Kvótakerfið er mannréttindabrot á allri þjóðinni.
Miðvikudagur, 11. júní 2008
Mér hefur löngum verið það óskiljanlegt hvernig sitjandi ráðamenn ætla svo mikið sem að reyna að ráttlæta það atriði að færa í lög framsal aflaheimilda sem varð þess valdandi að heilu byggðirnar urðu atvinnulausar, opinber uppbygging þjónustu allrar á stöðunum fyrir skattfé að engu og handhafar veiðiheimildanna skattlausir í áraraðir með yfirfærslu taps í formi bókhaldsskila.
Hvað svo ?
Jú auðvitað þurfti að byggja upp þjónustu annars staðar í sama landi fyrir sama landsmann sem flúði byggðarlagið atvinnulaus og ef til vill nær eignalaus, með enduruppbyggingu þjónustu sem þýðir í raun tvígreiðslur skatta sömu kynslóðar vegna hins misviturlega skipulags kerfis sjávarútvegs af hálfu ráðamanna.
Ofhlaðnir skólar og biðlistar, samgöngur í algjörum þveng á höfuðborgarsvæðinu í áraraðir, meðan opinber mannvirki uppbyggð fyrir almannafé standa auð og tóm á landsbyggðinni sem minnismerki stórundarlegrar stefnu og framkvæmd hennar.
Patentlausnapoki sýndarmennskusjónarspilsins þess efnis að færa eitt og eitt starf út á land eða ef við vill peninga hingað og þangað tímabundið án þess þó að taka á rót vandans kvótakerfinu sjálfu og kerfisskipulaginu og aðgang manna að atvinnu í því hinu sama, er algjör.
Gömlu stórnmálamennirnir knékrjúpa fyrir því peningamagni sem þeir hinir sömu áttu þátt í að koma í umferð með heimskulegu brasktilsandi með óveiddan fisk á þurru landi og þeir vita ekki hvernig þeir eiga að feta sig út úr.
Kvótakerfi sjávarútvegs er því mannréttindabrot á öllum Íslendingum sem inna af hendi skatta í þessu landi.
kv.gmaria.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.