Og þetta sagði maður fyrir tæpum tíu árum....

Það er gaman að grúska í greinasafninu af og til og sjá hvað var rætt og ritað um fyrir áratug eða svo. 
Þriðjudaginn 22. desember, 1998 - Bréf til blaðsins

Taka þarf upp tvö kerfi í sjávarútvegi og landbúnaði

Frá Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

ALLNOKKUÐ hefur verið rætt og ritað um nýgenginn dóm Hæstaréttar, þar sem synjun sjávarútvegsráðuneytisins á veiðileyfi til handa einum af þegnum landsins var dæmd ógild. Jafnt lærðir sem leikir hafa túlkað niðurstöður í dómi þessum á allra handanna máta, þröngt og vítt, afmarkað og óafmarkað.

Taka þarf upp tvö kerfi í sjávarútvegi og landbúnaði

Frá Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur:

ALLNOKKUÐ hefur verið rætt og ritað um nýgenginn dóm Hæstaréttar, þar sem synjun sjávarútvegsráðuneytisins á veiðileyfi til handa einum af þegnum landsins var dæmd ógild. Jafnt lærðir sem leikir hafa túlkað niðurstöður í dómi þessum á allra handanna máta, þröngt og vítt, afmarkað og óafmarkað. Fróðlegt er eins og áður að fylgjast með umræðu um málin öll, því það eitt gerir mann sjálfan ögn víðsýnni á viðfangsefnið. Skilaboð í dómi þessum verða eigi vefengd, hvað varðar það atriði að virða beri stjórnarskrá lýðveldisins, og eigi skuli uppi höfð mismunun meðal þegna landsins, í einu eða öðru. Athyglisvert verður að telja að eftir niðurstöðu Hæstaréttar í máli þessu virtist sem stjórnarskráin væri allt í einu uppi á borði í ræðum þingmanna á Alþingi, til dæmis varðandi gagnagrunnsfrumvarpið, þingmenn höfðu þó flestir samþykkt lögin um fiskveiðistjórnunina er Hæstiréttur var einmitt að dæma sem brot á stjórnarskránni.

Merkilegt má telja að ekki skuli fyrir löngu vera búið að skilja í sundur verksmiðjuskip og trillur í tvö aðskilin kerfi í sjávarútvegi. Ég tel að tvö kerfi þurfi að taka upp hið fyrsta, einkum og sér í lagi vegna þess að sömu forsendur geta ekki gilt hvað varðar úthafsveiðiskip er vinna afla á sjó úti, og þau skip er leggja afla upp til vinnslu í landi. Skip og bátar sem leggja afla upp til vinnslu í landi skapa eðlilega atvinnu í sjávarþorpum allt í kringum Ísland. Úthafsveiðiskip skapa aðeins takmarkaða atvinnu en leggja eigi að síður sinn skerf í þjóðarbúið, svo fremur hagkvæmur rekstur sé fyrir hendi er skilar inn þjóðartekjum í formi skatta. Úthafsveiðiskip eiga að geta verslað með kvóta sín á milli í kerfi númer eitt en í kerfi tvö, þ.e. skip og bátar er leggja upp afla í landi, skal einnig leyft að versla með kvóta sín á milli í kerfi númer tvö. Taka þarf í notkun gæðastaðla í auknum mæli í mati á fiskmörkuðum, gæðastaðla er hækka verð afurða og stuðla að verðmætri nýtingu afurða. Stórar og smáar einingar eiga nefnilega að geta þrifist hlið við hlið í sjávarútvegi svo fremi að til þess séu sköpuð skilyrði. Nákvæmlega hið sama þarf að koma til í landbúnaði en þar hefur hingað til verið lögð áhersla á að stækka og stækka bú, með uppkaupum á greiðslumarki og endursölu til stækkunar búa, og þar með flótta bænda úr sveitum landsins. Varla nokkur skapaður hlutur hefur átt sér stað til þess að hvetja bændur til þess að snúa sér að til dæmis lífrænum búskap, en sá búskapur þýðir það að bóndinn verður að leggja á sig aðlögunartíma til þess að losa jörðina við tilbúinn áburð, byggja upp bústofn sem er alinn á fóðri sem lífkeðjan gefur af sér, en slíkt tekur tíma. Ég tel að íslenskir neytendur séu tilbúnir til þess að kaupa til dæmis lífrænt ræktað kjöt, en hinu vistvæna, sem er framleiðsla venjulegra stórbúa, því getum við gleymt sem vöru á alþjóðlegum markaði. Hér vantar því einnig tvenns konar kerfi, stórbú og smærri bú, er þýðir aftur nýtingu jarða í sveitum landsins og atvinnusköpun, en stórbú og smærri bú eiga einnig að fá skilyrði til þess að þrífast hlið við hlið.

Auðlindastefna almennt

Sú er þetta ritar hefur áður lagt það til, að stofnaður verði auðlindasjóður landsmanna, er hafi það að markmiði að leggja ákveðið gjald í formi nýtingarheimilda viðkomandi auðlinda á þá er nýta þær hinar sömu auðlindir og gæði landsins alls. Ákveðið prósentuhlutfall af úthlutuðum aflaheimildum á ári hverju, ellegar veiddum afla, sem og greiðslumarki í landbúnaði, ellegar framleiðslu og ef til vill einnig orkunýtingu fallvatna, ellegar raforkusölu, myndi safnast í sjóð þennan er aftur myndi útbýta þeim hinum sömu heimildum til baka undir formerkjum þess að hófleg nýting (sjálfbær) til lands og sjávar yrði um aldur allan aðalsmerki okkar Íslendinga, en við höfum enn sem komið er alla burði til þess að taka forystu annarra þjóða hvað varðar þessi atriði. Von mín er sú að því fyrr sem menn ná að eygja möguleika okkar Íslendinga í umhverfismálum almennt, því betra Ísland fyrir afkomendur okkar í allri framtíð.

GUÐRÚN MARÍA ÓSKARSDÓTTIR,


kv.gmaria.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband