Virðingin fyrir lýðræðinu.
Föstudagur, 13. mars 2009
Í landinu starfa stjórnmálaflokkar og verkalýðsfélög sem velja sér forystumenn, hvor á sínu sviði. Stjórnmálaflokkarnir til þess að koma sínum sjónarmiðum landsins gagns og nauðsynja og verkalýðsfélög til hagsmuna fyrir launamenn.
Oftar en ekki hefur þáttaka manna í verkalýðsmálum að virðist verið eins konar stökkpallur þeirra hinna sömu inn í stjórnmál hér á landi í hinum ýmsu flokkum. Þá komum við að þeirri spurningu hvers konar lýðræði hefur verið við lýði í verkalýðshreyfingu þessa lands og hvers konar lýðræði þeir sem þaðan koma kunna og þekkja.
Í mínum huga er lýðræði verkalýðsfélaga afar afstætt fyrirbæri þar sem verkalýðsfélög hafa lítið sem ekki neitt gert í því að virkja hinn almenna launamann til þáttöku í áraraðir og hin viðtekna venja hefur verið að fámennur hópur félaga hefur endurkosið forystu í félögunum ár eftir ár eftir ár.
Það skyldi þó aldrei vera að slíkt myndi skila sér inn í umhverfi stjórnmálanna ?
Mín skoðun er sú að svo sé, og einhver stórfurðuleg hræðsla við endurnýjun manna við stjórnvölinn, hvoru tveggja í verkalýðsfélögum sem og í stjórnmálaflokkunum, hamli að hluta til þróun lýðræðisvitundar landsmanna.
Völd og fjármunalegir hagsmunir sem og samsöfnun tengdra aðila í kring um þá sem stjórna hverju sinni sem stuðla kunna að óbreyttu mannvali í stjórnum og forystu, er vandamál þar sem hvorki verkalýðsfélög ellegar stjórnmálaflokkar ná því að eygja skóginn fyrir trjánum, hvað varðar þróun lýðræðis á heilbrigðum forsendum í raun.
Í mínum huga ætti það að vera lágmarkskrafa að til dæmis stjórnmálaflokkar sem fulltrúa eiga á Alþingi Íslendinga, og þiggja fjárframlög af almannafé, ástundi í allri sinni starfssemi lágmarksskilyrði stjórnsýslulaga um vanhæfi manna að ákvarðanatöku um eigin hagsmuni. Flokkar sem stilla upp á lista til kosninga hljóta að gera kröfur til kjördæmisráða varðandi það atriði að vanhæfisskilyrði séu uppfyllt eins og aðrir þeir sem sinna stjórnsýslu undirgangast lögum samkvæmt.
Jafnframt þarf í hvívetna að vera hægt að sýna og sanna að fundir og starfssemi flokka hér að lútandi fari fram samkvæmt eðlilegum fundarsköpum þar sem fundargerðir og atkvæðagreiðslur eru almenningi sýnilegar ef þess er óskað.
Jón Jónsson sem er formaður einhvers kjördæmisfélags í einhverjum flokki getur ekki beðið konuna sína , systur hennar og ömmu að endurkjósa sig til áhrifa og valda, nema að verða uppvís að vanhæfi.
Sama máli gildir varðandi skipan á framboðslista til kosninga til þings en nákvæmlega sömu vanhæfisskilyrði skyldu einnig gilda um kjör innan verkalýðsfélaga.
Því miður dettur manni í hug einhvers konar RabbaBaraaðferðafræði hér á landi sem er séríslensk þar sem hver hefur það eins og hann kemst upp með, því miður.
Ákveðin einræðisherrahugsun af hálfu þeirra sem halda um völdin jaðrar við gamla lénsherraskipulagið og baráttan gegn þeim sem ógna kann slíku hefur hinar ótrúlegustu birtingamyndir Gróu á Leiti á leið í fótabaðið með Bakkabræðrum.
Opið bókhald stjórnmálaflokka er ekki nóg ef stjórnkerfi og starfssemi fer ekki eftir lýðræðislegum leikreglum í anda góðrar stjórnsýslu sem kjörnir fulltrúar flokkanna á þingi hafa svarið eið að.
Sama máli gildir um verkalýðsfélög og starfssemi innan þeirra vébanda, sem innheimta lögboðin gjöld af launamönnum í landinu.
Hvoru tveggja stjórnmálaflokkar og verkalýðsfélög GETA virkjað lýðræði innan sinna vébanda, með aðferðum til þess arna, svo sem fundum á fundum ofan þar sem fólk er boðið velkomið til þáttöku og fagnað hverju framboði í stjórnunarstöður, hver svo sem velst til þess hins arna.
Meirihlutinn ræður þar er lýðræðið, flókið er það ekki.
Guðrún María Óskarsdóttir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég get kvittað undir hvert einasta orð hjá þér.Og hvet alla sem lesa þessa færslu til að lesa hana tvisvar og íhuga hana.Að brjóta á lýðræðinu er hægt að gera á svo margan hátt. MITT ER MITT OG ÞITT ER MITT.
En það verður svo á endanum að menn uppskera eins og sáð er og ekki er endalaust hægt að kenna öðrum um. Félög og flokkar sem þiggja pening af almannafé eiga að virða lýðræði.
Rannveig H, 13.3.2009 kl. 01:08
Enginn flokkur er sterkari en formaður flokksins og enginn flokkur hefur meira siðferði né lýðræðisvitund en formaður hans.
Sigurgeir Jónsson, 13.3.2009 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.