Minning um mann.

Faðir minn heitinn hefði orðið áttræður í dag, blessaður hefði hann lifað.

Pabbi ólst upp hjá móðursystur sinni á Miðbælisbökkum, Guðrúnu sem ég heiti í höfuðið á, en Steinunn amma, bjó og vann úti í Vestmannaeyjum. Hann fór í gagnfræðaskóla hjá ömmu úti í Eyjum og á sjóinn á Eyjabátum sem ungur maður. Síðar tók hann við búi fósturforeldra sinna á Miðbælisbökkum, Guðrúnu og Ingvars, og stundaði búskap meðan hann lifði, til 1993.

Það var nokkuð brátt um pabba, því hann greindist með krabbamein á lokastigi, að mig minnir þann 7. maí og dó á lokadaginn þann 11.maí.

Hann þurfti alltaf að vita allt um sjóinn, og afla og stóð í sambandi við Eyjamenn varðandi það hið sama, en pólítikin var einnig eitthvað sem ekki mátti missa af og fréttatímar voru heilagar kýr, en einnig pósturinn þar sem faðir minn þurfti að senda bréf á bréf ofan á hina ýmsu staði til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Hinn óbilandi áhugi hans á pólítik, smitaði óhjákvæmilega út frá sér og það atriði að fylgjast með öllu alltaf, varð hluti af mínum uppvexti.

Hann var óspar á skoðanir hvar varðar gagnrýni á  landbúnaðarkerfið og kvótakerfi sjávarútvegs, þar sem hann sagði mér af hverju sandstrendur breyttust, þannig að þang rak ekki lengur á fjöru, jú það var af því að það var búið að skrapa botninn.

Hann sagði alltaf við mig, Gunna, taktu eftir hvað rollan ætlar að gera..... þegar einhver rolla ætlaði að troðast gegnum girðingu eða komast þangað sem hún átti ekki að fara.

Þetta varð tilefni íhugunar barnshugans, um það hið sama sem ég tel að oftar en ekki hafi nýst síðar á ævinni, í hinum ýmsu aðstæðum.

Blessuð sé minning föður míns.

kv.Guðrún María.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlédís

Sæl og blessuð, Guðrún María!  Það er dýrmætt að eiga góða foreldra - jafnvel þó það kosti mikinn söknuð er þeir falla frá.

Hlédís, 5.4.2009 kl. 13:04

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Gaman að lesa um föður þinn, áhugi á þjóðmálum gengur frá kynslóð til kynslóðar. Vertu velkomin í Framsóknarflokkinn ef þú ert tilbúin til að fara í annan stjórnmálaflokk þar sem við erum að reyna að byggja upp nýja hreyfingu.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 5.4.2009 kl. 18:09

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sælar verið þið og takk fyrir athugasemdirnar, og þökk fyrir boðið Salvör.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 6.4.2009 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband