefur viðtekin venja fremur en hitt.
(hluti pistils frá 5.maí.)
kv.Guðrún María.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.