Gömul grein frá ágúst 1998.
Föstudagur, 13. febrúar 2009
Frumkvæði og djörfung í stað stöðnunar
Frá Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:
Stofnun Auðlindasjóðs landsmanna
SJÓÐUR þessi yrði ekki sjóður peninga í eiginlegum skilningi, heldur sjóður atvinnutækifæra landsmanna í formi hins margnefnda "kvóta" í aðalatvinnugreinum þjóðarinnar, landbúnaði og sjávarútvegi, atvinnugreinum er hvor um sig byggist á lífríki jarðar. Eðli málsins samkvæmt er afkoma mannsins því háð skilyrðum þeim er maðurinn hefur skapað, til nýtingar þeirra auðlinda er sá hinn sami hefur yfir að ráða.
Ákveðið hlutfall af veiddum afla úr sjó, t.d. 10% á ári, myndu nytjaaðilar í sjávarútvegi þurfa að greiða til baka í sjóð þennan, í formi aflaheimilda, sem og ákveðið hlutfall af framleiðslu lögbýla, t.d. 10% á ári myndu greiðast til baka í sjóðinn í formi greiðslumarks. Markmið sjóðsins yrði fyrst og fremst að stýra nýtingu auðlinda, með tilliti til umhverfis og landfræðilegra sjónarmiða, með áherslu á fulla þátttöku af Íslands hálfu hvað varðar alþjóðlegar samþykktir og skuldbindingar um verndun umhverfisins. Jafnframt yrði þetta leið út úr þeim ógöngum er núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarstefna hefur leitt okkur í. Úthlutun úr sjóði þessum byggðist síðan á úthlutun aflaheimilda og geiðslumarks, til handa þeim er hygðust snúa sér að lífrænni ræktun landbúnaðarafurða og sjálfbærri nýtingu sjávarafurða í sátt við umhverfið.
Ísland taki frumkvæði þjóða í varðveislu auðlinda
Ísland hefur nú þegar sérstöðu, hvað varðar legu landsins, fiskimiðin og náttúruauðlindir í formi ómengaðra orkugjafa. Þessa sérstöðu eigum við ekki að nota til þess að fá undanþágu til þess að menga meira, eins og virtist uppi á teningnum í Kyoto, heldur eiga frumkvæði að því að hefja á loft umhverfissjónarmið er geta skapað öllu mannkyni betri skilyrði tilvistar á þessari jörð. Hver heilvita maður gerir sér grein fyrir því, að endalaust verður ekki hægt að ganga á auðlindir jarðar án þess að lífríkið umbreytist til hins verra fyrir okkur íbúana. Spyrja má, hve mikið af vorum daglegu þægindum eru lífsnauðsynleg og hve mikill hluti íbúa jarðar hefur enn ekki hugmynd um þessi sömu þægindi. Meðan hluti Íslendinga hefur efni á því að kaupa rándýr lyf, við kvillum öllum, vantar hluta mannskyns lyf við hálsbólgu, sem kann að vera dauðaorsök þeirra hinna sömu þar í landi. Ódýrari og betri lyf eru því forenda þróunar í rétta átt. Þar kann Ísland einnig að taka frumkvæði í framtíðinni. Hræðsla okkar Íslendinga við að skera okkur úr á einhvern hátt, endurvarpar oftar en ekki minnimáttarkennd sem er óþörf hjá þjóð þar sem hver maður kann að lesa og skrifa og hefur þar með möguleika til frekari menntunar. Aukin menntun á hins vegar að skila okkur fleiri hæfileikaríkum einstaklingum, til þess að leysa krefjandi verkefni, í stað þess að skapa þau.
Forsenda þróunar er skynsamleg nýting auðlinda allra
Því miður virðist sem hin almenna mannlega skynsemi fái ekki notið sín sem skyldi lengur, vegna hinna gegndarlausu gróðasjónarmiða, er telja aðeins í stigum hlutabréfa á verðbréfamörkuðum, einnig hér á Íslandi. Lýðræði á góðri leið með að verða mjög afstætt hugtak. Einn gámur af íslenskri fegurð á síðum Playboy, hvað mörg störf í gámum til útlanda? Samkvæmt upplýsingum Fiskifélagsins, hafa tapast 2.000 störf á árunum 1989 1995. Það er hverjum manni ljóst að misviturlegar ráðstafanir hafa fært nokkrum mönnum ókeypis aðgang að fiskimiðum landsmanna, með framsali veiðiheimilda í formi kvóta, og samþykkt virðist vera af "framstæðum sjálfssóknarmönnum" en eins og það brask varð til mun það ganga til baka með söfnun veiðiheimilda í Auðlindasjóð landsmanna, er myndi útdeilast jafnt á meðal þegnanna til atvinnu- og verðmætasköpunar. Samtímis munu Íslendingar gefa þjóðum heims fordæmi um sjálfbæra vitræna þróun í stað stöðnunar, með heildaryfirsýn í skipulagi hagsmunamála er varða ekki aðeins Íslendinga heldur allt mannkyn er byggir þessa jörð.
GUÐRÚN MARÍA ÓSKARSDÓTTIR,
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.