Af eldgosum náttúrunnar.....

Fyrsta upplifun mín af eldgosi var Surtseyjargosið i Vestmannaeyjum þar sem ofboðslegir strókar stigu upp af hafi og fylltu himininn í Suðvestri séð heiman frá undan Fjöllunum.

Óhjákvæmilega var þetta ógnvænleg birtingamynd þess sem náttúruhamfarir gætu orsakað í umhverfinu og festist sem mynd í barnssálina.

Þegar lestrarkunnáttan var komin til sögu át ég allt upp úr bókum sem finna mátti um eldgos og áttaði mig á því að allt í kring voru eldfjöll Katla , Hekla og Eyjafjallajökull einnig, en Surtur og síðar Vestmannaeyjar sjálfar bættust í hópinn. Sennilega hefi ég nú lesið full mikið á þeim tíma því lengi ,lengi dreymdi mig lítið annað en eldgos og aftur eldgos, og yfirleitt þá í Eyjafjallajöklinum.

Um 1970 gaus Hekla og sama dag þurfti pabbi endilega að vera að fara eitthvað og ég man að mér fannst það ekki þægilegt að hann yrði að heiman akkúrat þann dag.

1973, var ég hins vegar fermingarárið mitt í skóla, ein stelpa í minni sveit með fjórum strákum í bekk. Einn janúardaginn gerðist það að skólabíllinn kom ekki að sækja börnin og skömmu síðar komu fréttir af því að eldur væri uppi á Heimey, þar sem amma og afi áttu búsetu.

Í morgunmyrkrinu sást eldrák út í Eyjum, en síðar sama dag titraði túnið fyrir framan bæinn þannig að sauðfé og hestar ráfuðu um og var ekki rótt frekar en mannfólkinu.

Útvarpið sagði fréttir af því að skipalest hefði verið mynduð frá Eyjum til Þorlákshafnar og við fengum fréttir því að amma var kominn til Reykjavíkur eftir bátsferð til Þorlákshafnar og afi hafði farið í flugi með öðrum af elliheimilinu í Eyjum.

Þessi skipalest varð til því allir Eyjabátar voru í höfn vegna þess að daginn áður var kolvitlaust veður hreinlega.

Það fjölgaði hjá okkur þvi amma kom aftur heim á æskuslóðir sínar undir Fjöllunum, og ég fékk tvær fermingarsystur með mér úr Eyjum sem dvöldu í sveitinni í skóla.

Pabbi fór út í Eyjar þegar leyfi var gefið að sækja eigur ömmu áður en húsið fór undir hraun.

Mömmu dreymdi það að höfn Vestmannaeyinga yrði þyrmt og svo varð.

Síðar árið 1980 eða 81 var ég stödd við kartöfluupptöku niður í Þykkvabæ og sé ég þá ekki Heklu byrja að gjósa þaðan, það var einstök sýn.

Hin óttablandna virðing fyrir náttúruöflunum er óhjákvæmilega til staðar hjá manni.

kv.gmaria.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Við höfum samt sloppið ótrúlega vel hér....gaman að þessari færslu hjá þér

Hólmdís Hjartardóttir, 2.7.2008 kl. 02:22

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Já það er alveg rétt Hólmdís.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 2.7.2008 kl. 02:24

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þessi góða samantekt sýnir okkur hvað við megum okkar lítils gagnvart náttúruöflunum, því ættum við að fara varlega í umgengni okkar við hana (náttúruna).

Jóhann Elíasson, 2.7.2008 kl. 03:44

4 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Sæl frænka.Gaman að þessari grein þinni,þetta er tíminn sem maður gleymir ekki.Fór amma þín ekki aftur til eyja?

Guðjón H Finnbogason, 2.7.2008 kl. 15:23

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Takk fyrir innlitið.

Jú Guðjón, amma fór aftur til Eyja en þá orðin mjög lasburða á Öldrunardeild á sjúkrahúsinu í Eyjum.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 3.7.2008 kl. 01:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband