Heilbrigðiskerfið meira.

Hér er grein, einnig frá árinu 2000,

 

 

Heilbrigðiskerfið og sjúklingurinn

Guðrún María Óskarsdóttir
Guðrún María Óskarsdóttir
Hér skortir enn nokkuð á, segir Guðrún María Óskarsdóttir, að ferli til dæmis áminninga til handa heilbrigðisstarfsmönnum sé virkt í raun og að minnsta kvörtun fái hljómgrunn og áheyrn.

 

SEINNI ár hafa verið stigin skref í átt til aukins hagræðis í heilbrigðiskerfinu og þar með betri þjónustu við sjúklinga, má þar nefna sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík og aukna notkun upplýsingatækni til þess að bæta boðskipti innan heilbrigðiskerfisins í heild á landsvísu. Átök og fræðslustarfsemi af hálfu landlæknisembættisins ber að þakka. Aukið hagræði í þessum fjárfreka útgjaldaflokki ætti hins vegar að geta þýtt aukið svigrúm til þess að hlúa betur að þeim er eiga við sjúkdóma og örorku að stríða þannig að álögur í formi skatta leggist ekki á þennan hóp þegnanna og við getum talið okkur af heilindum meðal velferðarríkja er sinna sjúkum og öldruðum sem skyldi.

 

Innra skipulag

Tilraunir stjórnvalda til þess að fá lækna til þess að starfa í heilsdagsvinnu á sjúkrahúsunum í stað hlutavinnu virðast þó ekki enn hafa gengið eftir, að öllum líkindum vegna launamismunar þeirra hinna sömu varðandi þau atriði, og því bíða margir sjúklingar enn bæklunaraðgerða sem bráðnauðsynlegar eru.

Sumarfrí heilbrigðisstarfsmanna eru enn stórkostlegt vandamál og lokanir deilda af þeim sökum ekki viðunandi, því slíkar aðgerðir safna aðeins upp vandamálum til að leysa úr að loknum sumarfríum. Það á að heyra sögunni til að fá af því fréttir á hverju sumri að fólk sé sent heim af sjúkrahúsum og umönnunardeildum, vegna sumarlokana, sem engan veginn er í stakk búið til þess að sjá um sig sjálft eða hefur engan upp á að hlaupa. Ef ekki er hægt að bjóða hluta starfsfólks vetrarfrí þarf að bjóða fólki kaupauka til vinnu að sumri til að leysa vandann, hvort sem um er að ræða sjúkraliða, lækna eða hjúkrunarfræðinga.

 

Eftirlit og aðhald sjúklinga

Aðhald sjúklinga, sem neytenda þjónustu, hefur aukist í eðlilegu samræmi við upplýsingar um sín réttindi. Eftirlit hins opinbera á sjálfu sér er hins vegar enn til staðar og þar er á ferð erfitt hlutverk, þeirra er á halda. Hér skortir enn nokkuð á að ferli til dæmis áminninga til handa heilbrigðisstarfsmönnum sé virkt i raun og að minnsta kvörtun fái hljómgrunn og áheyrn. Það er ekki nægilegt að birta skýrslur um afmörkuð rannsóknarefni ef hið daglega starf inniheldur ekki ákveðið ferli, til þess að takast á við einhverja þá vankanta þjónustunnar sem sjúklingur kann að hafa fram að færa hverju sinni. Einnig tel ég að nýta beri mun betur þann mikla og góða hóp er hefur áfallahjálp að atvinnu innan heilbrigðiskerfisins ef mannleg mistök eiga sér stað í meðferð sjúklinga. Samtökin Lífsvog, sem stofnuð voru til handa þeim er töldu sig hafa orðið fyrir læknamistökum, vildu svo sannarlega hafa á sínum vegum sálfræðing og félagsráðgjafa handa því fólki er þangað leitar, en enn þann dag í dag er starf þetta unnið í sjálfboðavinnu þeirra sem því sinna. Þörf fyrir aðstoð sem þessa er enn nauðsyn, þótt sjúklingatrygging hafi nú litið dagsins ljós, sem er vissulega stórt skref til bóta varðandi mál þessi, sem og betrumbætt skaðabótalög. Hvert skref til bóta ber að þakka, en enn er nokkuð langt í land hvað varðar leiðréttingu þeirra er hér hafa borið skarðan hlut frá borði og þeir hinir sömu standa nú margir í málarekstri fyrir dómstólum, til þess að reyna að rétta hlut sinn. Slíkum þrautagöngum mun vonandi fækka í framtíðinni, en upplýsing og aðhald að heilbrigðiskerfinu er nauðsynlegt og eðlilegt.

Höfundur er stjórnarmaður í Samtökunum Lífsvog."

kv.Guðrún María.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband