Ég um mig frá mér til mín, nokkur orð af því bloggvinkona mín hún Jónína Sólborg sendi mér klukk.
Sunnudagur, 14. október 2007
Í fyrsta lagi er ég Krabbi og haldin ótrúlegri söfnunaráráttu, alls konar sem þó hefur nokkuð tekist að vinna á með árunum meðvitað. Í öðru lagi er ég stjórnmálafíkill, ólst upp við endalaus skoðanaskipti um pólítik, landsmálapólítík og hreppapólítik í sveitinni milli sanda og sem dæmi svindlaði ég á lestri undir landspróf til þess að glápa á stjórnmálaumræður í sjónvarpi sem mér þóttu skemmtilegri. Í þriðja lagi er ég tilfinningavera sem tek flest allt nærri mér sem miður fer í kringum mig en sökum meðvitundar um slikt, og reynslu í kjölfar áfalla ýmis konar, gegnum árin má segja að maður hafi sjóast að hinum gullna meðalvegi að hluta til. Í fjórða lagi hefi ég áttað mig á því að ekkert þýðir að kvarta yfir sínu samfélagi og skipulagi þess ef maður gerir ekkert sjálfur til að reyna breyta því hinu sama. Í fimmta lagi finnst mér gaman að glíma við að ríma ljóð en finnst andinn hins vegar ekki of duglegur að heimsækja mig svo virkilega vel ort ljóð verði til. Í sjötta lagi lít ég á karlmenn sem jafningja mína hvarvetna, sennilega af því ég spilaði fótbolta nær einungis með strákum í uppvexti. Í sjöunda lagi las ég svo mikið innan við þrítugt að ég hefi varla lesið bækur sem heitið geti eftir það. Í áttunda lagi þá elska ég húmor og lifi fyrir einn grínþátt á viku í sjónvarpi sannarlega, þvi hláturinn lengir lifið. 'I níunda lagi þá trúi ég á Guð og bið bænir dag hvern fyrir mér og mínum, sem aftur eykur von og bjartsýni. 'I tíunda og síðasta lagi, er ég bloggari sem bloggar um stjórnmál sí og æ.
kv.gmaria.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.