Í heilbrigðiskerfinu að hinu og þessu má huga,

Samhæfa stéttir svo búi yfir ráðum sem duga. ...... Núverandi heilbrigðiskerfi hefur ekki lotið mikilli forsjá stjórnmálamanna gegnum tíðina þar sem fáir læknar hafa átt setu á Alþingi undanfarna áratugi og sennilega aðeins einn hjúkrunarfræðingur sem ég man eftir. Heilbrigðiskerfið hefur því mjög tekið mið af tillögum sem koma til þings frá aðilum innan kerfisins sem hefur að hluta til gert það að verkum að kerfið hefur lítið þróast til breytinga á sumum sviðum þótt breytinga og samræmingar og samhæfingar sé vissulega þörf enn þann dag í dag víða. Þegar ég segi samhæfing þá á ég við samhæfingu grunn og sérfræðiþjónustu, heimilislækna og sérfræðinga, innan og utan sjúkrahúsa með samtengdum gagnagrunni upplýsinga um sjúkling í leitan í hvers konar þjónustu sem hið opinbera veitir. Grunnþjónusta heimilislækna er ódýrasta tegund þjónustu og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin beindi því til þjóða heims ekki hvað síst Vesturlanda að þau hin sömu myndu leggja áherslu á að nýta fjármuni sem best til þess að slík þjónusta væri númer eitt svo aðstoða mætti aðrar þjóðir heims með afgangsfjármunum í uppbyggingu grunnþjónustu annars staðar í veröldinni. Fáir eiga kost á því eins og við Íslendingar að ganga beint til sérfræðinga með kostnaðarþáttöku ríkisins í því efni því flestir beina sjúklingum við fyrstu leitan í grunnþjónustu. Ef sérfræðiþjónusta sem slík er ekki beintengd gunnþjónustu heimilislækna með upplýsingagagnagrunni þá er það svo að hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gjörir og ef til vill verið að endurtaka rannsóknir hér og þar sem áður hafa farið fram á sama sjúklingi svo ekki sé minnst á lyfjaávísanir allra handa í því sambandi sem nauðsynlegt er að læknar tali sig saman um hvort sem eru sérfræðingar eða heimilislæknar.

Samhæfing er lykilorðið, sem aftur kann að auka skilvirkni og nýta skattfé sem best.

kv.gmaria.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Guðrún María, margt rétt og satt sem þú segir. Ég vinn á LSH Hringbraut. Þar er það stórmál og kostnaðarsamt að samhæfa ýmis tölvukerfi sem geyma mismunandi upplýsingar um sjúklinginn. Að samhæfa upplýsingar úr gagnasafni lækna á stofu við LSH virðist því í því ljósi fjarlægur draumur. Oftast leysum við það þannig að við vitum á hvaða stofu viðkomandi sérfræðingur vinnur og hringjum þangað til að kynna okkur hvað gögn eru til þar. Oft hringjum við beint í viðkomandi sérfæðing og hann man sjúklinginn. Þetta er hægt í þessu fámenni sem Ísland er. Þetta fámenni og nálægð er hluti af því að Íslendingar njóta einnar bestu þjónustu í heimi sem völ er á. Ef þú efast um orð mín skaltu kynna þér málin í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Þar bíður fólk með krabbamein í líkamanum mánuðum saman á biðlista en hér er löngu búið að fjarlægja það.

Gunnar Skúli Ármannsson, 3.6.2007 kl. 00:02

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Gunnar.

Raunin er sú að ég held að tölvuvæðing í formi gagna kom allt of seint til sögu í heilbrigðisgeiranum, hefði getað verið komið mun fyrr. Ég efast ekki um að allir eru að gera sitt besta Gunnar.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 3.6.2007 kl. 00:16

3 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Etv rétt hjá þér, etv rangt. Samhæfingargeta ólíkra tölvukerfa er takmörkuð. Að allt skuli fljóta létt á milli er draumsýn, óskhyggja sem tölvukerfi nútímans eru ekki í stakk til að leysa, sorry. Amk í raunveruleikanum.

Gunnar Skúli Ármannsson, 3.6.2007 kl. 02:56

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Svo kann að vera Gunnar, hins vegar veit ég það fullkomlega að upplýsingastreymi annars vegar millum sérfræðinga og heimilislækna er ekki og hefur ekki verið sem vera skyldi, sem er afar slæmt og kann að orsaka ýmislegt m.a. endurteknar rannsóknir af ýmsum toga.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 3.6.2007 kl. 03:18

5 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl, þú ert að meina það, ég hef misskilið þig örlítið. Upplýsingar frá sérfræðingi til heimilislækni er einfaldur hlutur. Sérfræðingar EIGA að senda heimilislæknum sínar niðurstöður. Allt annað er agaleysi og lýsir þá best þeim sem í hlut á. Því er ég þér 100% sammála í þessu efni. Hvort menn nota kálfskinn, pappír eða tölvur til að sinna þessari vinnuskyldu sinni eða ekki skiptir ekki máli. Hér er um agavandamál að ræða því reglan er til. Hvernig við leysum það er ekki gott að segja, rassskellum þá.

Gunnar Skúli Ármannsson, 3.6.2007 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband